Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.12.2007 | 14:30
Fordæmi Íslands
Ég birti grein í O Globo, víðlesnasta og virtasta dagblaði Rio de Janeiro, laugardaginn 29. desember 2007 ásamt Odemiro Fonseca, kunnum og umsvifamiklum brasilískum kaupsýslumanni, um fordæmi Íslands, en það hefur víða vakið athygli, að lífskjör á Íslandi eru talin ein hin bestu í heimi. Í greininni er rakið, hvernig Ísland var nánast eins og sum ríki Rómönsku Ameríku á öndverðum níunda áratug 20. aldar, með 100% verðbólgu, ríkisstyrki í vonlaus verkefni, ríkisrekstur á ólíklegustu sviðum og rányrkju á auðlindum. Þetta breyttist ekki síst eftir 1991, þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn, en Geir H. Haarde heldur umbótastarfi hans áfram. Hér er greinin á portúgölsku, en myndin er af mér og Fernando-Henrique Cardoso, fyrrverandi forseta Brasilíu, þegar við hittumst í apríl 2007 á ráðstefnu í Porto Alegre, þar sem við héldum báðir fyrirlestra.
A Islândia chamou a atenção dos brasileiros por obter o mais alto Índice de Desenvolvimento Humano (IDH) do mundo e nos permite uma reflexão sobre a intrigante questão do que é bom governo.
A Islândia era quase uma nação latino-americana no início dos anos 80, disfuncional como o Brasil. A inflação chegou a 100% em 1983, e o déficit público, a 6% do PIB. A dívida pública explodiu. O governo era um empresário enorme, dono de empresas, bancos, indústrias de pesca, agência de viagens, gráficas, telefônicas. O sistema previdenciário era terrível no déficit e na gerência. A alíquota do Imposto de Renda para empresas era de 45%. E vigoravam impostos sobre altas rendas e riqueza. Existiam fundos de fomento, em que burocratas escolhiam "ganhadores" e faziam empréstimos hospitalares. Havia subsídios para muitas atividades, principalmente para a indústria pesqueira. Os subsídios levaram a um excesso de pesca, e os cardumes se tornaram escassos.Mas, cansados e sentindo os novos ventos, em 1991 os eleitores levaram para o governo David Oddsson e seu partido. E aconteceu na Islândia a mais consciente reforma liberal-democrata que se conhece. Reduziu-se o Imposto de Renda para alíquota única de 18%, e foram extintos os impostos sobre altas rendas e riqueza. Foram privatizadas dezenas de empresas, os bancos e as instituições financeiras, a telefônica, as empresas de pesca. A reforma previdenciária criou fundos de capitalização. Hoje, os fundos de pensão por capitalização representam 130% do PIB, a mais alta taxa dos países do OECD.
Com banco central independente, a inflação caiu para 2% a.a. O superávit fiscal chegou a ser 5% do PIB, e a dívida começou a cair. Hoje a dívida pública líquida é zero. Nos países da OECD e no Brasil, é acima de 45% do PIB.
Estabeleceu-se também um engenhoso sistema de "propriedade dos peixes". Hoje, a indústria pesqueira é privada e lucrativa, sem subsídios, e responde por 70% da exportação da Islândia. Não existe mais o risco de os peixes acabarem, pois os empresários protegem seus peixes.
A carga fiscal do governo central (equivale ao nosso federal mais estadual) tem se mantido em 32% com relação ao PIB. Menor do que no Brasil. Com prosperidade e empresas lucrativas, o padrão de vida e a receita fiscal sempre subiram. Nenhum programa social foi atingido.
Os islandeses têm liberdade de escolha impensável para os brasileiros. A sindicalização é voluntária. Se um pai quer colocar o filho na escola particular, o governo dá o dinheiro que gastaria na escola pública. Não existe nada da rigidez trabalhista brasileira. A liberdade cambial é total. Com a prosperidade, o nível do desemprego é de 2%, o que torna o seguro-desemprego quase nunca usado. Criou-se uma cultura em que renda se ganha com trabalho.O milagre islandês aconteceu porque o governo saiu da frente da sociedade civil e, em conseqüência, surgiram milhares de empreendedores descobrindo oportunidades, inovando e pagando impostos. Foi uma mudança intelectual. Durante os anos 80, era freqüente a visita de intelectuais defensores de tais reformas. Friedman, Hayek, Buchanan eram arrozes-de-festa na Islândia e os políticos participavam das reuniões. Geir Haarde, atual primeiro-ministro e ex-ministro da Fazenda, não acha que governar é gastar. Ele quer cortar mais as alíquotas dos impostos, diminuir regulamentação. Entende que tais ações aumentam as oportunidades na Islândia.
Reformas que buscam competição privada, além de prosperidade, trazem paz social e ganham eleições sem o jogo sujo que estamos vendo no Brasil e na América Latina. Este governo islandês está no poder há 16 anos.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2008 kl. 11:38 | Slóð | Facebook
28.12.2007 | 09:33
Lífsgæðakapphlaupið

Kapphlaup
Hvers vegna liggur nútímamönnum á? Margir hafa tekið eftir því, að fólk fer sér miklu hægar í sveitum en borgum og í suðrænum löndum en norrænum. Skýringin er einföld. Því fleiri tækifæri sem menn hafa úr að velja, því dýrmætari verður tími þeirra. Þeir þurfa þess vegna að skammta tímann skynsamlega, flýta sér, svo að þeir geti gert allt það annað, sem þeim stendur til boða hverju sinni. Ella eru þeir að missa af einhverju. Í sveitum er hins vegar fátt að gera og þess vegna þarf ekki að asa að neinu. Hið sama er að segja um suðræn lönd, þar sem allir sitja úti í veðurblíðunni og masa. Þeir gera það, af því að annarra kosta er ekki völ. Þeir eru ekki að missa af neinu. Kapphlaup nútímamanna er því eðlilegt viðbragð við fjölgun tækifæra.
Lífsgæði
Tækifærin, sem nútímamenn keppa að, eru umfram allt um að bæta lífskjör sín í víðasta skilningi. Þetta er mikils virði. Þegar botnlanginn springur í venjulegum Íslendingi, fer hann bót meinsins í einum uppskurði. Við búum við einhverja fullkomnustu læknisaðstoð og heilsuvernd í heimi. Það er, af því að Íslendingar hafa háar tekjur. Við höfum efni á þessu. Þegar Stephan G. Stephansson var unglingur, seint á nítjándu öld, sá hann nokkra jafnaldra sína þeysa saman á fákum fram hjá bóndabænum. Þeir voru á leið suður í Lærða skólann. Stephan hljóp út í móa og grét. Foreldrar hans voru of snauð til að setja hann til náms. Eftir nokkra leit fann móðir hans soninn. Þá sveið henni fátæktin mest. Nú þarf enginn fróðleiksfús unglingur að hverfa frá námi á Íslandi sökum efnaskorts.
Hagvöxturinn, sem er ávöxtur lífsgæðakapphlaupsins, er umfram allt fólginn í því að gera hlutina betur og ódýrar. Áður fyrr þurftu skóladrengirnir, sem Stephan sá við túnfótinn hjá sér, að nota þrjá daga í ferðina suður í Lærða skólann. Nú má aka sömu leið á þremur klukkustundum. Þannig spara menn sér tvo sólarhringa og 21 klukkutíma, sem þeir geta notað til einhvers annars. Áður fyrr þurfti til að framleiða eina bók skinn úr mörgum kálfum, blek úr sortulyngi og uppihald skrifara heilu veturna. Nú er venjulegur íslenskur verkamaður klukkustund að vinna fyrir einni vænni bók. Ólíkt því sem spekingarnir segja, snýst hagvöxtur ekki um að auka sífellt magn, heldur um að fjölga tækifærum.
Nautn eða fíkn
Í lífsgæðakapphlaupinu reyna menn að fullnægja þörfum sínum betur og ódýrar en áður. Þeir njóta lífsins. Mannlífinu fer fram. En spekingarnir horfa ásökunaraugum á okkur og segja titrandi röddu (ekki síst úr prédikunarstólum kirknanna), að við séum háð efnislegum gæðum. Við séum eyðslufíklar og neyslufíklar. Ég spyr á móti: Hver er munurinn á nautn og fíkn? Maður hefur áhuga á mat, leggur mikið á sig til að laga hann og getur ekki hugsað sér að vera án hans. Hann er sælkeri, en þarf ekki að vera átvagl. Öðrum manni þykir sopinn góður og fær sér ljúffengt rauðvín með hverri máltíð á kvöldin, jafnvel hátt í flösku í hvert sinn, en þetta stendur honum ekki fyrir þrifum. Er hann ekki hófdrykkjumaður fremur en ofdrykkjumaður? Þriðji maðurinn stundar líkamsrækt af krafti og er háður henni. En hún er honum nautn og ástæðulaust að tala um fíkn í því sambandi. Því er stundum haldið fram, að allt, sem sé gott, sé ýmist ósiðlegt, ólöglegt eða fitandi. Í lífsgæðakapphlaupinu öðlumst við margt, sem er gott án þess að vera neitt af þessu, ósiðlegt, ólöglegt eða fitandi.
Fréttablaðið 28. desember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook
24.12.2007 | 11:38
Jöfnuður og sanngjörn skattlagning
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.12.2007 kl. 13:16 | Slóð | Facebook
18.12.2007 | 15:04
Afhjúpun Guðna Elíssonar
Guðni Elísson upplýsti lesendur Morgunblaðsins drýgindalegur um það hér 10. nóvember síðastliðinn, að hann væri sérfræðingur í orðræðugreiningu. Nokkrum vikum áður hafði hann hreykt sér af því, að hann hefði nánast alla valdhafa heimsins og vísindamenn á bak við sig um þá kenningu, að bráð vá væri af hlýnun jarðar af mannavöldum. Það er ekki heiglum hent að ræða við slík ofurmenni. Ég hef birt hér tvær greinar um málið, en ætla samt að reyna enn einu sinni, enda er fleira fróðlegt í síðasta framlagi orðræðusérfræðingsins en hann kemur ef til vill sjálfur auga á.
Svör Guðna
Í fyrri skrifum taldi Guðni sér nægja að stimpla mig í stað þess að svara ábendingum: Ég væri málpípa ráðandi afla, sem var einkennilegt, því að í sömu andrá sagðist Guðni hafa nær alla valdsmenn jarðar í liði sínu; ég ætti sálufélag við hægri sinnaða lýðveldissinna (repúblikana) bandaríska og launaða talsmenn þeirra, eins og það skipti einhverju máli um sanngildi ábendinga minna. Nú sér Guðni sitt óvænna og reynir að svara mér efnislega um nokkur atriði. Það er lofsvert. Skoðum málið.
Ég hafði haldið því fram, að skóglendi hefði ekki minnkað síðustu hálfa öld. Guðni spyr um heimild. Hún er bók Björns Lomborgs, Hið sanna ástand heimsins. Þar segir hann, að skóglendi heims hafi 1950-1994 aukist um 0,85%. Heimildir Lomborgs voru skýrslur F. A. O., Landbúnaðar- og matvælastofnunar sameinuðu þjóðanna. Guðni nefnir, að regnskógar séu að minnka. Hann tekur ekki nytjaskóga með í reikninginn. Það er hins vegar rétt og liggur í hlutarins eðli, að skóglendi hefur minnkað frekar en aukist í heiminum, frá því að sögur hófust. Sérfræðingar þræta líka um skilgreiningar á skóglendi.
Ég hafði rifjað upp þá fullyrðingu nokkurra vísindamanna frá því um 1980, að ný ísöld væri að ganga í garð, enda hafði heldur kólnað á jörðinni árin 1945-1980. Guðni svarar, að ísaldarkenningin hafi ekki verið viðtekin í sama mæli og kenningin um bráða vá vegna hlýnunar af mannavöldum. Það er rétt, enda var ábendingu minni aðallega ætlað að sýna, að vísindamenn eru skeikulir.
Ég hafði haft fyrir satt, að á suðurhveli sé að kólna, þótt á norðurhveli sé að hlýna. Guðni svarar, að landmassi sé miklu meiri á norðurhveli, svo að áhrifa af losun gróðurhúsalofttegunda gæti þar frekar, og hafstraumar hiti auk þess ekki upp Suðurskautslandið. Eflaust er eitthvað til í þessu, enda var ábending mín aðeins um það, hversu hæpið er að alhæfa um flókin ferli (sem Guðni viðurkennir raunar líka af þessu tilefni).
Ég hafði furðað mig á því, hversu lítið er gert úr því, að ekki hefur hlýnað í Bandaríkjunum frá 1998. Hlýjasta ár 20. aldar reyndist þar vera 1934, en 1998 var hið næsthlýjasta. Þetta merkir, að öll árin eftir 1998 hafa mælst þar kaldari. Guðni segir, að þessi mæling eigi aðeins við Bandaríkin. En ég tók það einmitt fram í fyrri grein minni um málið, þótt ég stytti mál mitt í upprifjun á röksemdum mínum í seinni greininni. Þetta var yfirsjón mín: Ég hefði mátt vita, að orðræðusérfræðingurinn veitti þessu ekki athygli úr fyrri grein minni, svo að ég hefði átt að endurtaka það í hinni seinni.
Ég hafði bent á fyrri loftslagsbreytingar, hlýnun og kólnun á víxl. Guðni viðurkennir, að þær breytingar hafi ekki verið af mannavöldum. En leita þurfi að minnsta kosti 1200 ár aftur í tímann til að finna jafnmikla hlýnun og nú. Hætta sé því á ferð. Ég er hér ekki sannfærður eins og Guðni. Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá.
Ég hafði minnt á þá kenningu, að virkni sólar valdi mestu um loftslagsbreytingar. Guðni viðurkennir, að svo hafi verið, þegar litið er um öxl til síðustu árþúsunda. Furðugóð samsvörun er milli hlýnunar jarðar og virkni sólar. En Guðni telur, að engar breytingar hafi orðið á virkni sólar síðustu þrjátíu ár, þegar hlýnunin hafi verið hvað mest. Helstu formælendur sólvirknikenningarinnar, Henrik Svensmark og Eigil Friis-Christensen, telja sig hins vegar geta skýrt þetta. Ég get ekkert sagt um þetta annað en það, að líta verður á þetta til langs tíma, ekki skamms.
Hverju svarar orðræðusérfræðingurinn ekki?
Það ræður engum úrslitum um kenninguna um bráða vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum, þótt ekki hafi hlýnað í Bandaríkjunum síðustu níu ár. Meta verður kenninguna til lengri tíma. Það ræður ekki heldur neinum úrslitum um sólvirknikenninguna, þótt virkni sólar hafi ekki aukist síðustu þrjátíu ár, en hlýnað um leið. Meta verður kenninguna til lengri tíma. Þetta eru flókin ferli og margir þættir að verki í einu. Þótt Guðni sé orðræðusérfræðingur, má hann ekki velja sér viðmið að eigin geðþótta. Ef norðurhvel jarðar er heppilegra viðmið en suðurhvelið, hvers vegna eru Bandaríkin (með alla sína losun gróðurhúsalofttegunda) þá til dæmis ekki heppilegra viðmið en önnur svæði jarðar?
Svör Guðna eru furðuveik og mótsagnir í máli hans. Merkilegri er þó þögn hans um ýmsar ábendingar mínar. Ein var, að viðvörun Rachelar Carsons við skordýramótefninu D. D. T. í einu fyrsta umhverfisverndarritinu, Raddir vorsins þagna, hefur reynst röng. Efnið er ódýrt í framleiðslu, hættulaust mönnum og minnkar líkur á mýrarköldu (malaríu), en vegna banns við því hafa milljónir fátæks fólks í suðrænum löndum dáið. Enn sagði ég frá því, að hrakspár í öðru umhverfisverndarriti, Endimörkum vaxtarins, um yfirvofandi skort á efnum eins og olíu og kolum hafa reynst rangar. Ég rifjaði einnig upp, þegar upp komst fyrir tilviljun, að spá nokkurra sjávarlíffræðinga frá því í nóvember 2006 um yfirvofandi hrun fiskistofna jarðar var auglýsingabrella, sett fram í þeim tilgangi að vekja athygli fjölmiðla.
Ég benti enn fremur á, að ísbjörnum á norðurhveli er ekki að fækka vegna hlýnunar jarðar. Þeim hefur fjölgað frekar en hitt. Sáralitlar líkur eru síðan taldar á því, að Golfstraumurinn muni síðar meir minnka stórlega eða hverfa, eins og spáð var. Ég minnti líka á ýmis tilvik, þegar vísindamenn hafa talað ógætilega í nafni vísindanna. Vorið 1983 fullyrtu 364 breskir hagfræðingar, að stefna Margrétar Thatchers í efnahagsmálum fengi ekki staðist. Vorið 1987 staðhæfðu þrír íslenskir raunvísindamenn, að Tjörnin hyrfi innan þriggja vikna, yrði tekinn grunnur að ráðhúsi við eitt horn hennar.
Guðni svarar þessu engu. Ég fagna því, ef þögn hans jafngildir samþykki. Guðni leiðir líka hjá sér eitt aðalatriði máls míns: Setjum svo, að jörðin sé að hlýna og sú hlýnun sé að miklu leyti af mannavöldum, aðallega vegna losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Hvað ber að gera? Í nýútkominni bók, Kælum okkur (Cool It), heldur Björn Lomborg því fram, að tiltæku fé sé miklu betur varið til annars en berjast gegn slíkri hlýnun, enda hafi hún í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Aðgerðir gegn útblástri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda muni sáralitlu breyta. Rök Lomborgs eru sterk. Við getum ekki stjórnað veðrinu á morgun og því síður loftslaginu eftir tíu ár. Við getum hins vegar lagað okkur jafnt að veðri og loftslagi, eftir því sem þörf krefur.
Undarlegar orðræður
Guðni Elísson kveðst vera sérfræðingur í orðræðugreiningu. Vissulega er margt hnýsilegt í orðræðunni um loftslagsbreytingar, en einkum það, að fréttir um hugsanlega vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum berast okkur miklu greiðar en um hitt, að allt kunni að vera í stakasta lagi og menn geti gengið rólegir til vinnu sinnar á morgun ekki síður en í dag. Hvar segir til dæmis frá því, að 31. október 2007 mældist á grænlenska jöklinum mesta frost í októbermánuði frá upphafi mælinga? Hefði ekki verið á forsíðu Morgunblaðsins, ef þar hefði mælst minnsta frostið? Hvar segir frá því, að miklu fleiri deyja á hverju ári í kuldaköstum í Evrópu en fyrir hita sakir?Heiðarlegur íslenskur orðræðugreinandi hefði ærin verkefni. Til dæmis tilkynntu tveir háskólaprófessorar, Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason, haustið 2006, að hér væri tekjuskipting orðin miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Þeir áttu greiða leið í fjölmiðla. Jafnvel var eitt sinn sagt sérstaklega í hljóðvarpi ríkisins frá viðtali við Stefán þann daginn í Fréttablaðinu, og þarf mikið að liggja við, til að einn fjölmiðill taki þannig upp eftir öðrum. En Evrópusambandið birti skýrslu 1. febrúar 2007, þar sem fram kom, að tekjuskipting er hér svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og fátækt einna minnst í heimi eftir alþjóðlegum mælingaraðferðum. Fjölmiðlar minntust varla á þessa skýrslu. Enginn spyr þá Stefán og Þorvald, hvaðan þeir fengu hinar röngu tölur sínar.
Annað dæmi um undarlega orðræðu snýr að Kúbu. Hópur manna heldur því fram, að suðrænar þjóðir séu fátækar vegna viðskipta við Vesturveldin. Sami hópur fullyrðir, að Kúbverjar séu fátækir vegna viðskiptabannsins, sem Bandaríkjastjórn setur á Kúbu. Augljóst er, að báðar fullyrðingarnar geta ekki staðist í einu, og raunar er önnur rétt: Hagur Kúbverja hefur versnað vegna viðskiptabannsins, þótt aðalskýringin á fátækt þeirra sé, að þar í landi hefur grimmur einræðisherra ríkt frá 1959, barið niður alla andstöðu við sig og um leið framtak fólks. En nokkrir helstu menningarpáfar okkar gorta af því að hafa skorið upp sykur fyrir Kastró þar syðra.
Þriðja dæmið er af sambúð kynjanna. Samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum á hamingju vegnar konum miklu betur í lífinu en körlum. Þær lifa nokkrum árum lengur, stytta sér síður aldur, leiðast síður út í neyslu fíkniefna, fremja síður glæpi og sitja síður í fangelsum. Samt er til heil atvinnugrein, jafnréttisiðnaðurinn, sem veltir að minnsta kosti hundrað milljónum á ári, en forsenda hans og réttlæting er, að konur séu kúgaður minnihlutahópur. Bágust mælast síðan kjörin hjá einstæðum feðrum, og ungum körlum milli tektar og tvítugs er hætt við sjálfsvígum. Hvar sér þessa stað í orðræðunni?
Orðræðan um þróunaraðstoð er einnig undarleg. Þegar skýrt var á dögunum frá því, að í öllum heimi hefðu lífskjör mælst best á Íslandi, flýttu sumir stjórnmálamenn sér að segja, að Íslendingar þyrftu að auka þróunaraðstoð. Enginn spyr þá, hvar þróunaraðstoð hefur skilað árangri. Hún hefur hvergi gert það. Hún er aðstoð án þróunar. Þær þjóðir, sem brotist hafa úr fátækt í bjargálnir, svo sem íbúar Hong Kong, Suður-Kóreu, Singapúrs og Taívans, hafa einbeitt sér að sköpun verðmæta í stað skiptingar þeirra, haldið uppi lögum og rétti, framleitt fyrir vestrænan markað, stillt álögum á og afskiptum af einkafyrirtækjum í hóf. Þar hefur orðið þróun án aðstoðar. Á Vesturlöndum starfar fjölmennur hópur að þróunarmálum, sem engu skilar. Hvar er barnið, sem segir, að keisarinn sé ekki í neinum fötum? Hvers vegna lætur orðræðugreinandinn spaki ekki í sér heyra?
Brellur GuðnaEf Guðni Elísson er sérfræðingur í orðræðugreiningu, hvernig stendur þá á því, að hann beitir algengustu brellunum, sem varað er við í rökfræði fyrir byrjendur? Ein er rökleiðsla eftir manninum (argumentum ad hominum). Hún er í þremur þrepum: HHG setur fram fullyrðinguna y. HHG er landskunnur þrjótur. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Við blasir, að þriðju fullyrðinguna leiðir ekki af hinum tveimur. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hvert er innræti mannsins, sem setur hana fram. Önnur brella Guðna er náskyld. Hún er nefnd rökleiðsla eftir hagsmunum (argumentum ad hominem circumstantial). Hún er svofelld: HHG setur fram fullyrðinguna y. HHG hefur hag af því, að y sé sönn. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Þetta er rökvilla af sömu ástæðu. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hverjir eru hagsmunir mannsins, sem setur hana fram.
Tvær aðrar brellur Guðna eru sömu ættar. Eina kalla Englendingar guilt by association, en heimspekingurinn Leo Strauss nefndi hana reductio ad hitlerum. Hana mætti íslenska rökleiðslu eftir sálufélögum. Hún er á þessa leið: HHG setur fram fullyrðinguna y. Bandarískir hægri menn eru sálufélagar hans. Bandarískir hægri menn hafa ekki rétt fyrir sér um neitt. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Auðvitað er þetta líka rökvilla. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hverjir eru sammála þeim, sem setur hana fram. Grænmetisát verður ekki verra fyrir það, að Hitler hafi verið grænmetisæta. Fjórðu brelluna kalla Englendingar the bandwagon argument (argumentum ad populum). Hana mætti nefna rökleiðslu eftir fjölda. Hún er í fjórum liðum: HHG setur fram fullyrðinguna y. Fáir eru sammála honum. Flestir eru ósammála honum. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Enn er á ferð villa. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hversu margir taka undir hana. Mannkynbótafræðin (e. eugenics) varð ekki betri fyrir það, að á öndverðri tuttugustu öld lögðu margir vísindamenn trúnað á hana.
Fimmta brella orðræðusérfræðingsins er á ensku kennd við the straw man. Hún er fólgin í að ráðast ekki á hina raunverulegu skoðun manns, heldur gera honum upp aðra skoðun hæpnari og ráðast á hana. Eðlilegasta íslenska heitið á þessu er grýlubrellan. Guðni lætur eins og ég hafni kenningunni um hlýnun jarðar og líka hinni, að hún sé að einhverju leyti af mannavöldum. Það geri ég ekki. Ég skrifaði hér í Lesbókina 27. október: Sjálfur hallast ég helst að því, að eitthvað sé að hlýna á jörðinni og það geti að einhverju leyti verið af mannavöldum, en að allt of mikið hafi verið gert úr því, auk þess sem vart borgi sig að gera neitt við því. Við þessi orð stend ég. Óumdeilt er, að meðalhiti á jörðinni (að því marki sem það hugtak hefur merkingu) hefur síðustu hundrað ár hækkað um 0,7 stig á Celsius og að koltvísýringur í andrúmslofti hefur á sama tíma aukist um röskan þriðjung. Til er sennileg vísindaleg tilgáta um það, hvernig aukning koltvísýrings minnki hitatap frá jörðinni. Hugsanlega skýrir hún eitthvað af þessari hlýnun.
Ég held öðru fram: Margt annað en losun koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur áhrif á hitastig á jörðu. Loftslagið er sífellt að breytast. Við vitum ekki, hversu stórir áhrifaþættirnir eru hver og einn og hver samleikur þeirra er, og því síður getum við haft teljandi áhrif á það. Það er enn eitt dæmið um það, sem Grikkir hinir fornu kölluðu hybris eða ofmetnað, að mennirnir geti stjórnað loftslaginu, fínstillt það eins og vél með því að þrýsta á hnappa í mælaborði. Marktækir útreikningar sýna, að það myndi breyta lífi okkar mannanna mjög til hins verra að banna eða torvelda notkun olíu eða kola sem orkugjafa, en litlu sem engu breyta um sjálft loftslagið. Við getum hins vegar brugðist við loftslagsbreytingum, alveg eins og við getum búið okkur undir vond veður með rammgerðum þökum og þéttum gluggum. Til þess þurfum við aðlögunarhæft og þjált hagkerfi.
Hin mikla afhjúpun
Aðlögunarhæft og þjált hagkerfi þarf að vera frjálst. Hér er komið að hinni miklu afhjúpun Guðna Elíssonar. Hann bendir sigri hrósandi á það, að ég efist um bráða vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum, þar eð ég sé hlynntur frjálsu hagkerfi og tortrygginn á aukin ríkisafskipti. Hann klifar á þessari uppgötvun sinni hér í blaðinu 10. nóvember. En hún er ekki merkilegri en svo, að ég hef gengist greiðlega við henni. Ég skrifaði til dæmis í fyrstu grein minni hér í ritdeilunni við Guðna: Andstæðingar vestræns kapítalisma, sem vaxið hefur upp og dafnað síðustu aldir, nota ætíð sams konar röksemdir: Þegar skip sekkur, hljóta menn að hraða sér út í björgunarbátana. Við lífsháska er enginn tími til að spyrja spurninga og því síður til að velja og hafna. Eitt afbrigði þessarar röksemdar, sem sumir sérfræðingar nota, er hrakspáin: Ef ekki er farið að ráðum sérfræðinganna og það strax, þá er voðinn vís.
Guðni ætlaði að afhjúpa mig og afhjúpaði í raun sjálfan sig. Við fyrstu sýn virðist hann aðeins kontóristi með stimpla: Leyfð skoðun! Bönnuð skoðun! Bush vondur! Gore góður! En í raun og veru er hann enn einn síðskeggjaði spámaðurinn úr Gamla testamentinu, sem stendur ellimóður uppi á steini og æpir á okkur, að við verðum að iðrast synda okkar og gera yfirbót, áður en það er of seint. Sögu þessa spámanns höfum við oft heyrt áður: Mennirnir eru vondir. Það, sem okkur finnst gott, getur ekki verið gott fyrir okkur. Við hljótum að hverfa aftur til náttúrunnar, hætta að hita upp húsin okkar, stökkva út úr bílunum og upp á hjólin. Annars ferst heimurinn. Það er sjálfsagt að hlusta kurteislega á þessa gömlu sögu, sem til er í ýmsum útgáfum, meðal annars í Völuspá og Kommúnistaávarpinu, en ef ég fæ einhverju ráðið um líf mitt á nýbyrjaðri öld, ætla ég að láta Guðna og hans líkum eftir að lifa á fjallagrösum og munnvatni og njóta sjálfur tækninnar, menningarinnar, nútímans, kapítalismans.
Lesbók Morgunblaðsins 15. desember 2007. (Ein myndin við þessa grein er af því, þegar fylgismenn kenningarinnar um bráða vá vegna hlýnunar jarðar köstuðu köku í Björn Lomborg, en hann var í Borders-bókabúðinni í Oxford að kynna bók sína, The Sceptical Environmentalist, sem komið hefur út á íslensku undir heitinu Hið sanna ástand heimsins. Þessir menn stunda sérstaka tegund orðræðu!)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.1.2008 kl. 12:10 | Slóð | Facebook
18.12.2007 | 15:03
Nýja þjóðarsátt
Auðvelt er að gera lítið úr þjóðarsáttinni 1990, segja, að hún hafi aðeins verið tímabundin verðstöðvun á vinnumarkaði, enda hjaðni verðbólga aðeins við peningalegt aðhald, þegar til langs tíma er litið. Þjóðarsáttin 1990 markaði þó tímamót. Aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að hætta að semja um óraunhæfar krónutöluhækkanir kaupgjalds, sem síðan var ætlast til þegjandi og hljóðalaust, væri þess þörf, að ríkið ónýtti þá með því að fella krónuna í verði, með verðbólgu. Eins og dr. Vilhjálmur Egilsson þreyttist ekki á að benda á, höfðu laun áratugina á undan hækkað um 1.000% að krónutölu, en sáralítið í kaupmætti.
Þjóðarsáttin 1990 hefði að vísu sennilega rofnað, ef fylgt hefði verið óbreyttri stjórnarstefnu, almannafé ausið í óarðbærar fjárfestingar og ríkissjóður rekinn með halla. En sem betur fer var stjórnarstefnunni breytt 1991, horfið frá opinberum styrkjum við vonlaus verkefni, tekið upp aðhald í peningamálum og ríkisfjármálum, skattar lækkaðir og ríkisfyrirtæki seld. Vegna blómlegs atvinnulífs hafa laun hækkað um 50-70% í kaupmætti. Ekkert atvinnuleysi er heldur á Ísland ólíkt mörgum grannríkjanna. En nú eru blikur á lofti, lausafjárskortur, ókyrrð á mörkuðum og verðfall á hlutabréfum.
Lækkum tekjuskatt
Við slíkar aðstæður hljóta stjórnmálamenn jafnt og forystumenn á vinnumarkaði að velta því fyrir sér í mikilli alvöru, hvernig Íslendingar geti áfram notið bestu lífskjara í heimi. Sá stórkostlegi árangur var ekki fyrirhafnarlaus, og hann heldur ekki áfram af sjálfum sér. Hvernig eiga vinnuveitendur að greiða hærra kaup? Hvernig batna kjör launþega án búsifja fyrir atvinnulífið? Hvernig verða tekjur tekjulægstu hópanna hækkaðar? Svarið er einfalt. Vinnuveitendur geta greitt hærra kaup, ef tekjuskattar á fyrirtæki eru lækkaðir. Launþegar geta sætt sig við hóflegri kauphækkanir, ef tekjuskattar á einstaklinga eru lækkaðir. Tekjur tekjulægstu hópanna geta hækkað, ef bætur til þeirra eru hækkaðar, en bætur til tekjuhærri hópa um leið lækkaðar.
Sumir vilja bæta kjör láglaunafólks með því að hækka skattleysismörk verulega. Telja þeir það jafngilda skattalækkun. Sú aðgerð er ómarkviss, enda eru skattleysismörk hærri á Íslandi en í flestum öðrum löndum og litlu lægri miðað við vísitölu neysluverðs en 1988, þegar þau urðu hæst. Til þess að koma skattleysismörkum í hið sama og þá þyrftu þau aðeins að hækka í rösk 100 þúsund krónur á mánuði eða um 10 þúsund. Kosturinn við að lækka tekjuskatt á fyrirtæki og einstaklinga er hins vegar, að verðmætasköpun stóreykst þá, svo að ekki dregur eins úr skatttekjum ríkisins og ætla má við fyrstu sýn. Hækkun skattleysismarka hefur ekki sömu góðu hliðaráhrif. Ríkið tapar með henni miklu fé, auk þess sem skattgreiðslur allra lækka, ekki aðeins láglaunafólks.
Hitt er skynsamlegra, að hækka barnabætur og elli- og örorkulífeyri til þeirra, sem þurfa á slíkri aðstoð að halda, en minnka að sama skapi aðstoð við þá, sem komast vel af sjálfir. Þetta er auðvitað gert nú þegar að nokkru marki með tekjutengingu bóta, sem er skynsamleg og sanngjörn og ætti einmitt að vera verkalýðshreyfingunni kappsmál: Hátekjufólk á ekki að þiggja neinar bætur, hvorki barnabætur né ellilífeyri frá hinu opinbera (enda hafi það aðrar tekjur, svo sem atvinnu- eða eignatekjur eða lífeyri úr venjulegum lífeyrissjóðum). Hins vegar mætti auðvitað hækka það mark, sem bætur taka að skerðast við, svo að það borgi sig betur fyrir láglaunafólk að sækjast eftir hærri launum.
Öllum í hag
Ein meginástæðan til þess, að frændum okkar, Írum, hefur vegnað vel síðustu áratugi, er, að þeir gerðu þjóðarsátt, sem fól í sér hóflegar launahækkanir og langtímasamninga á vinnumarkaði gegn því, að ríkið lækkaði skatta jafnt á fyrirtæki og einstaklinga. Til dæmis er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5% á Írlandi, en 18% hér. Skattalækkanir síðustu sextán ára á Íslandi skiluðu ótrúlegum árangri í aukinni verðmætasköpun. Ef til vill er ekki að búast við jafngóðum árangri með áframhaldandi skattalækkunum, en þær myndu hins vegar afstýra yfirvofandi samdrætti í atvinnulífi og greiða fyrir sátt á vinnumarkaði. Ráðstöfunartekjur venjulegra launþega myndu snarbatna, ef tekjuskattur á þá myndi lækka um 5-6%, eins og eðlilegt væri. Þess vegna er ný þjóðarsátt nauðsynleg: Almennar skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga væru öllum í hag, þegar til langs tíma er litið, líka ríkinu, þótt það bæri mestallan kostnaðinn af slíkri sátt í upphafi.
Fréttablaðið 14. desember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.1.2008 kl. 12:17 | Slóð | Facebook
6.12.2007 | 15:18
Hefur Ísland vikið af hinni norrænu leið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2007 kl. 15:04 | Slóð | Facebook
5.12.2007 | 00:20
Ísland í dag og Næturvaktin
30.11.2007 | 11:25
Gagnslaus aðstoð
Ánægjulegt var að heyra á dögunum, að Ísland sé í efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna um vísitölu þroskaskilyrða (human development index). Í þeim mælikvarða er ekki aðeins reiknað með landsframleiðslu á mann, sem er algengasti mælikvarði á lífskjör, heldur líka menntun og heilsu íbúa. Sérstaklega hljóta þessar fréttir að ylja þeim um hjartarætur, sem tóku hér völd fyrir 16 árum röskum, 30. apríl 1991, en þá var horfið frá ríkisafskiptastefnu fyrri tíðar. Eftir þau tímamót hjaðnaði verðbólga vegna aðhalds í peningamálum, halli á ríkissjóði breyttist í afgang vegna aðhalds í ríkisfjármálum, hagkerfið var opnað með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, biðstofa forsætisráðherra tæmdist, af því að hætt var að ausa fé í illa rekin fyrirtæki, hið hagkvæma kvótakerfi í sjávarútvegi var treyst með margvíslegri löggjöf, stór og lítil fyrirtæki ríkisins voru seld, en féð notað til að létta skuldum af ríkissjóði, og skattar voru lækkaðir stórlega á fyrirtæki og einstaklinga.
Fátækir nutu góðs af
Allir nutu góðs af, jafnt fátækir og ríkir. Í Evrópu er samkvæmt nýlegri skýrslu Evrópusambandsins fátækt næstminnst á Íslandi. Það er aðeins í Svíþjóð, sem hlutfall fólks undir fátæktarmörkum er lægra, en þar eð lífskjör eru lakari þar, eru kjör fátækra hér betri í krónum og kaupmætti (þótt auðvitað séu þau samkvæmt skilgreiningu aldrei öfundsverð). Ef marka má sömu skýrslu Evrópusambandsins, þá er tekjuskipting hér fremur jöfn, svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Enn segir í þessari skýrslu, að í Evrópu sé fátækt í elsta aldurshópnum minnst á Íslandi. Á Norðurlöndum eru samkvæmt nýlegri skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar lífeyristekjur hæstar að meðaltali á Íslandi. Smám saman er tekið að muna um hina öflugu lífeyrissjóði okkar. Barnabætur eru að vísu að meðaltali lægri á Íslandi en í Svíþjóð, en miklu hærri til láglaunafólks, því að við greiðum háar barnabætur til þess og lágar til hátekjufólks, en Svíar greiða hið sama með öllum börnum óháð efnahag og aðstöðu foreldra. Vegna tekjutengingar bóta er velferðaraðstoð hér einmitt markvissari.
Þróunaraðstoð er aðstoð án þróunar
Sumir segja við þessar góðu fréttir, að við eigum að láta fátækar þjóðir í suðri njóta auðlegðar okkar. Eigi náungi þinn engan kyrtil, en þú tvo, þá skaltu gefa honum annan þinna. Ég efast ekki um góðan hug þeirra, er svo mæla. En reynslan sýnir, að svokölluð þróunaraðstoð er gagnslaus. Hún er aðstoð án þróunar. Við veittum til dæmis Grænhöfðaeyjum verulega þróunaraðstoð árum saman. Hún breytti engu. Vegna stórfelldrar þróunaraðstoðar hefur Tansanía breyst í bónbjargaríki. Á sama tíma má sjá mörg dæmi um þróun án aðstoðar, og eru Austurálfutígrarnir fjórir frægastir, Suður-Kórea, Taívan, Hong Kong og Singapore. Sigurður Guðmundsson landlæknir og kona hans, Sigríður Snæbjörnsdóttir, störfuðu í eitt ár í Malaví. Þau lýstu því í fróðlegu viðtali hér í Fréttablaðinu 4. nóvember, hvernig fé er sóað þar syðra í gagnslausa þróunaraðstoð.
Besta ráðið er frjáls viðskipti
Rétta ráðið er ekki að hækka framlög íslenska ríkisins til þróunaraðstoðar, heldur að berjast á alþjóðavettvangi fyrir frjálsum viðskiptum. Fátækar þjóðir í suðri munu njóta góðs af auðlegð Vesturlanda, ef þau fá að selja vöru sína óheftar á alþjóðamarkaði í stað þess, að Evrópusambandið og aðrir aðilar reisi í kringum sig háa tollmúra. Þessar þjóðir þurfa líka að fá öflug fyrirtæki til að fjárfesta í arðbærum verkefnum (á vegum einkaaðila, ekki Alþjóðabankans, sem er ekkert annað en risavaxin byggðastofnun). Mestu varðar, að hinar fátæku þjóðir suðursins læri af reynslunni. Þær komast í álnir með því að opna hagkerfið, afnema höft, auðvelda rekstur einkafyrirtækja, halda afskiptum af atvinnulífi í lágmarki, vernda eignarréttinn og fara að öðru leyti að dæmi Austurálfutígranna eða vestrænna þjóða, meðal annars Íslendinga. Verkefnið er ekki að gefa náunga okkur kyrtil, heldur að auðvelda honum að sauma kyrtla, ekki aðeins sjálfum sér, heldur líka til að selja á vestrænan markað.
Fréttablaðið 30. nóvember 2007.
22.11.2007 | 14:22
Pétur Björnsson forstjóri
Pétur Björnsson var áhugasamur um þjóðmál, hafði fastmótaðar skoðanir og alþjóðlega útsýn, enda hafði hann eftir stúdentspróf 1949 menntast í Svartaskóla (Sorbonne) í París, Þrenningargarði (Trinity College) í Cambridge og Ríkisháskólanum í Flórída í Tallahassee. Pétur stundaði ekki aðeins nám í París, heldur lenti líka í ýmsum ævintýrum, þegar hann skemmti sér oft næturlangt með auðugum furstum úr Arabaríkjum. Gengi krónunnar var hátt miðað við franka, og gátu íslenskir stúdentar lifað við rausn. Stundum brugðust þó gjaldeyrisyfirfærslur. Eitt sinn leigðu Pétur og annar Íslendingur herbergi á gistihúsi í vondu hverfi í París. Var leigan lág. Skýringin kom, þegar annar þeirra þurfti um miðjan dag að bregða sér heim: Þá var ein af dætrum götunnar þar með viðskiptavini. Hypjuðu þeir Pétur sig brott hið snarasta.
Pétur kímdi stundum yfir því, að umsjónarkennari hans í Cambridge var hinn frægi marxisti Maurice Dobbs. Þá eyddi Pétur þó tímanum ekki síður í að heimsækja ungar stúlkur í hjúkrunarskóla þar í grennd, og þar hitti hann Phoebe, sem var góð vinkona hans alla tíð. Þurfti hann að klifra upp háa veggi til að ná fundum hennar og naut þess þá, að hann var vel á sig kominn. Heima á Íslandi kvæntist Pétur 1957 Sigríði Hrefnu Magnúsdóttur, afbragðskonu. Heimsóttu þau hjón Phoebe og mann hennar eitt sinn á námsárum mínum í Englandi, og var gaman að sitja með þeim fjórum og minnast liðins tíma.
Í Tallahassee kynntist Pétur vel ýmsum mönnum, sem síðar komust til áhrifa í her og leyniþjónustu Bandaríkjanna. Var hann stundum milligöngumaður, þegar á þurfti að halda, enda í senn góður Íslendingur og eindreginn Bandaríkjavinur. Hann vissi fyrr en flestir aðrir um þá ætlun Bandaríkjastjórnar að kalla herafla sinn héðan, og hafði hann eitt sinn frumkvæði að hádegisverði með okkur Davíð Oddssyni í Ráðherrabústaðnum til að vara við þessu. Í Tallahassee var einn kennari Péturs James M. Buchanan, sem síðar varð frægur hagfræðingur og hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Þegar Buchanan kom til Íslands haustið 1982, bauð Pétur honum heim til sín, en hann var góður gestgjafi og manna veitulastur.
Pétur rak af skörungsskap fyrirtækið Vífilfell, sem framleiðir kók. Það villti sumum sýn, að hann var gleðimaður. En vitaskuld þurfti annað en aukvisa til að skapa einhverja mestu markaðshlutdeild kóks í heiminum, eins og Pétri tókst hér á Íslandi. En þótt Pétur byggi við miklu ríflegri efni en títt var um Íslendinga á seinni hluta tuttugustu aldar, var hann ætíð alþýðlegur, enda vinsæll af starfsfólki sínu. Þegar ég var dreginn fyrir rétt í ársbyrjun 1986 vegna reksturs útvarpsstöðvar, hlýnaði mér um hjartarætur, þegar ég leit fram í áheyrendastúkuna. Þá var Pétur þar kominn mér til halds og trausts. Undir lokin rökkvaði í lífi hans sökum þráláts sjúkdóms, og þá hafði hann ómetanlegan styrk af konu sinni og þremur dætrum, Ástu, Erlu og Guðrúnu, börnum þeirra og barnabörnum. Pétur Björnsson var gæfumaður, og það var gæfa að eiga hann að vini.
Minningargrein í Morgunblaðinu 22. nóvember 2007. (Myndin er af okkur Pétri Guðfinnssyni útvarpsstjóra og Pétri Björnssyni forstjóra.)
17.11.2007 | 18:12
Erindi Jónasar við okkur
Gunnarshólmi er ekki besta kvæði Jónasar Hallgrímssonar. Í mörgum öðrum verkum nýtur sín betur sérstakur hæfileiki skáldsins til að orða algild sannindi á tæran, þýðan og einfaldan hátt. En Gunnarshólmi er sterkasta kvæði Jónasar, vegna þess að þjóðin tekur það beint til sín. Gunnar á Hlíðarenda er kappinn, sem ákveður að vera um kyrrt á landinu. Hann er tákn um tilvistarvon lítillar þjóðar á hjara veraldar.
Í því sambandi veltur ekkert á því, að með gerðum sínum rýfur Gunnar sátt, sem er nauðsynlegt skilyrði þess, að menn geti byggt landið. Því síður skiptir máli, að Jónas Hallgrímsson misskilur söguna, sem hann yrkir um: Auðvitað snýr Gunnar ekki aftur vegna ættjarðarástar, sem var ekki til á dögum hans. Hann er hræddur um, að kona sín, Hallgerður Langbrók, verði sér ótrú, á meðan hann sé ytra. Hún hafði áður verið öðrum manni sem kona, eins og segir í 41. kafla Njálu.
Sannleikur skáldskaparins er ofar þessum einstöku atvikum. Hann snýst um drauminn og valið. Draumurinn er að vera kappi eins og Gunnar á Hlíðarenda, afbragð annarra manna, stökkva hæð sína í fullum herklæðum. Forðum virtist sá draumur vera eins og hugarflótti undan hráköldum veruleika, óráðshjal á erlendum krám. Á síðmiðöldum og fram á nítjándu öld voru Íslendingar ein fátækasta þjóð Norðurálfunnar. Þeir áttu ekkert nema þrjóskuna og handritin.
Þetta breyttist í lok nítjándu aldar, þegar Danir færðu okkur atvinnufrelsi, og fjármagn varð til í landinu. Eftir féllu menn ekki úr hor eða hröktust vestur um haf, heldur fluttust þeir til Reykjavíkur og annarra blómlegra útgerðar- og verslunarstaða. Þó voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar í lífskjörum á við Dani fram undir 1940. Næstu fimmtíu árin nutu þeir að vísu góðra tekna, en það mátti því miður rekja til rányrkju á Íslandsmiðum og stríðsgróða í heitu stríði og köldu.
Eftir 1991 var breytt um stefnu, festa kom í stað lausungar í fjármálum og peningamálum og frelsi í stað skömmtunarvalds í atvinnulífi. Íslendingar skipuðu sér í fremstu röð. Þá má segja, að draumurinn hafi loks ræst. Á sama hátt og Gunnar á Hlíðarenda ber af öðrum mönnum, ber nú íslenska þjóðin af öðrum þjóðum. Garðar Hólm er ekki lengur hinn dæmigerði Íslendingur.
Gunnarshólmi Jónasar er líka um valið, sem við stöndum andspænis. Hvernig má búa svo um hnúta í síminnkandi heimi, að hæfileikamenn verði um kyrrt á Íslandi, en setjist ekki að annars staðar? Svarið blasir við: Með því að fjölga hér tækifærum, sem þessir menn geta gripið sjálfum sér og um leið öðrum í hag. Brýnast er að halda áfram að lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga, eins og gefið hefur góða raun síðustu sextán ár. Með því fær lífsandi loft, sköpunarmátturinn er virkjaður inn í landið, ekki út úr því. Með lágum sköttum getur Ísland orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð, Sviss norðursins.
Jónas Hallgrímsson á því erindi við okkur. Sannleikurinn í Gunnarshólma er, að við megum ekki hrekja snjöllustu menn þjóðarinnar burt. Til þess að við getum elskað landið, verður landið að vera elskulegt. Og elskulegt er það land, þar sem friður ríkir og frelsi býr.
Lesbók Morgunblaðsins 17. nóvember 2007.