Sósíalismi andskotans

vilmundurjonsson.jpgVilmundur Jónsson landlæknir smíðaði að sögn orðasambandið „sósíalisma andskotans“, þótt mér hafi ekki tekist að finna það í ritum hans (að vísu ekki við mjög ákafa leit), en gott væri, ef mér fróðari menn geta bent mér á, hvar þetta kemur þar fyrst fyrir.

Mér er sagt, að Vilmundur hafi lagt þá merkingu í orðasambandið, að átt sé við þarflitla útþenslu hins opinbera. Kemur það heim og saman við það, að Vilmundur var áhugasamur um að kynna Íslendingum Parkinsons-lögmálið, en samkvæmt því þrútnar vinna, uns hún fyllir út í tímann, sem gefst til að inna hana af hendi. (Á hversdagslegra máli má segja, að opinberir starfsmenn finni sér alltaf eitthvað til að dunda við, ef verkefnin eru lítil.)

Önnur merking orðasambandsins er hins vegar, þegar ríkisafskipti hafa öfugar afleiðingar við það, sem þeim var ætlað. Eitt dæmi um þetta er, þegar aðgerðir til aðstoðar fátæku fólki bitna frekar á þeim sjálfum en hinum efnaðri, eins og stundum vill verða.

Fyrsta beina dæmið, sem ég þekki af orðasambandinu sósíalisma andskotans, er fyrirsögn greinar eftir Ragnar Jónsson í Smára í Nýju Helgafelli 1958. Þar sagði, að „þjóðkunnur orðasmiður“ hefði gert orðasambandið „fyrir nokkuð löngu“. Notaði Ragnar í Smára það um ýmis höft á fisksölu á Reykjavíkursvæðinu.

Ein stutt og laggóð skilgreining á sósíalisma andskotans hefur síðan orðið fleyg. Hún er, að ríkið þjóðnýti tapið, þegar illa gengur, en leyfi kapítalistum að hirða gróðann, þegar vel gengur.

jonasfrahriflu.jpgJónas Jónsson frá Hriflu setti þá hugsun fram einna fyrstur í þingræðu um opinbera ábyrgð á fiskverði rétt fyrir jólin 1946, eins og sjá má í Alþingistíðindum 1946 (B 1247). Hann benti á, að í Ráðstjórnarríkjunum væri raunverulegur sósíalismi: „Þar er ekki heldur sagt við þegnana: Þið hirðið gróðann, sem kann að verða, en við greiðum tap, ef það verður.“ Síðan sagði Jónas: „Sá munur er því hér á, að þjóðnýting Rússa er alvarleg tilraun til að geta staðist. En hér er á ferðinni ný tegund þjóðnýtingar, þar sem ríkið ber áhættuna af atvinnurekstrinum upp í topp, en atvinnurekendur eiga að stjórna og hafa gróðamöguleikana.“

Hér sem oftar sá Jónas frá Hriflu sumt skýrar en samtímamenn hans, þótt hann lokaði augum fyrir öðru.

 

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2011 og er unninn upp úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband