Laffer-boginn yfir Íslandi

LafferRegnbogiHighRez,jpgSamkvæmt þjóðsögunni bíður fjársjóður við enda regnbogans. Engum hefur enn tekist að finna þann fjársjóð. En annar bogi er til, þar sem hafa má ógrynni fjár. Hann er Laffer-boginn svonefndi, sem kenndur er við bandaríska hagfræðinginn Arthur B. Laffer og sýnir, hvernig skattalækkanir geta greitt fyrir sig sjálfar. Laffer-boginn lýsir tengslum skattheimtu og skatttekna. Með skattheimtu er átt við, hversu langt ríkið gengur í skattlagningu, til dæmis hvort menn greiða 20% eða 40% af tekjum sínum í skatt. Með skatttekjum er vísað til þess, hver afrakstur ríkisins verður af skattheimtunni, til dæmis hvort hann verður fimmtíu eða hundrað milljarðar króna. Laffer-boginn sýnir, að fyrst hækka skatttekjur, þegar skattheimta er aukin, uns komið er að einhverju hámarki, en eftir það lækka skatttekjurnar, þótt skattheimta sé enn aukin.


Breytilegur skattstofn

Hugsunin að baki Laffer-bogans er, að skattstofninn sé breytilegur að stærð. Ef gengið er langt í skattheimtu, þá minnkar stofninn. Menn afla þá minni tekna, vinna skemur og vantelja fram tekjur. Þetta er svipuð hugsun og í fiskihagfræði, þar sem sýnt er samband sóknar í fiskistofn (til dæmis mælt í fjölda báta) og afla. Þar er boginn svipaður: Eftir því sem sóknin eykst, verður aflinn meiri, uns komið er í eitthvert hámark, og eftir það tekur aflinn að minnka, því að þá er gengið á stofninn. Það er síðan óvíst, að Laffer-boginn sé eins reglulegur í laginu og á myndinni hér. Hið eina, sem unnt er að fullyrða, er, að við 0% skattheimtu verða skatttekjur 0 krónur og við 100% skattheimtu líka 0 krónur. Þessi bogi er umfram allt til skilningsauka.

Aðalatriðið er, að við eitthvert mark hættir skattheimta að borga sig, jafnvel fyrir skattheimtumennina sjálfa. Eftir að því marki er náð, lækka skatttekjur við meiri skattheimtu. Jafnaðarmenn og frjálshyggjumenn ættu hvorir tveggja að vera sammála um að halda sig að minnsta kosti „réttum megin“ (vinstra megin) á boganum. Ef eitthvert ríki væri komið öfugum megin (hægra megin) á boganum, ættu báðir hópar að vilja skattalækkanir, því að við þær myndu tekjur ríkisins hækka, en ekki lækka. Frjálshyggjumenn væru hins vegar ekki nauðsynlega þeirrar skoðunar, að í skattalækkunum ætti að nema staðar við hámarkið, mestu mögulegu tekjur ríkisins. Það væri ekkert sjálfstætt markmið í þeirra huga. Skattar ættu að vera nægilega háir til að afla fjár í nauðsynleg opinber verkefni, en nægilega lágir til að torvelda ekki um of verðmætasköpun.


Hærri skatttekjur með lægri sköttum!

Líklega eru Svíþjóð og Sviss sitt hvorum megin á Laffer-boganum. Skatttekjur ríkisins á mann eru svipaðar í löndunum tveimur, en skattheimta nokkuð undir 60% í Svíþjóð og aðeins yfir 30% í Sviss. Svo að líking úr fiskveiðum sé aftur notuð, getur svissneska ríkið landað sama afla með helmingi minni fyrirhöfn en hið sænska. En hvernig stendur á því, að jafnskynsamir menn og Svíar lentu öfugum megin á Laffer-bogann? James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur lýst því, hvernig hægt er að komast öfugum megin á Laffer-bogann, þegar valdhafarnir áætla skatttekjur til skamms tíma, en skattgreiðendur bregðast við til langs tíma. Þá gerist það fyrr eða síðar, að aukin skattheimta leiðir vegna langtímaviðbragða skattgreiðenda aðeins til lækkaðra skatttekna: Landið er statt öfugum megin á Laffer-bogann. En hvers vegna hefur Svíum lítt miðað aftur til vinstri á boganum með skattalækkunum, þótt það hljóti að vera skynsamlegt? Svarið er líklega, að þar í landi mynda starfsmenn og styrkþegar ríkisins meiri hluta kjósenda. Svíar eru í sjálfheldu sérhagsmunanna.

Eitt skýrasta dæmið um Laffer-bogann er líklega Ísland síðustu sextán árin. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og eftirmanna hans umskapaði hagkerfið. Verðbólga hjaðnaði vegna peningalegs aðhalds. Þrálátur halli á ríkissjóði breyttist í afgang, sem notaður var til að greiða upp skuldir ríkisins. Hætt var að ausa styrkjum í gæluverkefni stjórnmálamanna (eins og fiskeldi og loðdýrarækt), svo að biðstofa forsætisráðherra tæmdist. Fjármagn, sem lá áður hálfdautt í óskrásettum, óveðhæfum, óseljanlegum og eigendalausum fiskistofnum, samvinnufélögum og ríkisstofnunum, varð skyndilega sprelllifandi, þegar það varð skrásett, veðhæft og seljanlegt í höndum sprækra athafnamanna, eins og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Landsbankans, hefur bent á. Ekki munaði síst um skattalækkanirnar: Aðstöðugjald og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var fellt niður. Tekjuskattur á fyrirtæki var 1991-2001 lækkaður í áföngum úr 45% í 18%. Tekjuskattur einstaklinga, sem rennur til ríkisins (að slepptu útsvari), lækkaði 1997-2007 úr um 31% í um 23%. Eignaskattur og hátekjuskattur voru felldir niður og erfðafjárskattur lækkaður. Virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður.

Þessar stórfelldu skattalækkanir urðu til þess að hækka skatttekjur ríkisins, ekki lækka. Með 18% skatti er afraksturinn af tekjuskatti á fyrirtæki til dæmis um 34 milljarðar króna nú í ár, en með 45% skatti 1991 var afraksturinn aðeins um 2 milljarðar króna. Meginskýringin er auðvitað, að skattstofninn stækkaði vegna aukinnar verðmætasköpunar, en skattalækkanirnar áttu einmitt sinn þátt í þeim. Lítið hlutfall af stóru getur verið jafnmikið og stórt hlutfall af litlu, eins og dæmin af Sviss og Svíþjóð vitna um. Fordæmi Íslendinga hefur vakið athygli um allan heim. Edward S. Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, kom hingað í júlí og lauk lofsorði á hagstjórn hér síðustu sextán árin. Hann gerði mjög fróðlegt línurit. Það sýnir, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki hefur lækkað hér 1985-2003 úr 50% í 18% (gráa línan niður á við), en hvernig afraksturinn, mældur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hefur stækkað (svarta línan upp á við). Skýrar er vart hægt að sýna, að Laffer-boginn hefur risið yfir Íslandi og að undir honum fannst fjársjóður ólíkt regnboganum.


Óbeinar skattalækkanir

Með aðstoð þriggja framúrskarandi fjármálaráðherra, þeirra Friðriks Sophussonar, Geirs H. Haarde og Árna M. Mathiesen, tókst Davíð Oddssyni ekki aðeins að lækka skatta beint, heldur líka óbeint. Það er til dæmis samdóma álit kunnáttumanna, að verðbólga jafngildi skatti á notendur peninga og flytji fé frá sparifjáreigendum til skuldunauta. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur Kaupþings, hefur einnig reiknað út, að sennilega hafi þjóðarbúið orðið af hundrað milljörðum króna vegna verðbólgunnar fram undir 1991. Hjöðnun verðbólgunnar var þess vegna óbein skattalækkun. Í öðru lagi getur þrálát skuldasöfnun ríkisins jafngilt skatti á komandi kynslóðir, sérstaklega ef lánsféð er ekki notað í arðbærar framkvæmdir. Með því að greiða niður skuldir ríkisins voru skattar í raun lækkaðir. Þriðja óbeina skattalækkunin fólst í því, að lífeyrissjóðir voru efldir og tryggt, að þeir gætu framvegis staðið undir sér sjálfir. Sums staðar í grannlöndunum verða lífeyrisþegar framtíðarinnar aðeins að treysta á, að ríkissjóðir landanna efni gefin loforð, en til þess þarf að þyngja skatta á vinnandi fólk, um leið og því er að fækka. Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur þegar orðnar að meðaltali hæstar á Íslandi og eiga enn eftir að hækka.

Skattheimta er samt enn of mikil á Íslandi, samtals yfir 40%, þegar reiknað er með tekjum sveitarfélaga. Reynsla síðustu sextán ára sýnir, að óhætt er að halda áfram að lækka skatta. Þótt ólíklegt sé, að skatttekjur hækki áfram jafnmikið við skattalækkanir og hingað til, veldur ýmislegt því, að frekari skattalækkanir geta greitt fyrir sig sjálfar að mestu eða öllu leyti. Tökum til dæmis tekjuskatt á einstaklinga. Setjum svo, að hann verði lækkaður um 6%, niður í 17%. Skattgreiðendur munu ekki sitja og horfa á þetta fé, heldur nota það, svo að hluti þess, líklega frá fjórðungi upp í þriðjung, mun snúa aftur í ríkissjóð sem skatttekjur. Í öðru lagi batna skattskil, eftir því sem skattar eru lægri. Í þriðja lagi munu tekjur fleira fólks hækka, eftir því sem atvinnulífið verður blómlegra, og vegna tiltölulega hárra skattleysismarka mun það því greiða í raun hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt (eins og gerðist síðustu sextán ár).


Hugmyndir Geirs, Björgólfs og Sigurðar

Þetta er enn greinilegra, þegar litið er á tekjuskatt á fyrirtæki. Geir H. Haarde forsætisráðherra benti á það í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar 1979, að Ísland ætti mikla möguleika sem fjármálamiðstöð, væri hér boðið upp á lága skatta á fyrirtæki. Björgólfur Guðmundsson og samstarfsmenn hans höfðu frumkvæði að alþjóðlegri útrás 1983, þótt þeir hugsuðu miklu stærra en þá var títt, svo að draumar þeirra gátu ekki ræst fyrr en nú. Sigurður Einarsson í Kaupþingi var formaður nefndar, sem skilaði nýlega vandaðri skýrslu um möguleika Íslands í heimi hins alþjóðlega fjármagns. Nú er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5% á Írlandi. Ef við lækkum tekjuskatt á fyrirtæki í 10%, þá verður Ísland enn fýsilegri kostur. Skattstofninn mun stækka, vegna þess að ný fyrirtæki sjá sér hag í að setjast hér að. Við eigum ekki að kvíða því, heldur fagna, að gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, eru allar fleygar. Hið sama gildir síðan og um aðrar skattalækkanir, að fyrirtækin munu ekki sitja aðgerðalaus og horfa á féð, sem þau spara sér í skattgreiðslur, heldur nota það, og þannig snýr talsverður hluti af því aftur í ríkissjóð. Jafnframt munu skattskil verða einfaldari og batna enn.

Prófessor Arthur B. Laffer, höfundur Laffer-bogans, er einn frægasti og áhrifamesti hagfræðingur heims, umdeildur, en kunnur að mælsku. Hann flytur hádegiserindi í boði Samtaka atvinnulífsins, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og nokkurra annarra stofnana og samtaka í Þjóðmenningarhúsinu í dag, 16. nóvember, og er aðgangur ókeypis og öllum heimill, þótt æskilegast sé, að menn hafi samband við skrifstofu Samtaka atvinnulífsins og skrái sig til að fá sæti. Viðskiptablaðið stendur ásamt ýmsum öðrum að komu Laffers hingað. Erindi hans nefnist „Kostir skattalækkana“. Hvað bíður okkar undir Laffer-boganum? Nýr fjársjóður?

Viðskiptablaðið 16. nóvember 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband