Ridley kominn á Youtube

Hinn 31. júlí 2012 átti Milton Friedman hundrað ára afmæli. Stephen Moore minntist þess í Wall Street Journal, og má lesa grein hans hér.

Síðan er fyrirlestur Matts Ridleys hér á Íslandi 27. júlí kominn á Youtube, og má skoða hann hér.


Jón á enn erindi við okkur

Einhverjir samkennarar mínir í Háskóla Íslands hafa orðið til að andmæla þeirri skoðun minni, að Jón Sigurðsson forseti hafi verið frjálshyggjumaður. Á því er þó enginn vafi. Jón hafði lesið með skilningi og samúð rit Jean-Baptiste Says, sem var helsti lærisveinn Adams Smiths á meginlandinu, og Johns Stuarts Mills. Ég hef þegar á þessum vettvangi vitnað í ýmis ummæli Jóns, sem sýna þetta.

Enmargt fleira úr ritum Jóns Sigurðssonar á erindi við okkur. Hann segir til dæmis 1842: „Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.“ Íslendingar verða einmitt að gæta sín á því að lokast ekki inni í Evrópusambandinu, heldur stunda viðskipti við aðra aðila líka, til dæmis Noreg, Kanada, Bandaríkin, Brasilíu, Rússland, Indland og Kína.

Jón segir 1860: „Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla.“ Skýrar verður úrlausnarefni stjórnmálanna varla lýst. Stefna þarf jafnt að sem mestu frelsi sem flestra og að gagnkvæmri aðlögun einstaklinganna, svo að árekstrum fækki og frelsi eins verði ekki ófrelsi annars.

Fróðleg er líka sagan af því, þegar Jón vandaði um við skólapilta í Lærða skólanum 1875. Þeir höfðu fært honum kvæði Gests Pálssonar, þar sem sagði:

Þú kappinn dýr,
er aldrei þekktir bönd.

 

Jón vísaði því á bug, að hann hefði aldrei þekkt bönd; „bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn,“ eins og segir í einkabréfi um fund hans og skólapilta.

Jón á hér aðallega við sjálfstjórn og sjálfsaga, þá menningu, sem kemur að innan, en án þess verður frelsið orðið tómt. Jón var eins og nafni hans Þorláksson síðar í senn frjálslyndur og íhaldssamur.


Stefán Ólafsson staðfestir trúnaðarbrot sitt

Ég rifjaði upp á dögunum, að Stefán Ólafsson braut trúnað vorið 1996, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þá sagði hann þáverandi ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðum í skoðanakönnun, sem við Hreinn Loftsson höfðum látið Félagsvísindastofnun gera um hug almennings í komandi forsetakjöri.

Stefán svaraði skætingi. Þá spurði lesandi síðu hans, Hafsteinn B. Árnason: „Var það ósatt með að þú hafir brotið trúnað með því að upplýsa ritstjóra Morgunblaðsins um fylgiskönnun Davíðs Oddsonar?“

Stefán svaraði:

Já það er ósatt. Þegar ég hitti ritstjórana á Morgunblaðinu vorið 1996, út af öðru máli, þá vissu þeir af því að við höfðum nýlega gert könnun á stuðningi við hugsanlega forsetaframbjóðendur (enda var ekki hægt að leyna því; hringt var í 1000 manns og spurt sérstaklega hvort fólk myndi styðja Davíð Oddsson ef hann færi í forsetaframboð) og að fylgi Davíðs var lítið. Þeir voru undrandi á þessu og reyndar með böggum hildar yfir því að Ólafur Ragnar virtist vera á góðri leið með að verða forseti. Þeir höfðu áhuga á að ræða þetta og greina nánar hvað byggi að baki og ég tók þátt í því, enda voru þeir úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið. Það var síðan Matthías Jóhannessen sem rauf trúnað um þetta með birtingu dagbóka sinna á netinu, að mig minnir 12 árum síðar, og þar tilgreindi hann hvert fylgi Davíðs hafði verið. Það var í fyrsta sinn sem það var opinberað.

Þegar svar Stefáns er lesið vandlega, sést, að hann staðfestir frásögn mína. Hann rauf trúnað við þá, sem létu gera könnunina, með því að segja ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunum. Stefán rauf jafnmikinn trúnað, hvort sem ritstjórarnir voru „úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið“ eða ekki. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Það er hins vegar óvenjufrumlegt, þegar maðurinn, sem rauf trúnað, Stefán Ólafsson, sakar manninn, sem hann sagði í heimildarleysi frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar, Matthías Johannessen, um að hafa rofið trúnað, af því að Matthías skráði þetta hjá sér í dagbækur sínar og birti mörgum árum síðar!

Hvers vegna eru nútímamenn greindari en forfeður þeirra?

Dýrafræðingurinn og vísindahöfundurinn dr. Matt Ridley flutti afar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur föstudaginn 27. júlí, í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefur verið settur á Netið, á heimasíðu Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, þar sem menn geta skoðað hann. Mörg viðtöl Ridleys og erindi eru þegar til á Netinu, til dæmis viðtal Reason Foundation hér og erindi í Zürich hér og erindi fyrir Google hér.

Ridley telur ýmsar góðar ástæður til bjartsýni um framtíð mannkyns. Hann benti til dæmis á það, að menn væru samkvæmt greindarmælingum að verða greindari, að minnsta kosti með efnuðum Vesturlandaþjóðum. Þetta er í fljótu bragði einkennilegt, því að vandaðar greindarmælingar eiga að vera þannig úr garði gerðar, að þær séu óháðar tíma og rúmi. Ef tveir menn eru jafngreindir í Senegal og Sviss, þá eiga þeir að mælast jafngreindir. Hvort sem maður er vel eða illa upp alinn, á hann að mælast jafngreindur. Tveir jafngreindir menn á 19. og 21. öld eiga að mælast jafngreindir, annars er eitthvað að mælingunum.

Eflaust eru einhver greindarpróf háð aðstæðum. En Ridley bendir á eina skýringu á aukinni greind á okkar dögum. Hún er, að ekki leggjast nú eins og áður á börn í sama mæli sjúkdómar, sem hafa vond áhrif á heilastarfsemina, og að víða þjást þau nú ekki af vannæringu, sem líka dregur úr þroska þeirra. Velmegun, hlý og traust húsakynni og nægur og góður matur, mynda skilyrði til að vaxa og þroskast eftir eigin lögmáli. Þar starfar heilinn best.

Ein skjámynd Ridleys á fyrirlestrinum var sérstaklega athyglisverð. Til vinstri var útskorinn steinn með hvössum brúnum, sem frummaður fyrir um milljón árum hefur gert og notað til að drepa og skera í sundur dýr merkurinnar sér til matar. Hann og hann einn gerði þennan hníf, og hann var gerður úr einu efni. Til hægri var tölvumús frá okkar dögum. Til þess að gera hana þurfti atbeina þúsunda og jafnvel milljóna manna úr öllum heimshornum, þar sem sumir framleiddu plast og aðrir örgjafa, suma sömdu forrit og aðrir hönnuðu lögun músarinnar, sumir sinntu innkaupum og aðrir starfsmannahaldi í ólíkum fyrirtækjum, sem komu að gerð músarinnar, og svo framvegis.

Hvítigaldur markaðarins er einmitt, að hann er vettvangur samvinnu óteljandi einstaklinga, sem nýta sér þjónustu hver annars án þess að þekkja hver annan. Þessi samvinna birtist í frjálsum viðskiptum á markaði, en verðið, sem þar myndast, leiðbeinir okkur um, hvernig hæfileikar okkar nýtast öðrum best. Þannig verður til ein risastór og skilvirk samvitund, sameiginlegur reynslusjóður, sem frumstæðir þjóðflokkar hafa ekki til ráðstöfunar. Á steinöld studdist maður aðeins við sína vitund, sína þekkingu og kunnáttu, en gat hvorki nýtt sér þekkingu né kunnáttu annarra manna.


Hvers vegna er Stefán Ólafsson með mig á heilanum?

Þeir, sem lesa reglulega blogg Stefáns Ólafssonar á Netinu, telja sig sjá, að hann sé með mig á heilanum. Þeir hafa spurt mig, hvort ég viti ástæðuna. Ég hef svarað því til, að ég hafi ekki hugmynd um hana, en sett fram nokkrar tilgátur.
 
Stefán er óánægður með það, að ég kom upp um, þegar hann brást trúnaði 1996 sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Við Hreinn Loftsson höfðum í kyrrþey látið stofnunina gera skoðanakönnun um fylgi við Davíð Oddsson í komandi forsetakjöri. Stefán sagði ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðu könnunarinnar, þótt hann væri bundinn trúnaði.

Stefán er líka óánægður með það, að ég kom upp um eina talnabrellu hans. Hann hafði mótmælt staðhæfingum Árna Mathiesens fjármálaráðherra um, að á Norðurlöndum væru tekjur lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Íslandi árið 2004. Stefán kvað svo ekki vera og deildi með fjölda lífeyrisþega í heildargreiðslur lífeyris og fékk út lægri meðaltekjur þeirra. En hann gáði ekki að því, að hann deildi í raun í heildargreiðslurnar með fjölda fólks á lífeyrisaldri, ekki fjölda lífeyrisþega. Á Íslandi vinnur fjöldi fólks á lífeyrisaldri og þiggur ekki lífeyri. Það ár, sem um var að ræða, voru lífeyrisþegar 26.000, en fólk á lífeyrisaldri 31.000. Ég hef síðan í gamni kallað Stefán Mr. Five Thousand: Það er ekki ónýtt að geta lækkað tölu með að bæta fimm þúsund við í nefnarann.

Stefán er einnig óánægður með það, að ég kom upp um villu í útreikningum hans á tekjuskiptingu á Íslandi borið saman við grannríkin. Hann hafði reiknað út Gini-stuðul fyrir Norðurlöndin, þar á meðal Ísland, og Bretland og Bandaríkin, og komist að þeirri niðurstöðu, að stuðullinn hefði hækkað mjög á Íslandi árin 1995–2004, en það merkir, að tekjuskiptingin var orðin ójafnari, breiðara bil á milli ríkra og fátækra. En hann hafði tekið með í tölunum um Ísland það, sem sleppt var í tölunum fyrir aðrar þjóðir, sem var söluhagnaður af hlutabréfum. Breytti það miklu um niðurstöðuna. Hann bar því saman epli og appelsínur, ekki íslensk epli og dönsk epli. Útreikningar hans á Gini-stuðlum voru marklausir, rangir.

Allir gera mistök. Ég fór til dæmis of nálægt textum Halldórs Kiljans Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, þótt ég væri þar í góðri trú og gerði hið sama og aðrir höfðu einmitt hælt Laxness fyrir. En ég viðurkenndi þessi mistök mín og bætti um betur. Stefán Ólafsson hefur aldrei viðurkennt nein mistök sín. Hann hefur aldrei beðist afsökunar á trúnaðarbroti sínu sem forstöðumanns Félagsvísindastofnunar. Hann hefur aldrei bætt fyrir talnabrellu sína um lífeyristekjur. Hann hefur aldrei leiðrétt villu sína í útreikningum á Gini-stuðlum. Hann ræðst hins vegar á mig af þeirri hörku, að fólki finnst, að hann sé með mig á heilanum. Ég hef hér reynt að skýra þessa hegðun hans.


Þeir færðust til vinstri, ekki Bjarni til hægri

Nú kyrja þeir fáu, sem enn treysta sér til þess að verja vinstri stjórnina, saman í einum kór, að Bjarni Benediktsson hafi færst til hægri með því að gagnrýna óhófleg ríkisútgjöld. Og sumir fjölmiðlar taka undir.

Uppgjör ríkisreikninga sýnir, að frá því að vinstri stjórnin tók við 2009, hefur hún safnað feikilegum skuldum, sem hún ætlar að velta yfir á næsta kjörtímabil. Hún er engu betri en bankamennirnir fyrir fall bankanna, sem harðast voru gagnrýndir fyrir óhóflegar lántökur. „Take the money and run,“ eins og sagt var, eða: „Syndafallið kemur eftir minn dag.“

Í raun og veru hafa íslenskir vinstri menn farið langt til vinstri síðustu misseri. Það sýndu til dæmis viðbrögð þeirra við bókum okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um ágreining jafnaðarmanna og kommúnista í íslenskri vinstri hreyfingu árin 1918–1938. Sá ágreiningur snerist um, hvort virða ætti lýðræði eins og jafnaðarmenn vildu eða beita ofbeldi, þegar þess þyrfti með, eins og kommúnistar kröfðust. Inn í það fléttaðist síðan ágreiningur um afstöðuna til einræðisríkisins mikla í austri, sem Lenín og Stalín stjórnuðu.

Svo virðist, ef marka má nýlegar greinar í Tímariti Máls og menningar og Herðubreið, sem vinstri menn á Íslandi taki sér stöðu með gömlu kommúnistunum gegn gömlu jafnaðarmönnunum, en bækur okkar þriggja um þetta tímabil sýna, að margar ásakanir jafnaðarmanna á hendur kommúnistum í hinum sögulegu átökum þessa tímabils voru réttar. Eins og fram hefur komið opinberlega, hyggst ég svara þeim greinum á næstunni.


Hvers vegna sitja þeir heima?

Hátt í tuttugu þúsund manns hafa verið myrt í Sýrlandi að sögn fjölmiðla. Stjórnvöld reka pyndingakjallara á mörgum stöðum í landinu.

Um allan heim er kúgunin í Sýrlandi fordæmd. En kínversku og rússnesku stjórnirnar koma í veg fyrir ályktanir um málið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þær líta á Sýrlandsstjórn sem bandamann.

En hvar eru hinir íslensku vinir Araba? Hvers vegna sést ekki einn einasti mótmælandi við kínverska sendiráðið til að mótmæla stuðningi Kína við Sýrlandsstjórn? Eða við rússneska sendiráðið af sömu ástæðu?

Óteljandi eru þær ferðir, sem íslenskir vinir Araba hafa gert sér að sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík til að mótmæla því, þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínu-Araba. Er þá Bandaríkjastjórn jafnan kennt um, því að hún hefur veitt Ísrael öflugan stuðning.

En strætin fyrir fram sendiráð þeirra tveggja ríkja, sem veita Sýrlandsstjórn stuðning og koma í veg fyrir ályktanir og aðgerðir gegn þeim, eru auð, mannlaus, tómleg. Enginn Sveinn Rúnar Hauksson heldur á spjaldi fyrir framan sendiráð Rússlands. Enginn Viðar Þorsteinsson steytir hnefa í átt til sendiráðs Kína.

Læðist ekki grunur að fleirum en mér um það, að ást sumra Íslendinga á Palestínu-Aröbum sé ekki ást á kúguðum og undirokuðum Aröbum í Austurlöndum nær, heldur hatur á Bandaríkjunum? Og þar sem ekki sé unnt að saka Bandaríkin um kúgunina í Sýrlandi, sitji vinir Arabanna heima?


Ég er kominn á Youtube!

Nú hefur frjálshyggjudeild Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hélt góðan fund um hægri stefnu á dögunum, sett ræðu mína þar á Netið, nánar tiltekið á Youtube.

Ég rek þar fjögur áhersluatriði:

  • Skatta og tekjudreifingu
  • Auðlindanýtingu og umhverfisvernd
  • Nýsköpun og framkvæmdamenn
  • Minninguna um fórnarlömbin

Nýstofnað Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt mun vonandi geta unnið að þessum verkefnum. Fyrsti fundurinn á hennar vegum (sem haldinn er í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands) verður föstudaginn 27. júlí kl. 17.30 í Öskju, stofu 132, þar sem dr. Matt Ridley, einn kunnasti rithöfundur Breta, mun mæla fyrir bjartsýni af skynsemisástæðum.


Hvers vegna þegja þeir um þetta hneyksli?

Á stuðning okkar við málfrelsi reynir ekki, þegar aðrir segjast vera sammála okkur. Á hann reynir, þegar aðrir láta í ljós skoðanir, sem við getum ekki tekið undir og teljum jafnvel alrangar. Snorri í Betel sagði á heimasíðu sinni:

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.

Fyrir þessi ummæli er hann rekinn úr kennarastarfi á Akureyri. Ég er ekki sammála Snorra í Betel, satt að segja algerlega ósammála honum, en hann átti rétt á þessari skoðun. Hann lýsir afstöðu tiltekinna trúarsafnaða til tiltekins hóps án þess að hvetja á neinn hátt til þess, að þeim hópi sé gert mein.

Ummælin féllu ekki heldur í kennslustund, heldur inni á heimasíðu hans, sem menn urðu að heimsækja sérstaklega til þess að geta lesið þau.

Auðvitað getur þurft að setja hömlur á málfrelsi kennara. Ef slíkur maður er til dæmis nasisti eða kommúnisti og vísar því á bug, sem sannað er, að Hitler, Stalín og Maó hafi verið einhverjir grimmustu fjöldamorðingjar sögunnar, og fullyrðir jafnframt, að helfarir hinna ólánssömu þegna þeirra hafi aldrei farið fram, þá er ástæða til að staldra við. Ef hann hvetur til ofbeldis og illvirkja, til dæmis blóðugra mótmælaaðgerða gegn gyðingum eða „borgarastéttinni“, þá hefur líka verið stigið skref í átt frá ógeðfelldri skoðun til ólöglegs verknaðar.

Og hvar á þetta að enda? Áskell Örn Kárason, sálfræðingur og yfirmaður barnaverndar á Akureyri, skrifaði inn á Facebook-síðu vegna áfloga á leikvelli, þar sem svartur maður og hvítur áttust við (23. febrúar 2011): „Djös. svertingjar.“ Á að reka hann líka?

Brottrekstur Snorra er hneyksli. En hvers vegna þegja allir málfrelsispostularnir, sem jafnan eru hinir háværustu, um málið? Hvar er málfrelsissjóður Páls Skúlasonar? Hvenær blogga Illugi Jökulsson og félagar hans um þetta? Eigum við von á grein frá Guðmundi Andra?

Rósa Lúxemburg sagði, að frelsið væri ætíð frelsi þeirra, sem hugsa öðru vísi. Hún hafði rétt fyrir sér. Menn þurfa ekki frelsi til að vera samþykkir rétttrúnaði hvers tíma. Þá þurfa þeir aðeins að kunna eftiröpunarlistina.


Öfugþróun

Kenning Charles Darwins um, að menn væru af sama stofni og apar og hefðu þróast eftir náttúruvali, kom róti á huga margra. Skáldin nýttu sér að sjálfsögðu þróunarkenningu Darwins í ádeilur. Þýski rithöfundurinn Wilhelm Busch, sem uppi var 1832-1908, kvað til dæmis:

Þeir sátu að drykkju og deildu hátt
á Darwins þróunarfræðin öll:
Slíkar hugmyndir næðu engri átt,
svo að ekki sé talað um mennskuspjöll.
Þeir drukku lengi og drukku stórum,
dálítið reikulir kvöddust hér,
og dæstu þungt, er þeir fóru á fjórum
fótum upp stigana heima hjá sér.

 

Ekki hefur mér tekist að finna þýðandann, en á þýsku kom kvæðið út í Kritik der Herzen 1874.

Einar H. Kvaran notaði svipaða hugmynd í svari til manns, sem andmælti þróunarkenningunni:

Þú segir, allt sé orðið vesalt þá,
ef ættargöfgi vorri þannig töpum.
Hitt er þó miklu verri sjón að sjá,
er synir manna verða'að heimskum öpum.

 

Einar orti raunar líka vísu, eftir að honum hafði sinnast við Boga Th. Melsteð sagnfræðing:

Illt var ei Darwin auðnaðist
á þér skoltinn, Bogi, að kanna.
Þá hefði sönnun fengist fyrst
fyrir skyldleika apa og manna.

 

(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 8. júlí 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband