Skattadagurinn liðinn

Skattadagurinn er sá dagur, þegar Íslendingar hætta að vinna fyrir hið opinbera, en geta unnið fyrir sjálfa sig. Þeir eru allan fyrri hluta ársins að vinna fyrir hið opinbera. Samkvæmt útreikningum Sambands ungra sjálfstæðismanna bar skattadaginn nú upp á sunnudaginn 7. júlí. Röskur meiri hluti tekna okkar rennur til hins opinbera.

Því hefur verið haldið fram blákalt síðustu misseri, að skattlagning hafi engin áhrif á vinnusemi fólks og verðmætasköpun. Þetta stangast hins vegar á við heilbrigða skynsemi og raunar líka niðurstöður úr rannsóknum óhlutdrægra fræðimanna, eins og sjá má hér og hér og hér. Menn vinna ekki af sama kappi fyrir aðra eins og fyrir sjálfa sig. Setjum svo, að maður sé í fastri vinnu og geti engu breytt um það, en hann geti valið um það, hvort hann bæti við sig fimm tímum á viku eða ekki. Getur nokkur haldið því fram, að engu breyti, hvort hann greiði 30% eða 60% af viðtókartekjunum fyrir þennan viðbótartíma í skatta til hins opinbera?

Aðalatriðið er, að atvinnulífið er ekki kyrrstætt, heldur undirorpið sífelldum breytingum, er ótal aðilar bregðast við kostnaði af ákvörðunum, meta saman gróða og tap. Þess vegna geta skattstofnar stækkað eða minnkað. Þeir stækka, ef skattar eru hóflegir og menn vinna meira og skapa meiri verðmæti. Þeir minnka, ef skattar eru háir, svo að vinnufýsi manna minnkar og þeir beina sköpun sinni í aðra farvegi en þá, sem skattlagðir eru.

Hins vegar koma áhrifin af skattlagningu oft ekki fram fyrsta kastið, heldur síðar meir. Skammtímaáhrifin af skattahækkun er þess vegna stundum meiri tekjur ríkisins, en langtímaáhrifin verða minni tekjur þess, af því að skattstofninn dregst saman. Besta dæmið er samanburður á Sviss og Svíþjóð. Skatttekjur hins opinbera á mann eru svipaðar í þessum tveimur ríkjum. En skattlagningin hefur löngum verið allt að því tvöfalt meiri hlutfallslega í Svíþjóð en Sviss. 

Síðan segja sumir: Íslendingar eru ekki aðeins að vinna fyrir hið opinbera fram til 7. júlí, en síðan fyrir sjálfa sig. Hið opinbera er við. Ég svara: Nei, hið opinbera er þeir, ekki við. Ríkisvaldið lendur því miður allt of oft í höndunum á harðskeyttum, háværum og vel skipulögðum sérhagsmunahópum. Þegar fé er tekið af þeim, sem skapa verðmætin, og því endurdreift, er lögmálið, að það rennur til þeirra, sem næstir standa valdhöfunum hverju sinni.

Opinberir starfsmenn eru eflaust ekki verri og latari en starfsmenn einkafyrirtækja. En þá skortir upplýsingar um, hvernig þeir eigi að haga störfum sínum svo, að þeir fullnægi sem best þörfum annarra. Þessar upplýsingar fá hins vegar eigendur og starfsmenn einkafyrirtækja með frjálsu vali neytenda á markaði. Þeir finna fljótlega fyrir því, ef viðskiptavinir þeirra eru óánægðir, því að þá leita þeir annað.

Eitt brýnasta verkefni stjórnvalda er að lækka ríkisútgjöld og fækka opinberum starfsmönnum, svo að lækka megi skatta verulega og leysa úr læðingi kraft einstaklinganna. Markmiðið hlýtur að vera að færa skattadaginn framar á árið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband