Heggur sá er hlífa skyldi

jonsteinsson.jpgHinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson hefur eins og sumir starfsbræður hans gleymt hæfilegri varúð fræðimannsins eftir bankahrunið, hvort sem það er vegna þess að hann gengst óhóflega upp í hinni óvæntu athygli, sem honum er veitt eftir hrunið, eða hann vill koma sér í mjúkinn hjá nýjum valdhöfum, „vera í vinningsliðinu“. Jón er þessa dagana stóryrtur í garð Seðlabankans fyrir að hafa haustið 2008 gert nákvæmlega hið sama og seðlabankar annars staðar í lánsfjárkreppunni, að veita skyndilán til að afstýra lausafjárskorti. Seðlabankar annars staðar keyptu til dæmis í óðaönn upp undirmálslán af fjármálastofnunum í því skyni að bjarga þeim og sitja nú eftir með sárt ennið, því að þessi lán reyndust lítils sem einskis virði. Þetta er meðal annars rakið í nýrri bók Roberts Skidelsky lávarðar, The Return of the Master. Þetta er sami Jón Steinsson og skrifaði grein í Morgunblaðið 24. mars 2006, þar sem hann taldi litla ástæðu til að hafa áhyggjur af miklum erlendum skuldum Íslendinga. „En að stærstum hluta virðist nettó skuldastaða landsins endurspegla væntingar almennings um áframhaldandi hraðan hagvöxt. Ef þessar væntingar eru raunhæfar þurfum við engar áhyggjur að hafa af nettó erlendri skuldastöðu þjóðarinnar.“ Þetta er sami Jón Steinsson og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands 18. ágúst 2008, aðeins nokkrum vikum fyrir bankahrunið, þar sem hann mælti gegn vaxtalækkun og gerði lítið úr því, að kollsteypa væri í nánd: „Það er ekkert allt að farast,“ var haft eftir honum í Morgunblaðinu daginn eftir. Með þessu er ég ekki að segja, að allt, sem Jón sagði við þessi tækifæri, hafi verið vitleysa, heldur hitt, að hann er skeikull eins og við hin, þótt hann tali niður til okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband