Sjálfsagt að rannsaka einkavæðingu bankanna

Nokkrir þingmenn úr Samfylkingunni og Vinstri-grænum hafa borið fram tillögu um, að sala ríkisbankanna verði rannsökuð. Mér finnst sjálfsagt að verða við þeirri beiðni þeirra. Þetta hefur þegar verið rannsakað tvisvar, og eru rækilegar skýrslur Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna aðgengilegar á Netinu, en mér virðist raunar, að enginn þeirra, sem tekur til máls um þessa sölu, hafi lesið þessar skýrslur. Ekkert er þar að fela. Segja þeir mest af Ólafi konungi, sem minnst vita um hann, eins og fyrri daginn.

Um leið og eðlilegt er að verða við þessari beiðni, hlýtur að verða að ætlast til þess af sömu þingmönnum, að þeir samþykki, að Icesave-málið verði rannsakað. Þar eru ýmsar forvitnilegar spurningar. Hvers vegna sinntu þau Jóhanna og Steingrímur ekki tilboðum íslenskra fræðimanna (Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals) um aðstoð? Hvers vegna völdu þau óvanan mann (Svavar Gestsson) til að veita samninganefndinni forystu (eins og Jóhanna hefur raunar viðurkennt opinberlega, að hafi komið að sök)? Hvers vegna lá svo á að ljúka samningum? Hvað olli óðagotinu? Hvers vegna sagði Steingrímur ósatt um samningana, skömmu áður en hann lagði þá fyrir Alþingi? Hvernig skýra þau Jóhanna og Steingrímur, að völ virðist vera á betri samningum, svo að muni tugum eða jafnvel hundruðum milljarða, eins og kom í ljós eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?

Þau Jóhanna og Steingrímur sömdu bersýnilega af sér. Þau gættu ekki hagsmuna Íslands sem skyldi. Eru þau ef til vill sek um refsivert hirðuleysi, eins og þau segja, að aðrir ráðherrar séu?

Raunar má ganga lengra og spyrja, hvers vegna sest var að samningaborði. Um hvað átti að semja? Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér að greiða innstæðueigendum Icesave-reikninga út. Þeir eiga enga kröfu á íslenska ríkið, en væntanlega á hinn íslenska Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Það er mál þeirra og sjóðsins, hvernig því máli lýkur. Íslendingar gættu allra fyrirmæla og reglna um Evrópska efnahagssvæðið, þegar þeir stofnuðu sjóðinn. Forstöðumaður hins norska tryggingarsjóðs, sem fer eftir sömu reglum, fullyrðir, að hann njóti ekki ríkisábyrgðar. Hvers vegna skyldi íslenski sjóðurinn þá gera það? Það er beinlínis fáránlegt, eins og allir sjá við örstutta umhugsun, að íslenskir fjáraflamenn geti með viðskiptum sínum erlendis stofnað til óbærilegrar skuldar íslenskra skattgreiðenda við erlend ríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband