11.8.2014 | 07:55
Breskir dómarar skeikulir
Flestir bera virðingu fyrir breskum dómurum, þegar þeir skálma þungbúnir í réttarsali í skikkjum með hárkollur og þúsund ára hefð að baki, og allir aðrir flýta sér að standa upp. Ég hef þó oftar en einu sinni tekið eftir því, að þeir eru skeikulir og þá um einfaldar staðreyndir.
Eitt dæmið er, þegar áfrýjunardómstóll, Court of Appeal, í Lundúnum kvað upp úrskurð 3. mars 2008 í máli, sem ég hafði áfrýjað þangað. Dómararnir voru Clarke, Dyson og Jacob. Í lýsingu á málsatvikum fremst í dómnum (2. grein) segir, að þau séu tekin úr dómi undirréttar, sem kveðinn var upp 8. desember 2006. Enn segir þar, að ég hafi birt á heimasíðu minni í Englandi tiltekin ummæli, sem voru tilefni dómsmálsins. Ekkert er hins vegar um það í dómi undirréttar, að heimasíðan hafi verið í Englandi, og hún var það ekki, heldur var þetta heimasíða mín í Háskóla Íslands, þótt aðgengileg væri frá Bretlandi eins og frá hundrað öðrum löndum.
Annað dæmi sýnu alvarlegra er, þegar skilanefnd Kaupþings höfðaði skaðabótamál í Bretlandi gegn breska fjármálaráðuneytinu. Skilanefndin tapaði málinu með úrskurði 20. október 2009. Dómararnir voru Richards og Maddison. Í lýsingu á málsatvikum í dómnum (20. gr.) segir: 6. október var viðskiptum með hlutabréf íslensku bankanna hætt, og ríkisstjórn Íslands setti neyðarlög, sem fólu í sér tryggingar fyrir innstæðueigendur í íslenskum útbúum bankanna. Þetta er rangt. Í fyrsta lagi setti ríkisstjórnin ekki neyðarlögin, heldur Alþingi. Það atriði er þó ekki eins mikilvægt og hitt, að í neyðarlögunum (nr. 125/2008) er hvergi að finna nein ákvæði um það, að innstæður í íslenskum útbúum bankanna séu sérstaklega tryggðar, heldur segir þar, að kröfur innstæðueigenda (og þá allra, erlendra jafnt og íslenskra) á hendur hugsanlegum þrotabúum bankanna séu forgangskröfur.
Annað mál er það, að ríkisstjórnin lýsti því samtímis yfir, að hún ábyrgðist allar innstæður í íslenskum útbúum bankanna. En sú yfirlýsing hafði ekkert lagagildi og var hliðstæð yfirlýsingum margra annarra ríkisstjórna á sama tíma, sem vildu koma í veg fyrir áhlaup á banka.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2014.)
10.8.2014 | 10:32
Furðuskrif Stefáns Ólafssonar
Stefán Ólafsson prófessor skrifaði fyrir nokkru pistil um nýja skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um loftslagsmál og víkur þar oftar en einu sinni að mér.
Þessi pistill Stefáns er furðulegur. Ég hef ekki neitað því, sem augljóst er, að hlýnað hefur (þótt sú hlýnun virðist ekki halda áfram af sama hraða frá 1998 og fyrir þann tíma). Ég tel mig ekki heldur hafa neinar forsendur til þess að neita því, að menn geti átt einhvern þátt í þeirri hlýnun. Mér hefur hins vegar fundist ýmislegt varhugavert í þeim stjórnmálaályktunum, sem sumir vilja draga af þessu. Hér er tiltölulega nýleg grein eftir mig um þetta, sem skrifuð var af sérstöku tilefni. Ég vek sérstaklega athygli á upphafsorðum greinarinnar: Enginn getur neitað því, að veður hefur hlýnað síðustu áratugi. Og: Enginn getur heldur neitað því, að einhver gróðurhúsaáhrif verki á veðrið. Hvað gengur Stefáni Ólafssyni til að reyna að falsa skoðanir mínar? Til að hann hafi eitthvað til ráðast á?
Þessi rökvilla eða brella var í rökfræðinni, sem ég lærði forðum, kölluð Straw man fallacy, og um hana er fróðleg grein á Wikipedia. Ég skrifaði athugasemd við þessi skrif Stefáns á Eyjunni.is og skoraði á hann um að benda mér á skrif eftir mig, þar sem ég afneita því, að hlýnað hafi í veðri og að eitthvað kunni að vera hæft í því, að það sé af mannavöldum. Hann hefur ekki getað bent á nein slík skrif mín.
Um daginn sakaði kona að nafni Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem ég hef aldrei hitt og aðeins heyrt smávegis um og það heldur misjafnt, mig um að hafa dreift sögum um ástamál sín og Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns. Þessi furðuskrif Stefáns eru í sama flokki, hugarórar, uppspuni og ímyndanir. Ég segi enn eins og Bergljót Hákonardóttir forðum við Kala, skósvein Einars Þambarskelfis: Það er illa gert að fást upp á ókunna menn með hrópyrðum og háðsemi og munu yður tröll toga tungu úr höfði.9.8.2014 | 09:38
Ólíkt hafast þeir að
Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans, var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega. Einu kynni mín af honum áður voru, þegar við vorum iðulega ræðumenn hvor fyrir sinn málstað í framhaldsskólum, hann fyrir sósíalisma og ég fyrir frjálshyggju. Boðaði hann þá, að menn skyldu taka almannahag fram fyrir eigin hag.
Hins vegar var Már bersýnilega ráðinn seðlabankastjóri af stjórnmálaástæðum, þótt látið væri svo heita, að hann hefði mesta þekkingu og reynslu umsækjenda. En dómgreind skiptir ekki síður máli. Sú ákvörðun Más að una ekki við launalækkun, sem aðrir í sambærilegum stöðum urðu að sætta sig við á erfiðum tímum, sýndi dómgreindarbrest.
Már kveðst hafa viljað láta reyna á rétt sinn með því að höfða mál gegn Seðlabankanum. En stundum er skynsamlegast að krefjast ekki réttar síns. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra, átti hann rétt á sex mánaða biðlaunum. Hann ákvað að taka sér þau ekki, þótt réttur hans til þeirra væri ótvíræður. Þegar Davíð var skipaður seðlabankastjóri, var gerður við hann ráðningarsamningur til sjö ára, frá 20. október 2005 til 20. október 2012. Samningurinn var svo skýr, að Davíð hefði með dómi getað fengið full mánaðarlaun greidd allt til 20. október 2012, en hann var sem kunnugt er hrakinn úr starfi í febrúar 2009. En Davíð ákvað að láta kyrrt liggja.
Þegar Davíð var ráðherra 19912005, tók eiginkona hans aldrei dagpeninga í utanlandsferðum eins og makar annarra ráðherra. Þetta var réttur hennar, en hún nýtti sér hann ekki.
Hvort tveggja gerir síðan hlut Más verri, að hann tapaði máli sínu gegn Seðlabankanum og að hann lét bankann greiða málskostnað sinn. En ólíkt hafast þeir að í eigin málum, gamli sósíalistinn, sem boðaði forðum, að taka skyldi almannahag fram yfir eigin hag, og hinn borgaralegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson. En nú ber svo við, að þeir Hörður Torfason og Bubbi Morthens eru hvergi sjáanlegir með potta sína og pönnur fyrir utan Seðlabankann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2014.)
9.8.2014 | 05:58
Bara ef lúsin erlend er
Hér rifjaði ég upp á dögunum nokkur helstu afrek UBS, stærsta banka Sviss, sem stjórnvöld þar í landi björguðu frá falli í upphafi hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Skömmu áður höfðu fjárfestar í Singapúr og Miðausturlöndum bjargað bankanum frá falli. UBS reyndi að eyða skjölum um skuldir við dánarbú Gyðinga og samdi um stóra greiðslu til samtaka Gyðinga fyrir vikið. Einnig hefur bankinn orðið að greiða stórsektir vegna tilrauna til að hagræða vöxtum og aðstoða auðuga Bandaríkjamenn við peningaþvætti.
Ég get því ekki sagt, eins og ágætur maður, sem andmælti mér umsvifalaust í tölvuskeyti, að UBS sé reistur á aldagömlu fjármálaviti Svisslendinga. Bankinn nýtur þess, að allir vilja geyma fé í Sviss, svo að hann þarf að greiða litla sem enga vexti. Engu að síður varð tvisvar að bjarga honum frá falli, jafnt fyrir og eftir kreppu! Og þótt hann fari illa með dánarbú Gyðinga, hagræði vöxtum og aðstoði viðskiptavini við peningaþvætti, dettur engum í hug að setja hann á lista um hryðjuverkasamtök, eins og Landsbankinn mátti sætta sig við.
En tökum þá annan banka, sem líka var bjargað frá falli í upphafi hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, RBS, Royal Bank of Scotland. Hann hafði þegar fyrir kreppuna sætt harðri gagnrýni fyrir að reisa sér veglegar höfuðstöðvar í Edinborg og dýrar bækistöðvar í Bandaríkjunum, leigja einkaþotur undir bankastjórana, gera við þá rausnarlega kaupauka- og lífeyrissamninga og greiða frægu fólki stórfé fyrir að koma fram fyrir hönd bankans. (Kannast einhverjir við þetta framferði?) Í ljós kom í upphafi kreppunnar, að RBS var að falla. Breska ríkið varð að leggja honum til 45 milljarða punda í eigið fé níu þúsund milljarða íslenskra króna og leggja honum til 275 milljarða punda í lausafé. Þessar upphæðir hefðu verið rúmlega tvöföld landsframleiðsla Skotlands á ári.
Og engir kórdrengir stjórna RBS fremur en UBS. Í febrúar 2013 greiddi RBS 612 milljón dala sekt fyrir þátt sinn í að hagræða vöxtum. Í desember 2013 greiddi RBS 100 milljón dala sekt fyrir að hafa átt ólögleg viðskipti við Íran og Súdan, en bæði ríki voru á sama lista og Landsbankinn yfir hryðjuverkasamtök. Hvers vegna var hinum gömlu og traustu bönkum Heritable Bank og Singer & Friedlander í Lundúnum ekki bjargað frá falli, heldur ævintýramönnunum, sem stjórnuðu RBS? Vegna þess að þeir voru báðir í eigu Íslendinga? Og eiga Íslendingar að hneigja sig fyrir RBS, en gera lítið úr íslenskum bönkum? Hafa orð skáldsins snúist við og hljóða nú: Bara ef lúsin erlend er, er þér bitið sómi?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2014.)
[Vegna fyrirspurna: Skáldið var auðvitað Hannes Hafstein.]
7.8.2014 | 21:38
Jarðálfarnir í Zürich
Verkamannaflokkurinn breski komst í ríkisstjórn 1964 eftir fjórtán ára hlé. Pundið var hins vegar veikt og féll í verði. Forystumenn flokksins brugðu þá á gamalkunnugt ráð og kenndu bröskurum um. George Brown, sem þá var ráðherra, sagði: The Gnomes of Zürich are at work again. Orðið Gnome er upprunnið í latínu og notað um dverga eða álfa, sem búa neðanjarðar og luma á gulli. Orð Georges Browns mætti því þýða: Jarðálfarnir í Zürich eru enn að.
Í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu 2008 neitaði bandaríski seðlabankinn hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamning (sem var í raun leyfi til að prenta Bandaríkjadal), en gerði mjög háa slíka samninga við svissneska seðlabankann, um samtals 466 milljarða dala (aldrei þó svo mikið í einu). Þessi fyrirgreiðsla veitti svissneska seðlabankanum möguleika á að bjarga UBS og öðrum svissneskum bönkum frá falli.
Í því ljósi má rifja upp nokkur afrek jarðálfanna í Zürich. Snemma árs 1997 kom næturvörður í bækistöðvum UBS í Zürich, Christoph Meili, að starfsfólki þar í óðaönn við að eyða skjölum í vörslu bankans um hlutabréf og fasteignir í eigu Gyðinga í Hitlers-Þýskalandi. Næturvörðurinn lét samtök Gyðinga vita af þessu. Þau höfðuðu mál gegn UBS og öðrum svissneskum banka, Credit Suisse, sem sömdu eftir eins árs þóf um að greiða samtökum Gyðinga 1,25 milljarð dala í bætur.
Í febrúar 2008 var ljóstrað upp um aðstoð UBS við að skjóta fé auðugra Bandaríkjamanna ólöglega undan. Einn bankamaðurinn, Bradley Birkenfeld, smyglaði til dæmis demöntum á milli landa í tannkremstúbum. UBS greiddi 780 milljónir Bandaríkjadala í sekt. Mörg önnur hneyksli mætti nefna, meðal annars í Bretlandi, en stærst þótti, þegar UBS var sektað í árslok 2012 í Bandaríkjunum um 1,5 milljarð dala fyrir að taka þátt í að hagræða vöxtum á millibankamarkaði í Lundúnum, svokölluðum LIBOR.
Með aðstoð bandaríska seðlabankans björguðu svissnesk stjórnvöld UBS frá falli haustið 2008, en Landsbankinn var ekki aðeins látinn falla, heldur settur á opinberan lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök! Voru bresk og bandarísk stjórnvöld með þessu að þakka Íslendingum stuðninginn í heimsstyrjöldinni síðari og í kalda stríðinu, þegar Sviss var hlutlaust? Eða skiptir ekkert slíkt máli lengur?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. mars 2014.)
7.8.2014 | 09:53
Darling og styrktarmenn Íhaldsflokksins
Í síðustu viku sagði ég frá lýsingu Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, á því, hvernig stærð einkaflugvéla fundarmanna á ráðstefnum væri jafnan í öfugu hlutfalli við stærð heimalanda þeirra. Hann gerði þessa athugasemd að morgni 7. október 2008, þegar hann var á leið á fjármálaráðherrafund í Lúxemborg og lítil einkaflugvél, sem hann hafði tekið á leigu, renndi á flugvellinum fram hjá tveimur Boeing 747 þotum, sem merktar voru Íslandi og stóðu á flugvellinum. Þetta voru hins vegar ekki einkaþotur neinna íslenskra ráðamanna, heldur vöruflutningavélar á vegum Atlanta, sem hafði notað slíkar vélar frá 1993!
Í bókinni Back from the brink (2011) segir Darling frá uppgangi Landsbankans í Bretlandi árin fyrir alþjóðlegu lánsfjárkreppuna og bætir við, að nú sæti ýmsar fjárfestingar bankans sakamálarannsókn á Íslandi. Síðan skrifar hann (bls. 137): Í tengslum við þetta virtust ýmsir íslenskir ríkisborgarar auðgast mjög. Sumir gátu jafnvel veitt breska Íhaldsflokknum rausnarlega styrki. Í Bretlandi eru allir styrkir til stjórnmálaflokka, sem einhverju nema, birtir opinberlega. Ég gat ekki séð neina Íslendinga eða íslensk fyrirtæki á listum yfir styrkveitendur Íhaldsflokksins. Á fundi með Darling í desember 2013 spurði ég hann því, hvaðan hann hefði þessar upplýsingar. Hann kvaðst hafa lesið um þetta, á meðan hann var að skrifa bók sína 2011.
Hér er líklega skýringin komin. Í júlí 2009 hafði dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg verið selt Rowland-fjölskyldunni bresku og tekið upp nafnið Banque Havilland. Fasteignajöfurinn David Rowland var einn örlátasti styrktarmaður Íhaldsflokksins og átti jafnvel um tíma að verða gjaldkeri flokksins, þótt ekki yrði af því. Í mars 2011 gerði breska lögreglan húsleit í Banque Havilland vegna rannsóknar á Kaupþingi. Vegna sambandsins við Íhaldsflokkinn var Rowland fréttamatur, þótt rannsóknin beindist ekki að honum. Fyrirsögnin í breska stórblaðinu Daily Telegraph var til dæmis Efnahagsbrotadeild gerir húsleit vegna Kaupþings í banka bakhjarls Íhaldsflokksins, Davids Rowlands.
Ef sú er skýringin á ummælum Darlings, þá ruglar hann ekki aðeins saman Landsbankanum og Kaupþingi, heldur telur hann David Rowland tengjast Íslandi af þeirri ástæðu einni, að Rowland keypti ásamt fjölskyldu sinni það, sem eftir var af einu dótturfélagi íslensks banka í Lúxemborg. Á þennan hátt verða þjóðsögur til.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2014.)
7.8.2014 | 04:48
Darling og íslensku risaþoturnar
Þegar ég vann að rannsóknum á ævi Halldórs Kiljans Laxness, rakst ég í Þjóðarbókhlöðunni á rit, sem gefið hafði verið út um rithöfundamót í Góðviðru (Buenos Aires) 1936, en Laxness var einn gesturinn og skrifaði síðar margt um mótið. Mér til nokkurrar furðu reyndist ritið óuppskorið! Hinir miklu Laxnessfræðingar, sem gengu um götur og gerðu sig digra, höfðu ekki haft fyrir því að líta í það. Þegar ég ætlaði nýlega að fá lánaðar á Þjóðarbókhlöðunni endurminningar Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, sem var einn mesti örlagavaldurinn um bankahrunið, voru þær ekki til þar, og varð safnið að panta þær handa mér í millisafnaláni. Enn varð ég hissa. Hafði enginn hinna fjölmörgu sjálfskipuðu hrunfræðinga, sem eru svo tíðir gestir í sjónvarpi, áhuga á þessari hlið málsins?
Hvað sem því líður, eru endurminningar Darlings fróðlegar um margt, smátt og stórt. Hann segir til dæmis frá því, að hann hafi farið á fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg þriðjudaginn 7. október 2008. Venjulega hafi hann ekki leigt sér einkavél til að fara á slíka fundi, en í þetta skipti hafi hann neyðst til þess vegna tímaskorts. Darling bætir við þeirri athugasemd, að á alþjóðlegum ráðstefnum hafi hann oft veitt athygli hinum mörgu einkaþotum á flugvöllum og tekið eftir því, að þær hafi venjulega verið því stærri sem heimalöndin hafi verið minni. Síðan segir hann (bls. 152): Þegar við renndum niður til lendingar, benti Geoffrey Spence, sérstakur ráðgjafi minn, mér á tvær íslenskar risaþotur [jumbo jets], sem stóðu við lendingarbrautina. Við ókum fram hjá þeim í vél okkar, sem var á stærð við Spitfire-vél.
En enginn fulltrúi Íslands var á þessum fjármálaráðherrafundi Evrópusambandsins, og þessar tvær risaþotur (Boeing 747) voru ekki notaðar af íslenskum kaupsýslumönnum eða stjórnmálamönnum. Þetta voru bersýnilega vélar Air Atlanta, sem önnuðust vöruflutninga um Lúxemborg, en þær voru jafnan vandlega merktar Íslandi. Air Atlanta hafði notað slíkar risaþotur allt frá 1993. Þær komu hvorki útþenslu bankanna né hruni hætishót við.
Áróðursbrella Darlings, þegar hann ber í endurminningum sínum saman vélarskjátu breska fjármálaráðherrans og risaþotur Íslendinga í því skyni að vekja lesandanum hugboð um hroka og oflæti hinnar fámennu grannþjóðar Breta, missir því marks.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)
7.8.2014 | 03:58
Um borð í Gullfossi
Ég hef oft furðað mig á því, að eitthvert skáldanna okkar skuli ekki hafa skrifað ástar- eða glæpasögu, sem gerðist um borð í Gullfossi, til dæmis á leið til Kaupmannahafnar eitthvert haustið á sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar með fyrirfólk á fyrsta farrými og fátæka námsmenn á hinu þriðja. Tími og staður eru þægilega afmarkaðir, mörg tækifæri til að falla í freistni og hægt að skrifa ýmsa eftirminnilega einstaklinga inn í söguna.
Skip Eimskipafélagsins, sem báru nafnið Gullfoss, voru tvö. Hið fyrra var tekið í notkun 1915 og var þá sýnt bæjarbúum. Maður austan úr sveitum, sem staddur var í Reykjavík, notaði tækifærið til að skoða hinn nýja farkost. Hann var illa búinn með kúskinnsskó á fótum og ullartrefil um háls, ófríður og vambmikill. Um borð sá hann sjálfan sig í spegli í fyrsta skipti á ævinni. Honum varð að orði: Sá hefur ekki kvalið sig. En andskoti er hann ljótur!
Gullfoss hinn síðari var tekinn í notkun 1950. Einn fastagesturinn varð rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness. Einn laugardaginn árið 1956 hafði loftskeytamaður skipsins stillt á Ríkisútvarpið, þegar flutt voru óskalög sjúklinga. Ekki leið á löngu, þangað til Laxness mælti upp úr eins manns hljóði: Hvernig er það, verður aldrei neinn músíkalskur maður veikur á Íslandi?
Margir nýttu sér, að áfengisverð var lágt um borð. Þingmönnunum Barða Guðmundssyni þjóðskjalaverði og Gunnari Thoroddsen borgarstjóra þótti báðum gott í staupinu. Eitt sinn sagði Barði við Gunnar, þegar þeir voru báðir staddir í vínstúku skipsins: Maður er bara kominn á Gunnarshólma! Gunnar svaraði mjúklega: Ætli það sé ekki frekar Barðaströnd? Festist það nafn við vínstúkuna.
Einn fastagesturinn um borð í Gullfossi hinum síðari var Ásbjörn Ólafsson heildsali, sem jafnan tók á leigu gistiíbúð (svítu) skipsins. Hann drakk oft ótæpilega á leiðinni út. Ásbjörn var aðdáandi Einars skálds Benediktssonar og kunni utan að langa kafla úr ljóðum hans. Eitt sinn hét hann sex flöskum af viskí á Alfreð Flóka myndlistarmann, gæti hann farið með Einræður Starkaðar eftir Einar. Annar heildsali í farþegahópnum vildi ekki vera minni maður og bauð öllum einfaldan á línuna, sem merkir einn sterkan drykk á mann. Þá gef ég tvöfaldan á línuna, svaraði Ásbjörn að bragði. Tvær flöskur á línuna, sagði hinn heildsalinn. Þá gall í Ásbirni: Þrjár flöskur af viskí á línuna og kassa fyrir borð handa háköllunum!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2014.)
6.8.2014 | 20:03
Ættjarðarást
Þegar heyrist í þeim, sem töldu ekkert athugavert við hryðjuverkalögin, sem Bretar settu á okkur, og vildu síðar óðfúsir semja við Breta um að greiða hinar svokölluðu Icesave-kröfur, sem við höfðum ekki stofnað til, hlýtur ýmsum að detta í hug skilgreining bresks stjórnmálamanns, Benjamíns Disraelis forsætisráðherra, í ræðu í ráðhúsi Lundúna 1877 á þeim, sem hann kallaði heimsborgaralega gagnrýnendur, cosmopolitan critics: Menn, sem eru vinveittir öllum löndum öðrum en sínu eigin.
Með sumum fastapennum Fréttablaðsins og Eyjunnar er orðin lenska að hallmæla eigin þjóðerni og hæðast að ættjarðarást. Vissulega misnotuðu valdsmenn úti í Evópu orðið ættjarðarást forðum til að siga milljónum saklausra ungmenna út á vígvellina. Ættjarðarást er síðasta skjól skálksins, sagði dr. Samuel Johnson. Annar Breti, rithöfundurinn Richard Aldington, gerði hins vegar nauðsynlegan greinarmun: Ættjarðarástin er sterk vitund um sameiginlega ábyrgð. Þjóðernisstefna er hjákátlegur hani að gala á eigin haug.
Hér á Íslandi var ættjarðarást ekki misnotuð til að ginna fólk í stríð, heldur var hún notuð til að blása því í brjóst stolti af því að vera Íslendingar, sérstaklega í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu og tuttugustu öld. Fámenn þjóð þurfti á því að halda. En stoltið má ekki vera tilefnislaust. Ísland getur ekki lifað á fornri frægð einni saman, heldur þarf það að standa jafnfætis öðrum löndum um frelsi og efnalegar framfarir. Þetta vissi Jón Sigurðsson vel. Ef maður á að elska land sitt, þá verður það líka að vera elskulegt, sagði breski stjórnspekingurinn Edmund Burke. Landið á að vera heimahöfn frekar en útkjálki, bjóða upp á næg tækifæri til að bæta kjörin. Ella flyst dugnaðarfólkið héðan til lífvænlegri landa og eftir sitja nöldurskjóðurnar og telja sultardropana úr nefinu. Og þá verður íslensk ættjarðarást markleysa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2014.)
5.8.2014 | 21:58
Viðbótarheimild um huldumann
Ég hef skrifað hér þrisvar um íslenska huldumanninn á Galapágos-eyjum, sem ég frétti af vegna ferðar minnar þangað sumarið 2013. Hann kallaði sig Finsen, en með hjálp góðra manna komst ég að því, að um var að ræða skagfirska Latínuskólapiltinn Valdimar Friðfinnsson, sem hélt vestur um haf í upphafi tuttugustu aldar og leitaði gulls og olíu í Mið- og Suður-Ameríku. Settist hann að á Galapágos-eyjum 1931 og bar þar beinin 1945.
Nú hefur Örn Ólafsson bókmenntafræðingur bent mér á, að frá Finsen segir í einni bók Thors Vilhjálmssonar, Regn á rykið, sem kom út árið 1960 (bls. 186187). Thor hafði kynnst sænskum ferðagarpi, sem hét Rolf Blomsterberg og hafði komið til Galapágos-eyja. Blomsterberg sagði Thor, að hann hefði kynnst Íslendingi þar syðra, sem heitið hefði Jón Finsen (að því er Thor minnti). Finsen hafði komið ungur til Suður-Ameríku í leit að olíu en hafði ekki auðgast af því. Eitt sinn varð hann að leita læknis sem sagði honum að hann gengi með banvænan sjúkdóm og ætti skammt ólifað. Finsen hrærðist allur í hinum fornu sögum Íslands og Eddukvæðum. Hann fór þá út á Galapagoseyjarnar og valdi sér háan klett og hugsaði: þegar ég finn að krafturinn þverr fer ég upp á klettinn og geng fyrir ætternisstapa að hætti áa minna. En hann fann ekki kraftinn þverra heldur styrktist þvert á móti með hverjum degi í heilnæmu loftslaginu úti á eyjum þessum og lifði í 20 ár eftir þetta. Kemur þetta allt heim og saman við frásagnir af Finsen (Valdimar Friðfinnssyni) í íslenskum blöðum, nema hvað hann kallaði sig oftast Walter, en ekki Jón, og hvergi er annars staðar minnst á örlagaklettinn, sem Thor segir frá.
Thor heldur áfram: Margir höfðu þann sið að fara út í skip sem komu til eyjanna og vildu kaupa áfengi eða höfðu von um að í skipinu kynnu að leynast lostfagrar konur. Og Finsen fór alltaf út í skip sem komu, en erindi hans var að leita að bókum og honum tókst að safna sér ágætum bókakosti á þennan hátt, og Blomberg sagði að hann hefði verið sérkennilegur og vitur maður með sítt hvítt skegg og verið óspar að miðla sér af fjölbreytilegri lífsreynslu sinni. Meðal annars sagði hann að Finsen hefði bent sér á bækur sem hann skyldi lesa úr því að hann ætlaði að gerast rithöfundur, allra mikilvægast væri að lesa rússnesku stórskáldin, sérstaklega Tsjekov. Finsen lést í hárri elli á Galapagoseyjum. Þótt Thor færi hér eitthvað í stílinn, kemur þetta líka heim og saman við frásagnir af Íslendingnum, sem aðrir hafa skrifað, þótt Valdimar hefði að vísu látist 69 ára, sem ekki getur talist há elli. Er gaman að þessari fjörlega skrifuðu viðbótarheimild.
(Fróðleiksmoli, Morgunblaðið 1. febrúar 2014.)