Sandburg og Steinn

Bandaríska ljóðskáldið Carl Sandburg yrkir í kvæði sínu, „Gras“, sem hljóðar svo í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

 

Hlaðið upp valköst við Waterloo og Austerlitz,

verpið þá moldu og gefið mér tóm:

Ég er gras og ég græ yfir allt.

Og hlaðið þér líkunum hátt við Gettysburg

og hrúgið þeim í kös hjá Verdun og Ypres.

Verpið þau moldu og veitið mér tóm.

Tvö ár, tíu ár,

og ferðalangur spyr fylgdarmann:

Hvar erum við nú?

Hvaða staður er þetta?

Eg er gras.

Gefið mér tóm.

 

Einnig þýddi Páll V.G. Kolka kvæðið.

En 7. júní 1936 birtist í Alþýðublaðinu kvæði eftir Stein Steinarr undir heitinu „Gras“. Þar eru þessi vísuorð:

 

Ég er gras. – Og ég græ yfir spor ykkar.

Sendið milljónir manna út á vígvöllinn

hjá Verdun og Ypres,

hlaðið líkum hinna föllnu

í fjallháa hlaða:

10 ár, 50 ár, 100 ár –.

Og einhver vegfarandi horfir með ólundarsvip

út um gluggann á járnbrautarklefanum

og spyr:

„Hvar erum við nú?“

Ég er gras. – Og ég græ yfir spor ykkar.

 

Steinn lét þess þá ekki getið, að þetta var lausleg þýðing á kvæði Sandburgs. Það er efni í annan pistil að rekja eftirmálin.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 15. apríl 2012 og er sóttur í nokkra staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband