Þjóðsögur um bankahrunið (1)

Liðin eru fimm ár frá bankahruni. Ég hef síðustu vikur verið að grúska í þeim ritverkum, sem komið hafa út um það, og eru þau misjöfn að gæðum. Ég tek hins vegar eftir því, að kviknað hafa ýmsar þjóðsögur um bankahrunið, sem ganga síðan aftur í hverri bókinni af annarri. Mér til nokkurrar undrunar rakst á ég á eina slíka í greinasafni, sem ég hélt fyrir, að væri fræðilegasta ritið um hrunið, sem enn væri völ á. Það heitir Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Gaf Palgrave Macmillan það út 2011, og voru ritstjórar Robert Aliber, sem sagði einmitt margt skynsamlegt um aðstæður á Íslandi, og Gylfi Zoëga. Flestar greinarnar voru skrifaðar fyrir bankahrun. Ein var þó samin eftir það og er eftir Þröst Sigurjónsson, og er hún eins konar yfirlit um atburðarásina. Þar segir Þröstur (33. bls.): „Íslenski seðlabankinn lét frá sér fara ummæli, sem skilin voru á þann veg, að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum innstæðueigendum. Viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar voru að leggja hald á breskar eignir allra íslensku bankanna í krafti laga gegn hryðjuverkasamtökum.“

Þröstur vísar hér bersýnilega til viðtals í Kastljósi Sjónvarpsins að kvöldi 7. október 2008 við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabankans, þar sem hann kvað skattgreiðendur ekki eiga að greiða skuldir óreiðumanna. En beiting hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum morguninn eftir stóð ekki í neinu sambandi við ummæli Davíðs, enda nefndi enginn breskur ráðamaður þau heldur. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, vitnaði opinberlega í samtal sitt við Árna Mathiesen fjármálaráðherra, sem hafði farið fram að morgni 7. október, og staðfesti Darling fyrir þingnefnd, að hann hefði átt við samtal sitt við Árna. Er þetta rakið nákvæmlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, 20. kafla, 149. bls., sem kom út ári áður en Þröstur Sigurjónsson birti grein sína. Afskrift af samtali þeirra Árna og Darlings leiðir að vísu í ljós, að Darling vitnaði rangt í það. Líklegast er því, eins og Árni hefur varpað fram, að Bretar hafi ákveðið með einhverjum lengri fyrirvara að beita Íslendinga hörku. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er bent á (s. r., 248. bls.), að Darling hefði orðið fyrir vonbrigðum með fund sinn 2. september 2008 með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Er sennilega þar að leita einnar ástæðunnar til tortryggni breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.

Þjóðsögur eiga hins vegar heima í þjóðsagnasöfnum, ekki í vönduðum fræðiritum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband