Niður með fjöllin?

JohnRawlsUngur vinstrimaður flutti á dögunum jómfrúræðu á Alþingi. Hafði hann áhyggjur af því að í heiminum væru hinir ríku að verða sífellt ríkari og vitnaði í svokallaða fjalldalareglu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls í túlkun Þorsteins Gylfasonar: „Fjöll mega ekki vera hærri né tignari en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.“ Regla Rawls var með öðrum orðum sú að það þjóðskipulag væri eftirsóknarverðast þar sem hinir verst settu væru sem best settir þegar til langs tíma væri litið.

Þessi ungi maður virðist ekki hafa skilið aðalatriðið í kenningu Rawls. Hann fjölyrti á Alþingi um hversu ofurríkir sumir væru orðnir, svo að taka þyrfti af þeim fé með ofursköttum. En Rawls hafði ekki áhyggjur af hinum ríku, heldur hinum fátæku. Rawls vildi þá og því aðeins jafna kjörin að hinir verst settu yrðu við það sem best settir. Hann spurði: Hvernig vegnaði þeim? Og sannleikurinn er sá að hinum fátæku hefur aldrei vegnað betur. Fátækt er almennt að snarminnka í heiminum. Hinir ríku eru að verða ríkari og hinir fátæku eru að verða ríkari. Dýrkeypt reynsla frá Venesúela sýnir einnig að hinir fátæku verða ekki ríkari við það að hinir ríku verði fátækari.

Þeir, sem hafa aðeins áhyggjur af hinum ríku, eru sekir um eina af höfuðsyndunum sjö, öfund. Það orð er komið af því að af-unna, geta ekki unnt öðrum einhvers. „Það er ekki nóg að mér gangi vel. Öðrum þarf að ganga illa,“ sagði W. Somerset Maugham. Eitt besta dæmið er úr Íslendingasögum. Hrafn Önundarson og Gunnlaugur Ormstunga kepptu um ástir Helgu hinnar fögru. Eftir harðan bardaga hjó Gunnlaugur fótinn af Hrafni, en sá aumur á honum og sótti honum vatn, eftir að Hrafn hafði heitið að gera honum ekki mein. Þegar Gunnlaugur kom með vatnið, lagði Hrafn til hans. „Illa sveikstu mig nú,“ sagði Gunnlaugur. „Satt er það,“ svaraði Hrafn, „en það gekk mér til þess, að ég ann þér ekki faðmlagsins Helgu hinnar fögru.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.)


Faðir velferðarríkisins

bismarckVel færi á því í íslenskri tungu að kalla það, sem Þjóðverjar nefna Wohlfartsstaat og Bretar welfare state, farsældarríki, en nafnið velferðarríki er líklega orðið hér rótfast, þótt af því sé erlendur keimur. Átt er við ríki, þar sem margvíslegur bótaréttur hefur tekið við af hefðbundinni fátækraframfærslu. En hvað sem króginn er kallaður, leikur enginn vafi á um faðernið. Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck er jafnan talinn faðir velferðarríkisins.

Bismarck varð kanslari hins sameinaða þýska keisaraveldis í janúar 1871 og tók þegar til við að treysta ríkisheildina og berja niður þá, sem hann taldi ógna völdum sínum. Fyrst sneri hann sér að kaþólsku kirkjunni, sem laut að hans dómi erlendu valdi, leysti upp Kristmunkaregluna, sleit stjórnmálasambandi við Páfagarð, hóf eftirlit með trúarbragðafræðslu í skólum, skyldaði fólk til að ganga í borgaralegt hjónaband og varpaði jafnvel nokkrum óhlýðnum biskupum í fangelsi. Kirkjan tók snarplega á móti, en eftir margra ára þóf náði járnkanslarinn samkomulagi við hana.

Næst sneri Bismarck sér að sósíalistum, en þýski jafnaðarmannaflokkurinn hafði verið stofnaður 1875, og hlaut hann 9% atkvæða í kosningum til þýska Ríkisdagsins 1877. Notfærði Bismarck sér, að árið 1878 var tvisvar reynt að ráða keisarann af dögum, og takmarkaði með lögum ýmsa starfsemi flokksins. Voru þau lög í gildi næstu tólf ár. En jafnframt reyndi Bismarck að kippa stoðunum undan jafnaðarmönnum með því að taka sjálfur upp ýmis baráttumál þeirra. Árið 1883 voru sjúkratryggingar teknar upp í Þýskalandi og árið 1884 slysatryggingar. Elli- og örorkutryggingar voru teknar upp 1889, ári áður en Bismarck hrökklaðist frá völdum. Fóru mörg önnur ríki næstu áratugi að fordæmi Þjóðverja.

Ekki varð hinum grálynda kanslara að þeirri von sinni, að í velferðarríkinu þryti jafnaðarmenn erindi. Þeir uxu upp í að verða um skeið stærsti flokkur Þýskalands. Og afkvæmi hans, velferðarríkið, óx líka ört á tuttugustu öld. Er það líklega víða orðið ósjálfbært, og rætist þá vísuorðið: Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.


Löstur er ekki glæpur

Einn skemmtilegasti einstaklingshyggjumaður Bandaríkjanna á nítjándu öld var Lysander Spooner. Hann var ákafur baráttumaður gegn þrælahaldi og stofnaði bréfburðarfyrirtæki í samkeppni við bandaríska póstinn, þótt ekki tækist honum að raska einokun hans. Ein bók hefur komið út eftir Spooner á íslensku, Löstur er ekki glæpur. Þar leiðir höfundurinn rök að því, að ekki eigi að banna svonefnd fórnarlambalaus brot, þegar menn skaða aðeins sjálfa sig, ekki aðra. Dæmi um það gæti verið margvísleg ósiðleg og óskynsamleg hegðun eins og ofdrykkja og önnur fíkniefnaneysla, fjárhættuspil, hnefaleikar, vændi og klám. Hins vegar megi og eigi að banna brot, þar sem menn skaða aðra.

Thomas-Aquinas-Black-largeÍ grúski mínu á dögunum rakst ég á óvæntan bandamann Spooners. Hann er enginn annar en heilagur Tómas af Akvínas, dýrlingur og heimspekingur kaþólsku kirkjunnar. Hluti af miklu verki hans, Summa Theologica, hefur komið út á íslensku, Um lög. Þar segir heilagur Tómas (96. spurning, 2. grein): „Lög manna eru sett fjölda manna, sem að meiri hluta eru ekki fullkomlega dygðugir. Og þess vegna banna mannalög ekki alla þá lesti, sem dygðugir menn forðast, heldur einungis alvarlegri lesti, sem meiri hlutanum er fært að forðast, og einkum þá, sem eru öðrum til sársauka og sem eru þannig, að væru þeir ekki bannaðir, væri ekki unnt að viðhalda samfélagi manna; þannig banna mannalög morð, þjófnað og þess háttar.“ (Þýðing Þórðar Kristinssonar.)

Ég fæ ekki betur séð en dýrlingurinn hitti alveg í mark. Ríkið á fullt í fangi með að verja okkur gegn þeim, sem vilja skaða okkur, svo að það bæti ekki við því verkefni, sem því verður ætíð ofviða, að siða okkur til og koma í veg fyrir, að við sköðum okkur sjálf. Í því felst auðvitað ekki, að við leggjum blessun okkar yfir ósiðlega eða óskynsamlega hegðun, heldur hitt, að lítt framkvæmanlegt er að breyta henni til batnaðar með valdboði. Vænlegra er að reyna að gera það með fordæmi og þegar það dugir ekki til með fordæmingu og þó án viðurlaga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. janúar 2019.)


Það bar hæst árið 2018

49103438_10156639500417420_8963841753161400320_n

Heimarnir eru jafnmargir mönnunum, sagði þýska skáldið Heinrich Heine, og þegar ég horfi um öxl í árslok 2018, verður mér auðvitað starsýnt á það, sem gerðist í eigin heimi. Þar bar hæst, að ég skilaði í september skýrslu á ensku um bankahrunið 2008, en hana vann ég í samstarfi við nokkra aðra fræðimenn fyrir Félagsvísindastofnun að beiðni fjármálaráðuneytisins. Að baki henni lá mikil vinna, en ég stytti hana mjög að áeggjan Félagsvísindastofnunar. Skrifaði ég íslenskan útdrátt hennar í fjórum Morgunblaðsgreinum. Ég gaf út fjórar aðrar skýrslur á árinu, eina fyrir samtökin ACRE í Brüssel um alræðisstefnu í Evrópu og þrjár fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: Why Conservatives Should Support the Free Market; The Immorality of Spending Other People's Money; Challenges to Small States. Einnig birti ég ritgerðir á ensku í bókum og tímaritum. Allt er þetta eða verður brátt aðgengilegt á Netinu.

Ég flutti fyrirlestra um ýmis efni í Las Vegas, Brüssel, Kaupmannahöfn, Bakú, Tallinn, São Paulo, Ljubljana, Reykjavík og Kópavogi og ritstýrði þremur bókum, Til varnar vestrænni menningu eftir sex íslenska rithöfunda, Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Guðinn sem brást eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler, Nóbelsverðlaunahafann André Gidé og fleiri og Framtíð smáþjóðanna eftir norska skáldið Arnulf Øverland.

Fyrir Íslendinga var þetta afmælisár: 100 ár voru frá fullveldinu og 10 ár frá bankahruninu, þegar fullveldinu var ógnað, ekki síst með Icesave-samningunum, sem íslenska þjóðin bar gæfu til að fella. Á alþjóðavettvangi ber hæst að mínum dómi, að Bandaríkin ætlast nú til þess af Evrópusambandinu, sem er jafnríkt þeim og jafnfjölmennt, að það axli sambærilegar byrðar til varnar vestrænu lýðræði og Bandaríkin hafa ein gert allt frá stríðslokum 1945. Ekki er fullreynt, hvort Evrópusambandið rís undir því, en hinir austrænu jötnar, Kína og Rússland, hrista mjög spjót þessi misserin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. janúar 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband