Merkileg ummæli breska varnarmálaráðherrans

Í viðtali við norska blaðið Aftenposten í dag, 11. nóvember, segir Liam Fox, varnarmálaráðherra Breta: „Framkoma fyrrverandi ríkisstjórnar Bretlands í garð Íslendinga í efnahagskreppunni var alls ekki mjög fáguð. Við munum hér eftir leggja mikla áherslu á samstarfið með samstarfsaðilum okkar í Norður-Evrópu.“

Hér er vægilega til orða tekið. Ótrúlegt er, að Bretar skyldu beita hryðjuverkalögum sínum gegn Landsbankanum (og raunar skamma stund einnig gegn Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu íslenska). Þeir áttu tvímælalaust sinn þátt í íslenska bankahruninu.

Einnig er ótrúlegt, að Bretar skyldu ekki veita bankanum í eigu Kaupþings, Singer & Friedlander, neyðaraðstoð í hruninu einum breskra banka.

Einhverjir svara því eflaust til, að eigendur og stjórnendur íslensku bankanna hafi ekki notið trausts. Þeir, sem svo mæla, ættu að líta á eigendur og stjórnendur annarra banka, sem hvorki voru settir á lista um hryðjuverkasamtök eins og Landsbankinn né lagðir að velli með beinum aðgerðum eins og banki Kaupþings. Þeir voru svo sannarlega engir englar allir.

Af einhverjum ástæðum hættir Íslendingum til að gleyma því, hversu mikinn þátt Bretar áttu í bankahruninu með hinni ruddalegu og óþörfu framkomu sinni. Áhrifamiklir menn á Íslandi hafa hag af því að einblína á innlendar orsakir hrunsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband