Styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka

Er eðlilegt, að fyrirtæki styrki stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn? Svarið hlýtur að fara eftir eðli hvers fyrirtækis. Ef það er í eigu einstaklings, þá er ekkert því til fyrirstöðu. Eigandinn fer með eigið fé, ekki annarra, og það er þáttur í almennum mannréttindum að eiga þess kost að afla hugmyndum brautargengis, meðal annars með fjárframlögum.

Málið vandast, ef fyrirtækið er almenningshlutafélag með mörgum hluthöfum. Stjórnendur slíks fyrirtækis fara ekki með eigið fé, heldur annarra. Þeir eru ráðnir til að reka fyrirtækið með sem mestum arði. (Hér á ég aðeins við venjuleg atvinnufyrirtæki, ekki líknar- eða mannúðarsamtök eða verkalýðsfélög.) Þann arð, sem þessum stjórnendum tekst að afla, eiga þeir undir venjulegum kringumstæðum að greiða út til hluthafanna, sem síðan ráðstafa því fé að eigin vild.

Hitt er annað mál, að leiða má rök að því, að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið. Útgjöld í því skyni séu jafneðlileg og útgjöld til kynningar eða áskriftargjöld að Samtökum atvinnulífsins eða Viðskiptaráðinu. Þess vegna kann að vera réttlætanlegt, að fyrirtæki styrki þá stjórnmálamenn og þá stjórnmálaflokka, sem hlynntir eru frjálsu atvinnulífi. Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila, eru þeir í raun að gæta hinna almennu hagsmuna hluthafanna af því, að umhverfið sé hagstætt fyrir atvinnulífið.

Þegar stjórnendur almenningshlutafélaga styrkja hins vegar stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, sem fjandsamlegir eru hinu frjálsa atvinnulífi, eru þeir að vinna gegn hagsmunum fyrirtækisins og með því hluthafanna. Þá gengur þeim eitthvað óeðlilegt til.

Þess vegna voru — og eru — styrkir fyrirtækja, stórra og smárra, til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir, því að hann er einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi, hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki. Á sama hátt voru — og eru — styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir. Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra.

Hvað getur það verið? Oftast hygg ég, að það sé að kaupa sig frá áreitni. Tveir atvinnurekendur sögðu mér á sinni tíð, að þeir hefðu báðir veitt Alþýðubandalaginu styrki í því skyni. Þótt forsvarsmenn þess flokks harðneituðu því jafnan, að þeir tækju við styrkjum frá fyrirtækjum, var það ósatt: Annar þessara atvinnurekenda sagði mér, að þáverandi formaður Alþýðubandalagsins hefði jafnvel sjálfur komið heim til sín og tekið við styrknum til flokksins í reiðufé. Ekki var um það talað, en gengið að því vísu, að Þjóðviljinn (þáverandi blað Alþýðubandalagsins, sem nú er dautt og lítt harmað) hlífði fyrirtæki hans í skrifum sínum.

Þótt styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismanna séu rökréttir, á sama hátt og þeir eru órökréttir til vinstri flokka og vinstri manna, er annað mál, að slíkir styrkir mega auðvitað ekki verða svo háir, að einstakir aðilar öðlist úrslitaáhrif, eignist menn með húð og hári.

Þess vegna voru ofurstyrkirnir til Sjálfstæðisflokksins (frá Landsbankanum og FL-Group) óeðlilegir, eins og allir styrkir allra fyrirtækja til Samfylkingarinnar voru óeðlilegir.

Þess vegna voru margra milljóna styrkir eins aðila (og þá tel ég til dæmis Baug, Fons og FL-Group einn aðila) til einstakra sjálfstæðismanna líka óeðlilegir, eins og allir styrkir allra fyrirtækja til einstakra samfylkingarmanna.

En hóflegir styrkir fyrirtækja til einstakra frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins (til dæmis ein milljón króna eða minna), sem ekki voru hátt hlutfall af heildarfjáröflun þessara frambjóðenda, voru ekki óeðlilegir, þótt auðvitað ættu stjórnmálamenn sjálfs sín vegna að fara varlega í þessum efnum.

Mér er ljóst, að þetta sjónarmið mitt mælist misjafnlega vel fyrir og áreiðanlega illa hjá hinum dómhörðu (en hörundssáru) álitsgjöfum vinstri manna, en þeir ættu þá að reyna að andmæla því með rökum í stað þess að hrópa það niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband