Var frjálshyggja framkvæmd á Íslandi 1991–2008?

Fjölmennur kór kennir frjálshyggjunni um bankahrunið. Þeir, sem ekki vilja unna frjálshyggjumönnum að telja John Locke, Adam Smith og John Stuart Mill til lærifeðra sinna, tala í þessu sambandi um „nýfrjálshyggju“.

En var frjálshyggja framkvæmd á Íslandi 1991–2008? Ég svara: Já, frá 1991 til 2004, en ekki eftir það.

Í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, eru þrenns konar gögn, sem styðja þetta svar.

Á 18. bls. er tafla um atvinnufrelsi á Íslandi samkvæmt alþjóðlegri mælingu, frá 0 og upp í 10. Atvinnufrelsi jókst úr 6,3 árið 1970 í 6,6 árið 1990. En frá 1990 til 2004 jókst það úr 6,6 í 7,9. Þetta var dágóður árangur. Ísland var árið 2004 í hópi þeirra tíu ríkja í heiminum, sem bjuggu við mest atvinnufrelsi. Eftir það drógust Íslendingar aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum.

Á 42. bls. er línurit um ríkisútgjöld í hlutfalli af vergri landsframleiðslu, en þau eru ef til vill heppilegri mælikvarði á ríkisafskipti en skatttekjur, þar sem slík útgjöld ráðast frekar af ákvörðunum stjórnvalda. (Skatttekjurnar breytast frekar eftir afkomu þjóðarbúsins, þótt auðvitað breyti stjórnvöld einhverju um þær með ákvörðunum sínum.) Þar sést, að framan af ráðherratíð Friðriks Sophussonar lækkuðu ríkisútgjöld talsvert í hlutfalli af vergri landsframleiðslu, til 1997, en jukust því miður eftir það, þótt þau væru vissulega nokkru lægri 2005 en 1992.

Á 103. bls. er línurit um erlendar skuldir í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þar sést, að hinar erlendu skuldir einkaaðila tóku snaran kipp upp á við frá 2004, raunar stórt stökk. Augljóst er af línuritinu, að góðærið fyrir 2004 (sem verið hafði samfellt frá 1995) var ekki kostað af erlendu lánsfé. Því má hins vegar halda fram, að góðærið 2005–2008 hafi verið vegna lánsfjárbólu, sem síðan sprakk: Þetta var hagsæld að láni.

Sú frjálshyggja, sem var framkvæmd hér 1991–2004, skilaði blómlegu búi. Ísland var eitt af fimm ríkustu löndum heims 2004 og sem fyrr segir eitt af tíu frjálsustu löndum heims í atvinnumálum. Þjóðin mældist jafnan í röð hinna hamingjusömustu í heimi. Hún var líka ein hin langlífasta og heilsuhraustasta í heimi.

Það fór hins vegar eitthvað úrskeiðis um og eftir 2004. Þjóðin missti vald á sjálfri sér. Hún fór á eyðslufyllerí, jafnt ríki sem einkaaðilar. Ég held, að ein skýringin sé, að jafnvægið raskaðist hér innan lands. Ófyrirleitnir auðjöfrar með Baugsfeðga í broddi fylkingar náðu undir sig fjölmiðlunum og höfðu mikil áhrif á stjórnmálamenn og jafnvel dómara, auk þess sem þeir áttu greiðan aðgang að Bessastöðum. Hér spratt upp auðræði, plútókratía, sem Platón nefndi svo.

Það, sem við sáum 2004–2008, var ekki frjálshyggja, heldur taumleysi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband