Rawls og Piketty (2)

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir (svo sem um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), setja tvær réttlætisreglur, um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna og um jöfnuð lífsgæða, nema því aðeins að tekjumunurinn stuðli að bættum kjörum hinna verst settu. Ég benti fyrir viku á, að með því að undanskilja atvinnufrelsi í fyrri reglunni laumi Rawls eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna á stofnþinginu og að hin almenna kenning hans sé auk þess ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag komi. Hún sé varnarleikur gegn verstu kostum, gegn hugsanlegri kúgun og fátækt.

Rawls telur þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum markaðsviðskiptum, óréttláta. Hátekjumenn njóti þar til dæmis oft áskapaðra hæfileika sinna. Dreifing slíkra gæða hafi ekki verið eftir verðleikum, heldur tilviljun. Sumir fæðist hraustari, sterkari eða gáfaðri en aðrir. Hetjutenórinn hafi ekki unnið til raddar sinnar, heldur þegið hana frá náttúrunni. Menn geti auk þess aðeins notið þessara hæfileika sinna með öðru fólki, og þess vegna megi þeir ekki hirða allan afrakstur af þeim, heldur verði að deila honum með hæfileikaminna fólki samkvæmt seinni réttlætisreglunni um jöfnuð lífsgæða.

Hér er ég í senn sammála og ósammála Rawls. Hann hefur rétt fyrir sér um, að menn hafa ekki unnið til hæfileika sinna, heldur hlotið þá í vöggugjöf. En eðlilegasta hugmyndin um frelsi er, að menn eigi sjálfa sig, en séu ekki eign annarra, þrælar. Af sjálfseign þeirra leiðir, að þeir eiga hæfileika sína og öðlast þá um leið tilkall til afrakstursins af þeim. Þótt þeir hafi ekki unnið til áskapaðra hæfileika sinna, hafa þeir unnið til afrakstursins af þeim. Erfitt er eða ókleift að gera greinarmun á þeim hluta virðisins, sem er gjöf náttúrunnar, og þeim hluta, sem er framlag einstaklingsins. Hvað er áskapað og hvað áunnið? Menn leggja misjafna rækt við hæfileika sína. Rétta ráðið til þess, að þeir þroski þá, er að leyfa öðrum að njóta þeirra með þeim gegn gjaldi, en þá hljótum við að hafna þeirri forsendu Rawls, að menn eigi ekki sjálfa sig að fullu. Auk þess fæ ég ekki séð, að aðrir hafi á einhvern hátt unnið til hæfileika þeirra, sem fæðast óvenjuhraustir, sterkir eða gáfaðir. Þeir taka ekki frá mannkyni, heldur bæta við.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. febrúar 2019.)


Rawls og Piketty

RawlsTveir kunnustu hugsuðir jafnaðarstefnu okkar daga eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem gaf út Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice) árið 1971, og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, sem gaf út Fjármagn á tuttugustu og fyrstu öld (Capital in the Twenty-First Century) árið 2014. Ég lagði það á mig fyrir skömmu vegna verkefnis, sem ég hafði tekið að mér erlendis, að lesa aftur hin hnausþykku verk þeirra. Bók Rawls er 607 blaðsíður og Pikettys 793. Mér fannst í senn fróðlegt og skemmtilegt að endurnýja kynni mín af þessum verkum og tók eftir mörgu, sem farið hafði fram hjá mér áður. Mig langar í nokkrum fróðleiksmolum að deila ýmsum athugasemdum mínum með lesendum.

Rawls og Piketty gera báðir ráð fyrir frjálsum markaði, en hvorugur sættir sig við þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum viðskiptum, vegna þess að hún verði ójöfn. Rawls setur fram hugvitsamlega kenningu. Hún er um, hvað skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu (til dæmis um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), muni semja um, eigi þeir að setja réttlátu ríki reglur. Rawls leiðir rök að því, að þeir muni semja um tvær frumreglur. Hin fyrri kveði á um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna, en hin seinni á um jöfnuð lífsgæða, þar sem tekjumunur réttlætist af því einu, að tekjur hinna verst settu verði sem mestar. Með öðrum orðum sættir Rawls sig við ójafna tekjudreifingu upp að því marki, að hún verði hinum fátækustu líka í hag.

Fyrri reglan, um jafnt og fullt frelsi allra borgara, tekur til kosningarréttar, málfrelsis, fundafrelsis og trúfrelsis, en ekki til atvinnufrelsis. Rök Rawls fyrir því eru, að nú á dögum sé svo mikið til af efnislegum gæðum, að þau séu mönnum ekki eins mikilvæg og ýmis frelsisréttindi. Þetta má auðvitað gagnrýna, því að hér virðist Rawls vera að lauma eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna, sem samningamennirnir um framtíðina eiga að komast að. Önnur andmæli blasa líka strax við. Kenning Rawls er í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag koma. Hann telur, að mennirnir á stofnþingi stjórnmála muni frekar hugsa um að verja sig gegn versta kosti en vonast eftir hinum besta. Þess vegna muni þeir reyna að tryggja sem best hag hinna verst settu. Þeir viti ekki nema þeir lendi í þeim hópi sjálfir. Þetta er auðvitað ekki óskynsamleg hugsun, en hún snertir lítt réttlæti, eins og það hefur venjulega verið skilið á Vesturlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. febrúar 2019.)


Brjóstmyndin af Brynjólfi

Á dögunum var málverk í Seðlabankanum af nakinni konu tekið niður að ósk viðkvæms starfsmanns. Mynd í Menntaskólanum á Ísafirði af umdeildum fyrrverandi skólameistara var einnig fjarlægð nýlega að beiðni nemanda. Ég ætla ekki að fella hér dóm um réttmæti þessara ákvarðana, heldur aðeins minna á að brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni stendur fyrir framan hátíðarsal Háskóla Íslands.

Brynjólfur var fyrsti og eini formaður Kommúnistaflokks Íslands, sem var stofnaður í nóvember 1930 og hafði byltingu á stefnuskrá sinni, enda var rótin að klofningi kommúnista og jafnaðarmanna á öndverðri tuttugustu öld að kommúnistar voru ekki reiðubúnir að afneita ofbeldi til að ná þeim markmiðum sem hóparnir tveir deildu. Flokkurinn var í Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern, en í stefnuskrá þess frá 1920 var kveðið á um að leynilega skyldu skipulagðir hópar sem hrifsað gætu völd ef tækifæri gæfist. Áttu íslenskir kommúnistar vopnabúr og stofnuðu bardagasveit, Varnarlið verkalýðsins, sem þrammaði ósjaldan um götur Reykjavíkur á fjórða áratug og sveiflaði kylfum. Sló iðulega í harða bardaga milli kommúnista og lögreglu á þessum árum, aðallega í vinnudeilum. Flokkurinn þáði fé á laun frá Moskvu og sendi þangað 23 Íslendinga í byltingarþjálfun og þrjá sjálfboðaliða til að berjast í borgarastríðinu á Spáni.

Brynjólfur og aðrir leiðtogar íslenskra kommúnista skiptu ekki um skoðun þótt þeir legðu flokk sinn niður haustið 1938 og stofnuðu ásamt ýmsum vinstrimönnum Sósíalistaflokkinn. Höfðu kommúnistar tögl og hagldir í hinum nýja flokki, eins og kom í ljós eftir árás Stalíns á Finnland í nóvemberlok 1939. Þá voru þeir ófáanlegir til að fordæma árásina og kallaði Brynjólfur mótmæli við henni „Finnagaldur“. Brynjólfur var fulltrúi Sósíalistaflokksins á þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1952 og lauk ræðu sinni þar á orðunum: „Lifi kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna, ágætur af verkum sínum, þar sem hið undirokaða mannkyn á allt sitt traust. Lifi hinn mikli foringi hans, Stalín.“ Eftir ferð til Kína haustið 1958 dáðist Brynjólfur sérstaklega að því að nú gætu allir satt hungur sitt þar eystra. Þá var að hefjast óskapleg hungursneyð í landinu.

Samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem Háskólaútgáfan gaf út 2009, týndu um hundrað milljónir manns lífi af völdum kommúnismans á tuttugustu öld. Ef einhver rök eru til fyrir því að fjarlægja ekki brjóstmyndina af Brynjólfi þá þætti mér fróðlegt að heyra þau.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2019.)


Ragnar Árnason

RagnarArnason.03.10.2015Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 verður Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sjötugur. Hann er í röð fremstu fræðimanna Háskóla Íslands og ráðgjafi ríkisstjórna um heim allan á sérsviði sínu.

Af mörgu er að taka, en ég staldra einkum við tvö verk Ragnars. Annað er fræg ritgerð í Canadian Journal of Economics árið 1990, Minimum Information Management in Fisheries. Þar leiðir höfundur rök að því, að ýmsar þær aðferðir, sem stungið hafi verið upp á til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum, krefjist meiri þekkingar en völ sé á. Hins vegar sé kerfi framseljanlegra aflakvóta tiltölulega einfalt í framkvæmd.

Hitt verkið er tvær rækilegar skýrslur, sem Ragnar átti aðalþáttinn í að semja fyrir Alþjóðabankann og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2017, kenndar við Sunken Billions. Þar er bent á, að stórkostlegum verðmætum er kastað á sæ, af því að úthafsveiðar eru víðast stundaðar með of miklum tilkostnaði. Er mat Ragnars, að árleg sóun í sjávarútvegi heims sé á bilinu 51 til 105 milljarðar Bandaríkjadala.

Það er ekki síst ráðgjöf Ragnars að þakka, að í íslenskum sjávarútvegi hefur þróun komið í stað sóunar. En afmælisbarnið hefur skrifað um ýmis önnur efni, þar á meðal snjalla greiningu á jöfnunaráhrifum tekjuskatts, jafnvel þótt flatur sé. Ragnar er líka afburðafyrirlesari, skýr og rökvís. Á næstu dögum verður vinum hans og velunnurum boðið að rita nöfn sín á heillaóskalista í afmælisriti með helstu fræðigreinum hans, sem koma á út næsta vor, og þá heldur Félagsvísindasvið Háskóla Íslands einnig alþjóðlega ráðstefnu honum til heiðurs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband