Bréf til blaðamanna DV

Ég sendi miðvikudaginn 31. mars eftirfarandi bréf til tveggja blaðamanna DV, þeirra Jóhanns Haukssonar og Jóns Bjarka Magnússonar:

 

Ágætu blaðamenn á DV!

Ég fer  fram á það með tilvísun til 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, að þið birtið eftirfarandi leiðréttingar við fréttaflutning ykkar af mér síðustu daga.

1. Þið leituðuð til mín, eins og rétt var af ykkur og eðlilegt að gera, áður en þið birtuð frétt um stuðning Landsbankans við eitt kynningarátak fyrirtækis þess, sem ég rek. Þið hafið hins vegar ekki leitað til mín vegna þeirra frétta, sem þið hafið birt um verkefni, sem fjármálaráðuneytið fékk Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að annast, um að meta áhrif skattalækkana, en ég hafði umsjón með því. Það veldur því, að fréttir ykkar um það eru ónákvæmar. Með því að leita ekki til mín um þessar fréttir hafið þið brugðist starfsskyldum ykkar. Hægðarleikur hefði verið fyrir ykkur að leita til mín.

2. Þá hefði ég getað frætt ykkur á því, að upplýst var fyrir mörgum mánuðum í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns vegna fyrirspurnar hans um verkefni fræðimanna á félagsvísindasviði Háskóla Íslands fyrir opinbera aðila, að fjármálaráðuneytið hefði fengið Félagsvísindastofnun til að annast þetta verkefni um áhrif skattalækkana og greiddi fyrir það umsamda upphæð, 10 millj. kr. auk virðisaukaskatts. Þetta var því engin frétt. Þetta hafði komið fram áður opinberlega.

3. Ef þið hefðuð leitað til mín, eins og rétt og eðlilegt hefði verið, þá hefði ég líka getað frætt ykkur á því, að verkefninu lauk vorið 2009 með rækilegri skýrslu, sem send var fjármálaráðuneytinu. Væri mér ljúft, ef þeirri skýrslu væri dreift sem víðast.

4. Þá hefði ég einnig getað frætt ykkur á því, að í bókinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör kemur skýrt fram í formála, að þetta rannsóknarverkefni var unnið fyrir fjármálaráðuneytið. Þetta var því engin frétt. Þetta hafði komið fram áður opinberlega. Í fyrstu tveimur neðanmálsgreinum bókarinnar eru talin upp þau verk, sem urðu til í rannsókninni, þar á meðal tvær bækur, önnur á ensku, hin á íslensku, og margar ritgerðir og greinar. Einnig voru þar taldir upp fyrirlesarar og höfundar tengdir verkefninu. Þetta var raunar líka flest eða allt nefnt á heimasíðu verkefnisins, skattamal.is. Ekkert af þessu var neitt leyndarmál.

5. Þá hefði ég enn fremur getað frætt ykkur á því, að sjálfur fékk ég ekki eina einustu krónu af því fé, sem fjármálaráðuneytið greiddi Félagsvísindastofnun fyrir rannsóknarverkefnið, enda var aldrei til þess ætlast eða um það rætt.

Ágætu blaðamenn. Það, sem er nýtt í fréttum ykkar, er rangt. Það, sem er rétt í fréttum ykkar, er gamalt.

Vinsamlegast, Hannes H. Gissurarson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband