Fjölskyldurnar fjórtán

Hér hefur áður verið vikið að einu vígorði Jóns Baldvins Hannibalssonar, fjölskyldunum fjórtán, sem hann fullyrti í fundaherferð 1990, að ættu Ísland. Hann fékkst að vísu aldrei til að skýra nánar, hverjar þessar fjölskyldur væru. En ég tek eftir því, að þetta vígorð hefur ratað inn í bækur um Ísland, til dæmis fjörlega skrifað, en heldur óáreiðanlegt, rit eftir breska blaðamanninn Roger Boyes um bankahrunið, Meltdown Iceland. 

Ég lagðist þess vegna í grúsk um uppruna orðasambandsins. Í ljós kom, að Jón Baldvin smíðaði það ekki, heldur kom það fyrst fyrir hér á landi, svo að ég viti, í fréttagreinum um ástandið í El Salvador, til dæmis í Þjóðviljanum 1977 og 1980. Á spænsku er iðulega talað um „las catorce familias“, auðugar landeigendaættir, sem löngum hafi stjórnað þessu litla landi í Mið-Ameríku. Talan er aðallega táknræn, því að El Salvador skiptist í fjórtán umdæmi eða héruð. Á íslensku smellur þetta miklu betur vegna stuðlunar.

Mælt er, að Úlfar Þormóðsson, blaðamaður og rithöfundur, hafi fyrstur notað orðasambandið upp úr 1970 um nokkrar auðugustu fjölskyldur Íslands, og er það líklegt, enda er Úlfar áhugamaður um samsæriskenningar og lagði á sig að skrifa bók í tveimur bindum um frímúrararegluna. Ég hef þó hvergi getað fundið þetta orðasamband í skrifum Úlfars í Þjóðviljanum. Fyrst var það líklega notað í þessari staðfærðu merkingu í grein í Degi 6. nóvember 1987 eftir Reyni Antonsson, kennara og blaðamann. Þar kvað hann fjórtán fjölskyldur stjórna Íslandi, en sagði engin frekari deili á þeim.

Hverjar voru þessar fjölskyldur? Og stjórnuðu þær eins miklu og af var látið? Iðulega eru nefndar ættirnar, sem kenndar eru við Thors og Hafstein, Engeyjarættin og heildsalaættirnar þrjár, sem áttu forðum hluti í Morgunblaðinu, Johnson, Gíslason og afkomendur Hallgríms Benediktssonar. En þetta eru aðeins sex ættir og auður þeirra mestallur horfinn. Hverjar eru hinar átta?

Ég hygg, að auðugasti maður landsins um 1920 hafi verið Thor Jensen í Kveldúlfi, um 1955 Björn Ólafsson í Verksmiðjunni Vífilfelli og um 1990 Pálmi Jónsson í Hagkaup. Thor var vissulega ættfaðir einnar af þeim sex fjölskyldum, sem oftast eru nefndar, en Björn og Pálmi voru hvorugir tengdir þeim. Líklega er því áróðursgildi orðasambandsins meira en skýringargildi þess.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband