Bjartur í Sumarhúsum í túlkun Illuga og Egils

Þessa dagana setja þeir fóstbræður Illugi Jökulsson og Egill Helgason af nokkrum þótta ofan í við þá, sem vitna máli sínu til stuðnings í Bjart í Sumarhúsum, söguhetju Laxness. Minna þeir fóstbræður á það, sem er auðvitað dagsatt, að Laxness ætlaði sér með Bjarti að skapa andhetju. Tilgangur hans í Sjálfstæðu fólki var öðrum þræði að gagnrýna ýmislegt í fari þjóðarinnar, svo sem kotbúskap í stað samyrkju, tregðuna til samstarfs við aðra og fastheldni við gamla, vonda siði.

Megintilgangur skáldsins var hins vegar að segja sögu. Laxness var nógu mikið skáld til þess, að söguhetjur hans eru ekki aðeins dauft bergmál úr blaðaleiðurum, heldur tala þær eigin röddum. Bjartur í Sumarhúsum öðlast sjálfstætt líf, gengur út úr sögu Laxness, og þá sjá menn, að hann er margræður maður með kosti og galla. Hann hefur suma eiginleika, sem þjóðin dáist að, eins og þolgæði, þrautseigju og tortryggni gagnvart blíðmálum yfirstéttarmönnum, en líka aðra eiginleika, sem flestu fólki fellur miður, svo sem tillitsleysi við sína nánustu.

Þetta sést ef til vill enn betur, þegar andlegur arftaki Bjarts í sögum Laxness, Jón Hreggviðsson, er skoðaður. Hann er líka alþýðumaður, sem hefur alls ekki um allt sömu skoðanir og Laxness sjálfur, en er tortrygginn gagnvart þeim stóru, eins og hann kallar yfirstéttarmenn. Það eru ýmsar tilfinningar þeirra Bjarts í Sumarhúsum og Jóns Hreggviðssonar, sem komu í ljós í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl síðast liðinn, en reykvískir kaffihúsaspekingar eiga erfitt með að skilja.

Hver getur til dæmis andmælt þessum orðum Bjarts í Sumarhúsum? „En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.“ Og tortryggni Bjarts á rétt á sér, þótt hún eigi ef til vill ekki við um allt: „Það er góður siður að trúa aldrei nema helmíngnum af því sem manni er sagt og skifta sér ekki af afgánginum. En fara aldrei eftir öðru en því sem maður segir sér sjálfur.“

Jón Hreggviðsson kemur orðum að svipaðri hugsun: „Ég hef aungva trú á öðru réttlæti en því sem ég frem sjálfur.“ Og á öðrum stað segir hann: „Ég hræki á Þá Stóru þegar þeir dæma rángt.“ Og hann bætir við: „Og þó hræki ég enn meira á þá þegar þeir dæma rétt, því þá eru þeir hræddir.“

Harmsaga Bjarts í Sumarhúsum fólst í því, að hann var haldinn sjálfsblekkingu um raunverulega hagsmuni sína. Hann sáði í akur óvinar síns. (Ég benti á það í bók minni um Laxness, sem áður hafði ekki verið vitað, að Laxness tók þá líkingu frá norska skáldinu Johan Bojer.) Það breytir engu um, að Bjartur átti sínar lofsverðu hliðar, eins og margir erlendir lesendur sögunnar sjá vel.

Raunar má segja, að jámenn á Íslandi, eins og Illugi Jökulsson, hafi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl ætlað að sá í akur óvinar síns, Bretans, en sem betur fer hafði meiri hluti þjóðarinnar vit fyrir þeim. Jámenn höfðu það úr fari Bjarts í Sumarhúsum, sem síst er gott til eftirbreytni, sjálfsblekkinguna, en neimennirnir höfðu hitt að leiðarljósi, holla tortryggni gagnvart blíðmálum yfirstéttarmönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband