Símtal Kings og Davíðs

Furðulegt hefur verið að fylgjast með fjölmiðlum Samfylkingarinnar í umræðum um símtal þeirra Mervyns Kings, bankastjóra Englandsbanka, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, í aðdraganda bankahrunsins. Þessir fjölmiðlar hafa engan áhuga á því, að þetta símtal er mikilvægt gagn í Icesave-deilunni, því að King gekk þar eins langt og hann gat í að viðurkenna, að íslenska ríkinu væri óskylt að greiða Bretlandi og Hollandi það fé, sem þessi ríki lögðu út fyrir hinn íslenska Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þetta gerðu þessi ríki vitanlega í eiginhagsmunaskyni til að róa almenning og minnka líkur á áhlaupi á banka í Bretlandi og Hollandi.

Davíð lét til vonar og vara taka símtalið við King upp. Þótt rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið leitaði af stakri kostgæfni að saumnálum um Davíð í heystakki sínum, treysti hún sér ekki einu sinni til að segja að upptakan hefði verið óréttmæt, enda var hún gerð í því skyni að tryggja hagsmuni Íslendinga.

Það sést líka á viðbrögðum Kings þessa dagana, að mat Davíðs reyndist rétt: Bretum var ekki treystandi í þessu máli. King reynir nú að hlaupa frá orðum sínum. Hann segir beinlínis ósatt um símtalið, af því að hann telur sig geta bannað birtingu þess. Bretar tala oft um „fair play“. Þeir segjast vera „gentlemen“. En hvernig hafa þeir komið fram við Íslendinga?

Bretar komu í Icesave-deilunni fram við Íslendinga eins og þeir voru vanir að hegða sér við vanmegna nýlenduþjóðir á átjándu og nítjándu öld. Þeir settu í upphafi hrunsins Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana í Afganistan. Eftir einn sólarhring voru Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið að vísu tekin út af listanum, en Landsbankinn hélt lengi áfram að vera á honum. Er slík fólska dæmafá. Ísland hefur ekki einu sinni her! Og Ísland hefur starfað af fullum heilindum með Bretum í Atlantshafsbandalaginu í rösk sextíu ár.

 

Raunverulegt varnarsamstarf þjóðanna hófst fyrr. Íslendingar drógu andann léttar, þegar þeir komust að því hinn örlagaríka morgun 10. maí 1940, að Bretar höfðu hernumið landið, ekki önnur stórveldi. Eftir langa og vandræðalega þögn á ríkisstjórnarfundi þá um morguninn, þar sem sendiherra Breta hafði tilkynnt um hernámið, kvað Ólafur Thors, þáverandi atvinnumálaráðherra, upp úr um afstöðu Íslendinga: „Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, — en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til!“

Ísland var Bretum ómetanlegt í seinni heimsstyrjöld, ekki aðeins vegna þess að héðan mátti fylgjast með og jafnvel stjórna siglingum um Norður-Atlantshaf og afla nauðsynlegra upplýsinga um veður og veðurhorfur á ýmsum mikilvægum vígstöðvum, heldur líka sökum þess, að hér var eitt vænsta matarbúr Breta. Íslenskir sjómenn hættu lífi sínu í fiskflutningum til Bretlands, og raunar týndu hátt í 500 þeirra þá lífi.

Bretar kjósa að gleyma þessu vinsamlega samstarfi. Og þeir verða æfir, ef farið er að ráðum Hávamálahöfundar um að gjalda lausung við lygi þeirra.

Hafði fólska Breta í upphafi bankahrunsins eflaust sín áhrif á það, að eignir íslensku bankanna rýrnuðu í verði frá því, sem orðið hefði getað. Ekki er enn fullljóst, hvað olli frumhlaupi breska fjármálaráðuneytisins, en líklega hefur það ekki búið yfir nógu nákvæmum upplýsingum um íslensku bankana. Það gerði sér til dæmis ekki ljósan þann mun, sem var á skuldbindingum Kaupþings í dótturfélögum og Landsbankans í útbúum. Einnig taldi það (líklega ranglega) bankana ætla að leika sama leik og hinir bandarísku Lehmann-bræður höfðu gert fyrir þrot sitt, að flytja fyrirvaralaust stórar fjárfúlgur frá Bretlandi (þótt athygli veki, að Bretar settu hvorki seðlabankastjórann bandaríska né fjármálaráðuneytið á lista yfir hryðjuverkasamtök, þegar í ljós kom, að fjárfúlgurnar voru sendar til Bandaríkjanna).Í þessu máli eins og mörgum öðrum hefur Davíð Oddsson sýnt, að hann gætir hagsmuna Íslands af einurð og festu. Því miður virðast sumir aðrir Íslendingar, fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn, hafa minni áhuga á þeim hagsmunum en stjórnmálahagsmunum sínum til skamms tíma hér innan lands, jafnvel þótt það veiki vígstöðu Íslands út á við.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband