Landsdómsmálið í Wall Street Journal

Miðvikudaginn 25. apríl 2012 birtist eftir mig grein í Wall Street Journal um nýgenginn dóm yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þar bendi ég á, hversu fáránlegur dómurinn virðist vera: Geir H. Haarde hélt ekki nógu marga fundi með ráðherrum sínum (sem margir hverjir voru alræmdir fyrir lausmælgi og hefðu sett allt á annan endann, hefðu þeir fengið einhverja nasasjón af erfiðleikunum, sem við var að glíma).

Ég vitna í rómverska skáldið Hóratíus um það, að fjöllin hafi tekið jóðsótt og hlægileg lítil mús fæðst. (Sama líking er raunar í dæmisögum Esóps.) Ekkert stendur efnislega eftir af landsdómsmálinu. Ofstækisfólkinu á þingi tókst ekki ætlunarverk sitt, en það var að gera Sjálfstæðisflokkinn opinberlega ábyrgan fyrir hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem skall svo harkalega á Íslandi. 

Ég hugga ráðherrana núverandi með því, að þeir fá sennilega ekki sama dóm og Geir, að þeir haldi ekki nógu marga fundi. Mennirnir, sem nú sitja á ráðherrastólum, hafa einstaka ánægju af að hlusta á sjálfa sig tala og trúa því statt og stöðugt, að mál megi frekar leysa á fundum en með verðmætasköpun einstaklinganna úti í atvinnulífinu. Þeir verða dæmdir fyrir eitthvað allt annað en að halda ekki nógu marga fundi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband