Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýir brennuvargar?

capt.63d3e5b305e9455da1c81e3ab36f87e0.pakistan_denmark_prophet_drawings_pes101Leikritið „Biedermann og brennuvargarnir“ eftir svissneska rithöfundinn Max Frisch var frumsýnt í Zürich vorið 1958. Hér var það fyrst sett á svið vorið 1962 í Tjarnarbæ. Þar segir frá einföldum oddborgara, sem leyfir tveimur skálkum að setjast upp hjá sér og gera sig heimakomna. Þeir reyna lítt að dylja, að þeir ætla að kveikja í húsinu, og kona Biedermanns varar hann við. En Biedermann er fullur sektarkenndar og ótta og lokar augunum fyrir hættunni. Hvers vegna á hann að vera vondur við þessa aðkomumenn? Ræður hann hvort sem er við þá? Að lokum réttir hann þeim eldspýturnar til að tendra eldinn. Þótt Frisch kallaði sjálfur leikritið „prédikun án boðskapar“, er margt í því bersýnilega sótt í valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948. Einnig má lesa úr því ádeilu á andvaraleysi lýðræðissinna í Norðurálfunni gagnvart Adolf Hitler og þjóðernisjafnaðarmönnum hans fyrir stríð.

Skopmyndir og málfrelsi

Tveir danskir menntamenn, hjónin Karen Jespersen og Ralf Pittelkow, halda því fram í bókinni Íslamistar og naívistar, sem birtist fyrir skömmu á íslensku, að nýir brennuvargar séu komnir til Evrópu: Íslamistar. Síðustu áratugi hefur fjöldi múslima flust til Norðurálfuríkja. Flest er þetta gott fólk í leit að betri lífskjörum. En meðal þess hefur risið upp hreyfing, íslamisminn, sem ræðst beint á ýmis vestræn verðmæti, aðallega málfrelsi og jafnrétti kynjanna. Þegar Jótlandspósturinn birti skopteikningar af Múhameð spámanni, ætlaði allt um koll að keyra í ýmsum múslimalöndum og í röðum danskra íslamista. Teiknararnir urðu að fara í felur. Þótt í ýmsum múslimaríkjum, einkum Íran og Sádi-Arabíu, sé rekinn hatursáróður gegn kristni og Gyðingdómi í skólum og fjölmiðlum, vildu erindrekar þessara ríkja takmarka frelsi til að gagnrýna Íslam opinberlega í vestrænum löndum. Þeir vildu í raun hrifsa af okkur dýrmætan ávöxt mörg hundruð ára frelsisbaráttu, málfrelsið.

Morð og morðhótanir

Önnur dæmi eru alkunn. Rithöfundurinn Salman Rushdie, breskur ríkisborgari, var dæmdur til dauða í Íran fyrir eitt verk sitt og verður að fara huldu höfði. Ayaan Hirsi Ali, flóttakona frá Sómalíu, skrifaði handrit og var þulur í heimildarmynd um kúgun kvenna í múslimaríkjum, sem hollenski leikstjórinn Theo van Gogh gerði. Íslamisti einn myrti van Gogh í nóvember 2004 og sendi Hirsi Ali morðhótanir, svo að hún varð að fá lögregluvernd. Hættan er aðallega af ofsatrúarfólki í hópi innflytjenda frá múslimaríkjunum. Þótt það meti góð lífskjör í Norðurálfuríkjunum nógu mikils til að flytjast þangað, sættir það sig ekki við frumverðmæti hins vestræna menningarheims, til dæmis jafnrétti kynjanna. Íslamistar í hópi innflytjenda reyna að kúga konur á sama hátt og gert er í Íran og Sádi-Arabíu (en ekki víða annars staðar í múslimaríkjum). Þær eiga að hylja sig, ganga með höfuðklút, tákn ófrelsis og kúgunar. (Raunar er eðlilegast að banna slíka klúta af öðrum ástæðum en trúarlegum: Þeir eru dulbúningar. Unnt verður að vera að bera kennsl á fólk á förnum vegi.)

Einfeldningar eins og Biedermann

Sumir Vesturlandabúar myndu vitna í gamalt spakmæli: Eftir landssið skulu lifa þegnar. Ef múslimskir innflytjendur vilja ekki sætta sig við vestrænan landssið, málfrelsi og jafnrétti kynja, þá ættu þeir að snúa aftur til múslimaríkjanna. Aðrir Vesturlandabúar láta eins og Biedermann sektarkennd og ótta stjórna sér og loka augunum fyrir hættunni. Þeir afsaka jafnan íslamistana. Þegar Ayuun Hirsi Ali kom til Íslands á vel heppnaða bókmenntaráðstefnu haustið 2007, skrifaði ungur blaðamaður, að gagnrýni hennar á stjórnarfar í múslimaríkjum væri „ófrumleg og einfeldningsleg“. Hefði hann sagt hið sama um gagnrýni Þórbergs á stjórnarfar í Þýskalandi fyrir stríð? Fréttablaðið sagði frá því 26. nóvember 2001, að stjórnendur Austurbæjarskóla hefðu tekið svínakjöt af matseðli skólans „í virðingarskyni“ við þá nemendur, sem ekki snæði slíkt kjöt sakir trúar sinnar. Þetta hljómar sakleysislega, en kann að vera upphaf að öðru ískyggilegra. Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þeim, sem gera sig líklega til að verða brennuvargar. Biedermann hugsaði: Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki. Við hljótum að svara: Skálkurinn mun skaða þig, ef hann getur, svo að best er að vera við öllu búin.

Fréttablaðið 25. mars 2008. 


Fyrirlestur í Stjórnmálaskólanum

Ég flutti fyrirlestur um fátækt og ójöfnuð í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins 11. mars 2008. Þar notaði ég glærur, sem skoða má hér.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á öfugum enda

Euro_banknotesIndriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, er andlegur leiðtogi þeirra, sem ekkert hafa séð jákvætt við hagkerfisbreytinguna frá 1991, þegar skattar voru einfaldaðir og lækkaðir öllum til hagsbóta. Það er opinbert leyndarmál, að Indriði reiknaði út þær tölur um ójafnari tekjuskiptingu vegna skattabreytinga, sem minni spámenn ruku með í fjölmiðla haustið 2006 og reyndust síðan rangar. Ég fór yfir ýmsar hæpnar hugmyndir Indriða um skattamál í síðasta hefti vefritsins Stjórnmála og stjórnsýslu, meðal annars kröfu hans um stighækkandi tekjuskatt. Hér ætla ég hins vegar að ræða stuttlega nýjustu grein Indriða, sem vakið hefur athygli. Hún er um það, að Íslendingar geymi verulegt fé, á að giska 500 milljarða króna, í Hollandi og Lúxemborg, en einnig í skattaskjólum eins og á Ermarsundseyjum, Jersey og Guernsey, og eyjum í Karíbahafi. Ríkið verði að komast í þetta fé.

Röng nálgun

Indriði byrjar á öfugum enda. Hann spyr: Hvers vegna geyma Íslendingar stórfé erlendis? Hann ætti frekar að spyrja: Hvers vegna geyma útlendingar ekki stórfé hér? Hvað getum við gert til að laða að fé frá útlöndum? Hvernig eigum við að keppa við Holland, Lúxemborg og önnur lönd? Svarið er einfalt: Með því að gera skattaumhverfi fyrirtækja og fjármagnseigenda eins hagstætt og í þessum löndum. Þá þurfa íslenskir fjármagnseigendur ekki að geyma fé sitt erlendis, og þá sjá erlendir fjármagnseigendur sér hag í að geyma fé sitt hér. Til dæmis er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki skattskyldur í Hollandi. Indriði lætur líka í ljós áhyggjur af því, að íslenska útrásin hafi ekki skilað íslenska ríkinu verulegum skatttekjum. Það er rétt, en hitt hefur skilað stórkostlegum skatttekjum, að bankarnir eru komnir úr greipum ríkisins. Skattgreiðslur þeirra voru áður nánast engar, af því að þeir voru jafnan reknir með tapi, en nema nú tugum milljarða króna á ári.

Algengar meinlokur

Indriði er bersýnilega haldinn tveimur algengum meinlokum um skattamál. Önnur er, að skattstofnar séu nánast óbreytilegir að stærð, og verkefnið sé aðeins að afla skatttekna af þeim með góðu eða illu. En skattstofnar er einmitt mjög breytilegir að stærð. Fleiri vinna til dæmis meira, ef þeir fá sjálfir í sinn hlut mestallar þær tekjur, sem vinnan skapar, í stað þess að ríkið hirði slíkar viðbótartekjur nær óskiptar, eins og Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott bendir á nýútkominni bók, Cutting Taxes to Increase Prosperity. Hin meinlokan er, að fjármagnið, sem á að skattleggja, sé óhreyfanlegt. Það bíði skattheimtumannanna sallarólegt eins og sauðfé eftir slátrurum. En í heimi hnattvæðingar og sífellt betri fjarskiptatækni er fjármagnið afar kvikt. Það fer á svipstundu þangað, sem það ávaxtast best. Verkefnið er þess vegna að bjóða eigendum þess sem hagstæðust kjör.

Skattasamkeppni til góðs

Aukin skattasamkeppni milli ríkja veldur því, að jaðarskattur einstaklinga (skatturinn sem greiddur er af hæstu viðbótartekjum) hefur í iðnríkjunum lækkað að meðaltali úr 67% árið 1980 í 40%. Á sama tíma hefur tekjuskattur fyrirtækja lækkað að meðaltali í sömu ríkjum úr um 50% í 27%. Slík skattasamkeppni heldur ekki aðeins fjárfrekum stjórnmálamönnum í skefjum, heldur auðveldar hún skynsamlegar fjárfestingar einkaaðila og er þannig öllum í hag, þegar til lengdar lætur, eins og breski hagfræðingurinn Richard Teather benti á í erindi á skattadegi Deloitte í janúar síðastliðnum.

Einstakt tækifæri

Um þessar mundir er Evrópusambandið með háskattalöndin Þýskaland og Frakkland í broddi fylkingar að reyna að torvelda skattasamkeppni. Írar hafa verið ávítaðir fyrir að bjóða fyrirtækjum lága skatta, og Lúxemborg sér fram á að verða að herða reglur um fjármálastofnanir. Þetta veitir Íslendingum, sem eru utan Evrópusambandsins og óbundnir af skattareglum þess, einstakt tækifæri til að bjóða fyrirtækjum og fjármagnseigendum hagstætt skattaumhverfi. Geir H. Haarde forsætisráðherra setti þegar árið 1979 fram hugmynd um þetta í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, og nefnd undir forsæti Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi skilaði vandaðri skýrslu um málið í árslok 2006. Hugmyndin er ekki að veita illa fengnu fé skjól, heldur að bjóða fjármagni án skýrs heimilisfangs svo hagstæð kjör, að það finni sér hér bólfestu. Ísland getur orðið Sviss norðursins.

Fréttablaðið 9. mars 2008. 


Harðstjóri kvaddur

Fidel_Castro5_croppedKúbverski einræðisherrann Fídel Kastró lýsti yfir því 19. febrúar, að hann hefði dregið sig í hlé. Eins og í Norður-Kóreu ganga völd þar syðra í erfðir, þó að eftirmaður Kastrós sé ekki sonur hans, heldur bróðir, Raúl Kastró. Undir stjórn Kastrós hefur Kúba breyst í sannkallað fátæktarbæli. Landið er einnig lögregluríki. Þetta kemur ekki á óvart. Hið sama gerðist á Kúbu og annars staðar, þar sem kommúnistar tóku völd. Hitt er furðulegra, hversu margir íslenskir róttæklingar eru viðhlæjendur Kastrós. Til dæmis reyndi aðaltalsmaður Samfylkingarinnar í kosningunum 1999, Margrét Frímannsdóttir, eitt sinn í Kúbuferð að ganga á fund Kastrós, þótt hann nennti ekki að taka á móti henni. Sumir samkennarar mínir í Háskóla Íslands hafa verið sjálfboðaliðar á sykurekrum eyjunnar.

Fjöldaaftökur og fangabúðir

Strax og Kastró hrifsaði völd í janúarbyrjun 1959, hófst blóðbað. Í tveimur stærstu fangelsum Havana-borgar, La Cabaña og Santa Clara, voru mörg hundruð fangar leiddir fyrir eins konar alþýðudómstól, dæmdir til dauða og teknir af lífi. Kastró hafði lofað frjálsum kosningum, en tilkynnti brátt, að þeirra gerðist ekki þörf. Lýðræðissinnar, sem höfðu í fyrstu unnið með honum, hurfu hver af öðrum úr stjórninni. Þeir voru ýmist fangelsaðir eða flýðu til Bandaríkjanna. Óháð dagblöð hættu að koma út. Ofsóknir hófust gegn kaþólsku kirkjunni. Upplýstu miðstéttarfólki leist ekki á blikuna. Rösku ári eftir byltinguna hófst flóttamannastraumur til Bandaríkjanna.

Kúgunin færðist í aukana næstu ár. Þeir samstarfsmenn Kastrós, sem taldir voru luma á sjálfstæðum skoðunum, voru settir í fangelsi eða skotnir. Rithöfundarnir Heberto Padilla og Reinaldo Arenas flýðu til Bandaríkjanna. Skáldin Pedro Luis Boitel og Armando Valladares voru send í fangabúðir. Boitel veslaðist þar upp og dó, en Valladares lifði af, slapp til Bandaríkjanna fyrir bænarstað Mitterands Frakklandsforseta og skrifaði fræga lýsingu á 22 ára vist í kúbverskum fangabúðum, Against all Hope (Gegn allri von). Öryggislögregla, sem var stofnuð strax eftir valdatöku Kastrós, hefur nánar gætur á hugsanlegu andófi. Í munni alþýðu heitir hún „Rauða Gestapó“. Ein sveit öryggislögreglunnar hefur það hlutverk að drepa útlaga, sem taldir eru hættulegir Kastró. Til dæmis var Elias de la Torriente myrtur í Miami og Aldo Vera í Púertó Ríkó.

Viðskiptabann og heilsugæsla

Tölum blæðir ekki eins og mönnum, en þær segja sitt. Fyrsta áratuginn undir stjórn Kastrós voru milli sjö og tíu þúsund manns teknir af lífi af stjórnmálaástæðum og um 30 þúsund manns sendir í fangabúðir. Það er ekki að furða, að Kúbverjar hafa greitt atkvæði „með bátsárunum“. Af 11 milljónum, sem telja sig Kúbverja, búa tvær milljónir erlendis. Líklega flúðu fleiri fátæktina en kúgunina. En sama fólk og telur, að viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu megi kenna um fátæktina, hefur jafnan haldið því fram, að suðrænar þjóðir séu fátækar vegna viðskipta við Vesturveldin. Báðar kenningarnar geta ekki verið réttar. Ég hygg, að hin fyrri sé rétt. Frjáls viðskipti eru öllum í hag. En viðskiptabannið ræður ekki úrslitum um það, að Kúba er fátæktarbæli, enda stunda Kúbverjar viðskipti við flestar Evrópuþjóðir.

Aðdáendur Kastrós segja, að heilsugæsla hafi batnað undir stjórn hans. Í reynd er þrenns konar heilsugæsla á Kúbu. Ein er fyrir útlenda ferðamenn, sem greiða í gjaldeyri, og hún er prýðileg. Önnur er fyrir starfsmenn kommúnistaflokksins, sem hafa ekki heldur undan neinu að kvarta. Hin þriðja er fyrir allan almenning, og hún er hörmuleg. Læknar og hjúkrunarfólk fá mjög lág laun, tæki og lyf eru af skornum skammti, sjúkrahús yfirfull og aðbúnaður vondur. Nokkrir sjúkdómar, sem hefur verið að mestu útrýmt á Vesturlöndum, svo sem berklar og holdsveiki, láta þar aftur á sér kræla. Barnadauði er lágur, vegna þess að stjórnvöld reyna að halda honum niðri með því að eyða fóstrum, sem ekki eru líkleg til að fæðast heilbrigð.

Hvar er eggjakakan?

Harðneskja sú, sem Stalín, Maó og minni spámenn eins og Kastró notuðu til að endurskapa skipulagið eftir sínu höfði, er stundum réttlætt með því, að ekki sé unnt að baka eggjaköku nema með því að brjóta eggin. En eggjakakan er hvergi finnanleg á Kúbu Kastrós. Baksturinn var til einskis.  

Fréttablaðið 22. febrúar 2008. 


Vinnusemi og skattar

Stundum heyrist, að sumar þjóðir séu latari en aðrar og þess vegna fátækari. Þótt vissulega séu menn misjafnir og sumir latari en aðrir, eru slíkar alhæfingar um heilar þjóðir fráleitar. En hvað skýrir þá óumdeilanlegu staðreynd, að sumar þjóðir vinna miklu meira en aðrar? Nóbelsverðlaunahafinn Edward C. Prescott hefur komist að einfaldri og sennilegri niðurstöðu. Hún er, að vinnusemi þjóða fari að miklu leyti eftir því, hversu háa skatta þær þurfi að greiða af vinnu sinni. Því hærri sem skattarnir eru, því minna vinnur fólk, og öfugt.


Meiri vinnusemi með lægri sköttum

GudmGunnUm miðja tuttugustu öld unnu Bandaríkjamenn og Evrópubúar jafnmikið, en í aldarlok unnu Bandaríkjamenn talsvert meira og höfðu að jafnaði hærri tekjur. Meginskýringin er, segir Prescott, að Evrópubúar þurfa að greiða hærri skatta af vinnu sinni. Um þetta flutti Prescott fyrirlestur í Reykjavík 26. júlí á síðasta ári. Nokkrar efasemdaraddir heyrðust þá um boðskap hans. Guðmundur Gunnarsson verkalýðsleiðtogi vitnaði í rannsóknir annarra bandarískra fræðimanna, sem sýndu, að vinnusemi réðist af fleiru en sköttum. Stefán Ólafsson prófessor fullyrti, að Íslendingar ynnu mjög mikið og framleiðni væri hér lítil. Hann endurtók þetta í erindi, sem hann flutti á dögunum og stór frétt birtist um hér í blaðinu ásamt viðhafnarviðtali. Var á Stefáni að skilja, að Íslendingar ynnu þegar of mikið, og þess vegna væri óþarfi að lækka skatta til að auka enn vinnusemi þeirra.

Nú hefur Prescott betrumbætt kenningu sína og birtir grein um hana í bók, sem væntanleg er á næstunni undir ritstjórn okkar dr. Tryggva Þórs Herbertssonar, Cutting Taxes to Increase Prosperity. Prescott minnir þar á, að kenning sín er ekki um það, að vinnusemi ráðist af öllu leyti af sköttum, heldur að miklu leyti. Hann bendir líka á, að miklu breyti, hvernig skatttekjunum er varið. Ef þeim er endurdreift til fólks, þá hefur það ekki eins vond áhrif á vinnusemi þess og ella. Á Norðurlöndum eru skattar til dæmis háir, en vinnusemi veruleg. Vegna víðtækrar endurdreifingar (barnabóta, ellilífeyris og svo framvegis) eru ráðstöfunartekjur eftir skatta hærri en ætla mætti af hinum háu sköttum. Prescott vekur einnig athygli á því, að ólík aldurssamsetning þjóða getur haft áhrif á vinnusemi þeirra. Skattar hafa ekki eins mikil áhrif á vinnusemi karla á besta aldri í fullu starfi og vinnusemi annarra hópa.


Er framleiðni á Íslandi vanmetin?

Okkur Íslendingum hlýtur að þykja fróðlegust sú tilgáta Prescotts, að í íslenskum tölum um vinnustundir sé skekkja. Unnar vinnustundir séu hér ofmældar. Það geti ekki verið, að þær séu svipaðar og í Bandaríkjunum, um 1.800 á mann að meðaltali (en meðaltalið í Evrópu er um 1.500 á mann). Prescott bendir meðal annars á, að hlutfallslega fleiri vinni á Íslandi en í Bandaríkjunum (um 10% fleiri) og að hlutfallslega fleiri vinni líka hlutastörf (um 30% á Íslandi, en um 15%  þar vestra). Ef matar- og kaffihlé og lögbundnir frídagar og sumarleyfisdagar dreifast jafnt á allt þetta fólk, þá er þegar komin til sögu mælingarskekkja. Prescott telur einnig rétt að leiðrétta fyrir erlendu vinnuafli á Íslandi, jafnt fjölda manna sem vinnustundum. Síðan vita þeir, sem borið hafa saman vinnumarkaðinn á Íslandi og í öðrum löndum, að hér er meira talið með í vinnustundum en víðast annars staðar, til dæmis óunnin yfirvinna, auk þess sem lögbundnir frídagar eru fleiri.

Prescott heldur því fram, að framleiðni á Íslandi sé talsvert meiri en ráða megi af opinberum tölum, þar sem vinnustundir séu hér oftaldar. Stefán Ólafsson fullyrðir hið gagnstæða. Ég sneri mér fyrir nokkrum vikum til Stefáns og bað hann að vísa mér í gögn sín. Ég hef enn ekki fengið svar. Fróðlegt væri þó að ræða þetta betur og æsingalaust. En auðvitað er röksemdin fyrir því að lækka skatta á einstaklinga ekki sú, að þá vinni þeir meira, þótt það sé eflaust rétt, eins og Prescott segir. Röksemdin er, að þá fá þeir, sem vilja bæta kjör sín og sinna með meiri vinnu, tækifæri til þess, án þess að ríkið hirði mestalla kjarabótina af þeim. Öðrum er eftir sem áður frjálst að vinna minna, en þeir verða um leið að sætta sig við lægri tekjur.

Fréttablaðið 8. febrúar 2008. 


Kerfið er sanngjarnt

skipMannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf er enginn dómstóll, heldur getur óánægt fólk í aðildarríkjum samtakanna sent henni erindi til umsagnar. Úrskurðir nefndarinnar eru ekki bindandi og hafa ekki lagagildi. Nýleg umsögn meiri hluta nefndarinnar um íslenska kvótakerfið sýnir, að hann hefur því miður ekki kynnt sér málið nógu vel. Þessir menn komast að þeirri niðurstöðu, að upphafleg úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum hafi verið ósanngjörn. Minni hluti nefndarinnar leiðir hins vegar rök að því, að í hinni upphaflegu úthlutun hafi ákvæði mannréttindasamþykktar Sameinuðu þjóðanna gegn óeðlilegri mismunun ekki verið brotin. Þess vegna telur minni hlutinn, að dómar Hæstaréttar Íslands um kvótakerfið standist.

Hvernig var upphafleg úthlutun?

Ágreiningur meiri hluta og minni hluta mannréttindanefndarinnar snýst ekki um hagfræðikenningar eða lagabókstaf, heldur siðferðileg efni. Forsagan er öllum Íslendingum kunn. Í árslok 1983 voru fiskistofnar á Íslandsmiðum að hruni komnir vegna ofveiði. Takmarka varð sókn í þá. Ýmsar fyrri tilraunir til þess höfðu mistekist. Þess vegna var að ráði fiskihagfræðinga, forystu útgerðarmanna og annarra tekinn sá kostur að takmarka sóknina við þá, sem gert höfðu út á tímabilinu frá 1. nóvember 1980 til 31. október 1983. Þeir fengu aflaheimildir í hlutfalli við afla sinn á þessu tímabili. Þetta fyrirkomulag gilti fyrst aðeins um botnfisk (þorsk og fleiri tegundir), en með löggjöf árið 1990 varð kvótakerfið altækt og gilti eftir það um alla fiskistofna á Íslandsmiðum.

Efnisleg mismunun

Takmarka varð aðganginn að miðunum, og hann var takmarkaður við þá, sem þegar höfðu nýtt sér aðganginn og fjárfest í skipum, veiðarfærum og eigin þjálfun og áhafnar sinnar. Þetta var eðlilegt. Þeir áttu allt í húfi. Hefðu þeir ekki fengið að sækja miðin áfram, þá hefði fjárfesting þeirra orðið verðlaus með einu pennastriki. Afkomuskilyrðum þeirra hefði verið stórlega raskað og að ósekju. Hinir, sem höfðu ekki nýtt sér ótakmarkaðan aðgang fyrri ára, töpuðu engu öðru en innantómum rétti til að veiða fisk, sem var á þrotum sökum ofveiði. Þetta virðist meiri hluti mannréttindanefndarinnar í Genf ekki skilja ólíkt minni hlutanum. Öll úthlutun takmarkaðra gæða felur í sér mismunun. Aðalatriðið um hina upphaflegu úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum er, hvort sú mismunun hafi verið efnisleg. Ég segi hiklaust já, því að hún var fólgin í því að taka tillit til áunninna hagsmuna þeirra, sem stundað höfðu veiðar. Þeirra afkomuskilyrðum var ekki raskað um of.

Menn keyptir út eða reknir út

Til voru þó þeir, sem sögðu á sínum tíma, að sanngjarnara hefði verið að úthluta aflaheimildum í opinberu uppboði. Þeir útgerðarmenn einir hefðu þá haldið áfram veiðum, sem hefðu haft bolmagn til að kaupa aflaheimildir af ríkinu. Þetta hefði verið ósanngjarnt. Með henni hefði sá hópur, sem ekki hefði getað keypt sér aflaheimildir, horft upp á líf sitt lagt í rúst. Hitt var hyggilegra, sem einmitt var gert, að afhenda öllum, sem stunduðu veiðar, aflaheimildir ókeypis og leyfa síðan þeim, sem betri höfðu afkomuna, að kaupa smám saman út hina. Þannig undu allir við sitt. Allir græddu. Enginn skaðaðist. Menn voru þá keyptir út úr útgerð í frjálsum viðskiptum í stað þess að vera reknir út með valdboði.

Hvað um hina?

Þá vaknar auðvitað spurning, sem borin var upp við mannréttindanefndina: Hvað um þá, sem ekki höfðu stundað veiðar á upphaflega viðmiðunartímanum, en vilja nú hefja veiðar? Svarið er, að enginn bannar þeim að hefja veiðar. Þeir verða aðeins að kaupa sér aflaheimildir. Til er orðinn verðmætur réttur, einmitt vegna þess að hann er takmarkaður. Hann var áður verðlaus, af því að hann var ótakmarkaður. Það var erfiðara og ósanngjarnara að banna mönnum að halda áfram veiðum, sem þeir höfðu stundað lengi, en að banna öðrum mönnum að hefja veiðar, sem þeir höfðu aldrei stundað. Aldarfjórðungur er nú auk þess liðinn frá upphaflegri úthlutun. Aflaheimildir hafa gengið kaupum og sölum. Langflestir handhafar hafa keypt þær. Ekki verður aftur snúið. Kvótakerfið hefur reynst Íslendingum vel, hvað sem líður umsögn meiri hluta mannréttindanefndarinnar í Genf. Hann sýnir, að við þurfum að kynna kerfið betur erlendis.

Fréttablaðið 29. janúar 2008. 


Nýr borgarstjórnarmeirihluti í Reykjavík

Ég var í Íslandi í dag á Stöð tvö mánudagskvöldið 21. janúar 2008 og ræddi um hinn nýja borgarstjórnarmeirihluta, sem Sjálfstæðisflokkurinn myndaði með Ólafi F. Magnússyni þá um daginn. Þar lét ég í ljós þá skoðun, að Ólafur og tveir þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Magnússon, ættu miklu betur heima í eða með Sjálfstæðisflokknum en í samstarfi við vinstri flokka. Horfa má á viðtalið hér.

Kiljan um Davíð

Ég kom fram í þætti Egils Helgasonar um bókmenntir í Sjónvarpinu, Kiljunni, miðvikudagskvöldið 16. janúar kl. 10.30 og sagði þar frá bókinni Davíð Oddsson í myndum og máli, sem Samband ungra sjálfstæðismanna gaf út til heiðurs Davíð á sextugsafmælinu 17. janúar. Horfa má á þáttinn hér. Ég sá um myndaval og texta. Bókin er 240 blaðsíður og full af myndum, sem sumar eru merkilegar, sögulegar heimildir, en aðrar hafa ótvírætt listrænt gildi, enda hefur Davíð verið verkefni margra snjallra atvinnuljósmyndara í nær þrjátíu ár, sem borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og aðalbankastjóri Seðlabankans. Þessi mynd hér er ekki í bókinni, en ég fann hana í grúski mínu hennar vegna: Við Davíð göngum um miðbæinn einn góðan veðurdag í borgarstjóratíð hans (1982-1991) og leggjum á ráðin.HHGDO

Mannamál um Davíð

Ég kom fram í Mannamáli, þætti Sigmundar Ernis á Stöð tvö, sunnudagskvöldið 13. janúar 2008 kl. 19.05 og ræddi þar um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, sem verður sextugur 17. janúar 2008. Horfa má á þáttinn hér.

Boðskapur Teathers

upld-release101photoEndurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte hélt árlegan skattadag sinn miðvikudagsmorguninn 9. janúar. Þar voru flutt mörg fróðleg erindi, en ég staldra við tvö. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hélt því fram, að á Íslandi hefði kenning Arthurs Laffers sannast um, að skatttekjur ríkisins geti við tiltekin skilyrði aukist með minnkaðri skattheimtu: 18% skattur kann að gefa meira af sér en 45% skattur. Þetta gerðist einmitt á Íslandi síðustu sextán ár. Tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður úr 45% í 18%, en skatttekjurnar ruku upp. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Svipað er að segja um tekjuskatt á einstaklinga. Hann var lækkaður um 8% á tíu árum, en tekjur ríkisins af honum hækkuðu samt.

Meiri skatttekjur með minni skattheimtu

Fleiri íslensk dæmi staðfesta kenningu Laffers. Eitt er húsaleigutekjur. Áður fyrr voru þær skattlagðar eins og atvinnutekjur og báru um 40% skatt. Þá töldu fæstir þær fram. Þegar ákveðið var að skattleggja þær sem fjármagnstekjur, en þær bera 10% skatt, snarhækkuðu skatttekjur af þeim. Ástæðurnar voru tvær: Í fyrsta lagi jókst framboð á leiguhúsnæði, þar sem það borgaði sig allt í einu að leigja það út. Í öðru lagi bötnuðu skattskil, því að menn telja fúslega fram tekjur, sem bera 10% skatt, en miklu síður tekjur, sem bera 40% skatt. Annað dæmi er erfðafjárskattur, sem áður gat orðið mjög hár, en er nú oftast aðeins 5%. Skatttekjur ríkisins af honum hafa einnig snarhækkað. Enn eru skýringarnar tvær: Með blómlegu atvinnulífi eykst erfðafé, og í öðru lagi nenna menn ekki að koma sér á ýmsan löglegan hátt hjá skattgreiðslum af slíku fé, sé skatturinn hóflegur.

TeatherEina athugasemdin, sem ég geri við ræðu Árna M. Mathiesens á skattadeginum, er, hversu hógvær hann var. Sannleikurinn er sá, að skattabreytingar síðustu sextán ára hafa skilað stórkostlegum árangri. Við búum við miklu betri skattkerfi en hinar Norðurlandaþjóðirnar, meðal annars vegna þess að tekjuskattur á einstaklinga er flatur ofan skattleysismarka. Hitt er annað mál, að gera má betur, og um það var fróðlegt erindi prófessors Richards Teathers frá Stóra-Bretlandi. Hann er sérfræðingur um skattamál og ráðgjafi þingsins í Jersey, en hún er lítil eyja í Ermarsundi, sem orðið hefur stórauðug á því að laða að sér fjármagn með lágum sköttum og veita margvíslega fjármálaþjónustu.

Skattasamkeppni til góðs

Í bókinni The Benefits of Tax Competition (Skattasamkeppni til góðs), sem Teather gaf út fyrir tveimur árum, bendir hann á, að skattasamkeppni milli ríkja hefur ýmsar æskilegar afleiðingar. Ein blasir við. Slík samkeppni heldur í skefjum tilhneigingu stjórnmálamanna til að hækka skatta, sem renna síðan í misjafnlega skynsamleg verkefni. Önnur er ekki eins augljós. Lágskattalönd eða fjármálamiðstöðvar eins og Lúxemborg, Írland, Jersey og Liechtenstein stuðla að aukinni hagkvæmni í alþjóðahagkerfinu með því að lækka kostnað við fjárfestingar og fjármagnsflutninga. Teather bendir á, að slíkar fjármálamiðstöðvar soga ekki sjálfar til sín fjármagn. Þar er ekki fjárfest, heldur eru þar teknar ákvarðanir um, hvar fjárfest skuli, til dæmis hvort féð renni í tölvuver í Kína eða skóverksmiðju á Indlandi.

Teather telur, að Ísland hafi mikla möguleika sem fjármálamiðstöð, ekki síst vegna þess að það stendur utan Evrópusambandsins, sem leitast því miður við að takmarka skattasamkeppni. Hann bendir á, að tekjuskattur á fyrirtæki er nú aðeins 12,5% á Írlandi (sem situr raunar undir ámæli fyrir það innan Evrópusambandsins). Ef Ísland lækkar tekjuskatt á fyrirtæki úr 18% í 10% og býr á ýmsan annan hátt vel að fjármálafélögum stórfyrirtækja, þá getur landið laðað slík félög að sér, en það myndar feikilegar beinar og óbeinar tekjur fyrir ríkissjóð.

Framkvæmum góðar hugmyndir

SigEinÍ bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, sem kom út 1979, varpaði Geir H. Haarde, sem þá var ungur hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, fram þeirri hugmynd, að Ísland yrði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Með því að lækka skatta á fyrirtæki voru stigin mikilvæg skref í þá átt í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar, og á meðan Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra, skipaði hann nefnd til að skoða málið undir forystu Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi. Skilaði sú nefnd vandaðri skýrslu með ýmsum góðum hugmyndum. Um þessar mundir syrtir að í atvinnulífinu. Þess vegna er nú rétti tíminn til að framkvæma þessar hugmyndir. Við höfum engu að tapa og allt að vinna á því að reyna að gera Ísland að öflugri, alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Fréttablaðið 11. janúar 2008. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband