Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.11.2010 | 00:27
Vinstri stjórnin verður að svara Bjarna Benediktssyni
Bjarni Benediktsson hefur borið fram einfalda spurningu til vinstri stjórnarinnar: Ef þið segið nú, að þið getið náð 75 milljarða króna betri Icesave-samningi en þið gerðuð áður, hvað gerðið þið þá rangt, þegar þið náðuð 75 milljarða króna verri Icesave-samningi á sínum tíma en þið gátuð náð?
Töpuðu Íslendingar 75 milljörðum króna á því að hafa þau Indriða Þorláksson, Svavar Gestsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon í forsvari í þessu máli? Ef draga á aðra fyrir Landsdóm vegna vítaverðrar vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, á þá ekki að draga þau Jóhönnu og Steingrím fyrir þennan dóm fyrir að hafa beinlínis með gáleysi eða dugleysi (eða jafnvel með ásetningi, ef það sannast) kostað þjóðina 75 milljarða króna í eftirleik bankahrunsins.
2.11.2010 | 18:22
Skynsamlegar tillögur
Tillögur þær, sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú lagt fram, eru mjög skynsamlegar. Lífsnauðsyn er að lækka skatta til að örva atvinnulífið og hvetja fólk til dáða.
Skattalækkanir áranna 19912007 tókust mjög vel, eins og ég leiði raunar rök að í bók minni, Áhrif skattahækkana á lífskjör og hagvöxt, sem kom út í árslok 2009.
Einnig er brýnna að ráðast í greiðsluaðlögun heimilanna en Evrópusambandsaðlögun Samfylkingarinnar.
1.11.2010 | 18:02
Lítilmannleg framkoma við Halldór Ásgrímsson
Ég get ekki annað en furðað mig á hinni lítilmannlegu framkomu vinstri stjórnarinnar núverandi við Halldór Ásgrímsson. Hann var farsæll sjávarútvegsráðherra 19831991 og utanríkisráðherra 19952004. Hann naut sín að mínum dómi síður sem forsætisráðherra 20042006, en ég hef aldrei dregið í efa samviskusemi hans, dugnað og góðvild.
Stjórnin rýfur öll grið með því að ætla að kvarta undan því við vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum, að Halldór skyldi vera endurráðinn framkvæmdastjóri Norræna ráðherraráðsins. Hefur Halldór ekki unnið starf sitt þar ágætlega? Ætlar stjórnin að flytja gamlar væringar innan lands austur um haf?
Er heift núverandi valdhafa og hefndarþorsta engin takmörk sett? Og ætlar Framsóknarflokkurinn að taka þessu þegjandi eins og Sjálfstæðisflokkurinn (með örfáum undantekningum) aðförinni að Davíð Oddssyni í Seðlabankann vorið 2009?
Bankahrunið 2008 átti sér ýmsar ástæður, ekki síst tregðu erlendra seðlabanka til að tryggja lánalínur til Íslands og ótrúlega fólsku Breta gagnvart Heritable Bank (en eigandi hans, Landsbankinn, var settur á lista yfir hryðjuverkasamtök) og Singer & Friedlander (sem var í eigu Kaupþings, en honum var ekki bjargað, einum breskra banka, hina örlagaríku daga í októberbyrjun 2008, að skipun fjármálaráðuneytisins breska, en ekki að ósk fjármálaeftirlitins þar í landi).
Sumar ástæður hrunsins voru vissulega innlendar, eins og rakið er með mörgum glöggum dæmum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Af henni má sjá, að innlenda meginástæðan var sú, að fámenn klíka í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson hafði með yfirgangi og blekkingum tæmt íslensku bankana, svo að þeir voru vanbúnir fjármálakreppunni, sem jókst um allan helming haustið 2008.
Gagnrýna má íslenska ráðamenn eins og Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde fyrir að hafa ekki veitt þessum yfirgangsseggjum viðnám, en þeim var vorkunn: Þeir sáu, hvernig þessi klíka hafði sigað öllum sínum álitsgjöfum og leigupennum á Davíð Oddsson, sem hafði leyft sér að reyna að takmarka hér völd hennar og áhrif. Enginn vafi er á því, að þessu liði tókst að grafa undan Davíð, sem hafði verið vinsælasti og áhrifamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar.
Eini maðurinn í núverandi stjórnarliði, sem sýndi einhvern lit á að andæfa þessum þokkapiltum, var Ögmundur Jónasson, og var hann þó venslaður eiginkonu Jóns Ásgeirs. Ekkert heyrðist frá Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Raunar hafði Jóhanna aðeins áhyggjur af einu í Baugsmálinu svonefnda, þegar lögregla rannsakaði efnahagsbrot Jóns Ásgeirs og klíku hans. Það var kostnaðurinn!
Það er lítilmannlegt að reyna nú að bregða fæti fyrir gamlan andstæðing, þegar hann hefur getið sér gott orð erlendis. Þeir, sem beita slíkum brögðum, mega síðar eiga von á því, að þeir verði brögðum beittir. Þeir, sem rjúfa grið, geta ekki vænst griða.
31.10.2010 | 15:07
Fræðileg forsenda auðlindaskatts hrakin
Því miður hefur Ísland breyst í land, þar sem allir öskra hver á annan og hvers kyns grilluveiðarar eiga auðveldan aðgang að fjölmiðlum. Þess vegna verða málefnalegar rökræður útundan. Ég reyndi þó að leggja mitt til einnar slíkrar rökræðu í erindi mínu í Þjóðarspeglinum 29. október, Skapa eigendur auðlindar engan arð?
Þar gagnrýndi ég þá frumforsendu auðlindaskatts (eða uppboði á kvótum eða fyrningarleið, sem allt eru ólík nöfn á sama fyrirbæri), að auðlindarentan, sem tilgangur hans er að gera upptæka, minnkaði ekki við upptökuna. Hagfræðingar gætu því, segja stuðningsmenn auðlindaskatts, með góðri samvisku mælt með þeirri leið í nafni hagfræðinnar.
Ég benti í fyrsta lagi á, að Vilfredo Pareto hefði sett hagkvæmum breytingum á skipan mála það skilyrði, að enginn mætti tapa á slíkri breytingu, en allir eða a. m. k. sumir myndu græða. Sú leið, sem farin var á sínum tíma til að fækka bátum og minnka offjárfestingu í sjávarútvegi, að viðurkenna atvinnuréttindi bátseigendanna (kvótana) og gera þá framseljanlega og varanlega, svo að eigendurnir gætu með viðskiptum innbyrðis fækkað bátum og hagrætt, var Pareto-hagkvæm.
Hin leiðin, sem sumir lögðu til, að fækka bátum með því að bjóða upp atvinnuréttindin (kvótana), hefði hins vegar ekki verið Pareto-hagkvæm, því að þá hefði sumir tapað (þeir, sem ekki hefðu getað keypt réttindin og því orðið í einu vetfangi að hætta veiðum), sumir hvorki tapað né grætt (þeir, sem hefðu getað keypt réttindin og því greitt til ríkisins sömu upphæð og þeir hefðu áður tapað í offjárfestingu) og sumir grætt stórkostlega (atvinnustjórnmálamenn, sem hefðu fengið nýjan tekjustofn til að kaupa fyrir atkvæði).
Ég benti í öðru lagi á það sjónarmið Ronalds Johnsons, hagfræðiprófessors í Bandaríkjunum, að leið varanlegra og framseljanlegra atvinnuréttinda (eins og við Íslendingar fórum) er vænlegri til hámörkunar rentu eða arðs af auðlindinni af einni ástæðu, og hún er sú, að þá er það beinn hagur þeirra, sem fara með réttindin, að heildarafli sé settur skynsamlega hverju sinni. Ef bátseigendurnir eru hins vegar leiguliðar, þá munu þeir reyna að hegða sér eins og þeir gerðu áður, þegar aðgangur að auðlindinni var óheftur, veiða sem mest á sem stystum tíma.
Ég benti í þriðja lagi á þá röksemd Birgis Þórs Runólfssonar, hagfræðikennara í Háskóla Íslands, að rentunni af auðlindinni yrði líklega sóað, ef ríkið gerði hana upptæka. Í stað þess fyrra kerfis, sem stóð, áður en aðgangur var heftur með því að viðurkenna atvinnuréttindi, en þá sóuðu bátseigendurnir rentunni með of mörgum bátum, kæmi kerfi, þar sem ýmsir hagsmunahópar sóuðu rentunni (sem nú væri komin í ríkissjóð) með því að nota fjármuni í margvíslega keppni um úthlutanir úr ríkissjóði. Þetta kalla hagfræðingar rent-seeking.
Niðurstaða mín var sú, að náttúran skapar ekki ein rentu af auðlindum. Mennirnir hafa sitt að segja um, hvort hún verður mikil eða lítil, en einnig um hitt, hvort mikið verður eða lítið úr henni. Aðalatriðið er, að einkahagsmunir og almannahagsmunir fari saman, svo að menn hegði sér sjálfkrafa skynsamlega, en opinberir eftirlitsaðilar þurfi ekki sífellt að standa yfir þeim.
31.10.2010 | 08:21
Fyrirlestur í Þjóðarspegli á föstudegi
Í fyrradag, föstudaginn 29. október, flutti ég fyrirlestur á Þjóðarspeglinum, þar sem fræðimenn á félagsvísindasviði Háskóla Íslands kynna árlega rannsóknaniðurstöður sínar. Þar gagnrýndi ég hina fræðilegu frumforsendu kröfunnar um auðlindaskatt (eða uppboð á veiðileyfum). Hún er, að eigendur náttúruauðlindar skapi engan arð, heldur sé allur arðurinn (sem oft er kallaður auðlindarenta) eins konar gjöf náttúrunnar, sem ríkið geti hirt óskiptan, án þess að hann minnki.
Fyrirlestur minn var kl. 13.00 í stofu 102 í Lögbergi. Fjöldi manns sótti hann, og nemendur spurðu skynsamlegra spurninga, sem sýna, að þeir skildu hinn fræðilega vanda og höfðu velt fyrir sér lausnum hans. Einnig lagði Ragnar Árnason, prófessor í auðlindahagfræði, orð í belg af þekkingu sinni og yfirsýn. Fyrirlestur minn er þáttur í rannsóknaverkefni, sem ég annast og nefnist Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.
Fyrirlestur minn birtist í bók, sem kom út um leið og ráðstefnan var haldin, Rannsóknir í félagsvísindum, XI. bindi, og verður hún einnig aðgengileg á vefnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook
28.10.2010 | 16:59
Hættur framundan
Ísland á sér viðreisnar von, ef skynsamlega er á málum haldið. Hér er gnótt auðlinda og duglegt og vel menntað fólk. En núverandi ríkisstjórn virðist gera allt, sem hún getur, til að tefja viðreisnarstarfið. Hún ræðst beint á þann atvinnuveg, sem mestu skilar og best gengur, sjávarútveginn. Þar hafa myndast atvinnuréttindi í almenningi, sem eru eins og Sigurður Líndal og margir fleiri hafa fært rök fyrir, undirorpin eignarrétti (þótt sjálfur fiskurinn í sjónum sé það ekki). Þessi atvinnuréttindi ber að virða, ekki aðeins að lögum, heldur líka til þess að tryggja verðmætasköpun. Þetta kerfi atvinnuréttinda er eitt hið besta, sem fundist hefur til að nýta fiskistofna, eins og öllum sérfræðingum ber saman um.
Stjórnin ræðst líka beint á verðmætasköpun einstaklinganna í öðrum greinum. Í stað þess að lækka útgjöld og taka þá lán innan lands, ef útgjaldalækkunin hrekkur ekki til, hækkar hún skatta. Hún er að reyna að eyðileggja hið skilvirka og skynsamlega skattakerfi, sem hér myndaðist árin 19912004. Þetta skattakerfi laðaði menn til vinnu og verðmætasköpunar. Stighækkandi tekjuskattur er aðallega skattur á það, að fólk hækki tekjur sínar, komist úr fátækt í bjargálnir, bæti hag sinn og sinna.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að heita því að standa vörð um atvinnuréttindi einstaklinga í þeim almenningi, sem fiskimiðin eru, og því að taka samstundis til baka allar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar, ef hann á að geta reist Ísland við, auðvitað í samstarfi við aðra.
26.10.2010 | 14:31
Skorið á lífæð
Íslendingar tóku kristni árið 1000, og raunar voru sumir landnámsmennirnir líka kristnir. Kristnin er samofin menningu landsins, órofaþáttur í röskri ellefu hundruð ára sögu okkar. Bókmenntir okkar eru þrungnar merkingu úr kristnum fræðum, óteljandi skírskotunum í hina helgu bók. Sú tónlist, sem hæst hefur náð, er kristileg: Mozart, Beethoven, Bach
Sjálfur hef ég verið hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, en það er vegna þess, að ég tel, að kristnir söfnuðir landsins hafi ekki gott af kæfandi faðmlagi ríkisins. Prestar eigi að vera boðberar hins lifandi orðs, en ekki skrækróma og hjáróma félagsmálafulltrúar.
Nú ætla litlir karlar eða öllu heldur litlar kerlingar að skera á þennan þráð til fortíðar, þessa lífæð þjóðarinnar. Með því værum við að týna einhverju af sjálfum okkur, verða snauðari, rótlausari, minni. Vonandi mistekst þessu óhappafólki þetta eins og því hefur mistekist flest annað.
25.10.2010 | 23:07
Sovét-Ísland, óskalandið …
Jóhannes úr Kötlum orti um Sovét-Ísland, óskalandið. Því miður virðist sá draumur hans og fleiri gamalla kommúnista frekar vera að rætast nú en oft áður. Vinstri stjórnin íslenska keppist við að framkvæma tvo fyrstu liðina í Kommúnistaávarpinu (sem endurútgefið var nýlega og þegar hefur orðið að endurprenta), en þeir eru að koma á stighækkandi tekjusköttum og gera upptæka alla rentu af auðlindum (leggja á auðlindaskatt, bjóða upp kvóta).
Bankahrunið íslenska er ekki ástæða skattahækkana og annarra aðgerða stjórnarinnar í því skyni að auka völd ríkisins og þrengja að einstaklingum, heldur afsökun og átylla. Ekki var aðeins lagt á ráðin um þetta í Kommúnistaávarpinu, heldur líka í ritum minni spámanna, eins og Svavars Gestssonar í Sjónarrönd fyrir nokkrum árum.
Hægri menn verða að snúa vörn og sókn og hefja öfluga baráttu fyrir hugmyndum sínum. Mælingar hagfræðinga sýna vel, að lífskjör eru best, þar sem atvinnulíf er frjálst og eignarréttur nýtur verndar, ekki aðeins með yfirlýsingum í stjórnarskrá, heldur líka með öflugu og traustu réttarfari.
Jón Þorláksson, verkfræðingur, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði réttilega í þingræðu 1927: Reynslan hér í Norðurálfu hefir og orðið sú, að því landi hefir vegnað best í stjórnarfarslegu tilliti, þar sem lagabókstafirnir eru fæstir, en stjórnarvenjurnar fastastar.24.10.2010 | 09:56
Hvað er Egill Helgason að fara?
Þetta er í annað sinn, sem ég verð að velja bloggi yfirskrift með þessu mannsnafni. Egill Helgason, sem á hvílir lagaskylda um óhlutdrægni í starfi, veitist nær daglega að mér á bloggi sínu á Eyjunni. Nú heimtar hann eins og Jóhannes í Bónus á undan honum, að ég verði rekinn frá Háskólanum. Jafnframt fullyrðir hann, að ég skrifi nafnlausar svívirðingar um samkennara mína undir nafninu Skafti Harðarson og í pistlum smáfuglanna á amx.is.
Mér er ekki ljóst, hvað Egill er að fara. Það á ekki að koma neinum á óvart, að gamall félagi minn úr stjórn Félags frjálshyggjumanna, Skafti Harðarson, sem bloggar á Eyjunni, hafi svipaðar skoðanir og ég á ýmsum málum og þó ekki öllum.
Það á ekki heldur að koma neinum á óvart, að gamall aðstoðarmaður minn, stofnandi Frjálshyggjufélagsins nýja og tengdasonur eins besta vinar míns, Friðbjörn Orri Ketilsson, umsjónarmaður amx.is, eigi um margt samleið með mér í stjórnmálum né aðrir þeir, sem þar skrifa.
Ég skal líka fúslega játa, að ég hef iðulega gefið þeim eins og mörgum öðrum góð ráð um málfar og efnistök. (Raunar þyrfti Egill Helgason stundum á slíkum ráðum að halda; oft er fljótaskrift á pistlum hans.)
Ég hef óspart gagnrýnt samkennara mína undir nafni. Ég hef til dæmis margsinnis bent á það hér á blogginu, að Stefán Ólafsson
- gerði fátækt að miklu máli fyrir kosningarnar 2003, en samkvæmt mælingum var hún þá minni á Íslandi en í nokkru öðru landi heims að Svíþjóð undantekninni,
- gerði ójafna tekjuskiptingu að miklu máli fyrir kosningarnar 2007, en samkvæmt mælingum var hún þá ekki eins ójöfn og hann hafði fullyrt, enda hafði hann reiknað hana rangt,
- neitaði að viðurkenna, að á Norðurlöndum voru lífeyristekjur 2004 hæstar á Íslandi, en til þess að rökstyðja þessa neitun sína reiknaði hann rangt (deildi með tölu allra á lífeyrisaldri í heildarsummu lífeyrisgreiðslna í stað þess að deila með tölu þeirra, sem þáðu lífeyri, í þessa heildarsummu),
- rauf trúnað sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, þegar hann var fenginn til að kanna fylgi hugsanlegra frambjóðenda í forsetakjöri 1996, en sagði ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunni.
Ég hef ekki orðið þess var, að í bloggi Skafta Harðarsonar eða pistlum smáfuglanna á amx.is hafi eitthvað annað og verra verið upplýst um Stefán Ólafsson.
Ég hef líka bent á það margsinnis hér á blogginu, að Þorvaldur Gylfason
- hældi Taílendingum fyrir skynsamlega hagstjórn í nóvember 1996, en nokkrum mánuðum seinna varð hrun hjá þeim,
- skammaði Íslendinga fyrir óskynsamlega hagstjórn við sama tækifæri og spáði hruni, en í hönd fór átta ára góðæri, sem ekki hvíldi á lántökum (því að þær hófust ekki að ráði fyrr en 2004),
- reiknaði 2006 rangt út Gini-stuðla fyrir Ísland 2004, þegar hann vildi sýna fram á, að tekjuskiptingin hér væri miklu ójafnari en hún er í raun og veru,
- taldi 2005, að rannsókn lögreglunnar á fjárglæfrum Baugsfeðga væri dæmi um stjórnmálaofsóknir, en ætti sér ekki efnislega stoð,
- hefur ekki þrátt fyrir margar áskoranir sagt eitt einasta orð gegn Baugsfeðgum fyrir fjárglæfra þeirra, þótt hann deili hvatskeytlega á alla aðra, sem komið hafa nálægt hruninu.
Ég hef ekki orðið þess var, að í bloggi Skafta Harðarsonar eða pistlum smáfuglanna á amx.is hafi eitthvað annað og verra verið upplýst um Þorvald Gylfason.
Það er sem betur fer ekki enn orðið glæpur að vera sammála mér eða jafnvel endurtaka einhver sjónarmið, sem ég hef sett fram.
Ef einhvers staðar á að kvarta undan nafnlausum skrifum, þá er það undan hinum nafnlausu svívirðingaskrifum á bloggi Egils Helgasonar á Eyjunni, sem hann ber fulla ábyrgð á sem ritstjóri og umsjónarmaður.
Hvað er Egill Helgason að fara? Og við, sem viljum honum vel, hljótum líka að spyrja: Hvert er Egill Helgason að fara?Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook
21.10.2010 | 16:46
Davíð í Háskólanum
Ég kenni námskeiðið Bandarísk stjórnmál í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Sjálfur hef ég fræðst um margt af því að kenna námskeiðið. Þótt skoðanir séu eflaust skiptar um Bandaríkin, eru þau eitthvert merkilegasta heimsveldi, sem sagan hefur séð.
Þriðjudaginn 19. október kom góður gestur í námskeiðið. Hann var Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem sagði að minni ósk nemendum frá fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hefur hitt og kynnst misjafnlega vel. Ronald Reagan var hinn fyrsti, en hann hitti Davíð stuttlega, þegar Reagan var forseti og Davíð borgarstjóri haustið 1986, en þá var leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs haldinn í Höfða.
Þegar Davíð varð forsætisráðherra vorið 1991, var George Bush eldri forseti, og kynntist Davíð honum í návígi á leiðtogafundum Atlantshafsbandalagsins. Hann hafði enn fleira saman að sælda við Bill Clinton, sem var forseti 19932001, á sama tíma og Davíð var forsætisráðherra. Loks sagði Davíð frá George Bush yngri, en leiðir þeirra lágu saman til haustsins 2004, þegar Davíð hvarf úr stól forsætisráðherra.
Davíð hefur eins og alþjóð veit hæfileika rithöfundarins til að lýsa mönnum, andrúmslofti og umhverfi, svo að skemmtilegt verði og skiljanlegt, og var frásögn hans af þessum fjórum valdamestu mönnum heims á sinni tíð mjög fróðleg og elskuleg, þar sem skotið var inn græskulausum gamansögum, sem sýndu, að þeir voru og eru mannlegir eins og aðrir.
Finnast mér þau Hillary og Bill Clinton hafa sýnt Davíð mikinn vináttuvott, þegar þau heimsóttu hann haustið 2004, er hann var að ná sér eftir mjög erfið veikindi, en þá hafði Clinton löngu látið af forsetaembætti, þótt Hillary væri sest í öldungadeildina. Þótt ekki sé ég sammála Clinton um allt, er enginn vafi á, að hann gegndi forsetaembættinu af prýði.
Fróðlegt var líka að heyra hugleiðingar Davíðs Oddssonar, er nemendur spurðu hann um framtíðina, sérstaklega uppgang nýrra stórvelda, eftir að Bandaríkin höfðu verið eina raunverulega heimsveldið í tvo áratugi.