Davíð Oddsson og Evrópusambandið

Snjöllustu blaðagreinar, sem birtast í íslenskum blöðum um þessar mundir, eru ritstjórnargreinar Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu. Hann fer á kostum í leiðurum, Staksteinum og Reykjavíkurbréfum, beitir á víxl nístandi háði, leiftrandi gamansemi og sterkum rökum, nýtir þekkingu sína og þjálfun úr áratuga umræðum og baráttu. Í Reykjavíkurbréfi hans 19. maí 2012 segir:

Evran var ekki efnahagslegt fyrirbæri, þótt ekki hafi vantað að hagfræðingar hafi sumir látið sig hafa að fullyrða það. Stofnað var til hennar af hreinum pólitískum ástæðum. Hún átti að þrýsta þjóðunum í átt til eins ríkis og þegar sú gjörð var fullkomnuð átti Evrópa að koma til leiks sem stórríki, sem gæti skákað Bandaríkjunum á heimsvísu. Þetta var tilgangurinn sem helgaði meðulin, sem er nú komið í ljós að höfðu illvígar aukaverkanir. Það mátti bara ekki segja upphátt að þetta væri hið raunverulega markmið. Hvers vegna ekki? Vegna þess að almenningur í álfunni var ekki haldinn þessari glýju. Hann gekk ekki með neina stórveldisdrauma eins og búrókratar í Brussel og litlu leiðtogarnir sem hanga í spottunum þeirra. Þeirra draumur var ekki að stofna til stórríkis 500 milljóna manna þar sem Þýskaland hefði tögl og hagldir. Þjóðirnar voru brenndar í tveimur heimsstyrjöldum og forðuðust eldinn eins og fermt barn prestinn.

Sjálfur hef ég haft tvíræða afstöðu til Evrópusambandsins. Mér finnst það æskilegt, ef það verður opinn markaður, þar sem menn geta skipst á vöru og þjónustu yfir landamæri í frjálsri samkeppni. Mér finnst sambandið hins vegar óæskilegt, ef það verður lokað ríki, girt tollmúrum, virkið Evrópa. Það er mér fagnaðarefni, ef Þjóðverjar og Frakkar hafa slíðrað sverðin eftir margra áratuga stríð og mannfórnir. Það er mér áhyggjuefni, ef Þjóðverjar og Frakkar ætla sér að drottna yfir smáþjóðunum í Evrópu.

Hvort mun Evrópusambandið breytast í ríkjasamband, þar sem samstarfið takmarkast við það, sem er öllum í hag, eða sambandsríki, sem hyggst veita Bandaríkjunum og Kínaveldi samkeppni um það, hvert sé aðsópsmesta stórveldið?

Draumar hafa þrjá eiginleika. Þeir geta ræst. Við getum vaknað af þeim. Þeir geta breyst í martraðir. Vonandi rætist draumurinn um opinn Evrópumarkað. Við verðum hins vegar að vakna af draumnum um, að við skiptum einhverju máli í Evrópusambandinu, og hyggja heldur að eigin málum. Og vonandi breytist draumurinn um Evrópustórveldið ekki í martröð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband