Ættir á Íslandi

Jón Baldvin Hannibalsson hélt því eitt sinn fram, að „fjölskyldurnar fjórtán“ ættu Ísland. Hann skýrði ekki nánar, hverjar þær væru, enda tók hann orðið traustataki frá El Salvador, þar sem iðulega var talað um „Las catorce familias“.

Greining Jóns Baldvins er ekki eins einföld og danska þjónsins á einni Kaupmannahafnarkránni á nítjándu öld. Hann skipti íslenskum stúdentum í tvo hópa, Briemere og Bløndalere, og sagði hin fleygu orð: „Briemerne, de er gode betalere, men dårlige sangere. — Bløndalerne, de er gode sangere, men dårlige betalere.“

Sjálfur var Jón Baldvin raunar af einni af valdaættum Íslands á tuttugustu öld. Faðir hans, Hannibal Valdimarsson, var formaður þriggja stjórnmálaflokka, forseti Alþýðusambands Íslands og ráðherra. Föðurbróðir Jóns Baldvins var bankastjóri og þingmaður. Bróðir Jóns Baldvins er faðir forsetaframbjóðandans Þóru Arnórsdóttur.

Líklega var ein ættin, sem Jón Baldvin hefði getað nefnt, Thorsararnir, afkomendur stórútgerðarmannsins Thors Jensens. Meinlegt var svar Steins Steinarrs, þegar hann var spurður, hvað honum fyndist um skáldskap Thors Vilhjálmssonar, dóttursonar Thors Jensens: „Það veit ég ekki, en það er gaman, að Thors-ættin skuli vera farin að yrkja.“

Ekki var það síður meinlegt, sem ónefndur maður sagði í samkvæmi í Reykjavík, þegar maður af Gautlandaætt raupaði af ætterni sínu, en tveir menn af þeirri ætt voru ráðherrar á öndverðri tuttugustu öld: „Gautlandaættin er eins og kartöflugras. Hið besta af henni er neðanjarðar.“ Er þessi fyndni líklega komin frá enska skáldinu Sir Thomas Overby, sem skrifaði í Characters (Manngerðum) árið 1614: „Maður, sem getur ekki hrósað sér af öðru en merkum forfeðrum, er eins og kartöflugras, — hið besta úr honum er neðanjarðar.“

(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 1. júlí 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband