Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.4.2007 | 16:04
Meiri skatttekjur með minni skattheimtu
Jón Baldvin Hannibalsson skrifar ritdóm í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2007 um bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast: Gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. Þar víkur hann svofelldum orðum að mér: Eða klisjan, sem Hannes Hólmsteinn endurtekur í hvert sinn sem hann hyggst sanna, að kapitalisminn sé jafnaðarstefna, nefnilega að lækkun skatta á fyrirtæki hafi aukið skatttekjur ríkisins af þeim, og því beri að ganga lengra í lækkun þeirra. Enginn veltir því fyrir sér, að 30 þúsund framteljendur hafa stofnað utan um sig einkahlutafélag til þess að forðast skattlagningu sem launþegar. Skattahagræðing heitir það. Hefur Jón Baldvin þessa speki eftir Herði, sem fór sjálfur með hana í Silfri Egils 12. mars.
Þessi skýring á auknum skatttekjum ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja stenst ekki. Hér á 1. mynd má sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja hafa hækkað stórkostlega, þótt skattheimtan hafi minnkað úr 45% árið 1991 í 18% 2001 (tölur um árið 2007 eru auðvitað áætlaðar):Það er rétt, að einkahlutafélögum hefur snarfjölgað. Þau voru 1.367 árið 1996, en 24.217 árið 2006. (Af hverju segir Jón Baldvin, að þau séu 30 þúsund?) Einkahlutafélögum fjölgaði hraðast árin 1996-1997, en skatttekjur ríkisins af tekjum fyrirtækja jukust mest árin 2005-2007, eins og sjá má á línuritinu. Þetta veitir sterka vísbendingu um, að ekki megi rekja nema lítinn hluta af auknum skatttekjum ríkisins til fjölgunar einkahlutafélaga. Hér skýtur einnig skökku við: Eitt sinn héldu jafnaðarmenn því fram, að æskilegt væri að fjölga smáfyrirtækjum, en einblína ekki á hin stóru. Þegar smáatvinnurekendum fjölgar, bölsótast þeir yfir því!
Munurinn á skattlagningu á einkahlutafélög og launþega er raunar ekki eins mikill og sumir vilja vera láta. Launþegar greiða nú í mesta lagi 35,78% tekjuskatt. (Þeir inna minna af höndum, ef þeir búa í einhverju þeirra fjögurra sveitarfélaga, sem sjálfstæðismenn stjórna og innheimta lægra útsvar, til dæmis á Seltjarnarnesi.) Berum þetta saman við skattgreiðslur eiganda einkahlutafélags. Fyrirtæki hans greiðir fyrst 18% í tekjuskatt af hagnaði. Síðan greiðir það eigandanum út í arð þau 82%, sem þá eru eftir. Af arðinum þarf maðurinn að greiða 10% fjármagnstekjuskatt eða 8,2% af upphaflegum hagnaði. 18% og 8,2% eru samtals 26,2%. Þetta er hið raunverulega skatthlutfall, sem bera má saman við 35,78% skatthlutfall af launum (sem launþegar greiða þó ekki, fyrr en komið er yfir skattleysismörk). Styrmir Gunnarsson ritstjóri hefur réttilega bent á, að eðlilegt sé að samræma skattheimtu af launþegum og eigendum einkahlutafélaga, en hyggilegast er að gera það með því að lækka tekjuskatt á einstaklinga, ekki með því að hækka fjármagnstekjuskatt.
Hér á 2. mynd má sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af einstaklingum hafa aukist, þótt skattheimta ríkisins af þeim hafi minnkað úr 30,41% árið 1997 í 22,75% 2007 (tölur um það ár eru vitanlega áætlaðar):Bersýnilega er sú kenning röng, sem Hörður Bergmann og Jón Baldvin Hannibalsson halda fram, að meiri skatttekjur af fyrirtækjum séu vegna þess, að einstaklingar hafi stofnað einkahlutafélög og telji því ekki lengur fram sem launþegar. Sameiginleg ástæða til aukinna skatttekna af fyrirtækjum og einstaklingum er, að atvinnulífið hefur blómgast, ekki síst vegna minni skattheimtu. Það er að vísu rétt, sem Hörður Bergmann bendir á í bók sinni, að ýmis stór fyrirtæki ríkisins voru seld árin 2002-2005, og munar þar mest um viðskiptabankana og Símann. Tap þeirra hefur snúist í gróða, svo að þau greiða nú tekjuskatt, en gerðu það ekki áður. En það er lóðið: Í frjálsu atvinnulífi fást miklu meiri skatttekjur af fyrirtækjum og einstaklingum en í ófrjálsu, því að verðmætasköpun er miklu meiri.
Þeir Hörður og Jón Baldvin gera sömu hugsunarvillu og flestir aðrir jafnaðarmenn: Þeir halda, að þjóðarkakan sé föst stærð, svo að stærri sneið eins feli sjálfkrafa í sér smærri sneið annars. En kakan er ekki föst stærð. Við frjálsa samkeppni í vaxandi atvinnulífi þarf eins gróði ekki að vera annars tap. Hér á 3. mynd má síðan sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjum hafa aukist á sama tíma og af fyrirtækjum og einstaklingum (enn er talan fyrir 2007 áætluð):Fyrir 1997 voru fjármagnstekjur ýmist skattlagðar sem launatekjur, til dæmis húsaleiga, eða ekki skattlagðar, til dæmis vaxtatekjur. Það þarf engum að koma á óvart, að skil á húsaleigu hafa til dæmis batnað stórkostlega, eftir að skatthlutfallið lækkaði niður í 10%. Því lægri sem skattar eru, því fúsari verða menn til að greiða þá og því minna verður neðanjarðarhagkerfið.
Ríkisstjórnin, sem hér hefur setið frá 1991, fyrst undir forsæti Davíðs Oddssonar, síðan Halldórs Ásgrímssonar og nú Geirs H. Haarde, hefur enn fremur snarlækkað eða nánast fellt niður tvo dulbúna skatta, verðbólgu og skuldasöfnun hins opinbera. Verðbólga var til 1991 miklu meiri en í grannlöndunum. Hún jafngildir skattlagningu á notendur peninga, eins og allir hagfræðingar eru sammála um, meira að segja Þorvaldur Gylfason prófessor, sem hefur skrifað talsvert um það mál. Fyrir 1991 safnaði ríkið skuldum (meðal annars í fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar) og velti þannig eyðslu sinni yfir á komandi kynslóðir. Nú hefur ríkið nánast greitt upp skuldir sínar. Það sparar ekki aðeins með því mikil vaxtagjöld, heldur léttir álögum af komandi kynslóðum. Jafnframt þarf ríkissjóður Íslands ekki að bera sömu byrði vegna lífeyrisskuldbindinga og ríkissjóðir margra annarra landa. Hér eru sjálfstæðir og sterkir lífeyrissjóðir og raunar einhverjir hinir öflugustu í heimi, enda eru lífeyristekjur þegar orðnar að meðaltali hæstar hér á Norðurlöndum og eiga enn eftir að hækka. Lífeyrissjóðir okkar eru að fyllast, á meðan lífeyrissjóðir annarra þjóða eru að tæmast.
Fjármálastjórn hins opinbera frá 1991 hefur verið til fyrirmyndar. Verður henni helst jafnað til röggsemi og aðhalds Magnúsar Stephensen, þegar hann var landshöfðingi, og Jóns Þorlákssonar í fjármálaráðherratíð hans. Umbætur í skattamálum hafa verið stórkostlegar og skilað sér betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Fjármálaráðherrarnir þrír á þessu tímabili, Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde og Árni Mathiesen, eiga heiður skilinn. Allir eru einhvers bættari vegna blómlegra atvinnulífs, ekki aðeins ríkissjóður. Til dæmis hækkuðu ráðstöfunartekjur hinna 10% tekjulægstu á Íslandi eftir skatt um 2,7% að meðaltali á ári 1995-2004 samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar prófessors. Þetta var 50% meira en í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, O. E. C. D., þar sem ráðstöfunartekjur sama hóps eftir skatt bötnuðu um 1,8% að meðaltali. Kjör þessa hóps hafa batnað enn meira síðar vegna margvíslegra ráðstafana ríkisstjórnarinnar, meðal annars hækkunar skattleysismarka. Auðvitað geta hörðustu frjálshyggjumenn gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa stóraukið útgjöld til velferðarmála. En jafnaðarmenn eins og Hörður Bergmann og Jón Baldvin Hannibalsson ættu að fagna því, að ríkið er aflögufært í velferðarmálum. Kakan hefur stækkað og sneiðar allra um leið, ríkisins, fyrirtækja, fjármagnseigenda og fátæks fólks, þótt þær séu vissulega misstórar. Það sætir hins vegar furðu, að þeir Hörður og Jón Baldvin leggja ekki á sig að kynna sér einfaldar staðreyndir um skattamál, sem öllum eru aðgengilegar á Netinu, á sama tíma og þeir segjast draga upp gunnfána gagnrýninnar hugsunar.
Heimildir: Heimasíður Hagstofu Íslands, fjármálaráðuneytisins, ríkisskattstjóra, Stefáns Ólafssonar og Þorvalds Gylfasonar.
Lesbók Morgunblaðsins 21. apríl 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.4.2007 kl. 10:41 | Slóð | Facebook
20.4.2007 | 08:37
Heldri borgarar
Auðvitað eiga eldri borgarar að vera heldri borgarar. Við, sem erum ekki komin á lífeyrisaldur, eigum að umgangast þá af virðingu og læra af þeim, jafnframt því sem okkur er skylt að liðsinna þeim úr þeirra röðum, sem hafa ekki af óviðráðanlegum ástæðum getað búið sér sjálfir áhyggjulaust ævikvöld. Við hin eldumst, ef Guð lofar. En þetta merkir ekki, að allt sé satt, sem óprúttnir áróðursmenn segja í nafni eldri borgara.
Í febrúar 2007 birtist skýrsla frá norrænu tölfræðinefndinni, Nososco, Félagslegt öryggi á Norðurlöndum 2004 (Social tryghed í de nordiske land). Þar kemur fram (í töflu 7.8), að á Norðurlöndum eru lífeyristekjur á mann á mánuði að meðaltali hæstar á Íslandi. Þetta er merkileg niðurstaða. Þótt íslenskir lífeyrisþegar séu vissulega ekki allir of sælir af meðaltekjum sínum, eru þær hærri en í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þess ber auðvitað að gæta, að þetta er meðaltal og sumir með talsvert lægri tekjur en því nemur og aðrir um leið með talsvert hærri.
Stefán Ólafsson prófessor, sem helst málar hér skrattann á vegginn (í von um, að hann komi?), unir þessari niðurstöðu illa. Hann gerir í Morgunblaðinu 20. mars harða hríð að fjármálaráðuneytinu fyrir að koma hinni norrænu skýrslu á framfæri. Hann segir, að talan um meðallífeyristekjur á Íslandi sé rangt reiknuð og komi ekki heldur heim og saman við aðra tölu í sömu skýrslu (töflu 3.25). Sú sé um heildarútgjöld vegna ellílífeyris á hvern ellilífeyrisþega, en þau séu hér næstlægst á Norðurlöndum.
Stefán bendir á, að talan um meðallífeyristekjur aldraðra er fengin með því að leggja saman lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun og deila í með fjölda þeirra, sem þiggja grunnlífeyri frá Tryggingastofnun, árið 2004 um 26 þúsund manns. Fjöldi Íslendinga á lífeyrisaldri var þá hins vegar um 31 þúsund. En athugasemd Stefáns er röng, vegna þess að þau fimm þúsund manns, sem voru á lífeyrisaldri, en þáðu ekki grunnlífeyri frá Tryggingastofnun, fengu hann ekki, af því að þau höfðu svo háar atvinnu- eða fjármagnstekjur. (Lífeyristekjur úr lífeyrissjóðum valda ekki skerðingu á grunnlífeyri ólíkt atvinnu- og fjármagnstekjum.) Þetta fólk var að vinna. Þótt það væri á lífeyrisaldri, var það ekki lífeyrisþegar, hafði ekki lífeyristekjur.
Ef lífeyristekjur aldraðra eru samkvæmt hinni norrænu skýrslu að meðaltali hæstar á Íslandi, hvernig stendur þá á því, sem Stefán fullyrðir, að á Norðurlöndum eru heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern ellilífeyrisþega samkvæmt sömu skýrslu næstlægst á Íslandi? Ástæðan er einföld. Talan í skýrslunni er önnur en Stefán segir. Hún er um heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern íbúa á lífeyrisaldri (67 ára og eldri), ekki á hvern ellilífeyrisþega. Þessi tala er auðvitað lægri fyrir Ísland en önnur Norðurlönd, af því að fleiri vinna hér og taka ekki lífeyri. Á þetta er sérstaklega bent í skýrslunni (bls. 158). Stefán er sekur um ómerkilega talnabrellu.
Einnig kemur fram í norrænu skýrslunni, að á Norðurlöndum er margvísleg þjónusta við aldraða mest í krónum talin hér á landi. Nýlega var síðan birt önnur skýrsla á vegum Evrópusambandsins, Poverty and Social Exclusion (Fátækt og félagsleg útskúfun). Í Evrópu eru samkvæmt henni fæstir eldri borgarar hlutfallslega við eða undir fátæktarmörkum í Lúxemborg, 6%, en næstfæstir á Íslandi, 9%. Í öllum öðrum Evrópulöndum, þar á meðal Svíþjóð, Danmörku og Noregi, eru fleiri eldri borgarar hlutfallslega við og undir fátæktarmörkum.
Fjórða staðreyndin er líka athyglisverð, en hana getur að líta í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, O. E. C. D., um lífeyrissjóði. Íslenskir lífeyrissjóðir eru að verða hinir öflugustu í heimi. Þeir eru að fyllast, um leið og margir ríkisreknir lífeyrissjóðir Evrópu eru að tæmast. Einhver hópur eldri borgara á Íslandi hefur vissulega ekki notið sem skyldi eflingar lífeyrissjóðanna, sérstaklega fólk talsvert yfir sjötugt. Um er að kenna stjórnvöldum fyrir 1991, sem torvelduðu lífeyrissjóðum þá að vaxa og eflast. Það breytir því ekki, að vanda þessa fólks ber að leysa. Eldri borgarar eiga allir að vera heldri borgarar.
Fréttablaðið 20. apríl 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.4.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook
15.4.2007 | 11:15
Tveir fyrirlestrar
Hér að neðan eru glærur frá fyrirlestri í Háskóla Íslands 31. janúar 2007 um fátækt og ójöfnuð af sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar. Þar ræddi ég, hvernig skoða má þróun tekjuskiptingar á Íslandi frá 1995 í ljósi kenninga Adams Smiths og Johns Rawls, og svaraði gagnrýni á þá stefnu, sem fylgt hefur verið og ég kalla Íslensku leiðina. Ritgerð upp úr fyrirlestrinum mun birtast í tímaritinu Andvara.
Hér eru einnig glærur frá fyrirlestri á ráðstefnu í Porto Alegre 17. apríl 2007 um eignaréttindi til að stuðla að framförum. Þar ræddi ég, hvernig mynda má einkaeignarrétt á gæðum, sem verður vegna eðlis þeirra að samnýta, til dæmis fiskistofnum, afréttum og útvarpsrásum. Meðal annarra fyrirlesara voru José Maria Aznar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, og Fernando Henrique Cardoso, fyrrverandi forseti Brasilíu. Ritgerð upp úr fyrirlestrinum er prentuð í portúgalskri þýðingu í ritinu Propriedade e desenvolvimento (Eignarréttur og framfarir, Porto Alegre 2007).
Nota má línuritin og upplýsingarnar af glærunum að vild í öllum eðlilegum tilgangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook
13.4.2007 | 01:42
Í nafni vísindanna
Karl Popper kenndi mér, að vísindin ættu að vera frjáls samkeppni hugmynda. Mér hefur blöskrað, hversu ákaflega stuðningsmenn kenningarinnar um verulega hlýnun jarðar af manna völdum hafa reynt að kveða niður keppinauta sína. Hvað veldur þessari ákefð? Ef svarið er, að við séum í lífsháska, þá hefur það heyrst oft áður. Til dæmis var fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins 10. júní 1977 um blaðamannafund, sem fyrirlesarar á alþjóðlegri umhverfisráðstefnu á Íslandi héldu: Lítil Ísöld fyrir aldamót? Þar kvað Reid Bryson, sérfræðingur um veðurfar á Norðurslóðum, líkur á nýrri ísöld. Mannkyn yrði að búa sig undir harðindi og gæti lært af íslenskum bændum, sem hefðu ákveðið einu sinni á ári, hversu margt fé væri á vetur setjandi. Aðrir fyrirlesarar tóku undir með Bryson.
Kólnað hafði í veðri frá um 1940 til um 1970, en eftir það hefur hlýnað. Árið 1977 töluðu vísindamenn um nýja ísöld. Þrjátíu árum síðar vara þeir við nýju hitaskeiði. En ályktunin er jafnan hin sama: Veita verður meira fé til vísindamanna og taka meira mark á niðurstöðum þeirra! Ég rifja þetta upp vegna skrifa þeirra Tómasar Jóhannessonar jarðeðlisfræðings og Jóns Egils Kristjánssons veðurfræðings í Fréttablaðinu 11. apríl. Þar gagnrýndu þeir grein eftir mig í Fréttablaðinu 30. mars, þar sem vitnað var í nýja breska heimildarmynd, Blekkinguna mikla um hlýnun jarðar (The Great Global Warming Swindle). Framlag þeirra Tómasar og Jóns Egils er skætingslaust, og er mér ljúft að svara athugasemdum þeirra eftir bestu getu.
Ein athugasemdin er, að viðmælandi í heimildarmyndinni bresku, Carl Wunsch, telji orð sín þar hafa verið slitin úr samhengi. Mér fannst Wunsch ekki tala neina tæpitungu. En í bresku myndinni eru rök með og á móti tilgátunni um verulega hlýnun jarðar af mannavöldum vissulega ekki vegin og metin, enda hentar sjónvarp illa til slíks, heldur hiklaust reynt að hrekja hana. Fræðileg gagnrýni á þessa mynd er þó hjóm eitt miðað við það, sem komið hefur fram um heimildarmynd Als Gores, Óþægilegan sannleik (Inconvenient Truth). Þegar sannleikurinn missir stjórn á sér, verður hann að ýkjum.
Í annarri athugasemd er því hafnað, sem segir í bresku heimildarmyndinni, að vatnsgufa sé 98% gróðurhúsalofttegunda. Þeir Tómas og Jón Egill telja, að vatnsgufa valdi um 50-60% gróðurhúsaáhrifa. Ég hafði töluna 98% úr bók Björns Lomborgs, Hið sanna ástand heimsins, en hann tók hana úr verkum danskra og breskra vísindamanna. Í fjölmörgum ádeilum á verk Lomborgs hefur þessi tala ekki verið véfengd, svo að ég viti. Hins vegar eru magn og áhrif sitt hvað: Hugsanlega veldur vatnsgufa ekki langmestum gróðurhúsaáhrifum, þótt hún sé langmestur hluti gróðurhúsalofttegunda.
Þriðja athugasemdin er um þessa fullyrðingu mína: Þegar lífverur anda frá sér eða rotna og þegar eldfjöll gjósa, streymir meiri koltvísýringur út í andrúmsloftið en vegna brennslu olíu eða kola. Þeir Tómas og Jón Egill segja á móti, að í eldgosum sé aðeins losað um 1% af því, sem menn losi. En þetta er engin leiðrétting á orðum mínum: Hvers vegna minnast þeir Tómas og Jón Egill ekki á áhrif öndunar frá lífverum og rotnunar þeirra? Og bera þetta saman við áhrif brennslu olíu eða kola? Samkvæmt nýlegri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Löngum skugga húsdýranna (Livestocks Long Shadow), má rekja 18% gróðurhúsaáhrifa til húsdýra, aðallega kúa.
Fjórða athugasemdin er um svokallaða sólvirknikenningu, en samkvæmt henni má skýra breytingar á hitastigi á jörðu niðri með virkni sólar á hverjum tíma. Þeir Tómas og Jón Egill segja, að virkni sólar hafi ekki aukist hin síðari ár, þótt hlýnað hafi á jörðinni. Þetta er ekki rétt. Virknin hefur sveiflast upp og niður þetta tímabil. En sólvirknikenningin er nokkru flóknari, eins og sjá má í nýrri bók eftir danska vísindamanninn Henrik Svensmark og enska rithöfundinn Nigel Calder, Kælandi stjörnum (Chilling Stars). Ég ætla ekki að öskra mig hásan með eða á móti einhverri einni tilgátu um loftslagsbreytingar, enda væri það fáránlegt. En ég hef iðulega séð, hvernig reynt hefur verið að nota vísindin eins og sleggju til að slá niður andstæðinga frekar en kastljós til að lýsa upp veruleikann.
Fréttablaðið 13. apríl 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook
10.4.2007 | 08:06
Nýjar talnabrellur Stefáns Ólafssonar
Stefán Ólafsson prófessor þráast við, þótt tal hans um aukinn ójöfnuð hafi allt verið hrakið, meðal annars í ágætri grein Ragnars Árnasonar prófessors og Axels Halls hagfræðings í Morgunblaðinu 19. mars. Gini-stuðlar þeir um ójöfnuð, sem hann notaði til rökstuðnings máli sínu, reyndust rangir. Stefán fæst ekki til að viðurkenna hina augljósu staðreynd, að allir tekjuhópar á Íslandi hafa notið góðs af örum vexti atvinnulífsins. Hann ræðst síðan ásamt tveimur félögum sínum harkalega hér í blaðinu 20. mars á fjármálaráðuneytið, af því að það birti fyrir skömmu frétt um, að samkvæmt nýrri skýrslu tölfræðinefndar Norðurlanda, Nososco, Social tryghed i de nordiske lande 2004, reyndust lífeyristekjur íslenskra lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Norðurlöndum árið 2004. Þetta sést á 1. mynd.Stefán heldur því fram, að tölurnar um Ísland og önnur Norðurlönd séu ósambærilegar, þar eð þær séu reiknaðar út á ólíka vegu. Það er rétt, að þær eru reiknaðar út á ólíka vegu, en það felur ekki í sér, að þær séu ósambærilegar. Nososco tók í Danmörku meðaltekjur lífeyrisþega í janúar 2004, bæði frá almannatryggingum og einstökum lífeyrissjóðum. Hún tók í Finnlandi og Noregi meðaltekjur lífeyrisþega í desember 2004. Hún tók í Svíþjóð meðaltekjur lífeyrisþega í desember auk sérstakrar húsnæðisuppbótar. Fyrir Ísland reiknaði hún út meðaltekjur lífeyrisþega á mánuði með því að leggja saman heildargreiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun og heildargreiðslur úr einstökum lífeyrissjóðum og deila í þá summu með fjölda þeirra, sem þiggja lífeyri frá Tryggingastofnun, en það voru 26 þúsund manns árið 2004.
Stefán Ólafsson spyr: Hvers vegna var ekki deilt í með heildarfjölda þeirra, sem voru á ellilífeyrisaldri, en það voru 31 þúsund manns? Svarið er einfalt: Vegna þess að hin fimm þúsundin tóku ekki ellilífeyri. Aðalástæðan var auðvitað, að þetta fólk var enn að vinna og atvinnu- eða fjármagnstekjur þess hærri en svo, að það ætti rétt á grunnlífeyri. (Lífeyristekjur úr öðrum sjóðum skerða ekki grunnlífeyri frá Almannatryggingum.) Þetta fólk var komið á lífeyrisaldur, en það var ekki lífeyrisþegar. Til dæmis voru árið 2004 sex þúsund manns á aldrinum 67-70 ára. Margir þeirra stunduðu fulla vinnu. Það skekkti því myndina ekkert að deila með tölu ellilífeyrisþega í heildargreiðslur lífeyris í því skyni að reikna út meðaltekjur lífeyrisþega. Útreikningar Nososco fyrir Ísland voru réttir. Ég er ekki dómbær á það, hvort tölurnar fyrir hin Norðurlöndin eru réttar, en treysti Nososco um það, uns annað reynist sannara. Að minnsta kosti er ekki unnt að kenna fjármálaráðuneytinu íslenska um þær tölur.
Stefán hefur önnur rök fyrir því, að útreikningarnir séu ekki réttir fyrir Ísland. Þau eru, að misræmi sé milli talna í skýrslu Nososco. Á einum stað komi fram (tafla 7.8), að á Norðurlöndum séu lífeyristekjur lífeyrisþega hæstar á Íslandi, en á öðrum stað (tafla 7.25), að heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern ellilífeyrisþega séu næstlægst á Íslandi. Stefán vitnar einnig í nýlega skýrslu Hagstofu Íslands, Félagsvernd á Íslandi. Þar komi fram (tafla 25), að á Norðurlöndum séu heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern ellilífeyrisþega lægst á Íslandi. Stefán segir, að tölurnar í síðarnefndu töflunni í skýrslu Nosoco og tölurnar í skýrslu Hagstofunnar séu réttar, en tölurnar í fyrrnefndu töflunni í skýrslu Nososco (sem sýndu, að á Norðurlöndum væru lífeyristekjur hæstar á Íslandi) rangar.
Stefán hefur hvorki lesið skýrslu Nososco né Hagstofunnar nógu vandlega. Í þeim eru sýnd útgjöld vegna ellilífeyris á hvern íbúa á ellilífeyrisaldri, í skýrslu Nososco (tafla 7.8) 67 ára og eldri, en Hagstofunnar (tafla 25) 65 ára og eldri, ekki útgjöld á hvern ellilífeyrisþega. Þessi tala um útgjöld vegna ellilífeyris er óvenju lág um Ísland vegna þess, sem þegar hefur verið hér bent á, að miklu fleira aldrað fólk stundar hér vinnu en þar ytra og þiggur þess vegna ekki ellilífeyri. Á þessu atriði er sérstaklega vakin athygli í skýrslu Nososco (158. bls.). Þar eð tölurnar um útgjöld vegna ellilífeyris á hvern íbúa á ellilífeyrisaldri eru ekki miklu lægri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum (þótt miklu fleiri Íslendingar í þessum aldurshópi vinni og taki þess vegna ekki ellilífeyri á meðan), renna þær einmitt stoðum undir þá niðurstöðu, að lífeyristekjur séu hér hæstar á Norðurlöndum. Tölurnar í þessum tveimur skýrslum eru allar réttar og ekkert misræmi milli þeirra. Færri aldraðir Íslendingar eru lífeyrisþegar hlutfallslega en annars staðar á Norðurlöndum, en þeir hafa hærri lífeyristekjur.
Stefán Ólafsson les ekki aðeins rangt úr tölum í opinberum skýrslum um hag aldraðra. Hann hefur líka farið mikinn síðustu misseri um málefni þeirra. Hann hefur fullyrt, að aldraðir á Íslandi hafi dregist aftur úr öðrum hópum og skattbyrði þeirra þyngst. Þetta eru brellur. Stefán nýtir sér, að margir Íslendingar hafa efnast hratt hin síðari ár. Þeir hafa vissulega efnast hraðar en aldraðir sem hópur. En óeðlilegt er að bera þessa tvo hópa saman. Frekar á að bera aldraða á Íslandi saman við aldraða í öðrum löndum, og þá kemur allt annað í ljós, eins og sést í skýrslu Nososco og á 1. mynd. Skattbyrði aldraðra hefur ekki þyngst í öðrum skilningi en þeim, að eins og aðrir greiða þeir hærri skatta með hærri tekjum, alveg eins og skattbyrði fyrirtækis þyngist auðvitað með því, að það snýr tapi í gróða og tekur því að greiða skatt, en var áður skattfrjálst. Raunar hefur mikilvægri skattbyrði verið létt af öldruðum, þar sem var eignaskattur, sem kom hart niður á þeim, enda stundum kallaður ekknaskattur.
Stefán horfir einnig fram hjá hinum mikla mun á lífeyrismálum hér og annars staðar, meðal annars á Norðurlöndum. Hann er, að grannar okkar báru ekki gæfu til þess að stofna digra söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eins og við, heldur nota að mestu svokallaða gegnumstreymissjóði, sem ríkið rekur. Hér safna menn innstæðum í réttu hlutfalli við greiðslur inn í sjóðina og fá lífeyrisgreiðslur út úr þeim miðað við það, en ríkið greiðir til viðbótar grunnlífeyri (nema menn hafi háar tekjur aðrar). Víða ytra greiða launþegar aðallega til ríkisins og fá síðan greiðslur frá ríkinu eftir ákvörðun þess, sem getur komið sér illa síðar meir, þegar öldruðum fjölgar, en vinnandi fólki fækkar. Þess vegna eru lífeyrissjóðir okkar smám saman að fyllast og erlendir lífeyrissjóðir margir að tæmast. Margir aldraðir Íslendingar eru vissulega ekki ofsælir af sínum kjörum. En kjör þeirra eru betri og hafa batnað hraðar en í flestum eða öllum löndum heims. Samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins um fátækt, Poverty and Social Exclusion, var hlutfall aldraðra, 65 ára og eldri, við eða undir fátæktarmörkum (risk of poverty) næstlægst á Íslandi allra Evrópuríkja, 10%, og aðeins lægra í Lúxemborg. Þetta hlutfall var hærra annars staðar á Norðurlöndum, 11% í Svíþjóð, 18% í Finnlandi og Danmörku og 19% í Noregi, eins og sést á 2. mynd. Því má ekki gleyma, að þetta eru tölur frá 2004. Aldraðir hafa fengið miklar kjarabætur síðan, jafnt frá einstökum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun og vegna breyttra reglna um tekjutengingu og skattlagningu. Nýrri tölur væri áreiðanlega enn hagstæðari. Vonandi verða fáir aldraðir Íslendingar ginningarfífl Stefáns Ólafssonar: Það er þeim og okkur öllum í hag, að hér sé öflugt atvinnulíf og mikil verðmætasköpun.
Morgunblaðið 10. apríl 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook