Hvað merkir J-ið í nafni Steingríms J. Sigfússonar?

Öðru hverju er eins og fólkið, sem skrifar reglulega á Netið, missi stjórn á sér og hlaupi eftir einhverjum órum. Þetta gerðist fimmtudaginn 12. júlí. Þá hafði í Staksteinum Morgunblaðsins verið sagt, að menn vissu, hvað J-ið í nafni Steingríms J. Sigfússonar merkti. Eiður Guðnason kastaði því óðar fram á bloggi sínu á DV, að Staksteinahöfundur ætti við Júdas. Egill Helgason greip þetta á lofti og var hinn reiðasti, einnig Baldur Þórhallsson, samkennari minn, og margir fleiri. Náðu þeir vart andanum fyrir hneykslun á því, hvernig Davíð Oddsson skrifaði um Steingrím.

En Eiður Guðnason getur ekki lagt Davíð Oddssyni orð í munn. Ég las þessa Staksteina og gat mér fyrst til um, að höfundur hefði í huga Jójó, því að Steingrímur J. Sigfússon hefur sveiflast fram og aftur í ýmsum málum, til dæmis Icesave-málinu og ESB-málinu. En ég held, að gamanið hafi jafnvel verið meinlausara. Steingrímur heitir Steingrímur Jóhann, og frá því er ekki langt í Steingrím Jóhönnu, því að hann hefur verið henni mjög fylgispakur, eins og dæmin sanna.

En hvar voru allir þessir vandlætarar, þegar Steingrímur J. lagði hendur á Geir H. Haarde á þingi? Eða þegar hann kallaði Davíð Oddsson „druslu og gungu“ úr ræðustól þingsins, af því að Davíð nennti ekki að hlusta í tuttugasta skipti á sömu ræðuna standa upp úr Steingrími?


Takið frá föstudaginn 27. júlí

Ég ætla að leyfa mér að vekja strax athygli á því, að breski rithöfundurinn Matt Ridley mun flytja fyrirlestur á Íslandi föstudaginn 27. júlí næstkomandi kl. 17.30 í Öskju, stofu N-132. Ég þekki marga, sem lesið hafa hinar frábæru bækur Ridleys, en hin nýjasta er The Rational Optimist, Bjartsýni af skynsemisástæðum. Lesa má nánar um fyrirlesturinn hér.

Ættir á Íslandi

Jón Baldvin Hannibalsson hélt því eitt sinn fram, að „fjölskyldurnar fjórtán“ ættu Ísland. Hann skýrði ekki nánar, hverjar þær væru, enda tók hann orðið traustataki frá El Salvador, þar sem iðulega var talað um „Las catorce familias“.

Greining Jóns Baldvins er ekki eins einföld og danska þjónsins á einni Kaupmannahafnarkránni á nítjándu öld. Hann skipti íslenskum stúdentum í tvo hópa, Briemere og Bløndalere, og sagði hin fleygu orð: „Briemerne, de er gode betalere, men dårlige sangere. — Bløndalerne, de er gode sangere, men dårlige betalere.“

Sjálfur var Jón Baldvin raunar af einni af valdaættum Íslands á tuttugustu öld. Faðir hans, Hannibal Valdimarsson, var formaður þriggja stjórnmálaflokka, forseti Alþýðusambands Íslands og ráðherra. Föðurbróðir Jóns Baldvins var bankastjóri og þingmaður. Bróðir Jóns Baldvins er faðir forsetaframbjóðandans Þóru Arnórsdóttur.

Líklega var ein ættin, sem Jón Baldvin hefði getað nefnt, Thorsararnir, afkomendur stórútgerðarmannsins Thors Jensens. Meinlegt var svar Steins Steinarrs, þegar hann var spurður, hvað honum fyndist um skáldskap Thors Vilhjálmssonar, dóttursonar Thors Jensens: „Það veit ég ekki, en það er gaman, að Thors-ættin skuli vera farin að yrkja.“

Ekki var það síður meinlegt, sem ónefndur maður sagði í samkvæmi í Reykjavík, þegar maður af Gautlandaætt raupaði af ætterni sínu, en tveir menn af þeirri ætt voru ráðherrar á öndverðri tuttugustu öld: „Gautlandaættin er eins og kartöflugras. Hið besta af henni er neðanjarðar.“ Er þessi fyndni líklega komin frá enska skáldinu Sir Thomas Overby, sem skrifaði í Characters (Manngerðum) árið 1614: „Maður, sem getur ekki hrósað sér af öðru en merkum forfeðrum, er eins og kartöflugras, — hið besta úr honum er neðanjarðar.“

(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 1. júlí 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)

Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður

Jón Sigurðsson fæddist sem kunnugt er á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, fyrir 201 ári. Það er engin tilviljun, að hann gerðist leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, því að í fari hans var sjaldgæft jafnvægi kappsemi og hófsemi, — vöku, sem unir hlutskipti sínu, og draums, sem vill rætast.

Allir vita, að Jón vildi sækja rétt í hendur Dana. En rétt til hvers? Hver var stjórnmálaskoðun Jóns?

Því er fljótsvarað. Hann var frjálshyggjumaður. Hann dáðist að því, hvernig Bretar takmörkuðu ríkisvaldið með því að dreifa því og skorða það við siði og venjur. Hann hafi lesið með skilningi og alúð rit Jean-Baptiste Says, sem var einn kunnasti lærisveinn Adams Smiths á meginlandi Norðurálfunnar.

Jón skrifaði 1841: „Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu (þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram.“ Enn sagði hann: „Að líkum hætti má atvinnufrelsi og verslunarfrelsi ekki missa, þar sem nokkuð fjör og dugnaður á að komast á fót, og má í því skyni ekki hafa stundarskaða nokkurra manna fyrir augum, heldur gagn alþýðu bæði í bráð og lengd.“

Jón skrifaði bróður sínum 1866: „Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn.“

Skýrar verður skoðun Jóns varla lýst. Hún er þveröfug við þá, sem núverandi valdhafar á Íslandi hafa, en í þeirra sögu renna öll vötn til Dýrafjarðar.


Jarðarfarir

Þótt jarðarfarir séu jafnan með alvörublæ, hafa þær orðið tilefni gamanyrða.

Árið 1935 lést Jón Þorláksson verkfræðingur, borgarstjóri og forsætisráðherra, skyndilega, aðeins 58 ára að aldri, og var útför hans gerð með viðhöfn. Þegar kona ein hafði orð á því við Tómas Guðmundsson, hversu vel útförin hefði farið fram, svaraði skáldið alúðlega: „Já, ég hef heyrt mjög dáðst að þessari jarðarför, enda hef ég sannfrétt, að það eigi að endurtaka hana.“

Einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í tíð Jóns Þorlákssonar var Hjalti Jónsson konsúll, kunnur afreksmaður, sem brotist hafði úr fátækt til bjargálna. Hann hafði greitt Lúðrasveit Reykjavíkur fyrir að leika við útför sína. Þegar sveitin kom aftur til hans með fjárbeiðni, greiddi hann henni enn fyrir leikinn með þessum orðum: „Ekki veitir Reykvíkingum af að skemmta sér einu sinni almennilega.“ Hjalti lést 1949.

Frægasta útför á síðustu öld var þó líklega, þegar jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, voru grafnar á Þingvöllum haustið 1946 að viðstöddum helstu ráðamönnum þjóðarinnar. Í skáldsögunni Atómstöðinni 1948 notaði Halldór Kiljan Laxness útförina sem táknræna sögu um að sjálfstæði landsins hefði verið grafið með svokölluðum Keflavíkursamningi, sem gerður var um svipað leyti. Grunur lék á um, að beinin væru ekki af Jónasi, heldur dönskum bakara, og þegar séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur, sem var maður gamansamur, jarðsöng Jónas, hvíslaði hann að syni sínum: „Ætli það sé nú ekki vissara, að ég segi hér nokkur orð á dönsku.“

Annar kunnur prestur, Árni Þórarinsson á Stóra-Hrauni, á að hafa svarað, þegar hann var spurður, hvort hann ætlaði að fylgja Jóni Helgasyni biskup til grafar: „Já, þó að fyrr hefði verið!“ Árni þrætti þó fyrir þetta tilsvar í stórmerkri ævisögu sinni, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði.

Minnir þetta á ummæli bandaríska kvikmyndaframleiðandans Sams Goldwyns um einn starfsbróður sinn, Louis B. Mayer: „Ástæðan til þess, að svo margir fylgdu honum til grafar, var, að þeir vildu vera alveg vissir um, að hann væri dáinn.“

(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 10. júní 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)


Þegar ég fékk verðlaun

Ég fékk frelsisverðlaun þau, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson, laugardagskvöldið 30. júní 2012. Það var mér ánægja og sómi að taka á móti þessum verðlaunum, sem Samband ungra sjálfstæðismanna veitir. Á hverju ári hljóta einn einstaklingur og einn lögaðili verðlaunin, og nú var lögaðilinn vefsíðan amx.is, sem mælir daglega og skörulega fyrir frelsi einstaklinganna. Fer vel á því, að verðlaunin séu kennd við Kjartan Gunnarsson lögfræðing, en hann er einlægur áhugamaður um aukið frelsi einstaklings og þjóðar.

Ég flutti ræðu við afhendinguna, þar sem ég rifjaði upp kynni mín af þeim Friedrich von Hayek, Milton Friedman og Karli Popper, en allir voru þeir merkir hugsuðir og mjög áhrifamiklir í viðkynningu. Sérstaklega hafði heimsókn Friedmans til Íslands mikil áhrif, en orðið „leiftursnjall“ lýsir honum jafnvel og orðið „djúpsær“ Hayek.

Ég sagði, að Popper hefði brýnt fyrir mér, að frjálshyggjan yrði aldrei fullsköpuð. Við vissum miklu betur, hvað væri böl en blessun, og frjálshyggjan væri sífelld barátta gegn því böli, sem mennirnir geta að einhverju leyti bætt, eins og kúgun og fátækt. Ég kvað mesta bölið á Ísland um þessar mundir vera vinstri stjórnin, sem svíkur alla samninga, nær hvergi árangri, en leggur þungar klyfjar á borgarana.

Í móttöku eftir afhendinguna ræddi ég talsvert við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem mér finnst mjög vera að vaxa í sínu erfiða hlutverki. Þetta var að kvöldi kjördags, og töldu flestir líklegt, að Ólafur Ragnar Grímsson yrði endurkjörinn, hvað sem um það mætti segja að öðru leyti. Ég sagði, að mér fyndist Ólafur Ragnar njóta sín best í því að tala máli Íslands á erlendum vettvangi. Ég hefði engar áhyggjur af því, að hann myndi brjóta stjórnarskrána, eins og sumir harðir andstæðingar hans héldu fram.

Eftir það fór ég á Fiskfélagið með Friðbirni Orra Ketilssyni, forstöðumanni amx.is, og konu hans, Þórunni Gunnlaugsdóttur, sem er dóttir ein besta vinar míns. Gæddum við okkur þar á ljúffengum fiski, en hætt er við, að slíkir réttir verði ekki lengi á boðstólum, ef við göngum í Evrópusambandið. Þar eru 88% fiskistofna ofveiddir og 30% þeirra nálægt hruni samkvæmt skýrslu sambandsins sjálfs frá 2009.

Fyrstu tölur í forsetakjöri voru ókomnar, þegar við settumst, og spáði ég því þá, að Ólafur Ragnar fengi 55% atkvæða. Ég fór ekki langt frá niðurstöðunni, því að Ólafur Ragnar fékk 53%.


Hverjum á að refsa fyrir ofveiði?

Maria Damanaki, fiskveiðistjóri Evrópusambandsins, segir, að refsa eigi Íslendingum fyrir ofveiði. Hún á þá við makrílstofninn, sem kom inn í fiskveiðilögsöguna óvænt og óumbeðinn, en er auðvitað kærkominn gestur og vonandi fastagestur.

En á þá ekki að refsa ESB fyrir ofveiði? Samkvæmt grænni bók um fiskveiðistefnu ESB, sem það gaf sjálft út 2009, eru 88% fiskistofna ESB ofveiddir (sókn í þá umfram það, sem nemur sjálfbærum hámarksafla, maximum sustainable yield) og 30% fiskistofna þess veiddir nálægt hættumörkum, þegar stofn getur hrunið vegna ofveiði.

Tröllið ætlar að refsa dvergnum, sem hefur þó fylgt skynsamlegri fiskveiðistefnu og telur sjálfsagt að veiða þá stofna, sem leita beinlínis á Íslandsmið og ekki eru undirorpnir einhverjum sögulegum rétti annarra. En hver hyggst refsa tröllinu?


Ég ætla að svara þeim

Nýlega kom út sumarhefti Tímarits Máls og menningar. Þar er grein eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing um bók mína, Íslenska kommúnista 1918–1998. Ég er þakklátur Árna fyrir að hafa gefið sér tíma til að lesa bókina og gera við hana athugasemdir, en því miður eru þær flestar hæpnar og sumar fráleitar. Ritstjóri tímaritsins hefur góðfúslega orðið við ósk minni um að fá að svara Árna í næsta hefti.

Einnig er nýtt hefti af Herðubreið komið út. Þar hellir Pétur Tyrfingsson sálfræðingur úr skálum reiði sinnar yfir mig og Snorra G. Bergsson sagnfræðing, sem er manna fróðastur um íslenska kommúnistahreyfingu og gaf nýlega út rit um upphafsár hennar. Mér finnst Pétur fara offari í grein sinni, en þó er rétt að bregðast við henni, og hefur ritstjóri Herðubreiðar einnig góðfúslega orðið við ósk minni um að fá að svara Pétri í næsta hefti.

„Alltaf að svara þeim,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eitt sinn við Matthías Johannessen ritstjóra.


Jóhanna hefur alltaf tapað í forsetakjöri

Álitsgjafar þeir, sem kallaðir eru til í fjölmiðlum, segja sjaldnast annað en almælt tíðindi. Þeir tyggja hver eftir öðrum það, sem komist hefur á dagskrá hverju sinni. Til dæmis fannst þeim merkilegra, að rösklega 60% sjálfstæðismanna kusu Ólaf Ragnar Grímsson en að um 80% Samfylkingarfólks kusu Þóru Arnórsdóttur.

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins bendir 2. júlí 2012 á aðra staðreynd, sem fór fram hjá álitsgjöfunum, af því að þeir rannsaka aldrei neitt, heldur tyggja hver eftir öðrum. Hún er, að Jóhanna Sigurðardóttir hefur alltaf tapað í forsetakjöri. Hún studdi Gunnar Thoroddsen gegn Kristjáni Eldjárn 1968, Albert Guðmundsson gegn Vigdísi Finnbogadóttur 1980, Guðrúnu Agnarsdóttur gegn Ólafi Ragnari Grímssyni 1996 og Þóru Arnórsdóttur gegn Ólafi Ragnari Grímssyni 2012.

Ólafur Ragnar Grímsson segir þetta sitt síðasta kjörtímabil. Fróðlegt verður að vita, hvern Jóhanna Sigurðardóttir styður í væntanlegu forsetakjöri 2016.


Ósigur stjórnarinnar

Forsetakjörið snerist að nokkru leyti upp í uppgjör stjórnar og stjórnarandstöðu, þar sem stjórnarsinnar studdu Þóru Arnórsdóttur og stjórnarandstæðingar Ólaf Ragnar Grímsson. Vitað er, að þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon unnu á bak við tjöldin að því, að Þóra færi fram, og þau studdu hana með ráðum og dáð. Sjálfur hef ég gott eitt um Þóru að segja. Hún hefur til dæmis jafnan verið óhlutdræg í starfi, þótt vinnustaður hennar, Ríkisútvarpið, dragi mjög taum stjórnarinnar.

Ekki er vandséð, hvers vegna sjálfstæðismenn og framsóknarmenn kusu margir Ólaf Ragnar Grímsson. Hann kom í veg fyrir, að stjórnarflokkunum tækist það ætlunarverk sitt að hengja þungan myllustein um háls Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem var Icesave-krafa Breta og Hollendinga (Icesave-skuldin á máli Ríkisútvarpsins). Hún átti að vera hinn sögulegi reikningur fyrir sölu bankanna, sem vinstri flokkarnir tveir hugðust veifa framan í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk næstu áratugi. Þess vegna sömdu fulltrúar vinstri flokkanna svo hrapallega af sér í Icesave-málinu. Þeir tóku flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.

Jafnframt mátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn það við Ólaf Ragnar, hversu skörulega hann kemur jafnan fram fyrir hönd Íslands erlendis. Það er eins og hann vilji gæta hagsmuna þjóðarinnar af miklu meiri alvöru en þau Jóhanna og Steingrímur, sem kikna í hnjáliðum, þegar þau heyra erlenda tungu talaða, og vilja eta úr lófa Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kjósendur Ólafs Ragnars þekkja gallana í fari hans og vona, að miklir kostir verði þeim yfirsterkari.

Sigur Ólafs Ragnars er ósigur stjórnarinnar og sigur stjórnarandstöðunnar, þótt hún hafi auðvitað ekki sent hann fram eða staðið að framboði hans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband