Ingibjörgu kastað fyrir ljónin

the_christian_martyrs_last_prayer.jpgRómverska skáldið Júvenalis kvað fólkið vilja brauð og leiki. Að vísu stendur eitthvað á brauðinu hjá núverandi ríkisstjórn: Skjaldborgin um heimilin reyndist aðeins vera um tvö heimili, þeirra Más Guðmundssonar og Einars Karls Haraldssonar. En þeim mun fjörugri eru leikirnir.

Nú berast fréttir af einum leik, sem bráðlega á að fara fram, og Rómverjar stunduðu forðum af kappi. Hann er að kasta fólki fyrir ljónin. Það á að vísu ekki að gera í því skyni að skemmta almenningi eins og að fornu, heldur til að róa hann, eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir blygðunarlaust í viðtölum.

Sjálf er Jóhanna eins og rómverskur hermannakeisari. Hún komst ekki af eigin rammleik í hið háa embætti sitt og hefur auðvitað enga verðleika til þess, heldur var hún sótt af hermönnum, sem vantaði keisara, horfðu í kringum sig og komu ekki auga á neinn annan, svo að þeir hrifsuðu hana með sér, tylltu henni í stólinn og hvísla síðan öllu í eyru henni, sem þeir vilja, að hún segi.

Mitterand Frakklandsforseti sagði um Margréti Thatcher, að hún hefði augun úr Caligúlu og varirnar frá Marilyn Monroe. Jóhanna Sigurðardóttir hefur augun úr Caligúlu, en því miður ekkert frá Marilyn Monroe. Varir hennar eru frá Neró, sem fórnaði góðum kennara sínum, Senecu, þegar hann hentaði honum ekki lengur (svo að ekki sé minnst á það, sem Neró gerði fjölskyldu sinni). Jóhanna hyggst fórna gamalli samstarfskonu, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún ætlar að kasta henni fyrir ljónin í því skyni að róa almenning, eins og hún segir sjálf berum orðum.

Ingibjörg Sólrún hefur ekkert til saka unnið annað en það að vera sami aulinn og aðrir Samfylkingarmenn, sem störðu í aðdáun á útrásarvíkingana og héldu, að tími þeirra væri runninn upp, en menn eins og Davíð Oddsson, sem vöruðu við, væru aðeins nöldurskjóður. Auðvitað er leiðinlegt til þess að vita, að stundum talaði Ingibjörg Sólrún eins og blaðafulltrúi auðjöfranna, en það er skiljanlegt, þegar haft er í huga, að Einar Karl Haraldsson, sem starfaði einmitt fyrir auðjöfrana, skrifaði fyrir hana sumar ræður hennar, þar á meðal hina illræmdu Borgarnesræðu í febrúar 2003.

Ingibjörg Sólrún er enginn glæpamaður, og tilraun Samfylkingarinnar til að breyta Íslandi í leikvang að rómverskum sið er í senn sorgleg og hlægileg, en aðallega fyrirlitleg. Við megum ekki gleyma því, að það fólk, sem nú á að fórna, er fólk með tilfinningar, vit og vilja, fjölskyldur og vini. Þótt ég hafi aldrei verið samherji Ingibjargar Sólrúnar, finn ég til með henni í þessum raunum. Ömurlegt hlýtur að vera fyrir hana að horfa upp á hvern hugleysingjann af öðrum svíkja sig, — sama fólkið og klappaði hvað ákafast fyrir henni á Hótel Íslandi, þegar hún gekk hnakkakert í salinn eftir að hafa sigrað í borgarstjórnarkosningunum 1994. Ingibjörg Sólrún hefði mátt vera vandari að vinum, eins og sum okkar hinna voru, sem betur fer.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband