Hverjir selja ömmu sína?

OgmundurÖgmundur Jónasson, alþingismaður Vinstri hreyfingarinnar — Græns framboðs, sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu 2. apríl: „Ég vann á Sjónvarpinu þegar frjálshyggjan var að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu. Milton Friedman var fluttur til landsins af nýstofnuðu Frjálshyggjufélagi, Hayek og Buchanan messuðu einnig yfir landslýð og Hannes Hólmsteinn skrifaði tíu þúsund greinar um hvernig menn ættu að bera sig að við að selja ömmu sína.“

Eitthvað slær hér út í fyrir Ögmundi. Sannleikurinn er þveröfugur við það, sem hann segir. Ég birti eina grein um ömmusölu í DV árið 1983. Ellert Schram, ritstjóri blaðsins, hafði skrifað pistil um það, að frjálshyggjumönnum væri ekkert heilagt. Þeir vildu gera allt að verslunarvöru og jafnvel selja ömmu sína. Í grein minni benti ég Ellert á, að frjálshyggjumenn seldu ekki ömmu sína af þeirri einföldu ástæðu, að þeir ættu hana ekki og gætu þess vegna ekki selt hana. Hún ætti sig sjálf. Sjálfseignarrétturinn væri einn hornsteinn frjálshyggjunnar.

Frjálshyggjumenn selja ekki ömmu sína, af því að þeir geta það ekki. En á árum áður ofurseldu félagshyggjumenn ömmu sína verðbólgu, sem gerði henni ókleift að spara til elliáranna. Þeir notuðu lífeyrissjóðinn, sem hún greiddi í, til margvíslegra „félagslegra verkefna“, svo að ávöxtun hans var lök. Þeir lögðu á hana eignaskatt, sem stundum var kallaður ekknaskattur. Þeir notuðu sparifé ömmu, sem hún hafði í sakleysi sínu lagt í banka, til fjárausturs í fiskeldi, loðdýrarækt og önnur gæluverkefni.

Þetta breyttist 1991. Amma er ekki lengur ofurseld aðgerðum Ögmundar Jónassonar og annars félagshyggjufólks. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Íslandi. Útgjöld ríkisins til þjónustu við aldraða eru einnig hæst á mann á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir íslensku er hinir öflugustu í heimi. Ekknaskattur var lagður niður. Á Íslandi eru einna fæstir aldraðir við eða undir fátæktarmörkum í allri Evrópu. Amma hefur einhverjar lengstu lífslíkur í heimi, og hún sér fram á, að barnabörnum hennar vegni vel, ef þjóðin ber gæfu til að halda áfram íslensku leiðina, sem felst í öflugu atvinnulífi, lágum sköttum, háum launum og rausnarlegri velferðaraðstoð við þá, sem hana þurfa.

Viðskiptablaðið 5. maí 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband