Bretton Woods, nóvember 2023

IMG_1068Mont Pelerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947, þegar nokkrir frjálslyndir fræðimenn komu saman í Sviss, þar á meðal hagfræðingarnir Ludwig von Mises, Frank H. Knight, Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais og heimspekingurinn Karl R. Popper. Var tilgangurinn að blása nýju lífi í menningararf Vesturlanda með frjálsri rannsókn og rökræðu. Ég hef verið félagi frá 1984 og sat í stjórn 1998–2004.

Dagana 29. október til 2. nóvember 2023 héldu samtökin ráðstefnu í Bretton Woods í Bandaríkjunum um skipulag alþjóðaviðskipta, tæpum 80 árum eftir að þar var haldinn frægur fundur, þar sem Keynes lávarður og fleiri lögðu á ráðin um stofnun Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því skyni að koma á festu í alþjóðaviðskiptum. Segja má, að Bretton Woods-samkomulagið hafi brostið, þegar Bandaríkin hættu að tryggja gjaldmiðil sinn í gulli árið 1971. Eftir það hefur heimurinn notast við pappírspeninga, sem eru ekkert annað en ávísanir á sjálfar sig.

Við Ragnar Árnason, prófessor emeritus í auðlindahagfræði, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, sóttum þessa ráðstefnu. Erindi á ráðstefnum Mont Pelerin-samtakanna eru flutt í trúnaði, en óhætt er að segja frá því, sem birst hefur annars staðar að frumkvæði höfunda sjálfra. Þrennt stóð upp úr. Prófessor Douglas Irwin lýsti með traustum gögnum hinum stórkostlega ávinningi af frjálsum alþjóðaviðskiptum. Phil Gramm, fyrrverandi öldungardeildarþingmaður og hagfræðiprófessor, sýndi fram á, að opinber gögn um tekjudreifingu í Bandaríkjunum væru meingölluð, þar eð tekjur væru ekki reiknaðar eftir skatta og bætur, sem hvort tveggja jafna þær mjög. Tyler Goodspeed, hagfræðingur í Hoover-stofnuninni, benti á, að frjáls alþjóðaviðskipti gætu orðið sumum hópum í óhag til skamms tíma, þótt þau væru öllum í hag til langs tíma. Sjálfur lýsti ég íslenska bankahruninu 2008 í löngu máli fyrir David Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans 1919–2023, þegar við sátum saman kvöldverð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. desember 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband