Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.7.2007 | 11:49
Góður gestur á Íslandi
Í dag, fimmtudaginn 26. júlí, heldur Edward C. Prescott fyrirlestur á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í Þjóðminjasafninu kl. 16. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Prescott er einn virtasti hagfræðingur okkar daga og hlaut ásamt samstarfsmanni sínum, Finn Kydland, Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2004 fyrir rannsóknir á hagsveiflum. Prescott hefur líka látið til sín taka í umræðum um hagstjórn og þá jafnan talað fyrir lágum sköttum og frjálsum viðskiptum.
Ævi og störfEdward C. Prescott fæddist í smábænum Glen Falls í New York-ríki 26. desember 1940. Faðir hans var verkfræðingur, en móðir hans bókavörður. Hann nam stærðfræði í Swarthmore-skóla, stýrifræði í Case Western Reserve-háskóla og hagfræði í Carnegie Mellon-háskóla, en þaðan lauk hann doktorsprófi 1967. Hann kenndi hagfræði í Pennsylvaníu-háskóla 1966-1971 og stundaði síðan kennslu og rannsóknir í Carnegie Mellon-háskóla 1971-1980. Hann gerðist ráðgjafi Seðlabankans í Minneapolis 1980 og hóf kennslu í Minnesota-háskóla, en þar starfaði hann með stuttum hléum til 2003. Ein ritgerð þeirra Prescotts og Kydlands frá 1977 er talin sígild, Rules rather than Discretion: The Inconsistency of Optimal Plans (Reglur í stað geðþótta: Mótsagnakennd stefnumörkun). Þar sýna þeir fram á, að í stjórn peningamála verður að fylgja föstum reglum, sem almenningur getur treyst. Ef stefnunni er breytt, vextir til dæmis lækkaðir snögglega til að afstýra atvinnuleysi, þá missir seðlabankinn traust til langs tíma og jafnvægi raskast.
Önnur fræg ritgerð þeirra Prescotts og Kydlands birtist 1982, Time to Build and Aggregate Fluctuations (Tími til að setja saman og leggja saman sveiflur). Þar rekja þeir saman annars vegar viðbrögð hinna einstöku eininga atvinnulífsins við snöggum breytingum, til dæmis á tækni eða vöruframboði, og hins vegar hagsveiflur, sem valdið geta tímabundnum truflunum í langtímaþróun hagkerfisins. Nota þeir til þess flóknar tölfræðilegar aðferðir. Óhætt er að segja, að þessi ritgerð hafi átt mestan þátt í því, að þeir fengu Nóbelsverðlaunin, og fullyrða sumir, að hún hafi valdið straumhvörfum í þjóðhagfræði. Prescott hefur verið prófessor í Ríkisháskólanum í Arizona frá 2003. Hann hefur einnig verið ritstjóri tímaritsins International Economic Review og félagi í Brookings-stofnuninni í Washington-borg og Guggenheim-sjóðnum. Prescott er kvæntur Janet Dale Simpson, og eiga þau tvo syni og eina dóttur.
Lágir skattar
Prescott hefur gefið því sérstakan gaum, hvers vegna Bandaríkjamenn vinna meira en Evrópubúar (og framleiða því meira, en landsframleiðsla á mann er talsvert meiri í Bandaríkjunum en flestum Evrópuríkjum). Til dæmis vinnur hver Bandaríkjamaður á aldrinum 15-64 ára um 50% meira en hver Frakki. Prescott kveður skýringuna ekki þá, að Frakkar séu síður vinnusamir en Bandaríkjamenn, taki tómstundir frekar fram yfir vinnu, og ekki heldur, að atvinnuleysisbætur séu hærri í Frakklandi. Skatthlutfallið skipti langmestu máli. Því hærri sem skattar séu á hverja viðbótarvinnustund, því minna vilji menn vinna, og öfugt. Prescott styður þessa niðurstöðu viðamiklum tölulegum gögnum. Til dæmis unnu Frakkar jafnmikið og Bandaríkjamenn 1970-1974, en eftir því sem skattar hækkuðu á hverja vinnustund, dró úr vinnu Frakka. Hið sama er að segja um aðrar Evrópuþjóðir. Prescott segir, að menn vinni alls staðar svipað, þegar skatthlutföll séu svipuð. Úrslitum ráði, hvort það borgi sig að vinna. Gögn hans sýni, að þetta gildi ekki aðeins um Bandaríkin og Evrópu, heldur um allan heim, til dæmis í Chile og Japan.
Þegar skattar hækka, minnka menn við sig vinnu, sem eru launuð og skattlögð, en bæta stundum við sig á móti óskattlagðri vinnu, ýmist löglegri eða ólöglegri. Norðurlandabúar annast til dæmis frekar viðhald á húsum sínum og kaupa sjaldnar máltíðir í veitingahúsum en Bandaríkjamenn. Ítalir hafa hörfað undan háum sköttum í umfangsmikið neðanjarðarhagkerfi, og þegar ítölsk yfirvöld birta tölur um landsframleiðslu, þurfa þau þess vegna að bæta við um 25%. Prescott segir, að skynsamlegt sé að lækka skatta varanlega, jafnvel þótt það kosti hallarekstur ríkissjóðs í einhvern tíma, því að þá sé verið að búa í haginn fyrir framtíðina. Skattalækkanir séu öllum til góðs, ekki aðeins hinum ríku. Þeir, sem mælist tekjuháir, séu oft hjón með góða menntun, sem vinni mikið. Ef þau eru skattlögð harkalega, þá hættir annað þeirra að vinna, og landsframleiðslan dregst saman, en um leið minnka skatttekjur. Prescott brýnir fyrir okkur, að hópur hinna ríku er ekki óbreytanlegur. Stundum skjótast menn upp á listann um auðmenn í eitt ár og ekki lengur. Þegar maður selur til dæmis fyrirtæki, sem hann hefur stofnað og starfað við lengi, er hann að leysa til sín fé, sem hann hefur smám saman safnað með fyrirhöfn sinni og jafnvel fórn.
Frjáls viðskipti
Prescott tekur fjölda dæma um vel heppnaðar skattalækkanir, til dæmis undir forystu Ronalds Reagans í Bandaríkjunum 1986 og Jósefs Maríu Aznars á Spáni 1998. Skattþrepum var fækkað og skattar lækkaðir. Afleiðingin varð vöxtur atvinnulífsins, og við það jukust skatttekjur ríkisins þrátt fyrir skattalækkanirnar. Spánverjar unnu meira við lægri skatta. Árin 1993-1996 skilaði hver fullorðinn og vinnufær Spánverji að meðaltali 16,5 vinnustundum á viku, en árin 2000-2003 jókst framlag þeirra að meðaltali í 20 vinnustundir á viku. Prescott þreytist ekki á að benda á, að vinnuframlag er breytilegt og mjög háð sköttum. Hagstjórn snýst ekki um þjóðir, heldur lifandi einstaklinga, sem bregðast við umbun og kostnaði. Frá því á miðjum áttunda áratug síðustu aldar og fram á miðjan tíunda áratug hækkuðu skattar á hverja viðbótarvinnustund í Evrópu úr um 40% í um 60%. Þetta hafði í för með sér, að vinnuframlagið dróst saman um allt að þriðjungi. Prescott telur, að aðrar Evrópuþjóðir muni á næstunni fari að dæmi Spánverja og lækka skatta. Þær eigi ekki annarra kosta völ.
Prescott er eindreginn stuðningsmaður frjálsra viðskipta. Hann segir, að hagfræðingar séu stundum í því lítt öfundsverða hlutverki að þurfa að skýra út, hvers vegna ríkið eigi ekki að hlaupa undir bagga með fyrirtækjum, sem illa gangi í alþjóðlegri samkeppni. Einn aðalkosturinn við Evrópusambandið sé, að þar hafi myndast opinn markaður, þar sem fyrirtæki sæti samkeppni frá öllum aðildarlöndunum. Hið sama gerðist í Bandaríkjunum á átjándu og nítjándu öld: Þau urðu að einum markaði, þar sem samkeppni var hörð, þótt Bandaríkin þá og Evrópusambandið nú mættu vissulega vera hlynntari samkeppni frá löndum utan þessara heilda. Prescott nefnir einnig þau fimm lönd Suðaustur-Asíu, sem stunda frjáls alþjóðaviðskipti af mestu kappi, Japan, Suður-Kóreu, Taívan, Hong Kong og Singapore. Hins vegar hafa ýmis ríki Rómönsku Ameríku fylgt styrkja- og verndarstefnu. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa, eins og Prescott bendir á. Árið 1950 var landsframleiðsla á mann að meðaltali 75% hærri í Rómönsku Ameríku en Asíu. En næstu hálfa öldina jókst landsframleiðsla á mann í Asíu í samanburði við Bandaríkin um 244%, en í Rómönsku Ameríku dróst hún saman um 21%.
Erindi Prescotts
Síðustu sextán ár hafa skattar verið lækkaðir stórkostlega á Íslandi, til dæmis tekjuskattur fyrirtækja úr 45% í 18% og tekjuskattur einstaklinga (ríkishluturinn) úr 31% í 22%. Samt hafa skatttekjur ríkisins stóraukist, eins og Prescott myndi hafa sagt fyrir um. Jafnframt hefur íslenska hagkerfið opnast og viðskipti við aðrar þjóðir orðið miklu frjálsari. Hefur vöxtur atvinnulífsins verið mjög ör fyrir vikið. Fróðlegt verður að heyra, hvaða stefnu Prescott ráðleggur okkur að taka inn í framtíðina.
Morgunblaðið 26. júlí 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 14:58 | Slóð | Facebook
21.7.2007 | 12:09
Skattalækkanir til kjarabóta
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook
15.7.2007 | 17:31
Jöfnuður eða jöfnun?
Frjálshyggjumenn kenna sig við frelsi, jafnaðarmenn við jöfnuð. Merkir það, að jafnaðarmenn séu andvígir frelsi og frjálshyggjumenn jöfnuði? Að sjálfsögðu ekki. Hvorugur hópurinn blótar völdum né auði. Hugsanlega er ágreiningur þeirra um staðreyndir: Hvar er frelsi einstaklinga til orðs og æðis mest? Hvar eru kjör hinna bágstöddustu skást? Ágreiningurinn getur líka verið um skilning á hugtökum: Felst frelsi í því að vera laus og liðugur utan fangaklefans eða frekar í hinu að hafa efni á að kaupa nauðsynlegustu þjónustu? Snýr jöfnuður að upphafi leiks eða lokum hans, hvort allir fái aðgang og lúti sömu reglum eða hvort skrá eigi jafnmörg mörk hjá öllum leikendum? Stefán Snævarr heimspekiprófessor efaðist nýlega um það hér í Lesbókinni, að frjálshyggjumenn gætu um leið verið jafnaðarmenn, eins og ég hélt fram á útmánuðum. Grein hans er prýðilega skrifuð og málefnaleg. Ég skal reyna að skýra mál mitt frekar.
Rawls og hagur hinna bágstöddustu
Maður var nefndur John Rawls. Hann lést fyrir nokkrum árum, en var heimspekiprófessor í Harvard og hafði mikil áhrif með ritinu A Theory of Justice (Kenning um réttlæti), sem kom fyrst út 1971. Þar velti hann því fyrir sér, hvernig skipulag skynsamir menn myndu velja sér, ef þeir vissu ekkert um það, hvernig þeim myndi þar sjálfum vegna. Niðurstaðan var, að höfuðlögmálið yrði jafnt og fullt frelsi allra, en síðan ætti skipting veraldlegra gæða að vera á þann veg, að hagur hinna bágstöddustu yrði jafnan sem bestur. Réttlætiskenningu Rawls má gagnrýna með ýmsum rökum. Hverjir eru til dæmis hinir bágstöddustu? Eru það hinir 5% tekjulægstu? 10%? 20%? Skipta horfur þessa fólks ekki máli? Nemar í tannlækningum eru með lágar tekjur, en geta gert sér vonir um háar tekjur að námi loknu. Innflytjendur, nýkomnir til Bandaríkjanna, sætta sig við lág laun, en verða flestir að tíu árum liðnum komnir í álnir. Kjör þessara tveggja hópa mælast jafnlök og íbúa í afrísku fátæktarbæli, en horfur þeirra eru miklu betri. Breytir síðan engu, hvernig menn urðu bágstaddir? Flestir hafa meiri samúð með manni, sem fæddist inn í fyrirlitinn minnihlutahóp og á ekki kost á skólagöngu, svo að hann situr fastur í fátækt, en með ofdrykkjumönnum, auðnuleysingjum og letingjum, sem geta engum öðrum kennt um hlutskipti sitt.Allt eru þetta gildar spurningar, en Rawls vekur máls á mikilvægu úrlausnarefni. Samkvæmt skilgreiningu er hagur hinna bágstöddustu hvergi góður. En hvar er hann skástur? Ég hef vísað til alþjóðlegra mælinga á atvinnufrelsi annars vegar og vergri landsframleiðslu á mann hins vegar um það, að hagur þeirra sé bestur í löndum, þar sem atvinnufrelsi er víðtækt. Niðurstaða þeirra mælinga er skýr. Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnufrelsi er víðtækast, eru kjör almennings langbest, einnig kjör hinna bágstöddustu. Þetta sést á 1. mynd. Stefán vísar til Þorvaldar Gylfasonar prófessors um það, að verg landsframleiðsla á mann sé ófullkomin mæling á lífskjörum. Það er rétt, en hún er þrátt fyrir allt hin skásta, sem við höfum í höndum. Hvernig eigum við ella að meta hag hinna bágstöddustu? Það er raunar athyglisvert, að niðurstaðan er hin sama, þótt aðrir mælikvarðar séu notaðir, til dæmis þroskaskilyrðavísitala Sameinuðu þjóðanna (e. index of human development): Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnufrelsi er víðtækast, eru þroskaskilyrði best, læsi algengast, barnadauði minnstur, aðgangur að hreinu vatni greiðastur og svo framvegis. Einhverjar undantekningar kunna að vera til í einstökum löndum, en almenna reglan er skýr, niðurstaðan tvímælalaus. Raunar gætum við sleppt öllum mælingum og skoðað, hvert venjulegt alþýðufólk vill fara. Það vill komast til Norður-Ameríku, Evrópu og Eyjaálfu, þar sem atvinnufrelsi er miklu víðtækara en annars staðar í heiminum. Það kýs kapítalismann með fótunum.
Svíþjóð, Bandaríkin og íslenska leiðinSterkt samband er milli atvinnufrelsis og lífskjara, jafnvel lífskjara hinna bágstöddustu. En vandinn við að ræða um einstök lönd er, að aðstæður eru ólíkar og skýringar ýmsar til á frávikum frá hinni almennu reglu. Þó er rétt að skoða stuttlega þróun lífskjara í Svíþjóð og Bandaríkjunum síðustu áratugi. Fyrir fjörutíu árum þótti Svíþjóð fyrirmyndarríki. Talið var, að þar hefði tekist að sameina frjálst hagkerfi, háa skatta og víðtækt velferðarkerfi. En upp úr því hefur sigið á ógæfuhliðina, eins og sést á 2. mynd. Lífskjör í Svíþjóð, eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann, voru árið 1964 um 90% af lífskjörum í Bandaríkjunum, en eru nú um 75%. Gengi Svíþjóð í Bandaríkin til að verða 51. ríkið, þá yrði það eitt hið fátækasta þar í landi, með svipuð lífskjör (svipaða verga landsframleiðslu á mann) og Arkansas og Mississippi. Í alþjóðlegri könnun á lífskjörum árið 2000 kom enn fremur í ljós, að tekjur fátækasta hópsins í Svíþjóð (mældar í samanburðarhæfum Bandaríkjadölum) voru örlitlu lægri en sama hóps í Bandaríkjunum, en tekjur ríkasta hópsins í Svíþjóð miklu lægri en sama hóps í Bandaríkjunum. Samkvæmt réttlætiskenningu Rawls ætti jafnaðarmaður að taka Bandaríkin fram yfir Svíþjóð: Hagur hinna bágstöddustu er betri, þótt tekjumunur sé meiri. Þess má síðan geta, að atvinnuleysi er talsvert meira í Svíþjóð en Bandaríkjunum. Tækifæri manna til að vinna sig út úr fátækt eru því færri í Svíþjóð. Frændum okkar þar eystra hefur lengi verið ljós meginskýringin á því, að sænsku atvinnulífi hefur hnignað í samanburði við hið bandaríska. Skattar eru of háir og vinnumarkaður reyrður í viðjar flókinna laga og reglna. En vandinn er sá, að starfsmenn og styrkþegar ríkisins, beinir sem óbeinir, mynda meiri hluta sænskra kjósenda. Erfitt er að snúa af þessari óheillabraut.
Bandaríkin eru síður en svo fullkomin, þótt margt megi gott um þau segja. Sköpunarmáttur bandarísks kapítalisma er stórkostlegur, og Bandaríkjamenn hafa tvisvar bjargað Evrópubúum úr greipum alræðisherra, fyrst þjóðernisjafnaðarmannsins Hitlers, síðan Stalíns Kremlarbónda. En Íslendingar þurfa ekki að velja um sænsku leiðina eða hina bandarísku. Þeir hafa sjálfur síðustu sextán ár farið íslensku leiðina, sem er fólgin í víðtæku atvinnufrelsi og lágum sköttum líkt og í Bandaríkjunum og rausnarlegri velferðaraðstoð eins og í Svíþjóð, en sá munur á, að Íslendingar reyna að takmarka aðstoðina við þá, sem þurfa hennar með, en Svíar leggja þunga skatta á alla til þess að úthluta síðan til allra. Hér eru lífeyristekjur að meðaltali hinar hæstu á Norðurlöndum, en efnamenn fá sáralítinn lífeyri úr almannasjóðum. Hér eru barnabætur til láglaunafólks hinar hæstu á Norðurlöndum, en þær skerðast hressilega, eftir því sem tekjur foreldra hækka, svo að þær eru ekki hæstar að meðaltali. Hér er fátækt eins lítil og í Svíþjóð (en hún er í allri Evrópu langminnst í þessum tveimur löndum), en sá munur á, að atvinnuleysi er hér ekkert. Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra á hinu mikla umbótaskeiði 1991-2004, sagði á fundi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri 18. ágúst 1995: Við verðum að breyta viðhorfi fólks til hins opinbera. Það á ekki að vera eins og síldarnót til að festa fólk í, heldur eins og öryggisnet, sem enginn fellur niður fyrir. Íslendingar hafa farið eftir þessu heilræði. Öryggisnetið íslenska er eins þéttriðið og í Svíþjóð, en erfiðara að festast í því. Því veldur meðal annars, að hér er ekki stighækkandi tekjuskattur, svo að það borgar sig að vinna meira og hækka á þann veg tekjurnar, þegar þess þarf með.
Jöfnuður: Allir fái aðgang og lúti sömu reglum
Þótt hagur hinna bágstöddustu sé einna bestur í heimi á Íslandi og horfur góðar, er Stefán Snævarr ekki ánægður. Hann telur augljóslega, að regla Rawls um að reyna að bæta eftir föngum kjör hinna bágstöddustu nægi ekki. Það sé sjálfstæður vandi, að með auknu atvinnufrelsi hafi hagur hinna ríkustu snarbatnað. Stefán neitar því hins vegar harðlega, að hann láti stjórnast af öfund í garð auðmanna. Hann hafi aðeins áhyggjur af því, að í krafti auðs síns og áhrifa geti ríkt fólk setið yfir hlut annarra. Þessar áhyggjur eru ekki með öllu ástæðulausar. Davíð Oddsson hefur einmitt varað við því, ef ríkt fólk fær að kaupa sig undan skyldunni til að hlýða sömu lögum og aðrir landsmenn. Furðu sætir, hversu fáir þeir, sem kenna sig við jafnaðarstefnu, hafa tekið undir með Davíð. Í mínum huga krefst jöfnuður þess, að allir fái að taka þátt í leiknum og verði jafnframt að lúta sömu reglum í honum. Í þessum skilningi hefur jöfnuður stóraukist á Íslandi við það, að hagkerfið opnaðist frá 1991. Nú þurfa menn ekki lengur að veifa flokksskírteinum eða fæðingarvottorðum til að fá lán í banka. Þeir, sem hafa efnast hin síðari ár, Björgólfsfeðgar, Baugsfeðgar, Bakkavararbræður og margir fleiri, hafa brotist áfram af eigin rammleik og notið aukins atvinnufrelsis. Á meðan fjármagn var hér skammtað í nafni jafnaðarstefnu, rann það ekki til ötulla framkvæmdamanna, heldur í fiskeldi og loðdýrarækt og önnur gæluverkefni stjórnmálamanna. Eitthvert smáræði rataði líka í hendur prófessoranna í háskólahverfinu, sem fengu lóðir og lán til húsa sinna nánast án endurgjalds, á meðan venjulegu alþýðufólki stóð ekkert slíkt til boða. Ég vona, að þeir Stefán Snævarr og Þorvaldur Gylfason sakni ekki þeirrar tíðar.
Í mínum huga krefst jöfnuður þess ekki, að menn fái allir skráð jafnmörg mörk í hverjum leik lífsins óháð því, hvort þeir hafa skorað, eða að einhver mörk bestu leikmannanna séu strikuð út. Okkur er nauðsynlegt að fá upplýsingar um, hverjir eru snjallastir í hverjum leik og hvernig leikmenn geta enn bætt sig. Ella færa menn sig ekki úr leik, sem þeir kunna miður, í leik, sem þeir kunna betur, og því síður leggja þeir sig fram hver í sínum leik. Framþróun verður lítil sem engin, fái menn ekki einhverja umbun fyrir að standa sig vel og skora fleiri mörk en aðrir. Ég sé engum ofsjónum yfir því, að áræðnir menn og glöggskyggnir auðgist. Það er óljóst, hvað Stefán Snævarr á við, þegar hann segir, að hinir ríku megi ekki verða of valdamiklir. Vill hann hækka skatta á þá, svo að þeir hætti að skapa nýjan auð eða hverfi úr landi? Vill hann banna þeim að eiga blöð eða sjónvarpsstöðvar? Í rauninni er vald auðmanna stórum ýkt. Það endist ekki lengur en viðskiptavinir þeirra vilja. Þar sem fjármagnsviðskipti eru fjörug, skipta fyrirtæki ört um hendur, og gamall fjölskylduauður er fljótur að hverfa, ef ekki er hyggilega haldið á málum. Auðmenn hafa fremur áhrif en völd. Þeir greiða fólki fyrir að gera það, sem þeir vilja. Valdsmenn neyða hins vegar fólk til að gera það, sem þeir vilja. Ef fólk lætur ekki að vilja auðmanna, þá missir það af viðskiptatækifærum. Ef fólk lætur ekki að vilja valdsmanna, þá lendir það í fangelsi. Á þessu er eðlismunur. Vissulega skiptir máli, þegar ríkisvaldið er í höndum kjörinna fulltrúa fólksins. En þótt lýðræði haldi misnotkun valdsins í skefjum, kemur það ekki með öllu í veg fyrir hana.
Auðmenn blessun frekar en böl
Auðvitað er einhver hætta á yfirgangi auðmanna. En hættan á ofríki valdsmanna er miklu meiri. Við eigum til að gleyma þessu, af því að á Íslandi hafa síðustu sextán ár setið stjórnmálamenn, sem farið hafa hóflega með vald sitt og um leið unnið skipulega að því að minnka það. Vald skapar ætíð ójöfnuð, því að það skiptir mönnum í tvo hópa, valdhafana og þá, sem settir eru undir þá. Vald er annaðhvort-eða-hugtak: Því meira vald sem einn maður hefur, því minna vald hefur annar. Auður er hins vegar bæði-og-hugtak: Eins gróði er ekki annars tap, heldur geta allir efnast. Leiða má síðan margvísleg rök að því, að auðmenn séu blessun frekar en böl. Ríkt fólk sé öðru gagnlegt, hvort sem það ætli sér það sjálft eða ekki. Ein slík rök eru, að ríkt fólk lækkar tilraunakostnað. Það kaupir vöru, á meðan hún er á þróunarstigi og er of dýr til þess, að almenningur fái notið hennar. Svo var um bíla, flugferðir og myndbandstæki. Nú hafa allir ráð á því, sem áður var aðeins á færi auðmanna. Önnur rök eru, að ríkt fólk hefur efni á því að verja réttindi sín, en með því festir það þau í sessi og tryggir, að aðrir fái notið þeirra. Þetta kallaði einn kennari minn í Oxford, heimspekingurinn John R. Lucas, sprengiefnisáhrifin. Ef starfsfólk farangursdeildarinnar á Heathrow-flugvelli veit, að sprengiefni er í einni tösku af hverri hundrað, svo að hún springur, ef farið er óvarlega með hana, þá fer það varlega með allar hundrað töskurnar. Í þriðja lagi er ríkt fólk gagnlegt, af því að það leggur til fjármagn í þróun á markaði. Þetta sést best með því að gera ráð fyrir, að í landi einu sé eitt hundrað milljörðum ráðstafað árlega í ný fyrirtæki. Ef ríkið ráðstafar þessu úr einum sjóði, þá er gerð ein tilraun, málamiðlun úthlutunarnefndinnar. Ef fjármagnið er í höndum hundrað auðmanna, sem hver ráðstafar einum milljarði, þá eru gerðar eitt hundrað tilraunir, auk þess sem vandað verður til undirbúningsins, þar eð menn hætta eigin fjármagni.
Munurinn á frjálshyggjumönnum og jafnaðarmönnum eins og Stefáni Snævarr er, að frjálshyggjumenn vilja jöfnuð, en Stefán og félagar hans jöfnun. Þetta er sitt hvað, þótt í ensku sé notað um það sama orð (equality). Frjálshyggjumenn telja engan ójöfnuð fólginn í því, að hæfileikamenn í viðskiptum fái að njóta sín, jafnvel þótt þeir verði forríkir. Stefán óttast hins vegar, að slíkir menn fari með allt sitt úr landi, séu álögur á þá þungar (eins og hann virðist vilja). En aðalatriðið var, að þeir komu. Ekki vill Stefán átthagafjötra? Þarf skipulagið ekki einmitt að vera nógu hagfellt til þess, að hæfileikamenn vilji búa hér? Samkvæmt kenningu Stefáns (sem hann kallar neikvæða jafnaðarstefnu) á ríkið að sjá um, að menn verði ekki of ríkir. Þetta er valdboðin jöfnun niður á við. Hugmyndir frjálshyggjumanna eru hins vegar um skipulag, þar sem fólk hefur tækifæri til að komast út úr fátækt af eigin rammleik, en ríkið sjái þeim myndarlega farborða, sem geta það ekki sjálfir. Þetta er frelsi í jöfnuði. Stefán segir, að ekki verði næg sátt í slíku ríki. En þessu er þveröfugt farið. Þá fyrst rofnar sáttin, ef valdsmenn leyfa fólki ekki að njóta sín, hirða af því sjálfsaflafé þess og taka að úthluta því til þeirra, sem gera mesta háreysti. Sátt í ríki næst best með því að takmarka valdbeitingu við það, sem allir eru sammála um, en leyfa mönnum að vera ósammála um annað. Stefán óttast, að samloðunarkraftur verði ekki nægur í viðskiptaskipulaginu. Hvernig skýrir hann það þá, að ættjarðarást er hvergi meiri en í Bandaríkjunum? Menn halda friðinn, ef hann er um nógu fátt. Eins og ég hef áður sagt, minnkar tilhneiging manna til að skjóta á aðra, ef þeir sjá í þeim væntanlega viðskiptavini. Náungakærleikur dugir skammt í viðskiptum ókunnugs fólks. Þar er matarástin vænlegri til árangurs, eins og Örn Arnarson orti:
Vinsemd brást og bróðurást,
breyttist ást hjá konum.
Matarást var skömminni skást,
skjaldan brást hún vonum.
Lesbók Morgunblaðsins 14. júlí 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 14:56 | Slóð | Facebook
15.7.2007 | 17:14
Bréf til Einars Más
Kæri Einar Már Jónsson! Þar sem þú situr úti í París, hefur þú skrifað bók gegn frjálshyggju, Bréf til Maríu. Þú hefur augljóslega hugsað þér að skrifa nýtt Bréf til Láru. En þú ert enginn Þórbergur. Þótt bók þín sé prýðilega skrifuð, er hún ekki nærri því eins hressileg og pistill meistarans, en íslenskir vinstri menn verða ætíð gramir, þegar ég bendi þeim á, hversu mikið Þórbergur tók þar upp eftir Óskari Wilde. Þú hefur samt margt þarft að segja um póstmódernista nútímans og ráðstjórnarvini fyrri ára.
Mér er ekki ljóst, hvort póstmódernistar teljast frekar með svikahröppunum, sem ófu klæðið, eða keisaranum, sem bar það keikur, en hitt er víst, að þessi keisari er ekki í neinum fötum. Það er líka sorglegt, hversu lengi franskir og íslenskir sósíalistar vörðu alræðið í sósíalistaríkjunum. Þeir gerðu hróp að þeim, sem sögðu sannleikann, og var átrúnaðargoð þitt, Laxness, þar fremstur í fylkingu.
Þú þekkir ekki frjálshyggju
Í Bréfi þínu til Maríu er átakanleg þversögn. Þú eyðir drjúgum hluta verksins í að kvarta undan íslenskum skattyfirvöldum, sem leikið hafi þig grátt. Ég þekki aðeins þína hlið af bréfinu og get þess vegna ekki dæmt um málið. Hins vegar eru nógu mörg dæmi um tillitsleysi, yfirgang og rangsleitni valdsmanna jafnt í Frakklandi og á Íslandi til þess, að saga þín gæti verið sönn. En sýnir hún þá ekki það, sem við frjálshyggjumenn segjum, að tortryggja ber valdið?
Einn stærsti gallinn á bók þinni, Einar Már, er, að þú deilir á kenningu, sem þú hirðir ekki um að kynnast. Þú safnar saman undir heitinu frjálshyggju öllum hagstjórnarhugmyndum vestrænna ríkisstjórna síðustu áratugi, jafnvel hinnar frönsku, sem hefur fram að þessu lítt skeytt um frelsi. Evrópusambandið er ekki heldur neitt vígi frjálshyggjumanna: Það leyfir frjáls viðskipti innan Evrópu, en torveldar innflutning til álfunnar. Blekiðjubáknið í Brüssel hefur meiri áhuga á valdi en frelsi.
Frjálshyggja sprettur upp úr tveimur hugmyndum. John Locke taldi, að takmarka yrði ríkisvaldið, og Adam Smith benti á, að mannlegt samlíf gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Frjálshyggjumenn trúa frekar á viðskipti en valdboð. Ef þú þarft eitthvað frá ókunnugum, Einar Már, þá vilja frjálshyggjumenn, að þú neyðir þá ekki til að láta það af hendi, heldur greiðir það verð fyrir það, sem þið eigandinn komið ykkur saman um. Þú átt að fara fram með verði, ekki sverði.
Tortryggjum valdið
Í Bréfi til Maríu hneykslast þú á bók eftir góðvin minn, Henri Lepage, Demain le capitalisme (Morgundagurinn er kapítalismans), þar sem hann kynnir rannsóknir ýmissa bandarískra hagfræðinga. En þessir hagfræðingar telja ekki, eins og þú heldur, að maðurinn sé sálarlaus reiknivél, heldur, að kostnaður skipti máli. Gary Becker kemst til dæmis að þeirri niðurstöðu, að kynþáttafordómar bitni ekki síður á þeim, sem hefur þá, en hinum, sem verður fyrir þeim. Á frjálsum markaði stendur kynþáttahatarinn ekki vel að vígi gagnvart ötulum keppinaut, sem nýtir sér fordómalaust krafta allra kynþátta. Sam Peltzman sýnir fram á, að strangt lyfjaeftirlit kostar fleiri mannslíf en það bjargar. Ýmist hægir eftirlitið á ferð notadrjúgra lyfja út á markaðinn eða stöðvar hana, þótt vissulega komi það líka í veg fyrir sölu einhverra hættulegra lyfja.
Margt er fleira merkilegt í bók Lepages. Hann segir þar til dæmis frá rannsóknum James M. Buchanans, sem spyr, hvers vegna menn ættu að skipta um eðli, þegar þeir hætta viðskiptum og hefja stjórnmál. Ef við treystum því ekki, að bakarinn baki brauð handa okkur af manngæsku, heldur vegna ávinningsvonar, hvers vegna ættum við þá að gera ráð fyrir, að embættismaðurinn láti aðeins stjórnast af almannaheill? Eftir reynslu þína af íslenskum skattheimtumönnum ættirðu að vera sammála Buchanan.
Peningar skipta ekki mestu máli
Það færi draumlyndum menntamönnum eins og þér, Einar Már, betur að styðja hinn frjálsa markað en hallmæla honum. Þú sýslar við norræn fræði úti í París, en í Bangladess værir þú löngu fallinn úr hor. Þú skrifar ádeilurit, og í sósíalistaríkjunum sálugu hefðir þú umsvifalaust verið sendur í vinnubúðir. Þú hefur vissulega ekki eins há laun og ýmsir kaupahéðnar, en peningar skipta hvort sem er ekki mestu máli í lífinu, eins og þú tekur einmitt oft fram í Bréfi til Maríu.
Fréttablaðið 13. júlí 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.7.2007 kl. 12:12 | Slóð | Facebook
7.7.2007 | 09:37
Náttúruvernd og atvinnufrelsi
29.6.2007 | 11:43
Takmörk félagshyggju
Íslenskir félagshyggjumenn ættu að staðnæmast við hugmyndir tveggja snjallra hugsuða. Anner er John Rawls, sem lést fyrir nokkrum árum, en var lengi heimspekiprófessor í Harvard-háskóla. Hinn er Arthur Laffer, sem er í fullu fjöri og raunar væntanlegur næsta haust til Íslands, en hann var um skeið hagfræðiprófessor í Chicago-háskóla og ráðgjafi Bandaríkjaforseta. Báðir þessir menn setja ríkisafskiptum takmörk, sem skynsamir félagshyggjumenn hljóta að viðurkenna.
Kjör hinna bágstöddustu versni ekki
Rawls taldi réttlætismál, að gæði skiptust jafnt milli manna, nema hagsmunir hinna bágstöddustu krefðust annars. Þetta er stundum orðað svo, að hámarka beri lágmarkið. Stjórnskipan ríkis á samkvæmt kenningu Rawls að vera á þann hátt, að hinir verst settu séu sem best settir við hana. Þetta merkir, að tekjumunur er þá og því aðeins réttlætanlegur, að hann leiði til meiri framfara, svo að kjör hinna bágstöddustu batni. Hugsum okkur tvö ríki, Samland og Sérland. Í Samlandi er lítill tekjumunur, en almenn fátækt, svo að hinir bágstöddustu búa við lök kjör. Í Sérlandi er talsverður tekjumunur, en lítil fátækt, og hinir bágstöddustu búa við skárri kjör en í Samlandi og þar eru fleiri tækifæri til kjarabóta. Þótt gæði skiptist vissulega ójafnar milli manna í Sérlandi en Samlandi, myndi Rawls velja Sérland. Hið sama gera þeir félagshyggjumenn, sem láta ekki aðeins stjórnast af öfund í garð auðmanna. Rawls setur skynsamlegri tekjujöfnun takmörk.
Réttlætiskenning Rawls er um sumt óskýr, og erfitt kann að vera að hrinda henni í framkvæmd. En hún er samt verðugt umhugsunarefni. Rannsóknir sýna, að kjör hinna bágstöddustu eru einna best í þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi er mest, til dæmis í Sviss og á Íslandi. Það er síðan athyglisvert, að kjör hinna bágstöddustu (til dæmis 10% tekjulægsta hópsins) eru nokkru skárri að meðaltali í Bandaríkjunum en Svíþjóð. Þótt tekjumunur sé meiri í Bandaríkjunum en Svíþjóð, eru þau miklu ríkari, og hinir bágstöddustu njóta þess. Tækifærin til að brjótast út úr fátækt eru líka fleiri í Bandaríkjunum.
Hagur ríkissjóðs versni ekkiKenning Laffers snýr hins vegar að skattheimtu og skatttekjum. Skattheimta er, hversu hátt hlutfall fer í skatta, til dæmis hvort það er 20% eða 60% af tekjum fólks. Skatttekjur eru, hversu mikið fé fæst í ríkissjóð, til dæmis hvort það er 30 milljarðar króna eða 50 milljarðar. Laffer heldur því fram, að tekjur ríkissjóðs af sköttum aukist vissulega, þegar skattheimta sé aukin, en aðeins upp að ákveðnu marki. Þá taki tekjurnar að minnka, endi verði skattgreiðendur því ófúsari að skapa verðmæti sem meira af þeim renni í ríkissjóð. Skynsamlegri skattheimtu séu þannig sett takmörk. Eftir það verði hún sjálfskæð, eins og rökfræðingar segja. Þá versni hagur ríkissjóðs í stað þess að batna. Þetta er hinn frægi Laffer-bogi, sem rís fyrst, nær hámarki og fellur síðan niður í ekki neitt við 100% skattheimtu.
Þótt félagshyggjumenn séu hlynntari auknum ríkisafskiptum en frjálshyggjumenn, hljóta allir að vera sammála um, að óskynsamlegt er að halda áfram skattheimtu, ef hún skilar sífellt minni skatttekjum. Við Íslendingar sýndum myndarlega fram á það árin 1991-2007, að Laffer-boginn er til, þegar við stórlækkuðum skatta á fyrirtæki og einstaklinga og skatttekjur af hvoru tveggja snarhækkuðu. Þá kom í ljós, að vinnuafl á Íslandi er tiltölulega kvikt, svo að það er næmt fyrir skattheimtu. Vinna manna eykst skjótt við lægri skatta og öfugt. En fjármagn á Íslandi er enn kvikara en vinnuaflið, enn næmara fyrir skattheimtu. Ef fyrirtækjum bjóðast betri kjör annars staðar, þá verða þau ekki lengi kyrr hér úti á Dumbshafi. Þess vegna ríður á miklu fyrir Íslendinga að lækka tekjuskatt á fyrirtæki enn frekar, til dæmis úr 18% í 10%, en þá verður skattaumhverfið hér eitt hið hagstæðasta í Evrópu.
Félagshyggjumenn virði takmörk sín
Ég spái því, að skatttekjur ríkisins munu frekar hækka en lækka við stórfelldar skattalækkanir. Í mínum huga er það að vísu ekkert sjálfstætt markmið að hámarka skatttekjur, en upplýstir félagshyggjumenn hljóta að virða þau takmörk, sem þeir Laffer og Rawls setja skynsamlegri félagshyggju: Hagur ríkissjóðs má ekki versna við aukin ríkisafskipti og því síður kjör hinna bágstöddustu.
Fréttablaðið 29. júní 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 14:44 | Slóð | Facebook
24.6.2007 | 10:22
Nú liggur á að lækka
Virkjunarframkvæmdum á hálendinu er að ljúka. Lækka verður leyfilegan hámarksafla úr þorski verulega eftir ráðum fiskifræðinga. Á næsta leiti virðist vera samdráttur. Nýbirt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er dökk. Hagfræðingar Alþýðusambands Íslands óttast atvinnuleysi. Hvað er til ráða? Þegar að kreppti um og eftir 1991, lækkaði ríkisstjórnin skatta í samráði við atvinnurekendur og launþegafélög. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður í nokkrum áföngum úr 45%, fyrst í 33%, síðan í 30% og loks í 18%. Þetta bar stórkostlegan árangur. Atvinnulífið rétti úr kútnum.
Hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja
Nú þarf ríkisstjórnin að gera svipað í samráði við atvinnurekendur og launþegafélög. Lækka ber skatta á fyrirtæki og einstaklinga í því skyni að örva atvinnulífið, koma í veg fyrir flutning fyrirtækja til útlanda, laða ný fyrirtæki til landsins og bæta kjör almennings. Einkum bráðliggur á að lækka skatta á fyrirtæki. Slík skattalækkun verður að hefjast um næstu áramót til að afstýra því atvinnuleysi, sem hagfræðingar Alþýðusambands Íslands vara við. Hún þarf að vera hressileg. Árin 1997-2001 lækkaði tekjuskattur á fyrirtæki um 12%, úr 30% í 18%. Þetta skilaði sér í stórauknum tekjum ríkisins. Þess vegna er okkur nú óhætt að lækka tekjuskatt á fyrirtæki um 8% á einu eða tveimur árum, úr 18% í 10%.
Í stjórnarsáttmálanum kveðast þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stefna að hagstæðu skattaumhverfi. Ef stjórn þeirra lækkar tekjuskatt á fyrirtæki í 10%, þá verður skattaumhverfi á Íslandi eitt hið hagstæðasta í Evrópu. Írar hafa stórgrætt á því að laða til sín fyrirtæki með lágum sköttum. Vegna hins öra vaxtar írsks atvinnulífs er talað um keltneska tígrisdýrið". En á Írlandi er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5%. Í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu er hann víða 10%. Tekjuskattur á íslensk fyrirtæki á ekki að vera hærri. Ekki má gleyma því, sem Geir benti á opinberlega þegar árið 1979, að Ísland hefur ýmsa möguleika sem fjármálamiðstöð. Gætum við ekki orðið norræna tígrisdýrið"?
Skattalækkanir besta kjarabótin
Verkalýðshreyfingin styður eflaust slíka skattalækkun í því skyni að örva atvinnulífið og afstýra atvinnuleysi, alveg eins og hún gerði upp úr 1991. En auðvitað hlýtur hún líka að krefjast skattalækkana á allan almenning. Einstakir fulltrúar launþega hafa sett fram athyglisverðar tillögur í því efni. Til dæmis hreyfði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja á sínum tíma hugmynd um lágan, flatan tekjuskatt. Ef tekjuskattur á fyrirtæki er lækkaður niður í 10% og fjármagnstekjuskattur er áfram 10%, þá greiðir maður, sem lifir á arði af fyrirtæki sínu, í raun 19% af tekjum sínum í skatt (10% í tekjuskatt af hagnaði fyrirtækisins og 10% af þeim 90%, sem þá eru eftir í arð til hans). Það er réttlætismál, eins og Ingibjörg Sólrún hefur nefnt, að launþegar greiði ekki hærri skatt en slíkir fjármagnseigendur. 19% flatur skattur á alla launþega myndi ná þeim tilgangi, en síðan fengju hinir bágstöddustu vitanlega sérstakar bætur.
Hagfræðingar Alþýðusambands Íslands hafa reiknað út, að láglaunafólk yrði líklega betur sett með lágum skattleysismörkum og sérstöku lágu skattþrepi en með núverandi fyrirkomulagi. En hvers vegna ekki að láta slíkt skattþrep ná upp til allra tekjuhópa? Það myndi stuðla að nýjum fjárfestingum og minnka atvinnuleysi. Aðalatriðið er að opna leið fólks úr láglaunastörfum í hálaunastörf. Til þess verður að borga sig að hækka í tekjum. Ef til vill verða aðrar leiðir hér fyrir valinu, til dæmis að hafa há skattleysismörk (þau eru raunar óvíða hærri en á Íslandi), en lækka skattinn, sem menn greiða af tekjum umfram þau mörk, og mætti hugsa sér lækkun úr 36% eins og nú er niður í 30%. Það væri stórkostleg kjarabót. Reynslan sýnir líka, að ríkið tapar engum tekjum á þessu. Tekjuskattur ríkisins á einstaklinga var lækkaður úr 31% 1997 niður í 23% 2007, en skatttekjurnar jukust verulega.
Sömu hagsmunir
Þau Geir og Ingibjörg Sólrún hafa tekið höndum saman í ríkisstjórn. Nú þurfa þau að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum atvinnurekenda og launþega, og gera samkomulag um það, hvernig örva má atvinnulífið, afstýra atvinnuleysi og bæta kjör venjulegs launafólks með stórfelldum skattalækkunum. Við höfum öll sömu hagsmuni. Við viljum vöxt í stað samdráttar. Við viljum ekki, að landið breytist í byggðasafn.
Fréttablaðið 24. júní 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook
15.6.2007 | 09:06
Gunnarshólmi Jónasar
Jónas Hallgrímsson var listaskáldið góða, enda minntist Háskóli Íslands 200 ára afmælis hans með veglegri ráðstefnu 8. júní. Ég flutti þar erindi um stjórnmálaviðhorf á dögum Jónasar og hóf mál mitt á örfáum orðum um eitt frægasta kvæði Jónasar, Gunnarshólma. Þar kveður skáldið Gunnar á Hlíðarenda hafa snúið aftur af ættjarðarást. Þetta hafa norrænufræðingar og uppeldisfrömuðir haft eftir í eina öld og hálfri betur. Faðir Kiljans gaf honum póstkort með mynd af Gunnari, og var boðskapurinn, að hann skyldi snúa aftur eins og hetjan á Hlíðarenda. En skilningur Jónasar á hinu fræga atviki úr Njálu er rangur. Gunnar lét ekki fremur en aðrir fornmenn stjórnast af ættjarðarást. Það hugtak var ekki til í þeirra tíð.
Vísað til Hallgerðar
Þegar hestur Gunnars hrasaði og hann horfði upp til Hlíðarenda, mælti hann: Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi." Hvers vegna? Ég er hissa á því, hversu fáir hafa séð augljóst svar. Hallgerður Langbrók sat þar heima, en Gunnar kvæntist henni af girnd. Í 41. kafla Njálu segir, að Hallgerður hafi um skeið þjónað Sigmundi Lambasyni eigi verr en bónda sínum". Gunnar þorði ekki að skilja konu sína eftir á Íslandi í þrjú ár. Hann vissi, að hún var til alls vís. Þess vegna sneri hann aftur. Með tali sínu um hina fögru hlíð vísaði hann til konu sinnar. Þetta stílbragð er algengt í Íslendingasögum. Afbrýðisemi var til á Þjóðveldisöld. Framferði Gunnars er skiljanlegt, þótt það sé ekki skynsamlegt, því að hann rauf gerða sátt.
Gunnarshólmi Jónasar er skýrt dæmi um það, hversu gjarnt mönnum er að lesa eigin hugmyndir inn í fortíðina. Gunnar á Hlíðarenda var ekki rómantískur þjóðernissinni, eins og Jónas. Á Jónasarþinginu var raunar furðulegt að hlusta á upphafsávarp Þorvarðar Árnasonar, sem velti því fyrir sér, hvort skáldið hefði verið vinstri-grænt. Jónas orti fögur kvæði um náttúru Íslands. En af því leiðir ekki, að hann hefði viljað snúa aftur inn í torfkofana, taka sér fjaðurpenna í hönd og lifa á fjallagrösum. Sjálfur benti ég á í erindi mínu, að í tíð Jónasar bar tvær frelsishugmyndir hæst, um þjóðfrelsi og einstaklingsfrelsi. Jónas virðist hafa haft miklu meiri áhuga á þjóðfrelsi en einstaklingsfrelsi, en Jón Sigurðsson var frelsissinni í báðum merkingum orðsins.
Þjóðfrelsi og einstaklingsfrelsi
Þjóðfrelsi merkir, að ríkið er sjálfstætt og lýtur ekki yfirráðum annarra ríkja, til dæmis Danaveldis. En fylgismenn einstaklingsfrelsis spyrja: Hvað er fengið með því, að kúgararnir séu innlendir frekar en erlendir? Er ekki aðalatriðið, að einstaklingarnir innan ríkisins njóti réttar til að segja skoðun sína opinberlega, stofna félög og fyrirtæki, versla sín í milli og við menn af öðru þjóðerni? Guðmundur Hálfdánarson prófessor hefur haldið því fram með nokkrum rökum, að togstreita Íslendinga og Dana á nítjándu öld hafi ekki síst verið vegna þess, að danska stjórnin vildi auka einstaklingsfrelsi á Íslandi, en gamla valdastéttin íslenska þybbast við.
Freistingin að flytjast brott
Í öðrum skilningi er kvæði Jónasar um Gunnar á Hlíðarenda þó satt, eins og allur góður skáldskapur. Það bregður skærri birtu á brýnt mannlegt úrlausnarefni. Hvenær er hlíðin svo fögur og akrar bleikir, að menn freistist ekki til þess að flytjast brott? Þar mun hvorki ættjarðarást né afbrýðisemi ráða úrslitum, heldur þau lífskjör, sem Íslendingar njóta í samanburði við aðrar þjóðir.
Síðustu sextán árin hefur hagkerfið íslenska tekið stakkaskiptum. Íslendingar eru nú í hópi þeirra tíu þjóða heims, sem búa við frjálsasta hagkerfið. Til þess að byggð haldist í landinu, þurfa lífskjörin enn að batna. Það gerist best með stórfelldum skattalækkunum til fyrirtækja og almennings. Ef tekjuskattur fyrirtækja fellur niður í 10%, þá verður skattaumhverfi hér eitt hið hagstæðasta í Norðurálfunni. Ef tekjuskattur einstaklinga fer á nokkrum árum niður í 30%, þá jafngildir það stórkostlegum kjarabótum almennings. Þá munu fleiri vilja koma en fara.
Fréttablaðið 15. júní 2007.
14.6.2007 | 10:41
Erindi og viðtal
Ég flutti erindi um Stjórnmálaviðhorf á dögum Jónasar Hallgrímssonar á ráðstefnu Háskóla Íslands og fleiri aðila föstudaginn 8. júní. Glærur mínar má nálgast hér, en útdrátt úr erindinu hér. Upptöku af erindinu má sjá hér.
Ég var í viðtali við Valdísi Gunnarsdóttur á Bylgjunni sunnudagsmorguninn 10. júní, og má hlusta á þáttinn hér. Þar ræddi ég um æskuárin á Óðinsgötu 25 og Laugarnesvegi 100 og um nám í Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, Menntaskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Háskólanum í Oxford, en líka um stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson og Geir H. Haarde.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.6.2007 kl. 17:38 | Slóð | Facebook
12.6.2007 | 20:24
Hvaða ráð myndi ég gefa Þingvallastjórninni?
Nýja ríkisstjórnin á að einbeita sér að þeim málum, sem hún er í meginatriðum sammála um eða njóta víðtæks stuðnings þjóðarinnar allrar, og hreyfa lítt við því, sem sundra kann, enda mætir tími og tilviljun okkur öllum, eins og segir í Prédikaranum.
Skattalækkun á fyrirtæki
Fyrsta málið, sem Þingvallastjórnin á að taka á, er að búa fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi. Mikilvæg skref voru tekin í þá átt síðustu sextán ár með því að fella niður aðstöðugjald og lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 45% í 18%, sem skilaði samt stórauknum skatttekjum ríkisins. Við einkavæðingu viðskiptabanka og annarra fyrirtækja varð atvinnulífið miklu heilbrigðara. Jafnframt var útflutnings- og fjármálafyrirtækjum tryggður aðgangur að mikilvægasta markaði þeirra með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. En lífið stendur ekki í stað. Aðrar þjóðir hafa líka lækkað skatta á fyrirtæki. Nokkur fyrirtæki hafa nýlega flust til Hollands eða Noregs vegna þess, að þar er söluhagnaður af hlutabréfum ekki skattlagður. Víða annars staðar bjóðast fyrirtækjum góð skattakjör. Á Írlandi greiða fyrirtæki 12,5% tekjuskatt og í Eistlandi 10%. Í sumum svissneskum kantónum er skatturinn enn lægri. Frakkar og Þjóðverjar hafa hætt andófi við skattasamkeppni og taka nú þátt í henni.
Ef við ætlum að vera samkeppnishæf í Evrópu, þá verðum við í fyrsta lagi að fella niður skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum og setja svipaðar reglur og Hollendingar og Norðmenn. Í öðru lagi eigum við að lækka tekjuskatt af fyrirtækjum úr 18% í 10%. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að slík skattalækkun myndi örva atvinnulífið til dáða, svo að skatttekjur af því myndu aukast, jafnframt því sem skattaskil myndu batna. Erlend fyrirtæki myndu síðan mörg sjá sér hag í að flytjast til Íslands, svo að skattstofninn myndi enn stækka. Eins og Geir H. Haarde, forsætisráðherra hinnar nýju stjórnar, benti á þegar árið 1979, hefur Ísland ýmsa kosti sem fjármálamiðstöð. Ör vöxtur íslenska fjármálageirans síðustu ár sýnir, að margt er mögulegt, sem menn höfðu aðeins látið sig dreyma um áður.
Skattalækkun á einstaklinga
Annað málið, sem Þingvallastjórnin þarf að taka á, er að tryggja sæmilegt jafnrétti fjármagnseigenda og launþega í skattlagningu tekna þeirra. Það er að vísu vanhugsað, sem stundum heyrist, að fjármagnseigendur greiði nú 10% skatt af tekjum sínum og launþegar 36%. Fjármagnseigendur, sem reka fyrirtæki og taka arð út úr því, greiða í raun af honum 26,2% (18% tekjuskatt fyrirtækisins og síðan 10% af arðinum, sem þá er eftir, eða samtals 18+8,2=26,2%). Launþegar greiða ekki heldur 36% skatt, því að sá er jaðarskatturinn, ekki meðaltal skatthlutfalls þeirra. Til dæmis greiðir maður með 90 þúsund króna mánaðarlaun nú 0% í tekjuskatt, þar sem skattleysismörk eru 90 þúsund á mánuði. Maður með 180 þúsund króna mánaðarlaun greiðir 0% af fyrstu 90 þúsund krónunum og 36% af afganginum, svo að hann greiðir í raun 18% tekjuskatt. Það er ekki fyrr en komið er í nær 400 þúsund króna mánaðartekjur, sem launþeginn greiðir svipað hlutfall og fjármagnseigandinn.
Setjum svo, að tekjuskattur fyrirtækja verði lækkaður í 10%, eins og eðlilegt er. Þá greiðir fjármagnseigandi í raun 19% tekjuskatt (10% tekjuskatt fyrirtækisins og síðan 10% af arðinum, sem þá er eftir, eða samtals 10+9=19%). Til að skattgreiðslur venjulegs launþega yrðu sambærilegar, þyrfti annaðhvort að taka upp 19% flatan tekjuskatt á atvinnutekjur eða lækka núverandi tekjuskatt með háum skattleysismörkum niður í um 27%. Þá myndu launþegar með allt að 400 þúsund króna mánaðartekjur greiða lægra hlutfall en fjármagnseigendur, en launþegar yfir þessum tekjum greiða hærra hlutfall. Eðlilegast væri að velja milli þessara tveggja leiða í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Áhrifamikil launþegafélög hafa sett fram hugmyndir um flatan skatt, en önnur launþegafélög vilja hækka skattleysismörk (en þá yrði tekjuskattur einstaklinga ekki lækkaður jafnmikið og hér er gert ráð fyrir).
Rausnarleg velferðaraðstoð
Velmegun og velferð haldast í hendur. Þegar atvinnulífið er sligað með þungum sköttum eins og í Svíþjóð, hættir það að vaxa nægilega ört til þess, að einstaklingar fái vinnu og ríkið tekjur. Gæsin verpir þá ekki lengur gulleggjunum. Í ljós hefur komið, að á Norðurlöndum er velferðaraðstoð hér á Íslandi í mörgu rausnarlegust, þótt meðaltöl séu stundum lág. Ástæðan er sú, að leitast hefur hér verið við að beina velferðaraðstoðinni til þeirra, sem þurfa á henni að halda, en ekki að færa fé fyrst frá sjálfbjarga mönnum og síðan aftur til þeirra. Til dæmis eru barnabætur til láglaunafólks hærri hér en á Norðurlöndum, en barnabætur til allra að meðaltali lægri. Skýringin er sú, að barnabæturnar eru hér betur tekjutengdar, eins og eðlilegt er: Ríkt fólk á ekki að þiggja barnabætur. Svipað er að segja um lífeyristekjur. Á Norðurlöndum eru þær að meðaltali hæstar hér á hvern lífeyrisþega. En greiðslur til lífeyrismála á hvern íbúa á lífeyrisaldri eru hins vegar að meðaltali næstlægstar hér. Skýringin er sú, að fleiri vinna hér: Af 31 þúsund manns á lífeyrisaldri taka aðeins 26 þúsund manns lífeyris. Enn fremur eru greiðslur til margvíslegrar þjónustu við aldraða að meðaltali hæstar hér.
Við eigum að halda áfram á sömu braut. Velferðaraðstoðin á ekki að vera millifærsla frá sjálfbjarga fólki til sjálfbjarga fólks, þar sem stórfé hverfur á leiðinni. Hún á að vera millifærsla frá hinum sjálfbjarga til hinna ósjálfbjarga. Til dæmis er eðlilegt, eftir því sem lífeyrissjóðir vaxa og verða aflögufærari, að greiðslur úr þeim taki við af lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingum. Enginn tilgangur er í því, að ríkið greiði auðmönnum lífeyri eða því miðstéttarfólki, sem nýtur væns lífeyris úr eigin sjóðum. Hitt er gáfulegra að hækka greiðslurnar úr almannatryggingum til þeirra, sem eru á lífeyrisaldri og njóta hvergi annarra tekna. Velferðarríkið átti rót sína í viðleitni til að tryggja almennt afkomuöryggi. Það var hugsað fyrir fátæka, sjúka, aldraða og atvinnulausa. Með vaxandi velmegun minnkar þörfin fyrir slíka velferðaraðstoð. Velferðarríkið verður að vísu aldrei óþarft, en eðlilegt er, að það minnki með hinni minnkandi þörf. Ég sé til dæmis enga ástæðu til þess, að fólk, sem býr við sæmileg efni, greiði ekki sjálft fyrir skólagöngu sína og heilsugæslu. Tekjutenging bóta og gjaldtaka af sjálfbjarga fólki auðveldar hvort tveggja að beina velferðaraðstoðinni til þeirra einna, sem þurfa á henni að halda, svo að hún geti þar verið rausnarleg.
Öryggi þjóðarinnar
Við lifum í viðsjálli veröld, þótt kalda stríðinu sé vissulega lokið. En þegar Bandaríkjaher hvarf af landi brott sumarið 2006, varð landið varnarlaust. Það getur ekki verið varanlegt ástand. Nýjar hættur blasa við. Glæpafélög Austur-Evrópu teygja starfsemi sína til Íslands. Serkneska hryðjuverkahópa kann að bera niður hér eins og annars staðar. Hverjum datt í hug 1626, að árið eftir birtust hér sjóræningjar? Erfitt er einnig að átta sig á framtíðarþróun Rússaveldis. Við hljótum að tryggja öryggi okkar með samningum við vinveittar grannþjóðir, þar á meðal Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðir. Jafnframt hljótum við að herða sjálf margvíslegt eftirlit með aðkomumönnum og koma hér upp einhvers konar varaliði, sem kann að taka á móti vopnuðu illþýði, eins og meiri hluti þjóðarinnar er sammála um samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta er vandasamt verkefni, því að öllu valdi fylgir auðvitað hætta á misnotkun þess. En eins og Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn, er okkar gamla vernd, fjarlægðin, úr sögunni.
Mikið tækifæri er um leið fólgið í því, að fjarlægðin er úr sögunni. Ísland þarf ekki að vera áhrifalaust smáríki í Evrópusambandinu. Þótt það sé í jaðri Evrópu, liggur það á miðju Norður-Atlantshafi. Geir H. Haarde hefur rétt fyrir sér um, að hér eru um margt ákjósanleg skilyrði til að reka alþjóðlega fjármálaþjónustu. Eitt fordæmi í því efni getur verið Sviss, sem hefur ekki aðeins verið griðastaður flóttamanna í blóðugum stríðum Norðurálfunnar, heldur líka geymslustaður fjár. Getur Ísland ekki orðið Sviss Norðursins? Auk þess sem við hljótum að nýta áfram náttúrugæði okkar, fagurt land, gjöfular orkulindir og frjósama fiskistofna, getum við með lágum sköttum og traustum lögum laðað til okkar fyrirtæki, sem telja af ýmsum ástæðum þröngt um sig í Evrópusambandinu, einkum alþjóðleg fjármálafyrirtæki. Ógæfa annarrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi, Nýfundnalands, var, að hún gekk í ríkjasamband við Kanada og hætti að treysta á sjálfa sig. Ísland á að rækta áfram vináttu og viðskipti við Bandaríkin og Evrópuríkin, ekki síst Norðurlönd, en ekki ganga neinum á hönd.
Þjóðmál, sumarhefti 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2007 kl. 08:41 | Slóð | Facebook