Sálin gráni ekki

Í leikriti Shakespeares, Rómeó og Júlíu, heldur Capulet gamli dansleik, en þegar hann sér jafnaldra sinn einn taka þátt í dansinum, bandar hann honum frá og segir: „Við erum báðir vaxnir upp úr dansi!“ Þótt ég hafi orðið sjötíu og eins árs í febrúar á þessu ári, get ég ekki sagt, að ég sé vaxinn upp úr dansi, og naut ég þess á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro um það leyti.

Hitt er annað mál, að hárið hefur gránað með aldrinum. Rifjast þá upp, þegar þeir Steinn Steinarr og Dósóþeus Tímóteusson (sem aðallega var frægur fyrir sitt óvenjulega nafn) sátu saman við borð á Hressingarskálanum í Austurstræti einn góðan veðurdag árið 1951. Kom Dósóþeus auga á Tómas Guðmundsson annars staðar í salnum og sagði við Stein: „Hér situr Tómas skáld!“ Steinn mælti þá fram vísu, sem þegar varð fleyg.

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,
bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.
Ó, vinur, hvað mig tekur sárt að sjá,
að sálin hefur gránað fyrr en hárið.
 

Steinn var reiður Tómasi, sem hafði skopstælt órímuð ljóð Steins í vinsælum hláturleik (revíu) í Reykjavík, Bláu stjörnunni. Vísan er til í nokkrum útgáfum, en hér hef ég hana frá eiginkonu Steins, Ásthildi Björnsdóttur.

Auðvitað var þessi fyndni Steins ómakleg. Tómasi Guðmundssyni hafði aðeins orðið það á að vera ekki sami skipbrotsmaðurinn í lífinu og margir íslenskir rithöfundar. Þó fæ ég ekki betur séð en Steinn hafi í vísunni óafvitandi gefið það ráð, sem við á áttræðisaldri ættum sem flest að fylgja: að gæta þess, að sálin gráni ekki um leið og hárið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.)  

 

Palestínu-Arabar í Danmörku

Hegel sagði í inngangi að Söguspeki sinni, að þjóðir hefðu aldrei lært neitt af sögunni. Sennilega er eitthvað til í þessu. Íslendingar hyggjast nú taka við um 100 hælisleitendum frá Palestínu. Þetta er sami fjöldi og önnur Norðurlönd ætla að taka við til samans (en því til viðbótar taka þau auðvitað við eigin ríkisborgurum). En hvað skyldi sagan segja okkur?

Árið 1991 komst hópur 321 Palestínu-Araba til Danmerkur. Þeir leituðu hælis, en var synjað af þar til bærum yfirvöldum. Þá lögðu um hundrað þeirra undir sig kirkju í Kaupmannahöfn, og reis nú samúðarbylgja með þeim. Kim Larsen hélt tónleika þeim til stuðnings, og Anker Jørgensen, fyrrverandi forsætisráðherra, heimsótti þá í kirkjuna. Samþykktu vinstri flokkar á þingi sérstök lög árið 1992 um að veita fólkinu hæli.

Dönsk ráðuneyti hafa birt tölur um, hvernig þessum hópi hefur reitt af árin 1992–2019. Af þessum 321 Palestínu-Araba hafa 204, um tveir þriðju, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 71 fangelsisdóma. Af þessum 321 eru 176 eða röskur helmingur á framfæri hins opinbera.

Sumir benda á, að tölurnar séu ekki eins slæmar fyrir afkomendur þess. Þeir eru 999 talsins. Af þeim hafa 337, einn þriðji, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 132 fangelsisdóma. Af þessum 999 manna hópi eru 372 á bótum, en tekið er fram, að af þeim bótaþegum séu 194 í starfsþjálfun.

Auðvitað eru Palestínu-Arabar að upplagi hvorki betri né verri en aðrir. En í menningu þeirra er ofbeldi liðið og jafnvel lofsungið og ekkert talið rangt við að þiggja bætur, þótt fólk sé fullhraust og geti unnið fyrir sér sjálft.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (5)

Aliber-Robery-ZNýlega kvartaði dr. Gylfi Zoëga undan því í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti aðallega við mig. Í skrifum sínum gerir dr. Gylfi mikið úr varnaðarorðum prófessors Roberts Z. Alibers um bankana vorið 2007. Aliber er þó ekki óskeikull. Hann spáði því í ársbyrjun 2010, að Grikkland myndi hrökklast út af evrusvæðinu, og í árslok 2013, að evrusvæðið myndi klofna í tvennt. Hvorugt gekk eftir. En ef maður þeytist um og spáir alls staðar ósköpum, þá hljóta einhverjar spárnar loks að rætast.
Aliber er þó glúrinn náungi, og dr. Gylfi hefði mátt taka mark á honum um tvennt. Í bókinni Manias, Panics, and Crashes: A History of Financial Crises, sem Aliber samdi ásamt Charles P. Kindleberger, er bent á (í 5. útg. 2005, 104. bls.) greinarmuninn á tvenns konar orsökum fjármálaáfalla: „causa remota“ (fjarlæg orsök) eru hin almenn skilyrði fyrir áfalli, en „causa proxima“ (nálæg orsök) sjálf kveikjan að áfallinu. Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu gerði aðeins grein fyrir „causa remota“, stærð bankakerfisins, sem var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, ekki nægilegt. Nefndin horfði fram hjá „causa proxima“, sem var, að Íslandi var synjað um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og grannþjóðir fengu, svo að áhlaup á bankana leiddi til falls þeirra. Hún reyndi ekki að skýra þessa synjun.
Í Heimildinni heldur dr. Gylfi því fram, að Íslendingar hafi gert þrennt rétt í bankahruninu, að ábyrgjast ekki allar skuldir bankanna, að koma í veg fyrir bankaáhlaup innan lands með því að ábyrgjast innlendar innstæður og að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur rétt fyrir sér um fyrsta atriðið. En annað atriðið er ekki nákvæmt hjá honum: Ríkið gerði með lögum allar innstæður að forgangskröfum, jafnt erlendar og innlendar, en ábyrgðist ekki sérstaklega innlendar innstæður (á annan hátt en með almennum hughreystingarorðum, sem þó hrifu). Og um þriðja atriðið sagði Aliber: Fylgið áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en takið ekki lán hjá honum. Þetta stóra lán var aldrei notað, en bar háa vexti. Hér hafði Aliber rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.)


Bloggfærslur 26. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband