Fyrirsjáanleg niðurstaða ríkissaksóknara

rannsoknarnefnd.jpgMér kemur ekki á óvart, að ríkissaksóknari telji ástæðulaust að hefja sakamálarannsókn á hendur þremur bankastjórum Seðlabankans fyrir hrun, þeim Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni. Um hvaða lögbrot áttu þeir að vera sekir?

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu voru, þegar grannt er skoðað, settar fram tvær aðfinnslur að embættisfærslum seðlabankastjóranna. Annað atriðið var, að þeir hefðu ekki komið í veg fyrir stofnun Icesave-reikninga Landsbankans. Til þess höfðu þeir enga lagaheimild, eins og nefndinni var skilmerkilega bent á. Þessi aðfinnsla er beinlínis röng efnislega.

Hitt atriðið var, að ekki hefðu verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði að ráði Seðlabankans kauptilboð í hlutabréf í Glitni. Þessi aðfinnsla er smávægileg og í rauninni hlægileg. Þetta var í miðri hörðustu lánsfjárkreppu í áttatíu ár. Um allan heim voru bankastjórar að reyna að bjarga bönkum úr þroti. Taka varð skyndilegar ákvarðanir með litlar upplýsingar í höndum. Það lá í eðli máls, að ekki var unnt að gæta ströngustu stjórnsýslureglna við þetta kauptilboð.

Jafnvel þótt einhverjir væru sammála nefndinni um, að seðlabankastjórarnir hefðu gerst sekir um vanrækslu í starfi, eins langsótt og það er, leiddi ekki af því, að þeir hefðu brotið lög. Vanræksla er ekki lögbrot, nema í henni felist stórfellt og vítavert gáleysi. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða ríkissaksóknara fyrirsjáanleg.

Mér kom frekar á óvart, að Rannsóknarnefndin skyldi setja fram þessar tvær aðfinnslur við embættisfærslur seðlabankastjóranna. En eflaust hefur verið hart lagt að nefndarmönnum að firra Davíð Oddsson ekki ábyrgð á bankahruninu. Mikinn styrk þarf til að láta ekki undan slíkum goluþyt.

Þrátt fyrir þetta vann nefndin í aðalatriðum gott starf. Skýrsla hennar er afar fróðleg, og í henni kemur skýrt fram, að hin innlenda ábyrgð á bankahruninu lá vitanlega hjá bankamönnunum sjálfum, þó aðallega hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og klíku hans, sem hafði ítök í öllum þremur íslensku viðskiptabönkunum og misnotaði þau herfilega.

Gróa á Efstaleiti, eins og Egill Helgason er nú jafnan kallaður eftir hina snjöllu vísu Þórarins Eldjárns um hann, bloggar hins vegar um það í dag í kvörtunartón, að enginn þurfi að sæta ábyrgð á Íslandi, þótt hann bæti því við, að sennilega hafi seðlabankastjórarnir ekki brotið nein lög. Má ég spyrja Gróu á Efstaleiti: Misstu seðlabankastjórarnir ekki störf sín? Og hefði átt að hefja sakamálarannsókn á hendur þeim, jafnvel þótt þeir hefðu ekki verið taldir sekir um nein lögbrot?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband