Jarðarfarir

Þótt jarðarfarir séu jafnan með alvörublæ, hafa þær orðið tilefni gamanyrða.

Árið 1935 lést Jón Þorláksson verkfræðingur, borgarstjóri og forsætisráðherra, skyndilega, aðeins 58 ára að aldri, og var útför hans gerð með viðhöfn. Þegar kona ein hafði orð á því við Tómas Guðmundsson, hversu vel útförin hefði farið fram, svaraði skáldið alúðlega: „Já, ég hef heyrt mjög dáðst að þessari jarðarför, enda hef ég sannfrétt, að það eigi að endurtaka hana.“

Einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í tíð Jóns Þorlákssonar var Hjalti Jónsson konsúll, kunnur afreksmaður, sem brotist hafði úr fátækt til bjargálna. Hann hafði greitt Lúðrasveit Reykjavíkur fyrir að leika við útför sína. Þegar sveitin kom aftur til hans með fjárbeiðni, greiddi hann henni enn fyrir leikinn með þessum orðum: „Ekki veitir Reykvíkingum af að skemmta sér einu sinni almennilega.“ Hjalti lést 1949.

Frægasta útför á síðustu öld var þó líklega, þegar jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, voru grafnar á Þingvöllum haustið 1946 að viðstöddum helstu ráðamönnum þjóðarinnar. Í skáldsögunni Atómstöðinni 1948 notaði Halldór Kiljan Laxness útförina sem táknræna sögu um að sjálfstæði landsins hefði verið grafið með svokölluðum Keflavíkursamningi, sem gerður var um svipað leyti. Grunur lék á um, að beinin væru ekki af Jónasi, heldur dönskum bakara, og þegar séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur, sem var maður gamansamur, jarðsöng Jónas, hvíslaði hann að syni sínum: „Ætli það sé nú ekki vissara, að ég segi hér nokkur orð á dönsku.“

Annar kunnur prestur, Árni Þórarinsson á Stóra-Hrauni, á að hafa svarað, þegar hann var spurður, hvort hann ætlaði að fylgja Jóni Helgasyni biskup til grafar: „Já, þó að fyrr hefði verið!“ Árni þrætti þó fyrir þetta tilsvar í stórmerkri ævisögu sinni, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði.

Minnir þetta á ummæli bandaríska kvikmyndaframleiðandans Sams Goldwyns um einn starfsbróður sinn, Louis B. Mayer: „Ástæðan til þess, að svo margir fylgdu honum til grafar, var, að þeir vildu vera alveg vissir um, að hann væri dáinn.“

(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 10. júní 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband