Eru kosningar í nánd?

stefanolmynd_1029991.jpgStefán Ólafsson hefur reglulega farið í herferðir fyrir kosningar til stuðnings Samfylkingunni. Fyrst gerði hann það fyrir kosningarnar 2003, þar sem meginkenningin var, að fátækt væri meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

Síðan gerði Stefán það fyrir kosningarnar 2007, þar sem meginkenningin var, að tekjuskipting væri orðin miklu ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Hvort tveggja þetta var rekið ofan í hann.

Nú er Stefán farinn í nýja herferð, sem bendir til þess, að kosningar séu í nánd. Hann heldur því nú fram, að hækkun skatta á vinnutekjur hafi engin merkjanleg áhrif á vinnufýsi. Ef þetta er rétt hjá honum, þá er um að ræða mikilvæga uppgötvun í hagfræði, því að þá bregðast menn ekki við kostnaði af hegðun sinni, sem er ein frumforsenda hagfræðinnar. Stefán getur orðið frægur á þessari uppgötvun, og er ekki vanþörf á.

Þótt ég viti ekki, hvernig Stefán hefur leikið tölur til að fá þessa niðurstöðu, þekki ég nokkuð til talnameðferðar hans í fyrri herferðum. Hér skal ég nefna þrjú dæmi um hana:

1) Stefán hélt því fram, að lífeyristekjur væri miklu lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum, þótt norræna tölfræðinefndin, Nososco, hefði komist að þeirri niðurstöðu um árið 2004, að þær væru hér hæstar á Norðurlöndum. Stefán fékk þessa niðurstöðu sína með því að deila í heildarlífeyrisgreiðslur með fjölda fólks á lífeyrisaldri, en ekki með fjölda lífeyrisþega. Árið 2004 voru menn á lífeyrisaldri 31.000 á Íslandi, en fjöldi lífeyrisþega 26.000. Menn fá auðvitað lægri tölu með því að bæta 5.000 við í nefnarann. En sú tala segir ekkert um meðaltekjur lífeyrisþega. Þær voru hinar hæstu á Norðurlöndum árið 2004, eins og Nososco benti réttilega á.

2) Stefán reiknaði út, að tekjuskipting væri hér 2004 miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum með tilvísun í svonefnda Gini-stuðla, sem væru hér hærri. Í ljós kom, að hann hafði borið saman ósambærilegar tölur. Hann hafði reiknað út Gini-stuðla með söluhagnaði af hlutabréfum hér, en Gini-stuðlarnir fyrir önnur lönd voru reiknaðir út án slíks söluhagnaðar. Þegar allt var reiknað eins, reyndust Gini-stuðullinn fyrir Ísland árið 2004 vera í meðallagi fyrir Norðurlönd, örlitlu hærri en í Svíþjóð og Danmörku, örlitlu lægri en í Noregi og Finnlandi.

3) Stefán hélt því fram, að ríkisstjórnin 1991–2004 hefði hækkað tekjuskatt á laun með því að láta skattleysismörk ekki fylgja verðlagi. Hann lét þess ógetið, að sá, sem hækkaði skattleysismörk miklu meira, var Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra 1988–1991. Hann lét þess líka ógetið, að skattleysismörk voru (og eru) miklu hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum og víðast í heiminum. En aðalatriðið var það, að hann reiknaði ekki inn í skattleysismörkin áhrifin af því, að menn þurftu ekki að greiða skatt af lífeyrissparnaði sínum, en það jafngilti auðvitað lækkun á skattleysismörkum. Dr. Sveinn Agnarsson hagfræðingur hefur reiknað út þessi áhrif, og þegar það er gert, sést, að skattleysismörk voru ekki lækkuð, svo að neinu næmi, tímabilið 1991–2004.

Vonandi hefur Stefáni gengið betur að reikna í þetta skipti, svo að hann fái öðlast frægð og frama á alþjóðlegum vettvangi með hinni nýju uppgötvun sinni, sem er vissulega frumleg, enda gengur hún þvert á alla reynslu okkar og raunar þvert á heilbrigða skynsemi, — að menn bregðist ekki við kostnaði af hegðun sinni; að menn vinni jafnmikið að hinu sama, hvort sem þeir fá að halda eftir tekjunum af vinnunni óskertum eða þurfa að greiða hærra hlutfall þeirra til ríkisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband