Stefán Ólafsson staðfestir trúnaðarbrot sitt

Ég rifjaði upp á dögunum, að Stefán Ólafsson braut trúnað vorið 1996, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þá sagði hann þáverandi ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðum í skoðanakönnun, sem við Hreinn Loftsson höfðum látið Félagsvísindastofnun gera um hug almennings í komandi forsetakjöri.

Stefán svaraði skætingi. Þá spurði lesandi síðu hans, Hafsteinn B. Árnason: „Var það ósatt með að þú hafir brotið trúnað með því að upplýsa ritstjóra Morgunblaðsins um fylgiskönnun Davíðs Oddsonar?“

Stefán svaraði:

Já það er ósatt. Þegar ég hitti ritstjórana á Morgunblaðinu vorið 1996, út af öðru máli, þá vissu þeir af því að við höfðum nýlega gert könnun á stuðningi við hugsanlega forsetaframbjóðendur (enda var ekki hægt að leyna því; hringt var í 1000 manns og spurt sérstaklega hvort fólk myndi styðja Davíð Oddsson ef hann færi í forsetaframboð) og að fylgi Davíðs var lítið. Þeir voru undrandi á þessu og reyndar með böggum hildar yfir því að Ólafur Ragnar virtist vera á góðri leið með að verða forseti. Þeir höfðu áhuga á að ræða þetta og greina nánar hvað byggi að baki og ég tók þátt í því, enda voru þeir úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið. Það var síðan Matthías Jóhannessen sem rauf trúnað um þetta með birtingu dagbóka sinna á netinu, að mig minnir 12 árum síðar, og þar tilgreindi hann hvert fylgi Davíðs hafði verið. Það var í fyrsta sinn sem það var opinberað.

Þegar svar Stefáns er lesið vandlega, sést, að hann staðfestir frásögn mína. Hann rauf trúnað við þá, sem létu gera könnunina, með því að segja ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunum. Stefán rauf jafnmikinn trúnað, hvort sem ritstjórarnir voru „úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið“ eða ekki. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Það er hins vegar óvenjufrumlegt, þegar maðurinn, sem rauf trúnað, Stefán Ólafsson, sakar manninn, sem hann sagði í heimildarleysi frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar, Matthías Johannessen, um að hafa rofið trúnað, af því að Matthías skráði þetta hjá sér í dagbækur sínar og birti mörgum árum síðar!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband