Jón á enn erindi við okkur

Einhverjir samkennarar mínir í Háskóla Íslands hafa orðið til að andmæla þeirri skoðun minni, að Jón Sigurðsson forseti hafi verið frjálshyggjumaður. Á því er þó enginn vafi. Jón hafði lesið með skilningi og samúð rit Jean-Baptiste Says, sem var helsti lærisveinn Adams Smiths á meginlandinu, og Johns Stuarts Mills. Ég hef þegar á þessum vettvangi vitnað í ýmis ummæli Jóns, sem sýna þetta.

Enmargt fleira úr ritum Jóns Sigurðssonar á erindi við okkur. Hann segir til dæmis 1842: „Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.“ Íslendingar verða einmitt að gæta sín á því að lokast ekki inni í Evrópusambandinu, heldur stunda viðskipti við aðra aðila líka, til dæmis Noreg, Kanada, Bandaríkin, Brasilíu, Rússland, Indland og Kína.

Jón segir 1860: „Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla.“ Skýrar verður úrlausnarefni stjórnmálanna varla lýst. Stefna þarf jafnt að sem mestu frelsi sem flestra og að gagnkvæmri aðlögun einstaklinganna, svo að árekstrum fækki og frelsi eins verði ekki ófrelsi annars.

Fróðleg er líka sagan af því, þegar Jón vandaði um við skólapilta í Lærða skólanum 1875. Þeir höfðu fært honum kvæði Gests Pálssonar, þar sem sagði:

Þú kappinn dýr,
er aldrei þekktir bönd.

 

Jón vísaði því á bug, að hann hefði aldrei þekkt bönd; „bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn,“ eins og segir í einkabréfi um fund hans og skólapilta.

Jón á hér aðallega við sjálfstjórn og sjálfsaga, þá menningu, sem kemur að innan, en án þess verður frelsið orðið tómt. Jón var eins og nafni hans Þorláksson síðar í senn frjálslyndur og íhaldssamur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband