Dýrleif á Parti

Um miðja tuttugustu öld urðu fleyg ummæli Baldvins skálda: „Dýrleif í Parti sagði mér; ég hafði áður sagt henni.“ Baldvin skáldi var þingeyskur hagyrðingur og bóndi, sem uppi var 1860–1944, en síðast bjó hann á Auðbrekku á Húsavík. Tildrög ummælanna voru, að Baldvin skáldi safnaði þjóðsögum fyrir Odd Björnsson á Akureyri. Oddur hafði hann grunaðan um að yrkja frá rótum sumar þjóðsögur sínar. Ummælin sýna, að sá grunur var á rökum reistur.

En hver var Dýrleif í Parti? Það tók mig talsverðan tíma að leita hana uppi, eftir að ég hafði rekist á þessi skemmtilegu ummæli. Væntanlega var hún Dýrleif nokkur Jónsdóttir, sem bjó í Parti í Reykjadal og uppi var 1839–1872. Þótt hún félli frá ung, eignaðist hún tvö börn, og fluttist dóttir hennar vestur um haf.

Almælt var í Þingeyjarsýslu, að eldri systir Dýrleifar og alnafna, Dýrleif Jónsdóttir, sem fæddist 1835 og lést aðeins þriggja ára að aldri, væri laundóttir dansks konungssonar, Friðriks af Aldinborgarætt, sem konungur varð í Danmörku, hinn sjöundi með því nafni, og lést 1863. Hafði Friðrik verið baldinn í æsku og sendur upp til Íslands, svo að eitthvað sljákkaði í honum. Hefur hin eldri Dýrleif væntanlega verið getin haustið 1834, ef sagan er sönn.

En ummæli Baldvins skálda eiga enn við: Oft vitna menn í það, sem þeir hafa þegar komið sjálfir af stað. Er nærtækast að lesa ýmsar skýrslur alþjóðastofnana eins og OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en efnið í þær kemur oftast beina leið frá Íslandi. „Dýrleif í Parti sagði mér; ég hafði áður sagt henni.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband