Það sem ég kom upp um 2015

Ég var að skila Rannsóknarskýrslu minni fyrir árið 2015 til Háskólans og renndi þá augum yfir Fróðleiksmolana, sem ég skrifa vikulega í Morgunblaðið. Ég sé, að ég hef á síðasta ári tekið eftir og vakið athygli á ýmsum skekkjum, yfirsjónum og missögnum sumra samkennara minna. Hér eru hinar helstu:

Í B.A. ritgerð, sem Ragnheiður Kristjánsdóttir hafði umsjón með, er ráðist á Þór Whitehead prófessor fyrir að hafa farið rangt með eitt ákvæðið í inntökuskilyrðum í Alþjóðasamband kommúnista, Komintern. Kommúnistar hafi ekki verið skyldaðir til að stofna ólögleg hliðarsamtök nema í löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Ég komst að því með því að fara í þýsku frumheimildina, að þetta er alrangt. Þetta ákvæði (3. inntökuskilyrðið af þeim 21, sem samþykkt voru í Moskvu 1920) var almennt og átti við jafnt þar sem kommúnistaflokkar voru leyfðir og bannaðir. Nú kunna sumir að segja, að Ragnheiður beri ekki ábyrgð á villum, sem nemendur hennar gera í ritgerðum, og er það eðlilegt sjónarmið. En hafa verður þó tvennt í huga. Hún á að heita sérfræðingur í kommúnisma og veit þetta samt ekki eða lætur þetta fram hjá sér fara! Og þetta var gagnrýni á einn samkennara hennar, virtan sagnfræðiprófessor, sem getið hefur sér orð fyrir sérlega vönduð vinnubrögð, og hefði hún því átt að skoða málið sérstaklega. (Skýringin á villunni er eflaust, að nemandinn — og Ragnheiður líka — hefur ekki nennt að leita uppi frumheimildina, heldur googlað þetta og fundið enska þýðingu á Wikipediu, en sú þýðing er einmitt ónákvæm.)

Í bók Jóns Ólafssonar um Veru Hertzch, Appelsínur frá Abkasíu, morar allt í villum um mál, sem ég þekki. Hér eru nokkrar:

  • Bls. 173. Þar rekur Jón bréfaskipti Veru og Benjamíns. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: „Greve hefur líka verið handtekin [svo]“. Jón segir, að ekki sé „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann fæddist í Hamborg 1894, gekk í Kommúnistaflokk Þýskalands 1920 og fluttist til Rússlands 1924. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár.
  • Bls. 251: „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.“ Þrjár villur eru hér. Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir. Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912. Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux með manni sínum og starfaði í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander.
  • Bls. 285. Um Vetrarstríðið: „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“ Tvær meinlegar villur eru hér. Finnland varð í fyrsta lagi ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Borgarastríð var háð í landinu á útmánuðum 1918, en í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um landamæri ríkjanna. Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) höfðu í öðru lagi fallið í skaut Finna við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809.

Ég velti því fyrir mér, hvort svipaðar villur séu í þessu riti Jóns um mál, sem ég hef engin skilyrði til að meta, til dæmis í úrvinnslu heimilda á rússnesku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband