Viðtal í Morgunútvarpi Rásar tvö

kjarni_malsins_jpg.jpgÉg spjallaði í gærmorgun, 12. nóvember, við þá Frey Eyjólfsson og Guðmund Pálsson á Morgunútvarpi Rásar tvö um nýútkomna bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem hefur að geyma hátt í tíu þúsund tilvitnanir á 992 bls. Ég sagði þeim Frey og Guðmundi, að í þessu verki brygði ég mér úr gervi vígamannsins, sem margir þekkja mig í, og í hlutverk þjóðlegs fræðimanns.

Með þessari bók reyndi ég að smíða brú milli kynslóðanna, forða frá gleymsku ýmsu, sem sagt hefur verið viturlegt, snjallt eða sögulegt á Íslandi og annars staðar í aldanna rás. Ég lagði mikið á mig til þess, að þetta yrði gagnleg handbók öllum þeim, sem þurfa að semja greinar eða ræður eða finna af öðrum ástæðum tilvitnanir um ákveðin efni. Jafnframt vildi ég, að bókin yrði fróðleiksnáma þeim, sem gaman hafa af grúski, og opin gátt til frekari lesturs.

Ég hef unnið að þessu verki í fimmtán ár, frá því að ég gaf út Íslenskar tilvitnanir 1995, en þessi bók er þó í rauninni ný, þrefalt lengri og með miklu rækilegri skýringum. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóginn, til dæmis sagnaþulir eins og Pétur Pétursson, Magnús Óskarsson, Eiríkur Jónsson og Kristján Albertsson, og árvökulir og fróðir yfirlesarar eins og Aðalgeir Kristjánsson, Eiríkur Hreinn Finnbogason, Jóhannes Halldórsson og Jón S. Guðmundsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband