Gegn betri vitund

Bandaríski bókmenntagagnrýnandinn og rithöfundurinn Dorothy Parker, sem uppi var 1893-1967, var kvenna fyndnust. Jafnframt átti hún það sammerkt með mörgum öðrum háðfuglum, til dæmis Óskari Wilde, að margt skemmtilegt er haft eftir henni, þótt alls óvíst sé, að hún hafi sagt það.

Svo er til dæmis um fræga umsögn um skáldsögu eftir Beníto Mússólíni, sem kom út í enskri þýðingu 1928 og ég hef áður gert að umtalsefni: „Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.“ Þetta er auðvitað hressilegt, en kemur ekki fyrir í prentuðum ritdómi um bókina eftir Parker í New Yorker. En auðvitað gæti hún hafa sagt þetta við vini sína og kunningja og það þannig orðið fleygt.

 

Hið sama er að segja um önnur ummæli hennar: „Vilji fólk komast að því, hvað Guði finnst um peninga, þá ætti að virða fyrir sér þá, sem hann hefur veitt þá.“ Þetta er hvergi finnanlegt í ritum Parkers, og raunar höfðu Alexander Pope og fleiri sagt eitthvað svipað áður (raunar líka séra Gunnar Gunnarsson í Laufási, sem kvað auðinn ekki húsbóndavandan).

 

Auðveldara er að rekja til Parkers þessa athugasemd um konu, sem var nýfarin úr samkvæmi með henni, því að fyrir henni eru heimildarmenn: „Þessi kona talar átján tungumál og kann ekki að segja nei á neinu þeirra.“ Önnur athugasemd Parkers er afbrigði af gömlum orðaleik: „Klóraðu leikara, og þá birtist leikkona.“

 

Parker sagði einnig í viðtali á prenti, þegar henni barst andlátsfregn Calvins Coolidges Bandaríkjaforseta, sem þótti með afbrigðum fámáll: „Hvernig vita þeir það?“ Og hún skrifaði í New Yorker 19. október 1929: „Þeir ættu að grafa þetta á legsteininn minn: Hvert sem hún fór, þar á meðal hingað, var það gegn betri vitund.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband