Njósnir KGB á Norðurlöndum

Fróðlegt var að lesa á mbl.is, að sænski njósnasagnahöfundurinn Jan Guillou gekk erinda leyniþjónustu Kremlverja, KGB, á meðan Ráðstjórnarríkin voru og hétu. Tvær bækur Guillous hafa komið út á íslensku, Leiðin til Jerúsalem og Illskan, og sjónvarpið hefur sýnt myndir eftir sögum hans. Fram kom í fréttinni, að það var rússneski KGB-maðurinn Jevgeníj Gergel, sem náði Guillou á sitt band. Veitti Guillou Gergel ýmsar upplýsingar, meðal annars um sænska jafnaðarmannaflokkinn, og vilja sænskir jafnaðarmenn nú ólmir vita, hverjar þær voru. Gergel starfaði í sendiráði Ráðstjórnarríkjanna í Svíþjóð 1964–1970, og tókst honum þá að mynda samband við róttæklinga, sem voru andvígir Bandaríkjunum, ekki síst afskiptum þeirra af borgarastríðinu í Víetnam. En hitt er athyglisvert, að Jevgeníj Gergel vann fyrir KGB á Íslandi í sex ár, 1973–1979. Eftir það starfaði hann í höfuðstöðvum KGB í Moskvu og kynntist þá Oleg Gordíevskíj, sem seinna flýði land og ljóstraði upp um margvíslegan undirróður og njósnir Kremlverja á Vesturlöndum. Sagði Gergel Gordíevskíj ýmislegt um umsvif ráðstjórnarinnar á Íslandi. Seinna var Gergel flugumaður KGB á Möltu. KGB stundaði ekki aðeins hefðbundnar njósnir, heldur lagði áherslu á það, sem kallað var á ensku „agents of influence“. Þetta voru menn, sem voru sjaldnast yfirlýstir kommúnistar, en veittu KGB-mönnum í sendiráðum Ráðstjórnarríkjanna á Vesturlöndum upplýsingar og tóku þátt í ýmsum aðgerðum, sem komu Kremlverjum vel, til dæmis „friðarhreyfingum“. Rætt er um þetta allt, þar á  meðal starfsemi Gergels á Íslandi, í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, sem er enn í vinnslu, en kemur vonandi út eftir eitt eða tvö ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband