Ísraelsmenn og vændiskaupendur

„Þar eru menn frjálsir sem þeim er óhætt að afla sér óvinsælda.“ (Adlai Stevenson í ræðu í Detroit 7. október 1953.)

Ég skrifa pistla mína hér síður en svo til þess eins að ganga fram af mönnum, en ef ég tel mig hafa sterk rök fyrir máli mínu eða einhver sjónarmið fram að færa, sem vanrækt hafa verið og eru þó gild (jafnvel þótt aðeins sé á takmörkuðu sviði), þá er ég alls óhræddur, þótt einhverjir hneykslist á pistlum mínum, afflytji mál mitt eða reyni að hlæja mig niður. Hlátur er hvort sem er ekki rök.

Tveir hópar njóta bersýnilega ekki sannmælis í fjölmiðlum þessa dagana og raunar ekki þessi misserin. Er sú skoðun mín vitanlega óháð því, hvort ég hafi sjálfur samúð með þessum hópum eða ekki. (Ég hef þegar vikið á þessum vettvangi að þriðja hópnum, sem sumir vilja svipta öllum réttindum, bankamönnum, og ætla ekki að endurtaka það hér í bili.)

Annar þessara hópa er Ísraelsmenn. Af fréttum má ráða, að þeir ráðist af einskærri mannvonsku á „hjálparskip“ á siglingu til Gaza-svæðisins. Lítt eða ekki er greint frá eftirfarandi staðreyndum, sem skipta þó höfuðmáli:

  • Hryðjuverkasamtök Palestínu-Araba hafa um langt skeið stundað það að senda mannskæðar eldflaugar frá Gaza-svæðinu inn til Ísraels.
  • Hergögn sín fengu hryðjuverkamennirnir sjóleiðis. Ísraelsmenn settu hafnbann á Gaza-svæðið til þess að reyna að stöðva þetta.
  • „Hjálparskipin“ sigla til Gaza, þótt stjórnendur þeirra viti  vel af þessu hafnbanni og ástæðunum til þess. Ísraelsmenn hafa boðist til að koma sjálfir þeim hjálpargögnum, sem skipin flytja, á Gaza-svæðið. Því boði hefur verið hafnað.
  • Augljós ástæða er til þess, að Ísraelsmenn vilja ekki, að „hjálparskipin“ flytji vöru sína eftirlitslaust á Gaza-svæðið. Þeir óttast, að þar kunni að leynast með hergögn (þótt eflaust sé mestallur varningurinn nauðsynjavara fyrir hina hrjáðu íbúa).

Raunar mátti sjá á fréttamyndum, að ekki voru allir um borð í þessum „hjálparskipum“ neinir sakleysingjar. Sumir þeirra virtust vera þaulæfðir vígamenn. Aðrir hafa eins og fyrri daginn óviðráðanlega löngun til að verða píslarvottar.

Hinn hópurinn, sem nýtur ekki sannmælis hér, sérstaklega ekki í fjölmiðlum, er vændiskaupendur. Mér er það óskiljanlegt, hvers vegna vændiskaup eru ólögleg á Íslandi. Hvar er glæpurinn? Hefur lögreglan ekki í nógu að snúast við það að verja okkur gegn þeim, sem vilja berja okkur, brjótast inn til okkar og hafa fé af okkur með blekkingum?

Þarf að bæta þessu verkefni á hana og dreifa þannig kröftum hennar? Aðalatriðið er þó það, að þessir menn gera öðrum ekki mein með kaupum sínum. Vitaskuld hljótum við öll að vera andvíg því, sem oft er nefnt, ef stúlkur eru neyddar til vændis gegn vilja sínum. En hlutverk lögreglunnar á þá að vera að koma í veg fyrir það og það eitt, ekki að ryðjast inn í svefnherbergi fólks og hafa afskipti af því, hvað það gerir þar hvert við annað.

Ef um er að ræða frjálsa og fullveðja einstaklinga, þá eiga þeir að fá að semja sín í milli um (nánast) allt það, sem þeir vilja, svo framarlega sem það bitnar ekki á öðrum.

(Ég setti smáfyrirvara, — nánast, — því að hugsanlegt er, að löggjafinn megi og eigi að banna sum kaup, til dæmis ef einhver vill selja sig í óafturkallanlegan þrældóm eða láta drepa sig gegn þóknun. Sérstök rök eru gegn slíkum kaupum. En vændi er allt annars eðlis, enda elsta atvinnugreinin, eins og stundum er sagt.)

Ef stúlkur vilja selja blíðu sína, þá eiga þær að mega það. Ef einhverjir vilja kaupa þessa þjónustu af þeim, þá eiga þeir að mega það.

Höfum við gleymt umburðarlyndiskröfunni? „Ég er andvígur því, sem þú gerir, en ég berst fyrir rétti þínum til að gera það.“

Ættum við ekki að rifja upp meginregluna um frjáls viðskipti, sem orðuð er fagurlega í Árna sögu biskups? „Falslaus kaup skulu föst vera, þau er einskis manns rétti er hrundið í.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband