Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Höldum í frjálst framsal

Kvótakerfið í sjávarútvegi snýst ekki um ástand fiskistofna. Það er hlutverk fiskifræðinga að rannsaka slíkt ástand. Ég skal ekkert um það segja, hversu nákvæmar niðurstöður þeirra eru, en hitt veit ég, að okkur býðst ekkert betra. Ef til vill hafa veiðar ekki úrslita­áhrif á stofna. En við verðum að trúa því, að þær hafi einhver áhrif, enda stækkuðu stofnarnir, þegar lítið var veitt í seinni heimsstyrjöld. Líffræðileg ofveiði er til. Við verðum að treysta fiskifræðingum um það, hver hún sé. Ef þeir segja okkur, að við verðum að minnka veiðar úr einstökum stofnum, þá hljótum við að fara eftir því.

Kvótakerfi til að hagræða

Kvótakerfið í sjávarútvegi snýst um annað. Þegar aðgangur er ótakmarkaður að takmarkaðri auðlind, eykst sóknin í hana, þangað til allur gróði af henni hefur horfið í aukinn kostnað. Þetta er lögmál, sem ekki er deilt um í alvöru. Staðfestingu þess getur að líta um allan heim. Við Íslendingar kynntumst þessu vel fyrir 1980. Þá óx flotinn miklu hraðar en aflinn. Við sóuðum miklu fé í of mörg skip, sem voru að eltast við sífellt minni síldar- og þorskstofna. Einfaldast er að sjá þetta fyrir sér með því að segja, að sextán bátar hafi veitt fisk, þegar aðeins þurfti átta.

Verkefnið þá var að fækka bátunum úr sextán í átta. Tvær leiðir voru til. Sumir vildu, að fækkunin yrði framkvæmd með því, að ríkið byði upp aflaheimildir, sem verðlagðar væru svo hátt, að aðeins átta betur reknu bátarnir yrðu eftir á miðunum. Hinir átta bátarnir, sem verr væru reknir, gætu ekki greitt uppsett verð og yrðu að hætta veiðum. Þannig fengist hagræðingin á einum degi. Aðrir, þar á meðal við Ragnar Árnason prófessor og sjávarútvegsráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson, lögðu til, að allir sextán bátarnir fengju aflaheimildir, sem nægðu átta bátum til hagkvæms reksturs. Þeir mættu síðan versla með þessar aflaheimildir. Þannig myndi bátunum smám saman fækka úr sextán í átta. Hagræðingin yrði hæg og sársaukalítil. Þessi leið var sem betur fer valin.

Óréttmæt gagnrýni

Það er mikilvægt að skilja, að einn tilgangur kvótakerfisins var einmitt að fækka bátunum. Þeir voru of margir. Þess vegna er það kostur á kerfinu, ekki galli, þegar aflaheimildir eru sameinaðar og færðar frá tveimur bátum á einn. Samt er jafnan rekið upp ramakvein, þegar það gerist. Frjálst framsal aflaheimilda gegnir því hlutverki að flytja heimildirnar þangað, sem þær eru best nýttar.

Sjónvarpið flutti nýlega margar fréttir af Flateyri, en þaðan hafa aflaheimildir flust. Verkafólkið, sem sást í fréttunum, var að vísu nær allt útlent. En hvað skal gera? Halda með ríkisstyrkjum uppi rekstri, þar sem hann er óhagkvæmur? Ef útgerð borgar sig á Flateyri, þá hljóta heimamenn að geta keypt þangað aflaheimildir. Ef útgerð er ekki hagkvæm þar, þá verða Flateyringar að sæta sömu reglu og Reykvíkingar og svipast um eftir öðrum tækifærum. Í Reykjavík hætta fyrirtæki rekstri, án þess að Sjónvarpið flytji um það sérstakar fréttir. Starfsmenn slíkra fyrirtækja leita sér að annarri vinnu og finna, því að ekkert atvinnuleysi er á Íslandi ólíkt því, sem gerist í Evrópusambandinu.

Gagnrýni Morgunblaðsins á eigendur Brims, þá Guðmund og Hjálmar Kristjánsson, fyrir að vilja kaupa Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum er einnig óréttmæt. Þeir höfðu fullt frelsi til að gera sitt tilboð. En að sjálfsögðu höfðu hagsmunaaðilar í Vestmannaeyjum líka fullt leyfi til að selja ekki hlutabréf sín eða kaupa.

Enga styrkjastefnu

Við verðum að treysta ráðum fiskifræðinga, um leið og við hljótum að halda fast við frjálst framsal aflaheimilda. Við megum ekki taka upp styrkjastefnu í sjávarútvegi, enda er þá hætt við, að Ísland allt verði að einhvers konar byggðasafni, sem duglegt fólk flyst frá og heimsækir aðeins á sumrin í því skyni að horfa vorkunnsamlega á afturúrsiglarana og óska sjálfu sér til hamingju í huganum með að hafa sloppið út. Lífskjör verða að vera hér jafngóð eða betri en í grannlöndunum, og það gerist ekki, nema við hagræðum sífellt í rekstri. Kvótakerfið í sjávarútvegi er einn þátturinn í því.

Fréttablaðið 8. júní 2007. 


Hvað hef ég lært af lífinu?

Ég sat ungur við fótskör nokkurra helstu hagfræðinga tuttugustu aldar, þeirra Friedrichs von Hayeks, Miltons Friedmans og James M. Buchanans. Ég lærði af þeim, að mannlegt samlíf getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt og að eins gróði þarf ekki að vera annars tap. Ég kynntist líka heimspekingunum Karli Popper og Robert Nozick, sem kenndu mér, að frelsið er heppilegra til að bæta heiminn en valdið. Þessar hugmyndir hafa verið leiðarljós mitt og baráttumál. Sem betur fer hefur Ísland frá 1991 breyst í þá átt, sem ég og samherjar mínir horfðu til.

Hugmyndir varða ekki mestu í lífi einstaklingsins, þótt framvinda sögunnar ráðist af þeim. Þar hef ég lært af eigin reynslu og annarra, að tilgangur lífsins er lífið sjálft, en það á sér tvær birtingarmyndir. Önnur er fjölskyldan í víðum skilningi, framlenging sjálfsins. Það hafa allir þörf fyrir að annast um aðra, vera með öðrum, treysta öðrum og vera treyst. Einn er maðurinn ei nema hálfur, orti skáldið. Hin birtingarmyndin er heilsan. Það er aðeins, þegar heilsan bregst, að menn átta sig, hversu mikils virði hún er. Menn eiga því að kappkosta að rækta fjölskylduna og heilsuna, því að með því rækta þeir lífið.

Ég hef lært margt annað á lífsleiðinni, þótt ekki sé víst, að ég breyti alltaf eftir því, enda getur holdið verið veikt, þótt andinn sé reiðubúinn. Einn lærdómurinn er, að ég veit ekki eða kann allt, fremur en nokkur annar. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur mennina að skipta með okkur verkum. Ég tel til dæmis, þótt ég hafi mikinn áhuga á stjórnmálum, að kröftum mínum sé betur varið til að skrifa og skrafa um stjórnmál en til að veiða atkvæði. Þess vegna hef ég aldrei sóst eftir því að fara í framboð. Þar hafa aðrir meiri hæfileika og eiga að beita þeim þar. Annað dæmi er, að ég hef gaman af að hlusta á söng, en kann ekki að syngja sjálfur. Við frjáls viðskipti og önnur samskipti geta menn einmitt notið hæfileika hvers annars án þess að hafa þá.

Þessu skylt er það, að við eigum ekki að gera okkur of miklar áhyggjur af því, sem við fáum engu breytt um. Við verðum að una hlutskipti okkar. Vandinn er hins vegar að vita, hvað það er, sem við getum haft áhrif á, og hvað ekki. Enn annar lærdómur minn er, að við eigum aldrei að gefast upp, þótt á móti blási. Það kemur dagur eftir nótt. En um leið og við eigum að herða upp hugann, eigum við að hita upp sálina til að sleppa við kal. Við höfum mörg dæmi um það hér á landi, til dæmis Björgólf Guðmundsson bankaeiganda, sem hefur sloppið ókalinn á hjarta úr miklum raunum. Líf hans ætti að vera öðrum fordæmi.

Til er góð spurning: Hvað myndir þú gera, væri þér sagt, að þú ættir aðeins eitt ár eftir ólifað og héldir fullri heilsu það ár? Ég veit, hvert mitt svar væri. Ég myndi í fyrsta lagi reyna að leggja þeim lið, sem eru í einhverjum skilningi vandamenn mínir. Þar held ég, að eina raunverulega hjálpin sé fólgin í að auðvelda þeim að afla sér menntunar og kaupa sér fasteign. Menn hjálpa til dæmis börnum ekki með því að fleygja í þau peningum. Ég myndi í öðru lagi reyna að sættast við andstæðinga mína. Það er ekkert eins gott fyrir sálarlífið og að fyrirgefa. Ég myndi í þriðja lagi reyna að njóta lífsins eins vel og ég gæti. En þá vaknar önnur góð spurning: Hvers vegna að gera þetta aðeins, ef ég á aðeins eitt ár eftir? Hvers vegna ekki að gera þetta allt, jafnvel þótt ég eigi mörg ár eftir? 

Ísafold, júní 2007. 


Sigur Davíðs

Thatcher í NewsweekÞegar Tony Blair vann kosningasigur í Bretlandi 1997, birti bandaríska vikuritið Newsweek mynd af Margréti Thatcher á forsíðu undir fyrirsögninni „Hinn raunverulegi sigurvegari “. Það voru orð að sönnu, því að Blair vék lítt frá þeirri stefnu, sem Thatcher hafði markað frá 1979 við heiftarlega andstöðu flokkssystkina Blairs. Hinn nýi forsætisráðherra Verkamannafloksins hafði óbeint viðurkennt, að járnfrúin hafði haft rétt fyrir sér. Þegar Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 12. maí 2007, gerðist svipað. Fylgt var nær óbreyttri stjórnarstefnu. Þetta var sigur Davíðs Oddssonar. Eftir hörð átök fyrri ára viðurkenndi hinn nýi samstarfsflokkur óbeint, að Davíð hafði haft rétt fyrir sér.

Við erum fljót að gleyma. Þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína 30. apríl 1991, þótti eðlilegt, að ríkið ræki atvinnufyrirtæki í samkeppni við einkaaðila. Enn sjálfsagðara var talið, að ríkið styrkti þau fyrirtæki, sem gætu ekki staðið á eigin fótum. Skattar á fyrirtæki voru þungir, 45%, þótt fæst greiddu þá vegna tapreksturs. Skattar á einstaklinga voru einnig þungir. Verðbólga hafði um langt skeið verið miklu meiri en í grannríkjunum og þrálátur hallarekstur á ríkissjóði. Stjórnmálamenn og umboðsmenn þeirra skömmtuðu mestallt tiltækt fjármagn, og þá skiptu flokksskírteini ósjaldan meira máli en hæfileikar til nýsköpunar.

Davíð lagði til atlögu við þennan Golíat. Hann tæmdi hjá sér biðstofuna með því að leggja niður opinbera sjóði. Hætt var að nota almannafé til að halda uppi taprekstri fyrirtækja. Með aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum hjaðnaði verðbólga niður í hið sama og í grannlöndunum (en þjóðarsáttin svonefnda frá 1990 snerist í raun aðeins um tímabundna verðstöðvun). Hallarekstri ríkisins var snúið í afgang, sem nýttur var til að greiða upp skuldir. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í 18%, en skatttekjurnar jukust samt stórkostlega. Þær runnu til stóraukinnar velferðaraðstoðar. Á Íslandi eru barnabætur til láglaunafólks og lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Norðurlöndum. Fátækt er hér samkvæmt alþjóðlegum mælingum ein hin minnsta í heimi og tekjuskipting tiltölulega jöfn.

Eignaskattur, sem bitnað hafði á öldruðu fólki með lágar tekjur og talsverðar eignir og þess vegna verið kallaður ekknaskattur, var felldur niður. Erfðafjárskattur var stórlækkaður. Tekjuskatturinn, sem ríkið innheimtir af einstaklingum, lækkaði úr 31% í 23% á tíu árum. Þó hafa skatttekjur ríkisins af þessum skatti stóraukist. Áður hafði ríkissjóður haft litlar sem engar tekjur af fjármagnseigendum, enda hafði arður verið lítill í fyrirtækjum, húsaleigutekjur lítt komið fram í skattframtölum og vaxtatekjur verið skattfrjálsar. Nú varð til nýr fjármagnstekjuskattur, sem reynst hefur ríkinu drjúg tekjulind. Hinar stórfelldu skattalækkanir frá 1991 hafa skilað stórkostlegum árangri.

Einkavæðingin skilaði ekki síður árangri. Fyrirtæki ríkisins voru seld fyrir mikið fé, röska 100 milljarða króna. Það var eins og þau lifnuðu þá við, sérstaklega viðskiptabankarnir. Önnur tegund einkavæðingar fólst í því, að fjármagn, sem áður var óvirkt, eigendalaust, óskráð, óveðhæft og óframseljanlegt, varð nú virkt. Það var leyst úr læðingi í orðsins fyllstu merkingu. Þetta á bæði við um samvinnufyrirtæki og fiskistofna, en árin eftir 1990 festist kvótakerfið í sessi og er nú öfundarefni annarra þjóða, sem tapa stórfé á fiskveiðum. Mikið fjármagn hefur safnast saman í íslensku lífeyrissjóðunum, sem eru að fyllast, á sama tíma og lífeyrissjóðir margra grannþjóða eru að tæmast. Hina ævintýralegu útrás síðustu ára má rekja til þess, að hér myndaðist feikilegt nýtt fjármagn, um leið og fyrirtækjum var búið hagstætt umhverfi.

Stjórnarsáttmáli Þingvallastjórnarinnar nýju ber með sér, að Samfylkingin vill læra af reynslunni. Þar er lögð áhersla á að skapa íslensku atvinnulífi samkeppnishæft umhverfi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem forðum virtist lifa og nærast á andstöðu við Davíð Oddsson, tekur nú undir þau sjónarmið, sem hann beitti sér fyrir. Áður hafði gamall mótherji Davíðs, Ólafur Ragnar Grímsson, vakið á sér athygli með ötulum stuðningi við íslensku útrásina. Sinnaskiptum þessara fornu fjandmanna Davíðs ber að fagna. Sumir eru önnum kafnir að strika út af listum, til dæmis Jóhannes í Bónus, eins og alræmt varð í nýliðnum þingkosningum. Aðrir telja betra að bæta við á listum, fjölga frekar samherjum en andstæðingum, sættast, þar sem sættast má. Forsætisráðherra Þingvallastjórnarinnar, Geir H. Haarde, er bersýnilega í þeim hópi. Hann lyftir merkinu frá Davíð fumlaust.

Fréttablaðið 1. júní 2007. 


Hádegisviðtal á Stöð tvö

Ég var í hádegisviðtali á Stöð tvö laugardaginn 19. maí 2007, sem sjá má hér. Daginn eftir var ég í umræðuþætti Jóhanns Haukssonar á Útvarpi Sögu, sem hlusta má á hér.

Úrslit kosninganna

xd_malefni_trausturgrunnurÞegar Davíð Oddsson stóð upp úr stól borgarstjóra sumarið 1991, var tekist harkalega á um eftirmann hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Þau átök áttu eflaust þátt í því, að vinstri menn unnu meiri hlutann í borgarstjórn 1994. Augljóst er, að Davíð ætlaði ekki að láta hið sama gerast, þegar hann hvarf úr ráðherraembætti haustið 2005. Hann hafði undirbúið forystuskiptin vandlega, enda heppnuðust þau vel. Geir H. Haarde, sem Davíð studdi til formennsku, er mildur og þó fastur fyrir, vel menntaður og þaulreyndur úr starfi fjármálaráðherra. Í leiðtogahlutverkinu hefur hann á skömmum tíma unnið sér almennt traust. Hann ber með sér, að hann er góðgjarn og sanngjarn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sómir sér vel við hlið hans, kona með mikinn kjörþokka, baráttuglöð og vígfim. Undir hinni nýju forystu vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur í þingkosningunum 12. maí. Fylgi hans jókst talsvert upp fyrir meðaltal síðustu þrjátíu ára, þótt hann hafi leitt ríkisstjórn í sextán ár samfellt.

Forystuskiptin í Framsóknarflokknum tókust miður. Fyrst viku af vettvangi þeir tveir menn, sem þóttu hvað frambærilegastir og eðlilegastir eftirmenn Halldórs Ásgrímssonar, Finnur Ingólfsson og Árni Magnússon. Seint verður síðan sagt, að Halldór sjálfur hafi farið frá með glæsibrag. Sá vandræðagangur allur á áreiðanlega þátt í, að Framsóknarflokkurinn galt afhroð í kosningunum. Margoft hefur einnig verið bent á, að fylgistapið var mest á suðvesturhorninu. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hlaut flokkurinn svipað fylgi og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári. Það hefur vitanlega sínar afleiðingar, að flokkurinn bauð þar ekki fram í tólf ár undir eigin nafni. Í þriðja lagi hafa sum ráðuneyti reynst flokknum erfið. Vert er þó að bera saman frammistöðu Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Eftir tólf ára stjórnarsetu tapaði Framsóknarflokkurinn 6% atkvæða frá síðustu kosningum. Eftir tólf ára stjórnarandstöðu tapaði Samfylkingin 4% atkvæða. Í því ljósi er tap Samfylkingarinnar sýnu tilfinnanlegra.

Aðalatriðið er, að ríkisstjórnin hélt velli. Síðustu sextán ár hefur Ísland tekið stakkaskiptum. Atvinnufrelsi hefur aukist stórkostlega, eins og alþjóðlegar mælingar sýna. Biðstofa forsætisráðherrans var tæmd, og nú ræður aðgangsharka í opinbera sjóði ekki ferðinni, heldur hæfileikar manna til að reka fyrirtæki. Fjármagn, sem áður lá eigendalaust og hálfdautt í ýmsum ríkis- eða samvinnufyrirtækjum, hefur lifnað við í höndum nýrra eigenda. Þrálát verðbólga fyrri tíðar hjaðnaði niður í hið sama og í grannríkjunum. Skuldir ríkisins voru greiddar upp. Skattar voru stórlækkaðir, úr 45% í 18% á fyrirtæki á tíu árum (1991-2001) og úr 41% í 36% á einstaklinga, líka á tíu árum (1997-2007). Virðisaukaskattur var einnig lækkaður á margvíslegum nauðsynjum. Þetta hefur leitt til aukinnar verðmætasköpunar, svo að skatttekjur ríkisins hafa stóraukist, jafnt af fyrirtækjum og einstaklingum. Fjármagnstekjur, sem áður voru óverulegar, skila einnig miklu í ríkissjóð.

Velferðarmál voru ekki vanrækt á þessum uppgangstímum. Lífeyrissjóðirnir íslensku eru hinir öflugustu í heimi, og þeir eru að fyllast, á meðan lífeyrissjóðir annarra landa eru að tæmast. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur á hvern lífeyrisþega hæstar á Íslandi, þótt nokkrir brallarar hafi haldið öðru fram í kosningabaráttunni (og var brella þeirra fólgin í því að reikna út lífeyristekjur á hvern mann á lífeyrisaldri, en á Íslandi vinna fleiri á þeim aldri fulla vinnu en annars staðar á Norðurlöndum og taka lífeyri síðar). Hér eru framlög ríkisins til þjónustu við aldraða líka hæst á hvern mann. Barnabætur á hvert barn eru hér hæstar á Norðurlöndum, en munurinn sá, að ríkir foreldrar fá ekki barnabætur, enda þurfa þeir þær ekki (og þess vegna er meðaltalið ekki hæst). Samkvæmt nýlegri könnun Evrópusambandsins eru færri hér undir eða við fátæktarmörk en víðast annars staðar í Evrópu. Tekjuskipting er hér líka jafnari. Hún er örlitlu jafnari í Svíþjóð og Slóveníu og ójafnari í 27 öðrum Evrópulöndum. Holur hljómur var því í öllu tali stjórnarandstöðunnar um aukinn ójöfnuð. En nú varðar mestu, að haldið sé áfram á sömu braut. Þess vegna má vinstri stjórn ekki taka við.

Fréttablaðið 18. maí 2007. 


Kaupstaðarferð

SteinnSteinarrSteinn Steinarr sagði í miðnætursamtali við Matthías Johannessen vorið 1957: „Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veist, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég enn vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hef gleymt því hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa.“

Í Málsvörn og minningum bendir Matthías á, að í Brekkukotsannál (sem kom líka út 1957) leggur Halldór Laxness Garðari Hólm í munn þessi orð: „Hún móðir mín sendi mig einu sinni út að kaupa pipar og ég er ekki kominn heim enn.“ Í netdagbók sinni bætir Þórarinn Eldjárn nú við, að í ljóðinu „Mannsbarn“ eftir sænska skáldið Nils Ferlin getur að líta svipaða hugmynd:

Þú misstir á leiðinni miðann þinn,
þú mannsbarn, sem einhver sendi.
Á kaupmannsins tröppum með tárvota kinn
þú titrar með skilding í hendi.


Ljóð Ferlins kom út í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1944.

Annað dæmi um erlend áhrif á Stein er alþekkt. Bandaríska skáldið Carl Sandburg á talsvert í kvæðinu um grasið, sem grær að lokum yfir okkur. Vísa Leifs Haraldssonar frá Háeyri af því tilefni varð fleyg:

Um hirðusemi er hneyksli næst að fjasa,
sú höfuðdygð af Guði er mönnum veitt,
hjá Carli Sandburg kennir margra grasa,
menn komast varla hjá að taka eitt.

Steinn yrti eftir þetta ekki á Leif. Hann setti líka saman kviðlinginn um kvenmannsleysi í kuldatrekki til háðungar Leifi, sem stamaði.

Sjálfur hef ég bent á þriðja dæmið um erlend áhrif á Stein. Það er í ljóðinu „Hamingjan og ég“, þar sem skáldið kveðst fara á mis við hamingjuna, af því að hún talar sunnlensku og það vestfirsku. Þegar það lærir loks sunnlensku, hefur hún breytt framburði sínum. Í kvæðinu „Frokosten“ (Árbítur) yrkir Johannes V. Jensen:

Lykken og jeg forstod ikke hinanden;
jeg talte altid en Dialekt, hvor jeg saa var.


Þetta ljóð Jensens kom fyrst út á bók 1906.

Matthías Johannessen segir í bók sinni, að þeir Steinn Steinarr og Garðar Hólm hafi átt erindi, því að þeir hafi verið sendisveinar íslenskrar menningar. Ég orða þetta öðru vísi. Garðar átti ekkert erindi, því að hann náði ekki hinum hreina tón og var um of háður fólkinu í Gúðmúnsenbúð. Þess vegna kom ekki á óvart, að hann stytti sér aldur. Steinn gerði sér hins vegar upp tómhyggju. Þótt hann segði margt snjallt um tilgangsleysi lífsins, hafði hann undir niðri sterka sannfæringu um tilgang þess, eins og allir, sem fjölyrða um tilgangsleysi. Steinn grunaði erindið í kaupstaðinn: Grasið grær að vísu yfir okkur, en góð verk geymast í hjörtum eftirlifenda. Hamingjan talar ekkert eitt mál, heldur fer gengi manna á frjálsum markaði eftir því, hversu vel þeim tekst að fullnægja þörfum annarra.

Lífið er ferð í kaupstað, og við eigum þangað erindi. Bjartur Laxness og Halla Jóns Trausta fóru að vísu bæði í öfuga átt, upp á heiðar. Þau áttu að halda niður í kaupstaðinn, og það gerði Halla að lokum ólíkt Bjarti, sem þrjóskaðist við. Saga mannfólksins síðustu aldir hefur verið um kaupstaðarferð, fjölgun tækifæra fyrir tilstilli kapítalismans. Menn hafa vissulega ekki alltaf kunnað málið, þegar þeir komu í kaupstaðinn, en þeir lærðu það langflestir, eins og reynsla Bandaríkjamanna síðustu tvö hundruð ár sýnir. Annað dæmi er Reykjavík. Alla tuttugustu öld streymdi hingað allslaust fólk, sem tókst að brjótast í bjargálnir.

Til voru þeir menn á síðustu öld, sem vildu koma í veg fyrir kaupstaðarferðina og reka alla inn í samyrkjubú eða ríkisverksmiðjur. Steinn var vissulega sósíalisti ungur. En undir lokin orti hann gegn fyrri trú: „Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.“ Þessa hugmynd tók hann bersýnilega frá hinum kunna andkommúnista Arthur Koestler, sem skrifaði í The Yogi and the Commissar 1945: „We are fighting against a total lie in the name of a half truth.“ Þeir Steinn og Koestler vildu báðir leyfa okkur að komast leiðar okkar.

Fréttablaðið 14. maí 2007.

Hverjir selja ömmu sína?

OgmundurÖgmundur Jónasson, alþingismaður Vinstri hreyfingarinnar — Græns framboðs, sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu 2. apríl: „Ég vann á Sjónvarpinu þegar frjálshyggjan var að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu. Milton Friedman var fluttur til landsins af nýstofnuðu Frjálshyggjufélagi, Hayek og Buchanan messuðu einnig yfir landslýð og Hannes Hólmsteinn skrifaði tíu þúsund greinar um hvernig menn ættu að bera sig að við að selja ömmu sína.“

Eitthvað slær hér út í fyrir Ögmundi. Sannleikurinn er þveröfugur við það, sem hann segir. Ég birti eina grein um ömmusölu í DV árið 1983. Ellert Schram, ritstjóri blaðsins, hafði skrifað pistil um það, að frjálshyggjumönnum væri ekkert heilagt. Þeir vildu gera allt að verslunarvöru og jafnvel selja ömmu sína. Í grein minni benti ég Ellert á, að frjálshyggjumenn seldu ekki ömmu sína af þeirri einföldu ástæðu, að þeir ættu hana ekki og gætu þess vegna ekki selt hana. Hún ætti sig sjálf. Sjálfseignarrétturinn væri einn hornsteinn frjálshyggjunnar.

Frjálshyggjumenn selja ekki ömmu sína, af því að þeir geta það ekki. En á árum áður ofurseldu félagshyggjumenn ömmu sína verðbólgu, sem gerði henni ókleift að spara til elliáranna. Þeir notuðu lífeyrissjóðinn, sem hún greiddi í, til margvíslegra „félagslegra verkefna“, svo að ávöxtun hans var lök. Þeir lögðu á hana eignaskatt, sem stundum var kallaður ekknaskattur. Þeir notuðu sparifé ömmu, sem hún hafði í sakleysi sínu lagt í banka, til fjárausturs í fiskeldi, loðdýrarækt og önnur gæluverkefni.

Þetta breyttist 1991. Amma er ekki lengur ofurseld aðgerðum Ögmundar Jónassonar og annars félagshyggjufólks. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Íslandi. Útgjöld ríkisins til þjónustu við aldraða eru einnig hæst á mann á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir íslensku er hinir öflugustu í heimi. Ekknaskattur var lagður niður. Á Íslandi eru einna fæstir aldraðir við eða undir fátæktarmörkum í allri Evrópu. Amma hefur einhverjar lengstu lífslíkur í heimi, og hún sér fram á, að barnabörnum hennar vegni vel, ef þjóðin ber gæfu til að halda áfram íslensku leiðina, sem felst í öflugu atvinnulífi, lágum sköttum, háum launum og rausnarlegri velferðaraðstoð við þá, sem hana þurfa.

Viðskiptablaðið 5. maí 2007. 


Tilgangurinn með þessu

Coelhopaulo26012007-1Brasilíski rithöfundurinn Paulo Coelho segir snjalla sögu. Ferðalangur kemur til Dresden skömmu eftir seinni heimsstyrjöld og sér þrjá menn að vinnu í borgarrústunum. „Hvað eruð þið að fást við?“ spyr komumaður. „Ég er að flytja steina,“ svarar sá fyrsti. „Ég er að sjá fyrir mér og fjölskyldu minni,“ mælir annar. „Ég er ásamt öðrum að endurreisa dómkirkjuna,“ segir þriðji maðurinn. Þetta verður Coelho tilefni til hugleiðinga um tilgang lífsins. Það er ekki fyrr en komumaður heyrir þriðja svarið, sem hann skilur, hvað mennirnir eru allir að gera. Iðja þeirra verður þá skyndilega þrungin merkingu. Það er enginn tilgangur í sjálfum sér að rogast með steina milli staða og því síður í að strita fyrir daglaunum. Í háskólanámi mínu í heimspeki heyrði ég oft svipaðar útleggingar á tilgangi lífsins og merkingu, þótt dæmin væru sjaldan jafnskýr.

Ég velti þessari sögu nýlega fyrir mér. Getur verið, að hún sé margræðari, hafi dýpri merkingu, en Coelho heldur? Fyrri mennirnir tveir segja ýmislegt merkilegt ekki síður en hinn þriðji. Fyrsti maðurinn kveðst vera að flytja steina. Það er eðli menningarinnar að sætta sig ekki við umhverfið, eins og það er, heldur bæta það. Við friðum ekki grjóthrúgur, heldur flytjum steina þaðan, sem þeir eiga ekki að vera, þangað sem þeir eiga að vera. Við röskum sífellt aðstæðum. Svo er tækninni fyrir að þakka, að sjaldnast þarf að rogast milli staða með steina í fangi, heldur má flytja þá til með stórvirkum vinnuvélum. Þetta eru framfarir. Menningin gerir náttúruna sér undirgefna, svo að menn geti betur fullnægt þörfum sínum.

Annar maðurinn segist vera að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Það þurfa allir að gera. En peningar vaxa ekki á trjám. Einhver greiddi fyrir endurreisn dómkirkjunnar í Dresden. Óhætt er að fullyrða, að kirkjan hefði seint risið, hefði þurft að treysta á sjálfboðaliða til verksins. (Saga Coelhos gerbreytir um merkingu, ef mennirnir þrír eru neyddir til starfa sinna.) Íslendingar búa við svo mikla velmegun um þessar mundir, að þeir hafa gleymt þessum frumsannindum. Á okkur dynja á hverju kvöldi sjónvarpsfréttir um óleyst verkefni, sem krefjast aukinna fjárútláta úr opinberum sjóðum, ekki síst til ýmiss konar ógæfufólks. Jafnframt vilja umhverfisöfgamenn loka öllum álbræðslum, sem þeim þykir óprýði að. Þegar þeir halda erindi um hugðarefni sín, taka þeir upp fartölvur til að tengja við skjávarpa og sýna myndir. Auðvitað eru tölvurnar úr áli.

Tvö önnur umhugsunarefni leituðu á mig vegna dæmisögu Coelhos af endurreisn dómkirkjunnar í Dresden. Annað var, hversu miklum fjármunum var áður fyrr varið til að smíða veglegar kirkjur. Vissulega eru til andlegar þarfir. En menn vinna ekki síður Guði með því að bæta líf alþýðufólks, til dæmis með hlýrri húsum, vandaðri vatnsleiðslum, hitalögnum og skólpleiðslum, greiðfærari vegum, fullkomnari sjúkrahúsum.

Hvað olli því síðan, að dómkirkjan í Dresden var rjúkandi rúst árið 1945? Þótt hernaðarsérfræðinga greini á um, hversu nauðsynlegar loftárásir Bandamanna á Dresden voru, má rekja seinni heimsstyrjöld til sósíalismans, ofurtrúarinnar á ríkisvald. Sósíalismi síðustu aldar greindist sem kunnugt í þrjár kvíslir, venjulega jafnaðarstefnu, sem studdist við lýðræði, kommúnisma, þar sem gert var ráð fyrir byltingu strax, og þjóðernisjafnaðarstefnu, en fylgismenn hennar skírskotuðu til þjóðar frekar en stéttar. Flokkur Adolfs Hitlers kallaði sig Þjóðernisjafnaðarflokk þýska verkamanna (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei) og barðist gegn Gyðingum, stórfyrirtækjum og vaxtaokri. Hann vildi hverfa aftur til náttúrunnar undir kjörorðinu „Blut und Boden“, ætt og mold. Dauft bergmál heyrist enn af þessu öllu.

Dresden lá í rústum eftir seinni heimsstyrjöld, vegna þess að þýskir þjóðernisjafnaðarmenn höfnuðu vestrænni menningu, lýðræði og kapítalisma, umburðarlyndi og frelsi, sem engilsaxnesku stórþjóðirnar hafa jafnan staðið dyggastan vörð um, en hefur einnig átt sér bólfestu í löndum litlu þjóðanna í norðri, Hollendinga og Norðurlandamanna. Hinn frjálsi markaður fer ekki í stríð, heldur fjölgar viðskiptatækifærum. Hann þarf hins vegar að geta varið sig, eins og sannaðist á tuttugustu öld. Best er að þurfa ekki að endurreisa neinar dómkirkjur.

Fréttablaðið 5. maí 2007. 


Pétur þulur

426722AVið Pétur Pétursson þulur vorum fjandvinir. Þegar ég setti saman bækur, hringdi ég oft í hann til að fletta upp í honum, því að hann var manna fróðastur um fyrri tíð, einkum um hagi manna og tengsl. Við vorum sammála um málvernd og málvöndun og hneyksluðumst óspart á metnaðarleysi blaðamanna. Pétur hringdi stundum í mig til að skamma mig fyrir blaðaskrif mín. Honum þótti ég hallast of langt til hægri. Hann var eindreginn vinstrisósíalisti. Þótt „íhaldið“ væri aðalóvinurinn í huga Péturs, hafnaði hann líka kreddum kommúnista. Hann var ekki blindur á höfuðspámenn þeirra hér á landi, þá Kiljan og Þórberg. Hann sagði iðulega, að Kiljan væri eins og glóandi peningur, þar sem letrað væri á aðra hlið „Snillingur“, en „Skálkur“ á hina. Þórbergur væri blanda úr fræðaþul, prédikara og trúði: Hann væri í senn Espólín, Vídalín og Sjapplín. Pétur lýsti því ósjaldan í mergjuðu máli, þegar hann var ungur maður sjónarvottur að Gúttóslagnum 1932, þar sem litlu mátti muna, að lögregluþjónar bæjarins væru drepnir. Pétur fylgdi lengi Alþýðuflokknum að málum, en sagðist hafa snúist frá honum í átökunum um utanríkisstefnuna um og eftir 1946. Hann var jafnan andvígur dvöl erlends varnarliðs á landinu.

Pétur hafði volduga rödd og gott vald á íslenskri tungu og var þess vegna ágætur útvarpsþulur, enda starfaði hann í Ríkisútvarpinu áratugum saman. Hann sagði mér, að erfiðast hefði sér reynst að lesa fréttina af því, þegar fyrstu kjarnorkusprengjunni var kastað á Híroshíma 1945. Eftir að um hægðist, sneri Pétur sér að þjóðlegum fræðum og dvaldi löngum stundum á Landsbókasafninu við grúsk. Greinar hans í Morgunblaðinu, þar sem hann rifjaði upp einstaklinga og atvik í Reykjavík á öndverðri tuttugustu öld, voru stórfróðlegar. Pétur var líka gamansamur og kunni ótal hnyttileg tilsvör. Skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, Helgi Hjörvar, hafði mikla rödd eins og Pétur og var vinsæll upplesari. Kalt var milli hans og yfirmanns hans, Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra. Eitt sinn heimsótti þingeyskur bóndi Jónas, sem sýndi honum höfuðstaðinn. Þeir komu að Alþingishúsinu og sáu Helga ganga þangað inn gustmikinn. Bóndi spurði: „Hver er þessi lágvaxni maður, sem stikar stórum og hrindir hurð af slíku afli?“ Jónas svaraði: „Þetta er Helgi Hjörvar.“ Bóndi sagði undrandi: „Nei, er hann svona lítill?“ Þá sagði Jónas af miklum þunga: „Hann er miklu minni.“

Pétur þulur átti góðan kunningja, Hauk pressara, sem ýmislegt skrýtið datt stundum út úr. Pétur átti líka nokkra kunna alnafna. Eitt sinn spurði Haukur pressari Pétur: „Ertu ekki alltaf að fá bréf, sem Pétur í Glerinu á að fá, og líka bréf, sem Pétur í Álafossi á að fá, og þeir að fá bréf, sem þú átt að fá?“ Pétur svaraði: „Jú, en það er gott á milli okkar, og hver fær sitt.“ Þá sagði Haukur: „Þið eruð orðnir of margir. Ég segi það satt. Ég er orðinn þreyttur á þessu.“ Pétur þulur hafði gaman af að segja sögu af einum þessara alnafna, Pétri í Glerinu. Vinur hans, Ewald (Lilli) Berndsen, hafði tekið hann með sér á sýningu á Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar og sagt honum á undan íbygginn, að í sýningarlok væri höfundur jafnan kallaður fram og hylltur með lófataki ásamt leikstjóra og leikendum. Að sýningu lokinni kallaði Pétur í Glerinu hátt og snjallt, svo að heyrðist um allan sal: „Fram með höfundinn!“

Einn skemmtilegasti fundur, sem ég hef sótt, var, þegar við Pétur Pétursson háðum kappræðu í Tjarnarsal ráðhússins í Reykjavík sunnudaginn 1. febrúar 2004. Hún var um „Hvíta stríðið“, sem Pétur kallaði svo, en þar var barist um munaðarlausan, erlendan dreng, sem sósíalistinn Ólafur Friðriksson ritstjóri hafði séð aumur á í utanferð og tekið með sér hingað 1921. Hann reyndist vera með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, og vildi valdstjórnin því senda hann úr landi. Ólafur óhlýðnaðist, og þurfti þá að bjóða út varaliði lögreglu. Á móti henni var skipulögð eins konar andspyrnusveit, og var það fyrsta dæmið, en ekki hið síðasta, um, að sósíalistar á Íslandi beittu ofbeldi í stjórnmálabaráttunni. Pétur hafði fengið áhuga á málinu og grafið upp, að pilturinn hefði síðar fengið bót meins síns í Danmörku. Taldi hann brottvísun hans úr landi hina verstu valdníðslu. Ég var undrandi, þegar ég kom á fundinn, sem Pétur hafði haft allt frumkvæði að og skipulagt. Salurinn var troðfullur! Voru áheyrendur á öllum aldri. Það var áreiðanlega ekki mér að þakka, heldur Pétri. Honum var lagið að kveikja áhuga fólks á því, sem hann fékkst við.

Pétur Pétursson flutti skörulega framsöguræðu, þótt ekki talaði hann skipulega, heldur færi úr einu í annað, eins og honum var tamt. Lagði hann áherslu á, að trachoma væri læknanlegur sjúkdómur, svo að rétt hefði verið að reyna að lækna piltinn hér í stað þess að vísa honum brott. Bar hann augnlækna fyrir því, að sjúkdómurinn væri ekki eins bráðsmitandi og íslensk yfirvöld höfðu haldið fram. Ég svaraði því til, að jafnvel einbeittustu frelsisunnendur vildu takmarka frelsi til að bera smit. Árið 1921 hefðu aðstæður verið erfiðar á Íslandi til að ráða niðurlögum smitsjúkdóms eins og trachoma. Þröngbýlt hefði verið í Reykjavík, fólk fátækt, aðeins tveir sérfróðir augnlæknar á öllu landinu og spánska veikin 1918 öllum í fersku minni, en þá féllu nær fimm hundruð manns. Þetta skýrði viðbrögð valdstjórnarinnar, sem farið hefði að ráði landlæknis. Aðalatriðið væri þó, að Ólafur Friðriksson og bardagasveit hans hefðu í heimildarleysi tekið lögin í sínar hendur. Þeir hefðu reynt með ofbeldi að koma í veg fyrir, að boði yfirvalda væri fylgt, en ekkert ríki gæti þolað borgurum sínum það.

Þessi kappræða snerist upp í einvígi um íslenskan fróðleik. Hvor gat farið með mergjaðri ákvæðavísur og sært fram sterkari stuðningsmenn frá fyrri tíð? Þegar ég vitnaði í gagnrýni Ólafs Björnssonar prófessors á haftabúskapinn, sem félagshyggjumenn komu hér á í því skyni að taka innflutningsverslun úr höndum kaupmanna, svaraði Pétur því til, að Steinn Steinarr skáld hefði farið háðulegum orðum um mág sinn, Ólaf. (Steinn á að hafa sagt, að Ólafur væri eins lélegur hagfræðingur og raun bæri vitni, af því að hann hefði ekki tímt að kaupa dönsku kennslubækurnar, sem settar voru fyrir í háskólanámi hans. Auðvitað er sagan uppspuni.) Þá minnti ég Pétur á, að Steinn hefði snúist frá kommúnisma síðustu æviárin og ort mögnuð kvæði um Kremlverja, sem ég fór með. Þegar ég vitnaði í nýbirt skjöl, sem sýndu, að sósíalistar hefðu þegið fjárhagsaðstoð frá Kreml til að reisa stórhýsi Máls og menningar við Laugaveg 18, „Rúbluna“ svonefndu, rifjaði Pétur upp sögusagnir um, að Kristinn E. Andrésson, forstjóri Máls og menningar, hefði fengið fyrirgreiðslu í Búnaðarbankanum gegn loforði um, að sósíalistar styddu Stefán Hilmarsson, son Hilmars Stefánssonar bankastjóra, til að taka við starfi föður síns. Margt var skrafað á fundinum um Kleppsmálið 1930, Kollumálið 1934 og Kveldúlfsmálið 1937, en af þeim öllum urðu talsverð ærsl á sínum tíma. Skemmtu fundarmenn sér hið besta. En nú mun þrumuraust Péturs Péturssonar ekki heyrast lengur. Hann lést 23. apríl 2007, 88 að aldri.

(Styttri útgáfa birtist sem minningargrein í Morgunblaðinu 5. maí 2007.) 


Minningabrot um Milton Friedman

800px-MFriedm_1_sept_84_Hótel_SagaAf einhverjum ástæðum hef ég borið gæfu til að kynnast vel nokkrum helstu hugsuðum tuttugustu aldar á sviði hagfræði og heimspeki, þeim Karli R. Popper, Milton Friedman, Friedrich A. von Hayek, Robert Nozick og James M. Buchanan. Ég sat ungur maður við fótskör þeirra og hlustaði á hvert einasta orð af athygli. Af þessum fimm öndvegismönnum er Buchanan einn á lífi og enn í fullu fjöri. Þriggja hinna hef ég minnst. Á heimspekivef, sem hýstur er í Háskóla Íslands, er viðtal mitt við Popper. Ég skrifaði stutta minningagrein um Hayek í Morgunblaðið, þegar hann lést 1992, en á eftir að gera betur við hann. Þegar Friedman lést í nóvember 2006, setti ég á blað nokkur minningabrot um hann, sem birtist í vetrarhefti Þjóðmála 2007 og hér má lesa í pdf-skjali.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband