Ég var sjónarvottur

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að mér finnist fráleitt að setja þau Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á sakamannabekk, eins og meiri hluti þingmannanefndar undir forystu Atla Gíslasonar leggur til. Það er langur vegur frá afglöpum að afbrotum. Þau Geir og Ingibjörg Sólrún eru sek um afglöp, en ekki afbrot. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir játað, að tilgangurinn með þessum ákærum og hugsanlegum réttarhöldum er stjórnmálalegur. Hún var spurð, hvort hún teldi ákærur róa almenning. Hún svaraði: „Ég vona það. Til þess var þetta sett á laggirnar.“

Afglöp þeirra Geirs og Ingibjargar Sólrúnar standa hins vegar eftir, þótt þau eigi ekki frekari refsingu skilið fyrir þau en þegar er orðið. Þessi afglöp voru að hafa hvað eftir annað að engu varnaðarorð Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Ég sat síðustu árin fyrir hrun í bankaráði Seðlabankans og hitti Davíð þess vegna oft. Ég hlustaði margoft á hann vara sterkum orðum við yfirvofandi hruni, þótt auðvitað sæi hann ekki allt fyrir frekar en neinn annar. Hann sagði margoft við mig, að hann teldi bankana komna fram úr sjálfum sér, að fámenn klíka ævintýramanna virtist skulda allt of mikið í þeim, að litlar raunverulegar eignir kynnu að standa að baki skuldum þeirra.

Fjármálaeftirlitið var hins vegar sjálfstæð stofnun, þegar hér var komið sögu, og upplýsingar lágu ekki á lausu fyrir Seðlabankann, jafnframt því sem valdheimildir bankans voru mjög takmarkaðar. (Hann gat til dæmis ekki stöðvað opnun Icesave-reikninga Landsbankans erlendis: Hann hafði blátt áfram ekki vald til þess.) Svigrúm Seðlabankans var líka lítið, vegna þess að hann naut ekki stjórnmálastuðnings sem skyldi. Ég vissi, að Davíð fór hvað eftir annað á fund þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til að vara við starfsemi bankanna. Viðbrögð þeirra voru jafnan að leita til bankanna, sem fullvissuðu þau um, að allt væri í lagi. Þetta vildu þau heyra, svo að málið féll niður.

Allt þetta fór fram í kyrrþey, því að annað hefði tafarlaust haft í för með sér kollsteypu, áhlaup á bankana og hrun, og auðvitað vonuðu allir góðgjarnir menn í lengstu lög, að unnt yrði að bjarga bönkunum, að minnsta kosti einhverjum þeirra, til dæmis með lánalínum frá útlöndum, þótt skipta yrði um eigendur og stjórnendur um leið. Þessi saga verður öll skrifuð, þegar frekari gögn hafa komið fram. Sjálfum fannst mér þessi árin Davíð stundum mikla fyrir sér hættuna, en ég sé, þegar ég horfi um öxl, að hann gerði sér betri grein fyrir henni en aðrir og hefði leitt okkur betur út úr ógöngunum en aðrir, hefði hann haft til þess afl og tækifæri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband