1.7.2012 | 15:36
Vísnaþáttur í útvarpi
Veturinn 1954-1955 var vísnaþátturinn Já eða nei á dagskrá í Ríkisútvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Var hann tekinn upp í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (þar sem nú er veitingastaðurinn Nasa) að viðstöddum áheyrendum. Þar leiddu fjórir hagmæltir menn saman hesta sína, þeir Steinn Steinarr, Guðmundur Sigurðsson, Helgi Sæmundsson og Karl Ísfeld. Botnuðu þeir fyrri helminga sem hlustendur sendu inn.
Einn fyrri helmingurinn var á þessa leið:
Margur oft í heimi hér
harma sína rekur,
en Steinn botnaði óðar:
gáir lítt að sjálfum sér
og síðan víxil tekur.
Þættirnir nutu mikilla vinsælda, og komu vísurnar úr honum út á bók með sama nafni, Já eða nei. Þegar þeir voru að renna skeið sitt á enda, tilkynnti Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, að félagið byði þátttakendunum fjórum og stjórnandanum til Kaupmannahafnar til að taka upp einn þátt.
Í Kaupmannahöfn var efnt til vísnakeppni í Íslendingafélaginu 14. maí 1955, þar sem viðstaddir spreyttu sig á að botna fyrri helming, sem Sveinn Ásgeirsson kastaði fram:
Oft er kátt við Eyrarsund,
æskan þangað leitar.
Þótt sjálfur höfuðsnillingurinn Jón Helgason prófessor spreytti sig í keppninni, varð hann að deila fyrstu verðlaunum með ungri stúlku, Vilborgu Dagbjartsdóttir, sem mælti fram seinni helminginn:
Þó mun Ísland alla stund
elskað miklu heitar.
Má af því tilefni rifja upp orð Árna Pálssonar prófessors: Hvergi hefur Ísland verið elskað eins og í Kaupmannahöfn.
(Þessi fróðleiksmoli, sem birtist nýlega í Morgunblaðinu, er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út árið 2012 og er ekki aðeins tilvalin til gjafa, heldur líka til að taka með sér upp í sumarbústaðinn eða í veiðihúsið.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook
1.7.2012 | 09:57
Æpandi þögn
Auðvitað þögðu þeir Andri og Illugi. Og þögn þeirra var ærandi.
Nú verður fróðlegt að sjá, hvað þeir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason, sem skrifað hafa ófáar greinar um samúð sína með lítilmagnanum, segja við ágætri ábendingu leiðarahöfundar Morgunblaðsins:
Milljarði króna, þúsund milljónum, er eytt í einkennilega atlögu að stjórnarskrá landsins. Fjögur hundruð milljónum er kastað í óþarft hringl með ráðuneyti stjórnarráðsins. Milljörðum er sóað í aðildarumsókn að ESB sem ber dauðann í sér. Hundruðum milljóna var kastað í samninganefnd vegna Icesave sem gekk erinda andstæðinga Íslands. En MS-sjúklingar skulu verða fyrir varanlegum skaða í sparnaðarskyni! Er þetta forgangsröðun norrænu velferðarstjórnarinnar eins og hún kallaði sig í upphafi?
Ég spái því, að viðbrögð þeirra Stefáns verði æpandi þögn.
Það er eftir öðru. Skjaldborgin um heimilin reyndist aðeins vera skjaldborg um heimili tveggja manna, Einars Karls Haraldssonar og Más Guðmundssonar. Og norræna velferðarstjórnin gætir ekki hagsmuna hinna vinnandi stétta, heldur aðeins hinna talandi stétta. Hún stefnir ekki að sköpun, heldur skrafi.
10.6.2012 | 17:46
Hægri stefna á okkar dögum
Á nítjándu öld voru hægri flokkar íhaldssamir, sumir jafnvel afturhaldssamir, og studdust við yfirstéttir. Vinstri flokkar voru róttækir og sóttu fylgi til vinnandi stétta. Vinstri flokkurinn danski var dæmigerður. Hann var frjálslyndur bændaflokkur, enda var landbúnaður aðalútflutningsatvinnuvegur Dana og viðskiptafrelsi honum nauðsynlegt.
Tveir höfuðsmiðir íslenska flokkakerfisins höfðu hins vegar aðrar aðferðir til að flokka stjórnmálastefnur. Jónas Jónsson frá Hriflu taldi þrjá flokka eðlilega. Einn berðist fyrir sameign og styddist við verkalýð bæjanna, annar fyrir samvinnu, og mynduðu hann bændur, hinn þriðji fyrir samkeppni, og söfnuðust þar saman efnamenn.
Jón Þorláksson hafnaði hugmyndum um stéttarflokka, enda skyldu allir vinna að almannahag. Skipting í flokka réðist af hugsjónum, stjórnlyndi eða frjálslyndi annars vegar og íhaldssemi eða umrótsgirni hins vegar. Sjálfum fannst honum íhaldssemi tímabær á Íslandi, því að halda þyrfti í fengið frelsi. Þess vegna væri flokkur hans frjálslyndur íhaldsflokkur. Hann hefði orðið til í framhaldi af vinstri flokkum nítjándu aldar. Jón taldi hins vegar sósíalistaflokka stjórnlynda umrótsflokka.
Flokkun Jónasar frá Hriflu var gölluð, því að samvinna er ekki sjálfstæð hugsjón. Allir eru henni hlynntir, þótt sumir kjósi hana sjálfsprottna og aðrir valdboðna. En flokkun Jóns Þorlákssonar var vel hugsuð, þótt ekki hafi margir notað hana. Vandinn við skiptinguna í hægri og vinstri var einmitt, að gömlu hægri og vinstri flokkarnir voru á tuttugustu öld allir orðnir hægri flokkar, því að þeir stóðu andspænis róttækum sósíalistaflokkum. Til dæmis er Vinstri flokkurinn danski í raun hægri flokkur og hverfandi munur á honum og gamla hægri flokknum, Íhaldssama þjóðarflokknum.
Hægri og vinstri eru þó stutt og þægileg orð. Er hægri stefna nú á dögum að kjósa lága skatta og traustar varnir, en vinstri stefna að vilja háa skatta og veikar varnir?
7.6.2012 | 01:23
Ekki aðeins rímsins vegna
Tómas Guðmundsson orti í kvæðinu Nú er veður til að skapa um hnött, sem hlaðinn væri úr mannabeinum og púðri. Þá voru Hitler og Stalín bandamenn eftir griðasáttmála þeirra í ágúst 1939:
Og alveg varð ég hissa
er herrann lét sér detta
í hug að nota þetta
handa foringjanum Hitler
og föður Jósef Stalín.
Nú fá þeir að vera saman,
og rímsins vegna í peysum
frá prjónastofunni Malín.
En prjónastofan Malín var ekki aðeins nefnd til sögunnar rímsins vegna. Malín Ágústa Hjartardóttir, sem uppi var 1890-1988, var kunn dugnaðarkona í Reykjavík. Hún rak prjónastofu, sem hét eftir henni, á Laugavegi 20. Þar í bakhúsi héldu íslenskir nasistar, fylgismenn Hitlers, fundi sína snemma á fjórða áratug.
Malín kvað raunar á móti Tómasi:
Rímsins vegna rændir þú,
rótlaus maður,
peysum tveimur pakka úr
og puntaðir þá Hitler og Stalín,
en vita máttu þær voru ekki úr
vinnustofunni Malín.
Malín vildi ekki frekar en flestir aðrir Íslendingar koma nálægt þeim kumpánum Hitler og Stalín og hefur ekki ráðið því, hvað fram fór í bakhúsinu.
(Eftirskrift: Pálmi Haraldsson í Fons hafði samband við mig og kvaðst ekki greiða Ólafi Arnarsyni laun fyrir blogg, og er mér ljúft og skylt að koma þessari athugasemd Pálma til skila.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook
4.6.2012 | 15:10
Seinheppnir söngvarar
Sú var tíð, að hér starfaði kommúnistaflokkur, árin 1930-1938. Gaf hann út bókina Vakna þú Ísland. Söngvar alþýðu árið 1936. Þar var prentuð vísa, sem eignuð var óþekktum höfundi.
Rekist þú á ríkan mann,
reyndu, ef þú getur,
að bregða fæti fyrir hann,
svo fólkinu líði betur.
En þessi vísa var úr kvæði eftir eftir Pál J. Árdal, skáld og kennara á Akureyri. Það hét Bolsévíkamórall, var kveðið 1925 og og beindist gegn kommúnistum. Seinna erindið hljóðaði svo:
Út í flónsku flæðisker
framan úr sveit og dölum
bágrækur mun bændaher
bolsvíkinga smölum.
Páll gerði hins vegar ekki aðra fleyga vísu gegn kommúnistum, sem honum var oft eignuð:
Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.
Hana orti Sigmundur Sigurðsson, úrsmiður á Akureyri, eftir að Einar Olgeirsson fluttist til Akureyrar vorið 1924 og blés nýju lífi í félag jafnaðarmanna þar.
Steinn Sigurðsson, kennari í Vestmannaeyjum og síðar bókhaldari í Hafnarfirði, orti gegn sömu stjórnmálastefnu:
Nú eiga allir að eiga jafnt,
allir ríkis þjónar,
allir sama eta skammt,
allir vera dónar.
Líklega hafa íslenskir kommúnistar ekki sungið þessar vísur.
(Þessi fróðleikur er tíndur til víða úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem fæst í öllum góðum bókabúðum og er tilvalin til gjafa.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.6.2012 kl. 01:34 | Slóð | Facebook
1.6.2012 | 12:33
Gusugangur í Ólafi Arnarsyni
Arreboe Clausen var lengi einkabílstjóri forsætisráðherra. Hann var grandvar maður, trúr yfirmönnum sínum, en ræðinn og skemmtilegur. Eins og nærri má geta, heyrði hann margt í starfi sínu.
Einhvern tímann sat Arreboe að skrafi við annan mann, og bar á góma ýmis mál, sem þá voru ofarlega á baugi. Viðmælandi hans sagði, þegar Arreboe varðist frétta af þeim: Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka? Arreboe svaraði: Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.
Ólíku er saman að jafna, Arreboe Clausen og Ólafi Arnarsyni. Annar var trúr í starfi, hinn er þægur þjónn huldumanns, sem allir vita þó, hver er. Ólafur lekur ekki aðeins, heldur skvettist úr honum í allar þær áttir, sem vinnuveitandi hans miðar í.
Það er aldrei skemmtilegt að verða á vegi slíkra manna, þótt mér hafi sem betur fer tekist að víkja mér undan gusunum.
31.5.2012 | 14:57
Ætlar Ólafur Arnarson að safna skeggi?
Ég benti á það hér á dögunum, að Ólafur Arnarson hefur skipað sér í lið með Karli Marx og Friðrik Engels. Hann vill gera rentuna af fiskistofnunum upptæka með auðlindaskatti. Marx og Engels skrifuðu í Kommúnistaávarpinu, að ein fyrsta ráðstöfun kommúnista eftir valdatöku þeirra yrði að leggja á skatta til að gera alla rentu upptæka.
Ólafur Arnarson bregst ókvæða við. En annað er líkt með honum og Karli Marx. Hinn síðskeggjaði þýski heimspekingur var sem kunnugt er á framfæri Friðriks Engels á ofanverðri ævinni. Af einhverjum ástæðum hafa marxistar, sem þó eru manna fljótastir til að fullyrða, að hagsmunir ráði hugsjónum, ekki gefið þessu gaum. Þeir hafa ekki rannsakað, að hve miklu leyti skoðanir Marx réðust af skoðunum mannsins, sem hafði hann á framfæri sínu. Íslendingar sögðu að fornu: Sá á hund, sem elur.
Líkt er komið fyrir Ólafi Arnarsyni og Karli Marx. Hann er á framfæri huldumanns, eins og oft hefur komið fram í DV. Sá heitir ekki Friðrik Engels, en ég get mér til um það, að hann heiti Pálmi í Fons. Tel ég auðsætt, að skoðanir Ólafs Arnarsonar ráðist að miklu leyti af skoðunum Pálma í Fons. Hann sé Ólafi eins konar Friðrik Engels.
Ólafur Arnarson velti því fyrir sér, hvort ég væri þöggunarkefli eða gjallarhorn. Það er rétt hjá honum, að ég hef stungið upp í marga. En enginn vafi leikur á því, hvað Ólafur er: Ekki rödd, heldur bergmál, bergmál Pálma í Fons.
Nú er spurningin, hvort Ólafur Arnarson safnar síðu skeggi.
30.5.2012 | 13:14
Laxness og Shakespeare
Tómas Guðmundsson orti, að hjörtum mannanna svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. En líklega samdi William Shakespeare ein frægustu orðin um sameðli mannanna, þegar hann lét kaupmanninn í Feneyjum segja: Hefur Gyðingur ekki augu? hefur Gyðingur ekki hendur, líffæri, sköpulag, skilningarvit, hvatir, ástríður, alinn á sömu fæðu, særður sömu vopnum, haldinn sömu sjúkdómum, græddur sömu lyfjum, vermdur og kalinn af sama vetri og sumri og kristinn maður? Blæðir okkur ekki af stungum? hlæjum við ekki af kitlum? deyjum við ekki af eitri? og hefnum við ekki ranglætis? Ef okkur svipar saman um annað, þá líkjumst við ykkur þar.
Sænska skáldið August Strindberg notaði svipuð ummæli í leikritinu Föðurnum: Já, ég græt þótt ég sé karlmaður. En hefur karlmaður ekki augu? Hefur hann ekki hendur, fætur, skilningarvit, smekk, ástríður? Nærist hann ekki sömu fæðu, særa hann ekki sömu vopn, hitnar honum ekki og kólnar í sama sumaryl og vetrarkulda og konu? Blæðir okkur ekki ef þið stingið okkur? Stöndum við ekki á öndinni ef þið kitlið okkur? Deyjum við ekki ef þið byrlið okkur eitur? Hvers vegna skyldi karlmaður ekki mega kvarta, hermaður ekki mega gráta? Af því að það er ókarlmannlegt! Hvers vegna er það ókarlmannlegt?
Bergmálið frá Shakespeare er sterkt í leikriti Strindbergs, en daufur endurómur af því í leikriti norska skáldsins Henriks Ibsens, Brúðuheimilinu, þegar Nora mælir: Ég trúi því ég sé fyrst og fremst manneskja, maður, ég alveg jafnt og þú eða að minnsta kosti, að ég eigi að reyna að verða það. Ég veit vel, að flestum finnst þú hafa rétt fyrir þér, Þorvaldur, og áreiðanlega stendur eitthvað svoleiðis í bókum. En ég get ekki lengur látið mér nægja það sem flestir segja eða það sem stendur í bókum. Ég verð sjálf að hugsa málin og komast til skilnings um þau.
Og nú hljóta aðdáendur Halldórs Kiljans Laxness á Íslandi að sjá, hvaðan ræða Uglu í Atómstöðinni er ættuð: Ég vil verða maður. Maður, hvernig? Hvorki kauplaus ambátt einsog konur þeirra fátæku né keypt maddama einsog konur þeirra ríku; þaðanaf síður launuð hjákona; og ekki heldur fángi barns sem mannfélagið hefur svarið fyrir. Maður með mönnum: ég veit það er hlægilegt, fyrirlitlegt, svívirðilegt og byltíngarsinnað, að kvenmaður skuli ekki vilja vera einhver tegund ambáttar eða skækju. En ég er nú svona gerð.
Það er skemmtileg tilviljun, að Laxness fæddist á dánardegi Shakespeares, 23. apríl.
27.5.2012 | 21:20
Er Ólafur Arnarson marxisti?
Ólafur Arnarson ræðst harkalega á útgerðarmenn í síðasta pistli sínum á Pressunni. Sakar hann þá um marxisma vegna einfaldrar ábendingar þeirra um það, að verðmæti skapast í útgerð og að hún starfar í samkeppni við erlend fyrirtæki um markaði. Mættu sumir hafa það í huga.
Ólafur hefur ekki lesið fræði sín mjög vel. Það eru þeir, sem nú vilja leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn, sem fylgja Marx. Í Kommúnistaávarpinu 1848 segir, að fyrstu aðgerðir kommúnista eftir valdatökuna verði að leggja á stighækkandi tekjuskatta og gera upptæka alla rentu af auðlindum.
Hugmyndin að baki auðlindaskatti á sjávarútveg er einmitt að gera rentuna af fiskistofnunum upptæka, svo að stjórnmálamenn geti notað hana í atkvæðakaup sín, en þau felast um þessar mundir að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur aðallega í því að bora göt í gegnum fjöll annars vegar og styrkja bjargarlítið fólk hins vegar til að vera áfram bjargarlítið, en þá hefur það síður tilhneigingu til að brjótast út úr fátækt og getur haldið áfram að vera verkefni fyrir stjórnmálamenn eins og hana, sem þrá að gera góðverk á annarra kostnað.
Það er síðan fróðleg saga af því, sem ég hef sagt í sumum bókum mínum, hvernig Marx varð kommúnisti. Það var á ritstjóraferli hans, þegar hann mótmælti tilraunum skógareiganda í Rínarlöndum til að girða af eignarlönd sín, svo að aðrir gætu ekki nýtt þar við.
25.5.2012 | 13:25
Davíð Oddsson og Evrópusambandið
Snjöllustu blaðagreinar, sem birtast í íslenskum blöðum um þessar mundir, eru ritstjórnargreinar Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu. Hann fer á kostum í leiðurum, Staksteinum og Reykjavíkurbréfum, beitir á víxl nístandi háði, leiftrandi gamansemi og sterkum rökum, nýtir þekkingu sína og þjálfun úr áratuga umræðum og baráttu. Í Reykjavíkurbréfi hans 19. maí 2012 segir:
Evran var ekki efnahagslegt fyrirbæri, þótt ekki hafi vantað að hagfræðingar hafi sumir látið sig hafa að fullyrða það. Stofnað var til hennar af hreinum pólitískum ástæðum. Hún átti að þrýsta þjóðunum í átt til eins ríkis og þegar sú gjörð var fullkomnuð átti Evrópa að koma til leiks sem stórríki, sem gæti skákað Bandaríkjunum á heimsvísu. Þetta var tilgangurinn sem helgaði meðulin, sem er nú komið í ljós að höfðu illvígar aukaverkanir. Það mátti bara ekki segja upphátt að þetta væri hið raunverulega markmið. Hvers vegna ekki? Vegna þess að almenningur í álfunni var ekki haldinn þessari glýju. Hann gekk ekki með neina stórveldisdrauma eins og búrókratar í Brussel og litlu leiðtogarnir sem hanga í spottunum þeirra. Þeirra draumur var ekki að stofna til stórríkis 500 milljóna manna þar sem Þýskaland hefði tögl og hagldir. Þjóðirnar voru brenndar í tveimur heimsstyrjöldum og forðuðust eldinn eins og fermt barn prestinn.
Sjálfur hef ég haft tvíræða afstöðu til Evrópusambandsins. Mér finnst það æskilegt, ef það verður opinn markaður, þar sem menn geta skipst á vöru og þjónustu yfir landamæri í frjálsri samkeppni. Mér finnst sambandið hins vegar óæskilegt, ef það verður lokað ríki, girt tollmúrum, virkið Evrópa. Það er mér fagnaðarefni, ef Þjóðverjar og Frakkar hafa slíðrað sverðin eftir margra áratuga stríð og mannfórnir. Það er mér áhyggjuefni, ef Þjóðverjar og Frakkar ætla sér að drottna yfir smáþjóðunum í Evrópu.
Hvort mun Evrópusambandið breytast í ríkjasamband, þar sem samstarfið takmarkast við það, sem er öllum í hag, eða sambandsríki, sem hyggst veita Bandaríkjunum og Kínaveldi samkeppni um það, hvert sé aðsópsmesta stórveldið?
Draumar hafa þrjá eiginleika. Þeir geta ræst. Við getum vaknað af þeim. Þeir geta breyst í martraðir. Vonandi rætist draumurinn um opinn Evrópumarkað. Við verðum hins vegar að vakna af draumnum um, að við skiptum einhverju máli í Evrópusambandinu, og hyggja heldur að eigin málum. Og vonandi breytist draumurinn um Evrópustórveldið ekki í martröð.