Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
17.11.2007 | 18:08
Hver er Arthur Laffer?
Arthur B. Laffer, sem flytur hádegiserindi í Þjóðmenningarhúsinu í dag um kosti skattalækkana, er áreiðanlega einn kunnasti hagfræðingur heims, en um leið einn hinn umdeildasti. Bandaríska vikuritið Time taldi hann í forsíðugrein 29. mars 1999 með snjöllustu hugsuðum aldarinnar, en sum starfssystkin hans vilja lítt af honum vita. Laffer fæddist 14. ágúst 1940 í Youngstown í Ohio-ríki, lauk B. A. prófi í hagfræði frá Yale-háskóla í 1963, M. B. A. prófi frá Stanford-háskóla 1965 og doktorsprófi frá sama skóla 1971.
Laffer-boginn
Laffer kenndi hagfræði í Chicago-háskóla 1967-1976 og var ráðunautur fjármálaráðuneytis og varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í forsetatíð Nixons og Fords. Átti hann þá stundum leið um Washington-borg. Þar sem hann sat einn daginn í desember 1974 að hádegisverði með nokkrum áhrifamönnum Hvíta hússins í veitingahúsinu Two Continents, dró hann upp á munnþurrku mynd, sem sýndi, hvernig skatttekjur ríkisins hækka fyrst, þegar skattheimta eykst (til dæmis úr 10% í 20%). Skatttekjurnar hækka upp að einhverju hámarki, en síðan minnka þær aftur, þótt skattheimtan haldi áfram að aukast. Það felur í sér, að við ákveðin skilyrði geta skatttekjur hækkað, þegar skattheimta minnkar (til dæmis úr 60% í 50%).
Þetta þótti viðmælendum hans merkilegur boðskapur, og til varð hinn frægi Laffer-bogi. Laffer segir sjálfur, að hann hafi oft áður notað bogann í kennslu, og minnir á, að þetta sé gömul speki. Til dæmis sagði serkneskur heimspekingur, Ibn Khaldun, á 14. öld: Menn ættu að vita, að í upphafi valdaskeiðs nýrrar ættar skilar skattheimta miklum skatttekjum af léttum álögum. Í lok valdaskeiðs ættarinnar skilar skattheimta lágum skatttekjum af þungum álögum. Þeir Adam Smith og John Maynard Keynes bentu líka á, að stundum yrði hlutfallið milli skattheimtu og skatttekna öfugt: Meiri skattheimta skilaði minni skatttekjum. Hér heima sagði Jón Þorláksson á þingi 1925: Það er almenn regla, viðurkennd af sérfræðingum í skattamálum í meira en 100 ár, að takmörk eru fyrir því, hve mikið má hækka einstaka skatta; þegar komið er að þessu takmarki, leiðir frekari hækkun ekki til aukningar á skatttekjum, heldur til lækkunar á þeim.
Skattalækkanir Reagans
Viðmælendum Laffers fannst fróðlegast, að Bandaríkin væru hugsanlega komin öfugum megin á bogann, þar sem skatttekjur ríkisins lækka með meiri skattheimtu. Væri dregið úr skattheimtu, kynnu skatttekjur ríkisins að hækka. Hugmyndin var einföld: Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Væri atvinnulífið örvað með skattalækkunum til vaxtar, myndi það skila ríkinu meiri tekjum. Ronald Reagan boðaði þessa hugmynd í baráttunni fyrir forsetakjörið 1980, en andstæðingum hans fannst fátt um og kölluðu vúdu-hagfræði. Eftir að Reagan varð forseti, hrinti hann hugmyndinni ótrauður í framkvæmd. Hann hafði erindi sem erfiði. Hæsti mögulegi tekjuskattur lækkaði úr um 70% í 28% í tíð hans, en skatttekjur tvöfölduðust. Gagnrýnt var, að skattalækkanir Reagans væru einkum tekjuháu fólki í hag. En athyglisvert er, að eftir skattalækkanirnar lagði sá hópur meira hlutfallslega til heildarskatttekna.
Laffer færði sig 1976 um set til Suður-Kaliforníu-háskóla í Los Angeles og var þar prófessor til 1984. Eftir það kenndi hann um skeið við Pepperdine-háskóla, en hefur hin síðari ár rekið sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki og situr í fjölda stjórna einkafyrirtækja. Laffer var 1978 einn helsti formælandi Tillögu 13 í Kaliforníu, sem takmarkaði fasteignaskatta í ríkinu. Hann sat í hagfræðingaráði Reagans alla forsetatíð hans. Margir telja hann einn aðalhöfund framboðshliðar-kenningarinnar í hagfræði (supply-side economics), en hún snerist um að auka framleiðslu með lægri sköttum og minni ríkisafskiptum, en hafa minni áhyggjur af skammtímahalla í rekstri ríkisins. Annar kunnur formælandi kenningarinnar er Robert Mundell, sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun í hagfræði.
Dæmi um Laffer-bogann
Enginn hagfræðingur efast um, að einhvers konar Laffer-bogi sé til: Þegar skattheimta sé 0%, séu skatttekjur engar, og þegar skattheimta sé 100%, séu skatttekjur varla neinar heldur. Hins vegar kann vel að vera, að Laffer-boginn sé miklu óreglulegri í laginu en hann er venjulega dreginn upp (til dæmis í þessari grein) og erfiðara að segja til um, hvar einstök ríki séu stödd á honum. Þó er fróðlegt að bera saman tvö gamalgróin og auðug Evrópulönd, sem stóðu utan stríða á tuttugustu öld, Svíþjóð og Sviss. Skattheimta er nær 60% af vergri landsframleiðslu í Svíþjóð, en eitthvað yfir 30% í Sviss. Skatttekjur ríkisins á mann eru hins vegar svipaðar í þessum tveimur löndum. Freistandi er að álykta, að Sviss sé vinstra megin (réttum megin) á boganum, en Svíþjóð öfugum megin.
Annað dæmi um Laffer-bogann eru skattalækkanir Bush Bandaríkjaforseta 2003. Hann lækkaði tekjuskatt á arði úr um 40% í 15% og á söluhagnaði úr 20% í hið sama, 15%. Skatttekjur ríkisins af þessum tveimur tegundum fjármagnstekna stórjukust. Í þessu sambandi má líka nefna Spán og Írland. Undir forystu Jósefs Maríu Aznars lækkuðu Spánverjar tekjuskatt í tveimur áföngum, en skatttekjur jukust og þrálátur halli hvarf á fjárlögum. Írar efndu til sáttar á vinnumarkaði, sem fólst í því, að ríkið lækkaði tekjuskatt á almenning gegn því, að launþegar og vinnuveitendur gættu hófs í kjarasamningum. Írar lækkuðu líka tekjuskatt á fyrirtækjum, sem er þar nú aðeins 12,5%. Þrátt fyrir þessar skattalækkanir (eða öllu heldur vegna þeirra) hefur hagur ríkisins vænkað, jafnframt því sem þjóðin hefur komist í álnir.
Ísland skýrasta dæmið?
Skýrasta dæmið um Laffer-boginn er líklega Ísland. Síðustu sextán ár hefur hagkerfið hér verið umskapað, svo að það er eitt hið frjálsasta og blómlegasta í heimi. Einn mikilvægasti þátturinn í þessari umsköpun voru miklar skattalækkanir. Tekjuskattur fyrirtækja lækkaði frá 1991 til 2001 úr 45% í 18% og hefur verið það síðan. Tekjuskattur einstaklinga lækkaði frá 1997 (þegar ríki og sveitarfélög endurskoðuðu verkaskiptingu sína) til 2007 úr 30,41% í 22,75%. Fjármagnstekjuskattur er 10% og leggst á tekjur, sem ýmist voru skattlagðar miklu hærra áður (allt upp í um 40%) eða ekki skattlagðar, þar sem þær voru svo óverulegar. Aðstöðugjald, sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, eignaskattur og hátekjuskattur var allt fellt niður og erfðafjárskattur snarlækkaður. Virðisaukaskattur af matvælum var líka lækkaður verulega.
Árangurinn fór hér fram úr björtustu vonum: Skatttekjur hafa hækkað mjög. Á meðan tekjuskattur á fyrirtæki var 45% árið 1991, námu tekjur ríkisins af honum um tveimur milljörðum króna. Skatttekjurnar af 18% tekjuskatti á fyrirtæki eru í ár taldar nema um 35 milljörðum króna. Fjármagnstekjuskattur skilaði áður engu í ríkissjóð, en nú miklu, hátt í 20 milljörðum á ári. Það hefur svo sannarlega reynst rétt, sem Laffer og aðrir framboðshliðarhagfræðingar brýndu fyrir okkur, að lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. En fróðlegt verður að heyra í dag, hvernig Laffer ráðleggur okkur að halda bakstrinum áfram.
Morgunblaðið 16. nóvember 2007 (þar nokkuð stytt).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2007 kl. 11:10 | Slóð | Facebook
16.11.2007 | 07:34
Laffer-boginn yfir Íslandi
Samkvæmt þjóðsögunni bíður fjársjóður við enda regnbogans. Engum hefur enn tekist að finna þann fjársjóð. En annar bogi er til, þar sem hafa má ógrynni fjár. Hann er Laffer-boginn svonefndi, sem kenndur er við bandaríska hagfræðinginn Arthur B. Laffer og sýnir, hvernig skattalækkanir geta greitt fyrir sig sjálfar. Laffer-boginn lýsir tengslum skattheimtu og skatttekna. Með skattheimtu er átt við, hversu langt ríkið gengur í skattlagningu, til dæmis hvort menn greiða 20% eða 40% af tekjum sínum í skatt. Með skatttekjum er vísað til þess, hver afrakstur ríkisins verður af skattheimtunni, til dæmis hvort hann verður fimmtíu eða hundrað milljarðar króna. Laffer-boginn sýnir, að fyrst hækka skatttekjur, þegar skattheimta er aukin, uns komið er að einhverju hámarki, en eftir það lækka skatttekjurnar, þótt skattheimta sé enn aukin.
Breytilegur skattstofn
Hugsunin að baki Laffer-bogans er, að skattstofninn sé breytilegur að stærð. Ef gengið er langt í skattheimtu, þá minnkar stofninn. Menn afla þá minni tekna, vinna skemur og vantelja fram tekjur. Þetta er svipuð hugsun og í fiskihagfræði, þar sem sýnt er samband sóknar í fiskistofn (til dæmis mælt í fjölda báta) og afla. Þar er boginn svipaður: Eftir því sem sóknin eykst, verður aflinn meiri, uns komið er í eitthvert hámark, og eftir það tekur aflinn að minnka, því að þá er gengið á stofninn. Það er síðan óvíst, að Laffer-boginn sé eins reglulegur í laginu og á myndinni hér. Hið eina, sem unnt er að fullyrða, er, að við 0% skattheimtu verða skatttekjur 0 krónur og við 100% skattheimtu líka 0 krónur. Þessi bogi er umfram allt til skilningsauka.
Aðalatriðið er, að við eitthvert mark hættir skattheimta að borga sig, jafnvel fyrir skattheimtumennina sjálfa. Eftir að því marki er náð, lækka skatttekjur við meiri skattheimtu. Jafnaðarmenn og frjálshyggjumenn ættu hvorir tveggja að vera sammála um að halda sig að minnsta kosti réttum megin (vinstra megin) á boganum. Ef eitthvert ríki væri komið öfugum megin (hægra megin) á boganum, ættu báðir hópar að vilja skattalækkanir, því að við þær myndu tekjur ríkisins hækka, en ekki lækka. Frjálshyggjumenn væru hins vegar ekki nauðsynlega þeirrar skoðunar, að í skattalækkunum ætti að nema staðar við hámarkið, mestu mögulegu tekjur ríkisins. Það væri ekkert sjálfstætt markmið í þeirra huga. Skattar ættu að vera nægilega háir til að afla fjár í nauðsynleg opinber verkefni, en nægilega lágir til að torvelda ekki um of verðmætasköpun.
Hærri skatttekjur með lægri sköttum!
Líklega eru Svíþjóð og Sviss sitt hvorum megin á Laffer-boganum. Skatttekjur ríkisins á mann eru svipaðar í löndunum tveimur, en skattheimta nokkuð undir 60% í Svíþjóð og aðeins yfir 30% í Sviss. Svo að líking úr fiskveiðum sé aftur notuð, getur svissneska ríkið landað sama afla með helmingi minni fyrirhöfn en hið sænska. En hvernig stendur á því, að jafnskynsamir menn og Svíar lentu öfugum megin á Laffer-bogann? James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur lýst því, hvernig hægt er að komast öfugum megin á Laffer-bogann, þegar valdhafarnir áætla skatttekjur til skamms tíma, en skattgreiðendur bregðast við til langs tíma. Þá gerist það fyrr eða síðar, að aukin skattheimta leiðir vegna langtímaviðbragða skattgreiðenda aðeins til lækkaðra skatttekna: Landið er statt öfugum megin á Laffer-bogann. En hvers vegna hefur Svíum lítt miðað aftur til vinstri á boganum með skattalækkunum, þótt það hljóti að vera skynsamlegt? Svarið er líklega, að þar í landi mynda starfsmenn og styrkþegar ríkisins meiri hluta kjósenda. Svíar eru í sjálfheldu sérhagsmunanna.
Eitt skýrasta dæmið um Laffer-bogann er líklega Ísland síðustu sextán árin. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og eftirmanna hans umskapaði hagkerfið. Verðbólga hjaðnaði vegna peningalegs aðhalds. Þrálátur halli á ríkissjóði breyttist í afgang, sem notaður var til að greiða upp skuldir ríkisins. Hætt var að ausa styrkjum í gæluverkefni stjórnmálamanna (eins og fiskeldi og loðdýrarækt), svo að biðstofa forsætisráðherra tæmdist. Fjármagn, sem lá áður hálfdautt í óskrásettum, óveðhæfum, óseljanlegum og eigendalausum fiskistofnum, samvinnufélögum og ríkisstofnunum, varð skyndilega sprelllifandi, þegar það varð skrásett, veðhæft og seljanlegt í höndum sprækra athafnamanna, eins og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Landsbankans, hefur bent á. Ekki munaði síst um skattalækkanirnar: Aðstöðugjald og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var fellt niður. Tekjuskattur á fyrirtæki var 1991-2001 lækkaður í áföngum úr 45% í 18%. Tekjuskattur einstaklinga, sem rennur til ríkisins (að slepptu útsvari), lækkaði 1997-2007 úr um 31% í um 23%. Eignaskattur og hátekjuskattur voru felldir niður og erfðafjárskattur lækkaður. Virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður.
Þessar stórfelldu skattalækkanir urðu til þess að hækka skatttekjur ríkisins, ekki lækka. Með 18% skatti er afraksturinn af tekjuskatti á fyrirtæki til dæmis um 34 milljarðar króna nú í ár, en með 45% skatti 1991 var afraksturinn aðeins um 2 milljarðar króna. Meginskýringin er auðvitað, að skattstofninn stækkaði vegna aukinnar verðmætasköpunar, en skattalækkanirnar áttu einmitt sinn þátt í þeim. Lítið hlutfall af stóru getur verið jafnmikið og stórt hlutfall af litlu, eins og dæmin af Sviss og Svíþjóð vitna um. Fordæmi Íslendinga hefur vakið athygli um allan heim. Edward S. Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, kom hingað í júlí og lauk lofsorði á hagstjórn hér síðustu sextán árin. Hann gerði mjög fróðlegt línurit. Það sýnir, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki hefur lækkað hér 1985-2003 úr 50% í 18% (gráa línan niður á við), en hvernig afraksturinn, mældur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hefur stækkað (svarta línan upp á við). Skýrar er vart hægt að sýna, að Laffer-boginn hefur risið yfir Íslandi og að undir honum fannst fjársjóður ólíkt regnboganum.
Óbeinar skattalækkanir
Með aðstoð þriggja framúrskarandi fjármálaráðherra, þeirra Friðriks Sophussonar, Geirs H. Haarde og Árna M. Mathiesen, tókst Davíð Oddssyni ekki aðeins að lækka skatta beint, heldur líka óbeint. Það er til dæmis samdóma álit kunnáttumanna, að verðbólga jafngildi skatti á notendur peninga og flytji fé frá sparifjáreigendum til skuldunauta. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur Kaupþings, hefur einnig reiknað út, að sennilega hafi þjóðarbúið orðið af hundrað milljörðum króna vegna verðbólgunnar fram undir 1991. Hjöðnun verðbólgunnar var þess vegna óbein skattalækkun. Í öðru lagi getur þrálát skuldasöfnun ríkisins jafngilt skatti á komandi kynslóðir, sérstaklega ef lánsféð er ekki notað í arðbærar framkvæmdir. Með því að greiða niður skuldir ríkisins voru skattar í raun lækkaðir. Þriðja óbeina skattalækkunin fólst í því, að lífeyrissjóðir voru efldir og tryggt, að þeir gætu framvegis staðið undir sér sjálfir. Sums staðar í grannlöndunum verða lífeyrisþegar framtíðarinnar aðeins að treysta á, að ríkissjóðir landanna efni gefin loforð, en til þess þarf að þyngja skatta á vinnandi fólk, um leið og því er að fækka. Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur þegar orðnar að meðaltali hæstar á Íslandi og eiga enn eftir að hækka.
Skattheimta er samt enn of mikil á Íslandi, samtals yfir 40%, þegar reiknað er með tekjum sveitarfélaga. Reynsla síðustu sextán ára sýnir, að óhætt er að halda áfram að lækka skatta. Þótt ólíklegt sé, að skatttekjur hækki áfram jafnmikið við skattalækkanir og hingað til, veldur ýmislegt því, að frekari skattalækkanir geta greitt fyrir sig sjálfar að mestu eða öllu leyti. Tökum til dæmis tekjuskatt á einstaklinga. Setjum svo, að hann verði lækkaður um 6%, niður í 17%. Skattgreiðendur munu ekki sitja og horfa á þetta fé, heldur nota það, svo að hluti þess, líklega frá fjórðungi upp í þriðjung, mun snúa aftur í ríkissjóð sem skatttekjur. Í öðru lagi batna skattskil, eftir því sem skattar eru lægri. Í þriðja lagi munu tekjur fleira fólks hækka, eftir því sem atvinnulífið verður blómlegra, og vegna tiltölulega hárra skattleysismarka mun það því greiða í raun hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt (eins og gerðist síðustu sextán ár).
Hugmyndir Geirs, Björgólfs og Sigurðar
Þetta er enn greinilegra, þegar litið er á tekjuskatt á fyrirtæki. Geir H. Haarde forsætisráðherra benti á það í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar 1979, að Ísland ætti mikla möguleika sem fjármálamiðstöð, væri hér boðið upp á lága skatta á fyrirtæki. Björgólfur Guðmundsson og samstarfsmenn hans höfðu frumkvæði að alþjóðlegri útrás 1983, þótt þeir hugsuðu miklu stærra en þá var títt, svo að draumar þeirra gátu ekki ræst fyrr en nú. Sigurður Einarsson í Kaupþingi var formaður nefndar, sem skilaði nýlega vandaðri skýrslu um möguleika Íslands í heimi hins alþjóðlega fjármagns. Nú er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5% á Írlandi. Ef við lækkum tekjuskatt á fyrirtæki í 10%, þá verður Ísland enn fýsilegri kostur. Skattstofninn mun stækka, vegna þess að ný fyrirtæki sjá sér hag í að setjast hér að. Við eigum ekki að kvíða því, heldur fagna, að gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, eru allar fleygar. Hið sama gildir síðan og um aðrar skattalækkanir, að fyrirtækin munu ekki sitja aðgerðalaus og horfa á féð, sem þau spara sér í skattgreiðslur, heldur nota það, og þannig snýr talsverður hluti af því aftur í ríkissjóð. Jafnframt munu skattskil verða einfaldari og batna enn.
Prófessor Arthur B. Laffer, höfundur Laffer-bogans, er einn frægasti og áhrifamesti hagfræðingur heims, umdeildur, en kunnur að mælsku. Hann flytur hádegiserindi í boði Samtaka atvinnulífsins, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og nokkurra annarra stofnana og samtaka í Þjóðmenningarhúsinu í dag, 16. nóvember, og er aðgangur ókeypis og öllum heimill, þótt æskilegast sé, að menn hafi samband við skrifstofu Samtaka atvinnulífsins og skrái sig til að fá sæti. Viðskiptablaðið stendur ásamt ýmsum öðrum að komu Laffers hingað. Erindi hans nefnist Kostir skattalækkana. Hvað bíður okkar undir Laffer-boganum? Nýr fjársjóður?
Viðskiptablaðið 16. nóvember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook
10.11.2007 | 17:23
Erindi um kynjamun og Sjálfstæðisflokk
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2007 kl. 22:51 | Slóð | Facebook
2.11.2007 | 09:18
Vín í venjulegar búðir!
Hávær hópur úrtölumanna reynir nú að öskra niður Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann og aðra flutningsmenn frumvarps um að leyfa að selja bjór og léttvín í búðum. Voði sé á ferð. Ég spyr: Ætlið þið þá ekki að banna bjórinn aftur? Þið notuðuð sömu rök fyrir tuttugu árum gegn Geir H. Haarde og öðrum flutningsmönnum frumvarps um að leyfa bjórsölu. Heimurinn hlyti að farast í nýju áfengisflóði. En ekkert gerðist, þegar bjórbanninu var hnekkt, annað en það, að víndrykkja, sem áður mældist ekki í opinberum tölum, kom fram og að drykkjusiðir Íslendinga bötnuðu, eins og allir geta borið vitni um, sem komnir eru yfir miðjan aldur. Með bjórbanninu var fólki mismunað: Þeir, sem áttu oft erindi til útlanda, gátu jafnan útvegað sér bjór. Aðrir urðu að hafa miklu meira fyrir því að kaupa hann. Með núgildandi sölubanni í venjulegum búðum er fólki líka mismunað: Þeir, sem eiga heima langt frá ríkisbúðunum, eiga erfiðara með að útvega sér léttvín með mat eða bjór yfir sjónvarpi en aðrir.
Úrtölumennirnir vilja vegna áfengisbölsins banna sölu bjórs og léttvíns í venjulegum búðum. Ég spyr: Hvers vegna viljið þið þá leyfa hana í ríkisbúðunum, sem hefur snarfjölgað síðustu ár, um leið og úrval hefur þar batnað? Er ekki nær, að við hættum að öskra hvert á annað og komumst að samkomulagi? Hér er tillaga: Þeir menn, sem ekki vilja kaupa bjór og léttvín í venjulegum búðum, fá leyfi okkar hinna til að gera það ekki og kaupa þennan varning alls ekki eða kaupa hann aðeins í ríkisbúðunum. Hinir, sem vilja fá að kaupa bjór og léttvín í venjulegum búðum, fá hins vegar leyfi til að gera það. Hver gerir þá það, sem honum líkar. Verða ekki allir ánægðir? Ég er bindindismaður fyrir sjálfan mig, ekki fyrir aðra, sagði Guðmundur Magnússon hagfræðiprófessor. Mikil speki er fólgin í þessum orðum. Þótt sölubannið í búðum sé vissulega smámál, er það um leið stórmál, þegar sumir ætla eftir geðþótta sínum að ráða því beint eða óbeint, hvað aðrir drekka með mat eða yfir sjónvarpi.
Heimurinn ferst ekki í nýju áfengisflóði, þótt reglur um sölu léttvíns og bjórs verði rýmkaðar. Árni Pálsson prófessor sagði, að rónarnir mættu ekki koma óorði á vínið. Við tökum ekki málfrelsi af öllum, þótt sumir misnoti það. Á sama hátt hljótum við að miða reglur um sölu léttvíns og bjórs við venjulegt fólk, sem vill gjarnan fá að stinga einni flösku af léttvíni niður í matarkörfuna í kjörbúðinni, ef það á von á gestum um kvöldið, í stað þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í ríkisbúðina, sem oft er langt í burtu. Við getum ekki látið þetta fólk gjalda þess, að sumir aðrir vilja fara beina leið til helvítis og nota til þess ýmist áfengi eða önnur efni. Þeir menn verða alltaf til. Á að refsa venjulegu fólki fyrir það? Ekki er heldur verið að ana út í neitt ævintýri. Það er vitað, hvaða afleiðingar hefur að selja léttvín og bjór í venjulegum búðum. Þetta er gert í langflestum löndum, sem Íslendingar sækja heim, án þess að neitt hafi þar breyst til hins verra. Raunar virðist mér, að vínmenning verði því betri sem reglur um meðferð víns eru frjálslegri.
Það má áfengið eiga, að það hefur engum gert mein að fyrra bragði, eins og Tómas Guðmundsson skáld benti hógværlega á. Það er hvorki því né venjulegu fólki, sem notar léttvín og bjór í hófi, að kenna, að illa fer fyrir sumum í lífinu. Ekki er heldur úr vegi að minna á, að nýjar rannsóknir sýna, að það sé fólki beinlínis hollt að drekka hæfilega mikið rauðvín, því að þá dragi úr hjartasjúkdómum. Það er leitun að drykk, sem er í senn hollur og eykur vellíðan, og full ástæða til að auðvelda aðgang að honum fremur en torvelda. Í brúðkaupinu í Kana forðum breytti Kristur vatni í vín við mikinn fögnuð. Nú er kominn tími til að bæta víni við vatn í kjörbúðum.
Fréttablaðið 2. nóvember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook
30.10.2007 | 08:14
Vitleysur um vaxtamun
Í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins sunnudaginn 28. október birti Valgerður Jóhannsdóttir frétt um þá fullyrðingu Þorvaldar Gylfasonar í Silfri Egils þá um daginn, að vaxtamunur væri hér miklu meiri en í grannríkjunum. Hann væri rösk 13%. Þetta er að vísu ekki meiri frétt en svo, að vitnað var til Þorvaldar um hið sama fyrir tæpu ári í Silfri Egils (sem þá var sent út á Stöð tvö). Ég skrifaði honum þá og spurði, hvernig hann fengi út svo háa tölu. Ég fékk ekkert svar. Ég fann þá, hvernig Þorvaldur reiknaði þetta út. Hann dregur innlánsvexti á sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á óverðtryggðum skammtímalánum (til dæmis 60 daga víxlum). Þannig fær hann sinn mikla vaxtamun. Ég skrifaði Þorvaldi aftur og sagðist myndu hafa þetta fyrir satt, ef hann mótmælti ekki. Enn fékk ég ekkert svar.
Reikningsaðferð Þorvaldar er fráleit. Aðeins er um 1,5% innlána geymt á sparisjóðsbókum, og meginþorri allra útlána til heimila (um 85%) eru húsnæðislán, ekki óverðtryggð skammtímalán. Samkvæmt hinni alþjóðlegu og viðurkenndu reikningsaðferð, sem Seðlabankinn notar meðal annars í skýrslum sínum, er vaxtamunur inn- og útlána nú um 1,9% og hefur lækkað talsvert síðustu ár. Hann var til dæmis 3,3% árið 2001, árið áður en gengið var frá sölu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þessi vaxtamunur er reiknaður sem munurinn á heildarvaxtatekjum og heildarvaxtagjöldum bankanna í hlutfalli af meðaltali niðurstöðu efnahagsreikninga þeirra í upphafi og lok árs. Um þetta var rækilega rætt í blöðum og tímaritum á öndverðu ári 2007.
Allir sjá, ef munur á inn- og útlánum er almennt langt yfir 10%, að þá hlytu erlendir bankar að flykkjast til Íslands til þess að taka þátt í stórgróðanum hér. Þá væru ávöxtunartækifæri hér miklu betri en annars staðar í heiminum. Fullyrðing Þorvaldar Gylfasonar er úr lausu lofti gripin. Það er jafnfráleitt að segja sérstaka frétt af þessari fullyrðingu hans og hinni, að þriggja metra maður hafi sést ganga niður Laugaveginn. Það er enginn maður þriggja metra hár. Valgerður Jóhannsdóttir er óvenju gamansamur fréttamaður. Hún vill láta okkur hlaupa apríl allt árið. Hún birtir frétt, sem fær augljóslega ekki staðist. Í annan stað er fréttin ársgömul. Þetta er gömul lumma, sem nú er borin fram upphituð. Í þriðja lagi leitar Valgerður ekki álits neins, sem eitthvað getur sagt um málið af viti. Á hún ekki betur heima á Spaugstofunni en fréttastofunni?
Viðskiptablaðið 30. október 2007.
[Eftir að ég birti þessa grein, kom í ljós, að Þorvaldur Gylfason hafði ekki notað hina gömlu útreikninga sína, heldur nýlega fengið rangar tölur hjá Seðlabankanum og rokið með þær að óathuguðu máli í fjölmiðla. Skekkjan í tölum Seðlabankans um vexti var raunar augljós, eins og kom fram í leiðréttingu hans.]
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2007 kl. 23:05 | Slóð | Facebook
27.10.2007 | 13:35
Guðni gegn gagnrýninni hugsun
Eftir að einn fjölmiðlarýnir Lesbókarinnar, Guðni Elísson, gerði hér harkalega árás á mig 29. september 2007, þar sem hann sagði mig málpípu ráðandi afla vegna efasemda minna um vá sökum hlýnunar jarðar, skoraði ég á hann í rökræðu. Hann hafnaði áskoruninni. Skýringin fæst í í Lesbókinni 20. október 2007, þar sem Guðni birtir grein undir heitinu Hannes gegn heiminum. Þar gerir hann ekki hina minnstu tilraun til að svara efnislegum athugasemdum mínum, heldur veltir fyrir sér, hverjir séu sömu skoðunar og ég (sem enskumælandi menn kalla guilt by association) og hvað okkur efasemdarmönnum gangi til. En allt eru það aukaatriði. Aðalatriðið er, hvort menn geti fært rök fyrir máli sínu, og til þess treystir Guðni sér ekki. Titillinn á grein hans er raunar öfugmæli. Hún hefði átt að heita Hannes gegn heimsendi, því að ég hef brýnt það fyrir mér og öðrum að njóta lífsins, enda vofir engin stórhætta yfir sökum loftslagsbreytinga: Heimur batnandi fer. Það þarf sérstakan hroka til að tala fyrir munn alls heimsins eins og Guðni gerir. Auk þess er það í ósamræmi við þá fullyrðingu hans, að ég sé málpípa ráðandi afla. Hann hefur sjálfur langflesta valdsmenn að baki sér, eins og hann upplýsir hróðugur.
Hverju svarar Guðni ekki?
Ég hafði bent á ýmis dæmi þess, að vísindamönnum getur skjátlast, hversu margir sem þeir fara saman. Viðvörun Rachel Carsons í Raddir vorsins þagna 1962 við skordýraeitrinu D. D. T. leiddi til banns við notkun þess, svo að milljónir manna í suðrænum löndum hafa látist úr mýrarköldu (malaríu), en D. D. T. er nær hættulaust. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins 1972 um væntanlegan skort á nauðsynlegustu hráefnum eins og kolum og olíu rættust ekki. Nóg er til af þessum efnum. Morgunblaðið greindi 10. júní 1977 frá því, að hópur vísindamanna á umhverfisráðstefnu í Reykjavík hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ný ísöld væri á næsta leiti. Hlýnað hefur í veðri síðan. Nær allir virtustu hagfræðingar Breta birtu yfirlýsingu vorið 1981 um, að frú Margrét Thatcher myndi falla, héldi hún fast við stefnu sína. Hún varð langlífasti forsætisráðherra Breta á 20. öld. Þrír íslenskir raunvísindamenn spáðu því 1987, að Tjörnin myndi hverfa á þremur vikum, um leið og hafið yrði að grafa fyrir ráðhúsi. Tjörnin stendur enn. Nýleg hrakspá um, að fiskistofnar myndu hrynja innan fjörutíu ára, reyndist auglýsingabrella. Hvers vegna svarar Guðni þessu engu efnislega? Er það vegna þess, að heimurinn, sem hann sækir fullvissu sína í, er skeikull? Ég hafði líka bent á ýmsar veilur í málflutningi þeirra, sem telja sérstaka vá á ferð sökum hlýnunar af mannavöldum (til dæmis útblásturs frá verksmiðjum og flugvélum). Í fyrsta lagi hefur oft hlýnað og kólnað á víxl áður, án þess að menn verði sakaðir um. Jöklar voru minni á landnámsöld en nú. Talað hefur verið um litlu ísöldina 1400-1900, þegar Tempsá lagði og byggð norrænna manna á Grænlandi eyddist. Er okkur ætlað að trúa, að hlýnunin nú sé hin eina í allri loftslagssögunni, sem sé nær eingöngu af mannavöldum? Vísindalegar skýringar á reglubundnum sveiflum loftslags hljóta að ná til þeirra allra, ekki einnar. Í öðru lagi hefur magn koltvísýrings í andrúmslofti vissulega aukist um rösk 30% síðustu hundrað ár, en koltvísýringur er samt ekki nema brot af öllum gróðurhúsalofttegundum (þótt hitt sé rétt, að verkun hans getur verið sterk, þótt magnið sé lítið). Raunar stafar ekki nema hluti þess koltvísýrings, sem streymir út í andrúmsloftið, frá mönnum. Í þriðja lagi eru ýmsar aðrar skýringar til á loftslagssveiflum en losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda, svo sem virkni sólar, stórkostleg eldgos og straumar og vindar á hafi úti. Í fjórða lagi er hlýnunin ekki veruleg, aðeins 0,7 hitastig á Celsíus síðustu hundrað ár. Í fimmta lagi hefur ekki hlýnað frá 1998, sem var næsthlýjasta ár tuttugustu aldar á eftir 1934. Í sjötta lagi borgar sig sennilega ekki að nota takmarkað fé okkar til að berjast gegn hlýnun, jafnvel þótt hún eigi sér stað og sé að einhverju leyti af mannavöldum, eins og Björn Lomborg leiðir sterk rök að í bókinni Kælum þetta (Cool It). Hvers vegna svarar Guðni þessu engu efnislega? Er það vegna þess, að hann einblínir á, hverjir tala, en hirðir ekki um, hvað þeir segja?
Gagnrýnin hugsun
Ég sótti eins og aðrir bókhneigðir unglingar á mínu reki andlega næringu í Sögu mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason heimspekiprófessor, þar sem kennt var, að aðal vestrænnar menningar væri gagnrýnin, vísindaleg hugsun. Við ættum ekki að fara að eins og miðaldaspekingar, sem kepptust um að vitna til einhvers kennivalds: Ef Aristóteles (eða einhver annar) segir það, þá hlýtur það að vera satt. Eða eins og skáldið orti:
Annar eins maður og Oliver Lodge
fer ekki með neina lygi.
Lodge var frægur breskur eðlisfræðingur, sem íslenskir andatrúarmenn vitnuðu oft til á öndverðri tuttugustu öld. Málflutningur Guðna Elíssonar er sama marki brenndur. Hann virðist telja það sjálfstæða og sterka röksemd gegn efasemdum um vá sökum hlýnunar jarðar, að margir vísindamenn trúi á slíka vá. En ýmsir vísindamenn eru líka vantrúaðir á hana, þótt færri séu. Aðalatriðið er það, að sannleikur vísindanna fæst ekki með að þylja nafnarunur. Sá sannleikur finnst aðeins með tilgátum og tilraunum. Hann er ætíð bráðabirgðasannleikur, undirorpinn endurskoðun og endurbótum.
Á sama hátt og það skiptir ekki máli um sanngildi vísindalegrar kenningar, hversu margir eru með henni eða á móti, breytir engu um hana, hvað þeim gengur til, sem styðja hana, eða við hverja þeir hafa sálufélag. Kenning verður til dæmis hvorki betri né verri fyrir það, að höfundur hennar setti hana fram í því skyni einu að útvega sér prófessorsembætti. Sumir efasemdarmenn um vá vegna útblásturs frá bílum hafa áreiðanlega þegið rannsóknarstyrki frá olíufélögum. Það verður til þess, að við tökum niðurstöðum þeirra varlegar, en kemur ekki í veg fyrir, að þeir geti haft rétt fyrir sér. Sumir róttækustu fylgismenn kenningarinnar um vá sökum hlýnunar jarðar hafa raunar þegið styrki úr sjóðum, sem auðugir öfgamenn eins og George Soros leggja í fé. Það breytir engu um mælingar þeirra, ef þær eru þess eðlis, að aðrir geti sannreynt þær og geri það. Hér í Lesbókinni hefur ýmislegt verið skrifað um heimspekinginn Martein Heidegger. Það er ekki sjálfstæð röksemd gegn heimspeki hans, að hann hafi verið nasisti. Í grein sinni vitnar Guðni Elísson til greinaflokks um umhverfismál, sem birtist þessar vikurnar í Morgunblaðinu, þar sem skýrt er frá því, að Björn Lomborg hafi fengið ávítur frá vísindasiðanefnd Danmerkur fyrir meðferð gagna í einni bók sinni. En þess var þar ekki getið, að danska umhverfisráðuneytið hnekkti þeim úrskurði og það með góðum rökum. Tilgangurinn var auðsær: Það átti að stimpla Lomborg, svo að enginn tæki mark á honum.
Óþægileg ósannindiVið búum sem betur fer í frjálsu landi, þar sem andófsmenn eru ekki brenndir á báli eins og á miðöldum eða vistaðir á vitfirringahælum eins og í Ráðstjórnarríkjunum sálugu. Nú er frekar reynt að þagga óbeint niður í þeim, hrekja þá úr húsi, gera þá ómarktæka með stimplum: Sammála Bush! Ávíttur af siðanefnd! Styrktur af olíufélögum! Þetta gerir Guðni Elísson óspart hér í Lesbókinni, þótt augljóst sé, að það skipti nákvæmlega engu máli um gildi röksemda fyrir eða gegn kenningunni um vá sökum hlýnunar jarðar. Hér má bera saman ólík viðbrögð við tveimur nýlegum heimildarmyndum um loftslagsbreytingar. Önnur heitir Blekkingin mikla um hlýnun jarðar, þar sem nokkrir kunnir vísindamenn andmæla ýkjum um slíka hlýnun og setja fram aðrar kenningar um loftslagsbreytingar. Myndina gerði Martin nokkur Durkin, sem virðist vera andófsmaður að köllun, og hafa slíkir menn auðvitað oft rangt fyrir sér ekki síður en rétt. Ég hef séð viðtal við Durkin í ástralska sjónvarpinu, þar sem hann hlýtur herfilega útreið og neyðist til að viðurkenna ýmsa annmarka á mynd sinni, þótt þeir ráði engum úrslitum um boðskapinn. Hin heimildarmyndin nefnist Óþægilegur sannleikur, og fyrir henni er skráður Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, en hann hlaut á dögunum friðarverðlaun Nóbels, og í áðurnefndum greinaflokki Morgunblaðsins um umhverfismál er mynd hans höfð að leiðarljósi. Al Gore hefur forðast eins og heitan eldinn að ræða við efasemdarmenn, til dæmis Vaclav Klaus, forseta Tékklands, eða Björn Lomborg, sem báðir hafa skorað á hann í rökræðu. Nýlega féll dómur í yfirrétti í Bretlandi um mynd hans, sem sýnd hafði verið í breskum skólum. Foreldrar höfðu kvartað undan því, að hún væri áróðursmynd.
Dómarinn breski komst að þeirri niðurstöðu, að mynd Gores mætti sýna í skólum, en henni yrði að fylgja viðvörun, enda væru í henni ýmsar hæpnar eða jafnvel rangar fullyrðingar, og miðaði dómarinn þá við það, sem viðtekið væri í vísindaheiminum:
Yfirborð sjávar mun hækka á næstunni um 6 metra. Þetta er ekki rétt. Ef slík hækkun verður, þá gerist það á miklu lengri tíma.
Eyjar í Kyrrahafi eru að verða óbyggilegar. Þetta er ekki heldur rétt. Engin eyja hefur farið þar í eyði vegna hækkandi sjávarmáls.
Golfstraumurinn mun hægja á sér eða stöðvast. Þetta er ekki heldur rétt. Fátt bendir til þess.
Mjög góð fylgni er milli koltvísýrings í andrúmslofti og hitastigs. Ekki eru nægilega sterk gögn lögð fram þessu til stuðnings.
Jökulhettan á Kilimanjaro-fjalli er að hverfa. Það er ekki vegna hlýnunar jarðar, heldur minni úrkomu.
Chad-vatn er að hverfa. Það er ekki vegna hlýnunar jarðar, heldur af öðrum ástæðum.
Fellibylurinn Katrina var harðari en ella vegna hlýnunar. Þetta er ekki rétt. Vísindamenn telja lítið samband milli hlýnunar og fellibylja.
Ísbirnir drukkna í leit að ísi lögðu umhverfi. Þetta er ekki rétt. Engin gögn eru til um þetta.
Kóralrif eru að hvítna. Ósannað er, að það sé vegna hlýnunar jarðar.
Valið fyrir okkurDómurinn yfir Gore er vitanlega ekki endanlegur sannleikur. Hitt skiptir máli, að breski dómarinn færir góð rök fyrir úrskurði sínum og að ótrúlega lítið hefur verið gert úr honum miðað við þá hörðu gagnrýni, sem dunið hefur á heimildarmynd Durkins. Sumar rangfærslurnar í mynd Gores hafa raunar verið lengi á kreiki. Í nýársávarpi sínu 1998 sagði Ólafur R. Grímsson til dæmis, að Golfstraumurinn myndi hætta að leita hingað, ef svo færi sem horfði. Síðustu ár hefur Golfstraumurinn flutt meiri varma norður á bóginn en oftast áður. En fjölmiðlar velja fyrir okkur staðreyndir. Þeir segja andstuttir frá hrakspám, en krefja flytjendur þeirra sjaldnast skýringa, þegar þær rætast ekki, um leið og þeir þegja um aðrar staðreyndir. Til dæmis er ísbjörnum á Norðurslóðum frekar að fjölga en fækka. Hafís er vissulega að minnka á Norðurslóðum, en aðeins í svipað horf og oft hefur verið áður. Ísbreiðan á Suðurskautslandinu er á sama tíma að stækka, og óvenju kalt hefur verið í veðri víða á Suðurhveli. Í júlí á þessu ári snjóaði í Góðviðru (Buenos Aires), en það hefur ekki gerst frá 1918. Sumir vísindamenn segja, að yfirborð sjávar sé ekki að hækka, svo að heitið geti, til dæmis Nils Axel Mörner, sem flutti erindi á fundi Félags íslenskra veðurfræðinga 2004. Sjálfur hallast ég helst að því, að eitthvað sé að hlýna á jörðinni og það geti að einhverju leyti verið af mannavöldum, en að allt of mikið hafi verið gert úr því, auk þess sem vart borgi sig að gera neitt við því. Fráleitt er að hlaupa til og torvelda og jafnvel stöðva vöxt atvinnulífs um heim allan vegna framreikninga úr hermilíkani í tölvu, jafnvel þótt á þeim séu viðurkenningarstimplar Sameinuðu þjóðanna, norsku Nóbelsnefndarinnar og Guðna Elíssonar.
Lesbók Morgunblaðsins 27. október 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2007 kl. 09:42 | Slóð | Facebook
22.10.2007 | 23:19
Síðdegisútvarpið
Ég svaraði Guðna Elíssyni og ræddi um loftslagsbreytingar í Síðdegisútvarpinu á Rás tvö mánudaginn 22. október, sem hlusta má á hér. Gerðar voru athugasemdir við málflutning minn í Síðdegisútvarpinu daginn eftir, sem hlusta má á hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2007 kl. 10:56 | Slóð | Facebook
19.10.2007 | 16:02
Silfur Egils
19.10.2007 | 15:23
Óþægileg ósannindi
Daginn áður en tilkynnt var, að Norðmenn hefðu sæmt Al Gore friðarverðlaunum Nóbels, felldi breski háyfirdómarinn Sir Michael Burton úrskurð um það í Lundúnaborg, að heimildarmynd Gores, Óþægilegur sannleikur (Inconvenient Truth), væri of hlutdræg og villandi til þess, að sýna mætti hana í breskum skólum án sérstakra viðvarana. Höfðu foreldrar barns í einum skólanum höfðað mál. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu, að Gore hefði vissulega lagt fram gögn um það, að jörðin væri að hlýna og að hlýnunin væri að einhverju leyti af mannavöldum, en nokkuð væri um ýkjur og órökstuddar hrakspár í myndinni. Þetta væri áróðurs- frekar en fræðslumynd.
Dómarinn taldi bert, að níu atriði í mynd Gores stæðust ekki.
Gore héldi því fram án þess að geta lagt fram um það gögn, að í næstu framtíð myndi yfirborð sjávar hækka um 6-7 metra (20 fet). Þetta gæti aðeins gerst á árþúsundum.
Það væri ekki rétt, sem fram kæmi í mynd Gores, að ýmsar eyjar í Kyrrahafi væru orðnar óbyggilegar vegna hlýnunar jarðar.
Línurit, sem Gore sýndi um samband koltvísýrings í andrúmslofti og hitastigs síðustu 650 þúsund ár, væri ekki nógu nákvæmt til að sýna það, sem hann teldi það gera.
Gore segði fyrir um, að Golfstraumurinn hætti að leita til norðurs vegna loftslagsbreytinga, en í skýrslu sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um þetta væri það talið afar ólíklegt.
Gore fullyrti, að Chad-vatn í Afríku væri að þorna upp vegna hlýnunar jarðar. Vísindamenn teldu aðrar skýringar líklegri, til dæmis fólksfjölgun og ofbeit, enda hefur vatnið minnkað áður.
Gore staðhæfði, að jökulhettan væri að hverfa af Kilimanjaro-fjalli í Afríku. Ekki hefðu verið lögð fram nægileg gögn um, að það væri vegna hlýnunar jarðar, og raunar hóf snjór að hopa af fjallinu á nítjándu öld.
Gore kunngerði, að fellibylurinn Katrina, sem gekk yfir New Orleans í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, ætti upptök sín í hlýnun jarðar. Ekki hefðu verið lögð fram nægileg gögn því til stuðnings. Fellibylurinn var síst harðari en ýmsir aðrir, sem áður hafa gengið, en olli meira tjóni, þar eð flóðavarnir höfðu verið vanræktar í Louisiana.
Gore segði, að vegna hlýnunar jarðar drukknuðu ísbirnir í örvæntingarfullri leit að ísi lögðum svæðum. Ekki væru til nein gögn um það, nema hvað vitað væri, að fjórir ísbirnir hefðu eitt sinn drukknað að undangengnum miklum stormi. (Raunar er ísbjörnum að fjölga á Norðurslóðum fremur en hitt samkvæmt nýjustu skýrslum.)
Gore tilkynnti, að kóralrif væru að hvítna vegna hlýnunar jarðar. Erfitt væri í því dæmi að greina að hlýnun og önnur umhverfisáhrif.
Hinn breski dómari hafði starfað í Verkamannaflokknum og samtökum jafnaðarmanna í Bretlandi, áður en hann tók við embætti. Hann tekur í úrskurði sínum einkum mið af sérfræðingaskýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en bendir samt á þessa níu galla á heimildarmynd Gores.
Fróðlegt er að bera heimildarmynd Gores saman við aðra, sem sýnd var í bresku sjónvarpi og íslensku undir heitinu Blekkingin mikla um hlýnun jarðar. Sú mynd var tvímælalaust áróðurs- frekar en fræðslumynd, þótt í henni kæmu fram margir virtir vísindamenn, sem efuðust um, að yfir okkur vofði vá vegna hugsanlegrar hlýnunar jarðar. Á vef Veðurstofu Íslands er bent á nokkra galla á þeirri heimildarmynd. Þeir eru þó ekki eins margir og alvarlegir og á mynd Gores, sem auk þess hefur haft miklu meiri áhrif.
Úthlutun friðarverðlauna Nóbels til Als Gores orkar tvímælis. Venjan er síðan sú, að val viðtakenda er trúnaðarmál. En Gore aflýsti fyrir skömmu öllu því, sem var á dagskrá hans daginn, sem tilkynnt var um verðlaunin, og frestaði fyrirhugaðri utanlandsferð, sem ber upp á sama dag og verðlaunin verða afhent í desember. Norðmönnum er lítill sómi að.
Fréttablaðið 19. október 2007.
6.10.2007 | 13:19
Er heimurinn enn að farast?
Andstæðingar vestræns kapítalisma, sem vaxið hefur upp og dafnað síðustu aldir, nota ætíð sams konar röksemdir: Þegar skip sekkur, hljóta menn að hraða sér út í björgunarbátana. Við lífsháska er enginn tími til að spyrja spurninga og því síður til að velja og hafna. Eitt afbrigði þessarar röksemdar, sem sumir sérfræðingar nota, er hrakspáin: Ef ekki er farið að ráðum sérfræðinganna og það strax, þá er voðinn vís. Mér er minnisstætt dæmi frá Bretlandi vorið 1981. Þá skrifuðu 364 hagfræðingar undir áskorun til stjórnvalda um að breyta tafarlaust stefnu þeirri í efnahagsmálum, sem frú Margrét Thatcher fylgdi undir áhrifum frá hagfræðingunum Milton Friedman og Friedrich von Hayek, en hún fólst í ströngu aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum, niðurfellingu opinberra styrkja til óarðbærra fyrirtækja, sölu ríkisfyrirtækja og auknu frelsi í viðskiptum. Hagfræðingarnir 364 fullyrtu, að Bretar sigldu hraðbyri til glötunar. Á þingfundi skoraði Michael Foot, leiðtogi Verkamannaflokksins, á frú Thatcher að nefna einhverja breska hagfræðinga, jafnvel þótt þeir væru aðeins tveir, sem fylgdu henni að málum. Alan Walters og Patrick Minford, svaraði hún að bragði. Ég var síðar staddur, þar sem járnfrúin rifjaði þetta atvik upp. Hún sagði hlæjandi, að hún hefði verið fegin, að Foot krafði hana ekki um þrjú nöfn. Þá hefði hún ekki getað svarað. Frú Thatcher hvikaði ekki og átti eftir að sigra tvisvar aftur í þingkosningum. Bretland blómgaðist undir stjórn hennar, og þegar Verkamannaflokkurinn endurheimti völdin, datt forystumönnum hans ekki í hug að hverfa til fyrri hátta. Ég lærði af þessu, að ráð sérfræðinga verða ekki því betri sem þeir fara fleiri saman. Ég hef látið þá skoðun í ljós hvað eftir annað, ekki síst í umræðum um loftslagsbreytingar, en þar sem Guðni Elísson bókmenntafræðingur ræðst harkalega á mig í Lesbók Morgunblaðsins 29. september fyrir þetta, tel ég mér skylt að rifja hér nokkur atriði upp og bæta öðrum við.
Hrakspár: Sannleiksleit eða valdabarátta?Vorið 1987 var ég að klippa heimildarmynd í Sjónvarpinu, þegar einn starfsmaður þar kom inn í klippiklefann og sagði við mig í vorkunnartón: Jæja, núna er þetta búið hjá ykkur. Hvað? Ja, Davíð, vinur þinn, verður að hætta við að byggja ráðhúsið. Það var verið að segja frá því núna í hádegisfréttunum, að þrír vísindamenn hefðu fundið út, að ef byrjað verður að grafa fyrir ráðhúsinu, þá muni Tjörnin hverfa á þremur vikum. Ég spurði, hverjir vísindamennirnir væru: Guðrún Pétursdóttir líffræðingur, Guðni Jóhannesson verkfræðingur og Ásta Þorleifsdóttir jarðvegsfræðingur. Guðrún hafði á sama tíma orð fyrir þeim, sem andvígir voru smíði Ráðhússins. En Davíð Oddsson borgarstjóri lét sér fátt um niðurstöðu þeirra Guðrúnar finnast, og ráðhúsið reis. Tjörnin er enn á sínum stað. Ég rakst á þriðja dæmið í Morgunblaðinu fyrir þrjátíu árum. Þar sagði 10. júní 1977 frá blaðamannafundi, sem fyrirlesarar á alþjóðlegri umhverfisráðstefnu héldu. Fyrirsögnin var Lítil ísöld fyrir aldamót? Bandarískur prófessor, Reid Bryson, kvað líkur á nýrri ísöld. Mannkynið yrði að búa sig undir harðindi og gæti sitt hvað lært af íslenskum bændum, sem hefðu metið á hverju ári, hversu margt fé væri á vetur setjandi. Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru sömu skoðunar.
Mörg heimsendarit komu út á æskuárum mínum í íslenskum þýðingum og vöktu óskipta athygli. Eitt hið frægasta var Raddir vorsins þagna 1962 eftir bandaríska líffræðinginn Rachel Carson, þar sem hún fullyrti, að fuglalífi stafaði stórhætta af skordýraeitrinu D. D. T., sem beitt var í baráttu við mýrarköldu (malaríu). Eftir þetta var eitrið víða bannað. En í ljós hefur komið, að hættan af D. D. T. er orðum aukin. Á meðan hafa margar milljónir manna í fátækum löndum dáið úr mýrarköldu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, W. H. O., hefur því lagt til, að efnið, sem er ódýrt í framleiðslu og auðvelt að nota, verði aftur leyft. Annað rit og alræmt var Endimörk vaxtarins 1972, sem var skýrsla frá hópi áhyggjufulls áhugafólks. Þar var því haldið fram í anda breska hagspekingsins Tómasar Malthusar, að fólki væri að fjölga og neysla þess að aukast hraðar en náttúran þyldi. Ýmis hráefni jarðar væri því að ganga til þurrðar. Mannkynið yrði að gerbreyta lífsháttum sínum. En höfundar skýrslunnar höfðu hvorki tekið með í reikninginn tækniþróun, þar á meðal ýmsar óvæntar nýjungar, né aðlögun í krafti frjálsrar verðmyndunar (þar sem verð hækkar á vöru við skort á henni, en við það dregur úr eftirspurn, og öfugt). Hrakspárnar í skýrslunni hafa ekki ræst. Þar sagði til dæmis, að gull yrði þrotið árið 1979, jarðolía 1990, kopar 1991 og ál 2001. Nóg er til af öllum þessum efnum.Blöð birta enn reglulega fréttir um, að skógar séu að hverfa, svo að jörðin hætti að geta andað. En skógar þekja nú jafnmikið flæmi og fyrir fimmtíu árum, auk þess sem þeir eiga miklu minni þátt í nauðsynlegri súrefnismyndun en margar aðrar plöntur, aðallega svif sjávar. Í sjónvarpsfréttum eru stjórnmálamenn og trúarleiðtogar iðulega myndaðir á Norðurslóðum, þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum af því, að ísbirnir séu að hverfa. Það er rétt, að frá 1987 til 2004 fækkaði ísbjörnum á vesturströnd Hudson-flóa úr 1.200 í 950. En dýrin voru aðeins um 500 árið 1981, svo að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Sú hugsun læðist að mér, að hrakspámenn séu stundum síður að leita sannleikans en vekja á sér athygli, fá styrki og öðlast völd. Tímaritið Science birti í nóvember 2006 skýrslu um ástand og horfur í fiskveiðum. Þar var sagt, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja innan fjörutíu ára. Þetta var forsíðuefni í íslenskum blöðum, og þegar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, taldi hættuna orðum aukna, sætti hann ákúrum. Aðalhöfundur skýrslunnar var Boris nokkur Worm, aðstoðarprófessor í Dalhousie-háskóla í Halifax í Nova Scotia. Fyrir mistök barst blaðamanni tölvuskeyti, sem Worm hafði sent samstarfsfólki sínu, þar sem hann viðurkenndi, að spáin um hrun fiskistofna hefði verið auglýsingabrella.
Borgar sig að berjast gegn gróðurhúsaáhrifum?Nú er okkur skipað að trúa þrennu, að jörðin sé að hlýna, að það sé að mestu leyti af manna völdum, aðallega vegna losunar koltvísýrings í andrúmsloftið, og að við getum og verðum að snúa þeirri þróun við, en til þess hljótum við að gerbreyta lífsháttum okkar. Hefur Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, flutt þennan boðskap í heimildarmynd, og margir tekið undir með honum, Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og fleiri. Guðni Elísson talar í Lesbókinni um, að ég sé málpípa ráðandi afla. Hvað er hann þá? Ég held, að munurinn sé frekar sá, að Guðni gengur fram undir upphrópunarmerkinu, en ég vel mér spurningarmerkið. Jörðin hefur hlýnað og kólnað á víxl allt sitt skeið. Okkur var kennt í skóla, að aðeins væru tíu þúsund ár liðin frá síðustu ísöld. Hvað olli þeirri hlýnun, sem batt endi á hana? Og hvers vegna var hlýtt í veðri um og eftir 1000, en kólnaði aftur á litlu ísöldinni frá um 1600 til um 1900? Vatnajökull var talsvert minni á landnámsöld en nú, ef marka má heimildir, og tvíklofinn, og gengu menn þurrum fótum milli jöklanna tveggja. Loftslag tekur sífelldum breytingum, ekki aðeins frá einum tíma til annars, heldur samtímis á ólíkum stöðum. Raunar getur hlýnað á einum stað, um leið og kólnar á öðrum, svo að erfitt er að segja, að hugtak eins og meðalhiti jarðar hafi skýra merkingu.
Hvers vegna ættum við að trúa hrakspá Als Gores frekar en öllum hinum, sem á okkur hafa dunið og ekki ræst? Algengasta svarið er það, sem Guðni Elísson klifar á, að þorri vísindamanna sé á þessu máli, til dæmis þrjú þúsund manna nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, I. P. C. C. Þá verður mér aftur hugsað til hagfræðinganna 364 í Bretlandi vorið 1981. Raunar eru margir í þessari fjölmennu nefnd Sameinuðu þjóðanna ekki eiginlegir eða virkir vísindamenn, heldur embættismenn með háskólapróf. Sumir nefndarmenn hafa andmælt því, sem þeir telja oftúlkun varnaðarorða í skýrslum nefndarinnar, jafnt í útdráttum fyrir fjölmiðla og einnig í sjálfum fjölmiðlunum. Fámennur minni hluti vísindamanna hefur gagnrýnt hinn nýja rétttrúnað með ýmsum rökum. Þeir minna á hlýnun jarðar, áður en menn tóku að losa koltvísýring út í andrúmsloftið með brennslu lífrænna efna eins og kola og olíu, og benda á, að svo virðist sem kólnað hafi víða í veðri árin eftir seinna stríð og fram undir 1980, þótt á sama tíma hafi losun gróðurhúsalofttegunda aukist. Muna ekki allir Íslendingar, sem komnir eru yfir miðjan aldur, eftir sífelldum fréttum Ríkisútvarpsins um kal í túnum um og eftir 1960? Ég var þá í barnaskóla, og stundum féll þá kennsla niður sökum fannfergis.Hitt er annað mál, að kenningin um hlýnun jarðar af manna völdum er að minnsta kosti þríþætt. Menn geta aðhyllst eina skoðun úr henni og ekki aðra. Til dæmis telur danski stjórnmálafræðingurinn Björn Lomborg, sem hefur rýnt í gögn um málið, að hvort tveggja sé, að jörðin sé að hlýna og að það sé að einhverju leyti af manna völdum, en að takmörkuðu fé okkar sé betur varið til annars en að berjast gegn þessari hlýnun, enda hafi hún í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Deyja ekki miklu fleiri úr kulda en hita á hverju ári? Aðgerðir gegn útblástri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda muni sáralitlu breyta, segir Lomborg, en kosta stórfé, sem nær væri að nota gegn mýrarköldu og alnæmi og til að tryggja aðgang fólks í fátækum löndum að hreinu vatni. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, er sammála Lomborg um, að við getum ekki gerbreytt lífsháttum okkar fyrir eina vísindalega tilgátu. Á dögunum hittust fjölmargir þjóðarleiðtogar á þingi Sameinuðu þjóðanna til að ræða loftslagsbreytingar. Klaus skoraði þá opinberlega á Gore í rökræðu við sig um efnið: Hlýnun jarðar jafngildir ekki kreppu (Global warming is not a crisis). Gore sinnti því engu. Klaus sagði í Financial Times 13. júní, að loftslagið væri ekki í veði, heldur frelsið. Þar eð ég bjó við kommúnisma mestalla ævina, verð ég að benda á, að nú er frelsi, lýðræði, markaðsviðskiptum og hagsæld okkar hætta búin af umhverfisverndaröfgum frekar en kommúnisma. Þessi nýja hugmyndafræði ætlar sér að setja í stað frjálsrar og sjálfsprottinnar þróunar mannkyns eins konar miðstýrðan áætlunarbúskap.
Blekkingin mikla um hlýnun jarðarHvers vegna tók Gore ekki áskorun Klaus? Hann er ef til vill hræddur um, að eins fari fyrir honum og þremur eindregnum hrakspámönnum í marsmánuði síðast liðnum. Þá háðu þeir kappræðu í Nýju Jórvík við jafnmarga efasemdamenn, Richard Lindzen, prófessor í loftslagsfræði í Tækniháskólanum í Massachusetts (M. I. T.), Philip Stott, fyrrverandi prófessor í jarðlíffræði við Lundúnaháskóla, og rithöfundinn Michael Crichton. Áheyrendur voru mörg þúsund, og voru skoðanir þeirra kannaðar fyrir og eftir kappræðuna. Fyrir fundinn kváðust 57% áheyrenda telja, að hlýnun jarðar jafngilti kreppu, en 30% voru því andvíg. Eftir fundinn höfðu margir skipt um skoðun. Þá kváðust 42% áheyrenda telja, að hlýnun jarðar jafngilti kreppu, en 46% voru því andvíg. Um svipað leyti var heimildarmyndin Blekkingin mikla um hlýnun jarðar sýnd hér í Sjónvarpinu. Þar var lýst annarri kenningu, sem er, að sólin hefði með virkni sinni, en í flóknu ferli, mest áhrif á loftslagsbreytingar. Þessi heimildarmynd hefur sætt harðri gagnrýni, sem eflaust er eitthvað til í. En mynd Gores er ekki síður reist á veikum stoðum. Á vefsíðu Veðurstofu Íslands hefur birst plagg, sem virðist vera opinber skoðun stofnunarinnar á Blekkingunni miklu um hlýnun jarðar. Hvers vegna gagnrýna veðurfræðingarnir ekki líka mynd Als Gores? Vísindin eiga ekki að vera kórsöngur undir einni stjórn, heldur frjáls samkeppni hugmynda.
Það er ekki fréttnæmt, þegar hundur bítur mann, heldur þegar maður bítur hund. Fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á fréttum um það, að heimurinn sé ekki að farast. Í ársbyrjun 2004 sagði Morgunblaðið frá grein eftir nítján vísindamenn í tímaritinu Nature um það, að hundruð dýra- og plöntutegunda myndu deyja út næstu hálfa öld. Töldu þeir, að um 15-37% þeirra tegunda, sem þeir rannsökuðu, yrðu horfnar árið 2050. Við höfum þegar séð að vistkerfin bregðast mjög hratt við loftslagsbreytingunum, sagði Chris Thomas, aðalhöfundur greinarinnar. En í árslok 2006 birtist grein í tímaritinu Global Change um það, að Thomas og meðhöfundar hans hefðu hagrætt staðreyndum. Miklu færri tegundir dýra og plantna væru í útrýmingarhættu en þeir hefðu haldið fram. Margsagt hefur verið, að árið 1998 hafi verið heitasta ár aldarinnar í Bandaríkjunum, til dæmis í frétt í Morgunblaðinu 11. febrúar 2005, þar sem James Hansen, sérfræðingur bandarísku geimferðastofnunarinnar um loftslagsmál, kvað svo að orði: Undanfarin þrjátíu ár hefur hitastigið greinilega farið stigvaxandi, og sýnt hefur verið fram á að þessi hitaaukning sé fyrst og fremst afleiðing þess að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aukist. En tölfræðingurinn Steve McIntyre hefur nýlega leitt rök að því, að árið 1934 hafi verið heitara. Tíu heitustu ár aldarinnar reyndust samkvæmt útreikningum McIntyre í þessari röð: 1934, 1998, 1921, 2006, 1931, 1999, 1953, 1990, 1938, 1939. Hefur geimferðastofnunin viðurkennt villuna og leiðrétt á heimasíðu sinni. Nú í október birtir kunnur bandarískur loftslagsfræðingur, Stephen Schwartz, niðurstöður sínar, en samkvæmt þeim hafa áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda á loftslag verið stórlega ofmetin. Schwartz var á meðal höfunda einnar áfangaskýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.
Efasemdamenn um loftslagsbreytingar eru vissulega miklu færri en rétttrúnaðarsinnar. En í mínum huga ræður það ekki úrslitum. Ég undrast miklu frekar þá ákefð, sem rétttrúnaðarsinnar sýna. Ef háskólamenn leyfa sér að láta í ljós efasemdir, þá eru þeir sviptir styrkjum og störfum og settar yfir þeim siðanefndir, eins og Lomborg mátti þola í Danmörku, þótt andstæðingar hans færu þar sneypuför. Ég varð hins vegar ungur fyrir áhrifum frá John Stuart Mill, sem skrifaði: Þótt gervallt mannkyn, að einum frátöldum, væri sömu skoðunar og aðeins þessi eini á öndverðum meiði, þá hefði mannkynið engu meiri rétt til að þagga niður í honum en hann til að þagga niður í því, væri það á hans valdi. Mér blöskrar líka tvöfalt siðgæði sumra rétttrúnaðarsinna. Stjórnmálamenn þeysa um heiminn í einkaþotum til að prédika gegn loftslagsbreytingum af manna völdum, en slíkar einkaþotur losa miklu meira af gróðurhúsalofttegundum á hvern notanda en nokkur önnur farartæki. Veðurfræðingar skrifa yfirlætislegar greinar um loftslagsbreytingar næstu fjörutíu ára, en treysta sér ekki til að segja fyrir um, hvert veðrið verður eftir viku. Hvernig í ósköpunum ættum við að trúa þessu fólki? Og það, sem meira er: Hvers vegna ættum við að afsala okkur þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapítalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátana, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva.
Lesbók Morgunblaðsins 6. október 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2007 kl. 09:58 | Slóð | Facebook