Í réttarsal undir framburði Arnórs og Davíðs

Ég sat í réttarsal í landsdómsmálinu síðdegis 6. mars 2012. Hlustaði ég á framburð Arnórs Sighvatssonar, fyrrverandi aðalhagfræðings Seðlabankans (núverandi aðstoðarseðlabankastjóra), og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra.

Arnór kvaðst hafa haft miklar áhyggjur af viðskiptabönkunum árin fyrir fall þeirra. Ég varð aldrei var við þær áhyggjur, á meðan ég sat í bankaráði Seðlabankans árin 2001–2009. Arnór og helsti samstarfsmaður hans, Þórarinn G. Pétursson, voru með allan hugann við reiknilíkan það, sem þeir notuðu til að ákveða vexti. Þeir litu undrandi upp úr reiknilíkaninu, þegar ekkert var lengur eftir til að bera vexti.

Ég get hins vegar borið um það, að Davíð Oddsson lét oft í ljós áhyggjur af bönkunum, útlánaþenslu þeirra, krosseignatengslum og gagnkvæmum lánum. Þar eð hann var ekki yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, hafði hann hins vegar ekki vald til þess að afla nægilegra upplýsinga eða taka í taumana. Hann varð einnig að tala varlega á opinberum vettvangi, því að hann vildi ekki fremur en aðrir valda áhlaupi á bankana.

Davíð skýrði líka vel tvö atriði, sem fávísir fjölmiðlungar hafa reynt að gera að árásarefni á Seðlabankann í undanfara falls bankanna. Annað var, að ekki hefði verið svarað tilboði í bréfi frá Mervyn King, seðlabankastjóra Englands, vorið 2008 um að aðstoða íslensku bankana við að minnka. Davíð benti á, að bréfið snerist um annað. Með því var hafnað að veita seðlabankanum lánalínur, eins og rætt hafði verið um vikum saman. Það „tilboð“, sem á eftir fór um aðstoð við að minnka íslensku bankana, var ekkert annað en kurteisistal, og hafði slíkt tilboð verið sett margsinnis fram í umræðunum á undan. Fylgdi þessu kurteisistali ekkert tilboð um lánafyrirgreiðslu, sem nauðsynleg hefði verið til að breyta útibúum Landsbankans í Bretlandi í dótturfélög.

Hitt atriðið var, að Seðlabankinn hefði minnkað bindiskyldu erlendra útibúa Landsbankans. Davíð svaraði því til, að þetta hefði verið gert að ósk Landsbankans, sem teldi, að evrópsk lög giltu um þann rekstur. Það var mat Seðlabankans, að þetta væri rétt. Auk þess skipti sú upphæð, sem þá losnaði (um 20 milljarðar króna), ekki höfuðmáli.

Davíð minnti líka í framburði sínum á það, að sumir vildu bregðast við erfiðleikunum haustið 2008 með því að ausa fé í bankana, en ekki bjarga íslenska hluta þess einum og láta erlenda lánardrottna um að vinna úr erlenda hlutanum, eins og gert var með neyðarlögunum svokölluðu. Davíð nefndi sérstaklega þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Einnig mætti nefna Má Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóra (eins og sjá má í Fréttablaðinu 5. nóvember 2008), og Jón Steinsson hagvitring.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband