Huldumaðurinn fundinn

Í för til Galápagos-eyja síðast liðinn júní varð ég þess áskynja, að Íslendingur hefði búið þar frá 1931 og borið beinin vorið 1945. Kallaði hann sig Walter Finsen, og hitti íslenskur sjómaður á norsku skipi hann vorið 1944. Vildi hann þá ekki segja full deili á sér. Einnig birtist löng grein um hann í Morgunblaðinu 1967 eftir þýska blaðakonu, sem þekkti vel til á Íslandi, var þá nýkomin frá Galápagos-eyjum og hafði hitt gamla granna Íslendingsins. Kom fram í þessum heimildum, að hann hefði stundað ýmis störf víða í Vesturheimi, meðal annars í Mexíkó og Venesúela. Í nokkrum gögnum á ensku er einnig á hann minnst. Velti ég fyrir mér hér fyrir skömmu, hver maðurinn væri. Hálfdan Helgason, tæknifræðingur og ættfræðingur, varpar fram í Morgunblaðinu 3. ágúst langlíklegustu ráðningu gátunnar.

Maður var nefndur Valdimar Friðfinnsson, bóndasonur frá Hvammi í Hjaltadal, fæddur 9. desember 1876. Hann flosnaði 1896 upp úr Lærða skólanum í Reykjavík og virðist þá hafa reynt að flytjast til Vesturheims, en var snúið við í Leith í Skotlandi. Í manntali 1901 er hann skráður háseti á skonnortu Ørum & Wulff-verslunarfélagsins, sem var umsvifamikið á Norðausturlandi. Síðan eru til um hann fjórar heimildir, sem Hálfdan bendir á, smáfréttir úr blöðum Vestur-Íslendinga. Fór hann ásamt Jóhannesi Jóhannessyni og norskum manni í leiðangur til Bólivíu 1912, og leituðu þeir félagar að gulli, olíu og verðmætum steinum. Þeim tókst bersýnilega ekki ætlunarverk sitt, og er Jóhannes kominn til Kaliforníu og Valdimar til Tampico í Mexíkó sumarið 1914. (Jóhannesi bregður fyrir í bók minni um Jón Þorláksson forsætisráðherra, en þeir voru bekkjarbræður í Lærða skólanum.)

Ég tel einsætt, að Valdimar sé Íslendingurinn á Galápagos-eyjum. Ástæðan er ekki aðeins, að allt kemur heim og saman um feril hans, eins og hann sagði Íslendingnum frá 1944 og grannar hans einnig þýsku blaðakonunni 1967. Hún er líka, að Valdimar er á ljósmynd af nemendum Lærða skólans frá vorinu 1896, og til eru ljósmyndir af Íslendingnum Finsen á Galapagos-eyjum, og er sterkur svipur með þeim. Walter Finsen var því mjög líklega Valdimar Friðfinnsson. Hann á þá ættingja á Íslandi, en hann var föðurbróðir Magnúsar Gamalíelssonar útgerðarmanns og ömmubróðir Herdísar Egilsdóttur, kennara og rithöfundar. Rek ég örlög hans nánar í síðasta hefti Þjóðmála. Raunar gerðist svo margt sögulegt á árum Valdimars á Galápagos-eyjum, að franski rithöfundurinn Georges Simenon notar það sem uppistöðu í einni skáldsögu sinni, sem sjónvarpsmynd hefur verið gerð eftir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband