Kvikmyndin um Margréti Thatcher

Fréttablaðið birti 14. janúar nokkur af svörum mínum við spurningum blaðsins um, hvað mér hefði þótt um kvikmyndina Járnfrúna, sem nú er sýnd í Reykjavík. Hér eru svör mín í heild sinni:

hhg_thatcher.jpgMér fannst myndin vel gerð og skemmtileg. Meryl Streep vinnur mikinn leiksigur í henni. Hún er mjög sannfærandi sem Thatcher. Ég hitti Thatcher fjórum sinnum, tvisvar í móttökum og tvisvar í kvöldverðum, og í öðrum kvöldverðinum hafði ég tækifæri til að skiptast á skoðunum við hana, en ekki aðeins fáeinum kurteisisorðum. Mér er enn minnisstætt margt, sem hún hafði þar að segja. Streep náði Thatcher mjög vel. Þetta var sú kona, sem ég hitti.

Margir hafa gagnrýnt, að Thatcher er sýnd eins og hún sé haldin elliglöpum. Það er skiljanleg gagnrýni. En ég bendi á, að það er gert tvírætt, hvort hún sé í raun og veru haldin elliglöpum eða hvort hún sé að leika á umhverfi sitt. Og hugsanlega hafa handritshöfundarnir ekki haft önnur ráð til að gera hana mannlegri, færa hana nær fólki, en þetta.

Myndin er sjálf þaulhugsuð og þaulunnin. Sum atriði voru mjög eftirminnileg, til dæmis stríðið við fasistastjórnina í Argentínu út af Falklandseyjum og átökin við ýmsa marxista, sem beittu námumönnum fyrir sig. Ég stundaði nám í Oxford, þegar átökin við hina svokölluðu forystumenn námumanna stóðu, og margt rifjaðist þá upp fyrir mér.

Myndin er hins vegar ekki mjög pólitísk. Hún sýnir Thatcher sem afar mannlega konu. Raunar mátti sjá af myndinni, að leikstjórinn var kona, því að sjónarhorn konu var stundum notað, til dæmis þegar Thatcher kemur nýkjörin þingmaður í Westminster-höllina, þinghöll Breta.

Eitt skemmtilegasta atriðið var, þegar Thatcher sleppti sér á ríkisstjórnarfundi og spurði, hvort menn vildu vera Bretar eða Frakkar. Ef þeir vildu vera Frakkar, þá skyldu þeir greiða 85% skatt og setja upp alpahúfur.

Raunar er fróðlegt, að andstaða Thatchers við sameiginlega evrópumynt varð henni að falli, og menn sjá núna skýrar en áður, að hún hafði þar lög að mæla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband