Hvað skyldi Guðmundur Andri skrifa núna? Og Illugi?

Fróðleg er sú frétt, sem mun vera rétt, að meiri hlutinn, þrír af fimm, í stjórn Hörpu hafi viljað ráða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, framkvæmdastjóra hússins. Af einhverjum ástæðum gerðist það þó ekki.

Enginn vafi er á því, að Þorgerður Katrín var að minnsta kosti jafnhæf til starfsins og sá, sem ráðinn var, þótt hér ætli ég síður en svo að lasta þann mann. Þorgerður Katrín er lögfræðingur, reyndur stjórnandi, góður ræðumaður, áhugamaður um íslenska menningu, en með alþjóðlega yfirsýn eftir búsetu erlendis, á besta aldri og hefur aðra þá kosti til að bera, sem þarf í þetta starf.

Hvers vegna var þá gengið fram hjá henni?

Ég man þá tíð, að þeir Guðmundur Andri Thorsson og Illugi Jökulsson náðu varla andanum fyrir hneykslun, ef gengið var fram hjá hæfri konu í trúnaðarstarf. Hvað skyldu þeir skrifa núna?

Eða blessaðar konurnar í Háskólanum, sem dundað hafa sér við það að telja nöfn á konum og körlum í ýmsum störfum? Hvenær mun heyrast í Helgu Kress, Sigríði Þorgeirsdóttur og doktor Sigurbjörgu vegna þessa undarlega máls?

Ég velti því líka fyrir mér, hvort fjölmiðlamenn muni spyrja konurnar tvær, sem eru í forsetaframboði, hvað þeim finnist um þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband