Framsaga á fundi ungra sjálfstæðismanna

Ég hafði framsögu á fundi ungra sjálfstæðismanna fimmtudagskvöldið 14. apríl um eftirmál þjóðaratkvæðagreiðslunnar ásamt þeim Sigurði Kára Kristjánssyni alþingismanni og Sigríði Andersen, lögfræðingi og einum forystumanni Advice-hópsins.

Ég rifjaði upp nokkur óhappaverk núverandi vinstri stjórnar og benti á, að hún hefði rofið grið í íslenskum stjórnmálum með framkomu sinni við tvo fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins: Annan hrakti hún úr Seðlabankanum, hinn leiddi hún fyrir rétt af stjórnmálaástæðum, en ekki vegna einhverrar sakar.

Ég fór einnig nokkrum orðum um Icesave-málið, og var það mjög í sama dúr og ég hef skrifað síðustu daga í Evrópuútgáfu Wall Street Journal og danska viðskiptablaðið Børsen.

Ég kvað margt fleira sameina sjálfstæðismenn en sundra þeim og taldi fullvíst, að núverandi forysta flokksins myndi læra af þessu máli. Verkefnið framundan væri að þétta raðirnar og stöðva þau skemmdarverk, sem núverandi vinstri stjórn væri að vinna á atvinnulífinu.

Draugar frá nítjándu öld gengju hér ljósum logum, til dæmis hugmyndir Karls Marx um stighækkandi tekjuskatt og Henrys Georges um innheimtu sérstakrar rentu af auðlindum.

Ég gerði sérstaklega að umtalsefni raddir tveggja framúrskarandi fræðimanna, sem nýlega hefðu hljómað: Dr. Þór Whitehead prófessor hefði fyrir síðustu jól birt stórfróðlega bók um Sovét-Ísland. Óskalandið. Enn hefðu þær hugmyndir, sem gömlu, íslensku kommúnistarnir börðust fyrir, ekki verið kveðnar niður, þótt ótrúlegt mætti virðast. Dr. Þráinn Eggertsson prófessor hefði síðan í nýlegu og yfirgripsmiklu viðtali í Frjálsri verslun útskýrt, hversu mikilvægar margar stofnanir væru hverri þjóð. Íslendingar hefðu til dæmis myndað eina skilvirka kerfið, sem til væri í fiskveiðum, kerfi ótímabundinna og framseljanlegra aflaheimilda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband