20.8.2014 | 04:46
Hvers vegna er Stefán Ólafsson mér reiður?
- að ég kom upp um reikningsskekkju hans, þegar hann reiknaði út Gini-stuðla fyrir Ísland með söluhagnaði af hlutabréfum meðtöldum og bar saman við Gini-stuðla fyrir önnur lönd, þar sem söluhagnaðinum var sleppt,
- að ég kom upp um reikningsskekkju hans, þegar hann birti tölur um skattleysismörk, sem áttu að hafa lækkað, en reiknaði ekki með skattfrelsi lífeyrisgreiðslna (sem hækkuðu raunveruleg skattleysismörk),
- að ég kom upp um reikningsskekkju hans, þegar hann deildi í heildarlífeyrisgreiðslur á Íslandi með fjölda fólks á lífeyrisaldri og tók ekki tillit til þess, að margt af því stundaði fulla vinnu og þáði ekki lífeyristekjur, svo að hann gat haldið því fram, að lífeyristekjur væri hér að meðaltali lægri en á öðrum Norðurlöndum, þegar þær voru í raun hærri,
- að ég kom upp um stórkostlegt trúnaðarbrot hans, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands 1996 og Hreinn Loftsson hafði fengið hann í algerum trúnaði til að gera skoðanakönnun, en hann hvíslaði niðurstöðunum að ritstjórum Morgunblaðsins.
19.8.2014 | 22:13
Skoðanakúgun í háskólum
Skoðanakúgun í háskólum fer venjulega ekki fram á þann hátt, að menn séu hrelltir eða sæti einelti. Það er til dæmis sjaldgæft, að menn hegði sér eins og Þórólfur Matthíasson eftir bankahrunið í október 2008, þegar hann spurði mig vikum saman í hvert skipti og hann rakst á mig á göngum eða kaffistofu Odda, hvort ég hefði sent afsagnarbréfið, en ég sat þá í bankaráði Seðlabankans. Eða eins og Stefán Ólafsson, sem sendi tölvuskeyti til stjórnarmanna í Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sumarið 2012 til að mótmæla því, að stofnunin væri aðili að fyrirlestri, sem vísindarithöfundurinn dr. Matt Ridley hélt um batnandi tíð í heiminum, því að hann væri hægriöfgamaður. Ridley er dýrafræðingur frá Oxford-háskóla, var á sínum tíma vísindaritstjóri Economist og er höfundur margra metsölubóka um vísindi, sérstaklega þróunarlögmál Darwins. Hann situr í lávarðadeild Bretaþings.
Skoðanakúgun í háskólum fer venjulega fram á þann hátt, að menn með skoðanir, sem þar eru óvinsælar, fá ekki fastráðningu, framgang eða styrki. Þeir rekast alls staðar á þykkan, ósýnilegan múr. Stundum er ekki einu sinni reynt að þagga niður í þeim, heldur heyrist rödd þeirra aðeins eins og hjáróma hvísl í samanburði við voldugan kór rétttrúnaðarins. Evrópusambandið heldur til dæmis á Íslandi uppi öflugri áróðursvél, sem kostar marga milljónatugi á ári. Það býður upp á ræðumenn, styrki og ferðir. Hvernig á að heyrast í okkur hinum, sem minni þykjum fyrir okkur og erum ef til vill hlynntir Evrópusambandinu fyrir Þjóðverja, Frakka og Eistlendinga, enda sé fjórfrelsinu víðfræga haldið þar uppi, en teljum, að margt megi betur fara innan Evrópusambandsins og Íslendingar eigi þangað ekkert erindi í bráðina? Er þó mestur hluti þjóðarinnar sammála okkur.
Annað dæmi er þróunaraðstoð. Reynslan hefur sýnt, að valið er í raun um þróun án aðstoðar (Ísland í upphafi 20. aldar; Hong Kong, Singapúr) eða aðstoð án þróunar (Ísland á 18. öld, Tansanía, Grænhöfðaeyjar). Valið er um tækifæri eða ölmusu. Á Vesturlöndum er þróunaraðstoð orðin iðngrein eða jafnvel eins konar eilífðarvél, sem snýst um sjálfa sig: Menn þiggja margir rífleg laun fyrir hana, en lítill sem enginn árangur er mælanlegur af henni til langs tíma. Fátækar þjóðir í suðri þurfa ekki þróunaraðstoð, heldur fjárfestingu og tæknikunnáttu stórra og smárra vestrænna einkafyrirtækja og umfram allt aðgang að hinum mikla markaði ríkra þjóða á Vesturlöndum. Þær þurfa fleiri tækifæri til að framleiða sig sjálfar út úr fátækt til bjargálna. En hér á Íslandi starfar Þróunarsamvinnustofnun, sem hefur veruleg fjárráð og notar talsvert af fé sínu í að auglýsa starfsemina beint og óbeint. Þegar efasemdarraddir heyrast, er oftast hlustað kurteislega, en síðan malar vélin áfram, eins og ekkert hafi í skorist.
Samt koma hinir raunverulegu öfgamenn í heimi fræðanna stundum upp um sig. Lennart Bengtsson er einn virtasti veðurfræðingur heims. Hann er af sænskum ættum, en er prófessor í Reading-háskóla í Bretlandi. Hann settist nýlega í ráðgjafarnefnd breskrar stofnunar, sem Lawson lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta (og faðir Nigellu), setti á laggir til að rannsaka opnum huga kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum og afleiðingar hennar. Eflaust eru sumir í þeirri stofnun með sömu skoðun og ég á þessu máli: að ástæðulaust sé að efast um hlýnun jarðar, að líka sé ástæðulaust að efast um, að eitthvað af henni sé af mannavöldum, en að hins vegar sveiflist loftslag líka til af náttúrlegum ástæðum, jafnframt því sem allt of mikið sé gert úr neikvæðum afleiðingum hlýnunar og raunar líka úr getu mannsins til að hafa áhrif á breytingarnar frekar en bregðast skynsamlega við þeim, þegar þær gerast. (Hvernig getum við haft úrslitaáhrif á loftslag, þegar við getum ekki einu sinni spáð fyrir um veðrið í næstu viku? Og hvers vegna hefur hlýnunin ekki orðið jafnhröð síðustu fimmtán ár og líkön, sem sett voru fram fyrir eða í upphafi þess skeiðs, sögðu fyrir um?)
Bengtsson er enginn efasemdamaður um hlýnun af mannavöldum. En hann er frjálslyndur og víðsýnn vísindamaður, sem vill rannsaka kenningar opnum huga. Eftir að hann settist í ráðgjafarnefndina, skall á honum bylgja andúðar og óvildar í heimi fræðanna. Hann var hrelltur, og honum var útskúfað. Til dæmis tilkynnti einn samstarfsmaður hans, að nú vildi hann ekki lengur skrifa með honum ritgerðir. Bengtsson er maður hniginn að aldri, og eftir tvær vikur sá hann sér þann kost vænstan að segja sig úr nefndinni. Hann kvaðst ekki þola álagið af því að sitja í henni. Hann var beygður.
Annað dæmi um það, þegar öfgamenn í háskólum fella grímuna, er, þegar sæma átti rithöfundinn Ayaan Hirsi Ali frá Sómalíu, sem flúið hafði kúgun kvenna í heimalandi sínu, en sætt morðhótunum í Hollandi, eftir að hún leyfði sér þar að gagnrýna íslam, heiðursdoktorstitli við Brandeis-háskóla. Fallið var frá því eftir mótmæli, sem kvenna- og kynjafræðingar háskólans áttu aðallega þátt í (21% undirskrifta kennara við skólann komu frá þeim). Ayaan Hirsi Ali var talin andvíg íslam (sem hún var og er tvímælalaust). En yrði einhverjum meinað við venjulegan vestrænan háskóla að taka við heiðursdoktorstitli vegna fjandskapar við kristna trú, og stendur hún þó nær Vesturlandabúum en íslam?
19.8.2014 | 04:13
Furðu lostinn yfir Þórólfi
Ég les, að útgerðarmenn hafi verið skelfingu lostnir yfir Þórólfi Matthíassyni, þegar vinstri stjórnin 20092013 fól honum einhvers konar eftirlit með þeim. Það er skiljanlegt. Þórólfur er einhver minnsti vinur útgerðarmanna, sem nú er uppi.
Ég hef hins vegar aldrei verið skelfingu lostinn yfir Þórólfi. Ég var hins vegar einu sinni furðu lostinn yfir honum. Við sátum þrír í mestu makindum á kaffistofu kennara í Odda 23. október 2008, Sigurður Júlíus Grétarsson sálfræðingur, Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur og ég, og skröfuðum um nýútkomnar bækur, þar á meðal rit Guðjóns Friðrikssonar um forsetann. Þá kom Þórólfur Matthíasson inn á kaffistofuna, gneypur á svip. Hann sneri baki í okkur, á meðan hann fékk sér kaffi, gekk síðan snúðugt að dyrunum á kaffistofunni, sneri sér við eitt andartak og öskraði á mig af lífs og sálar kröftum: Djöflastu til að segja af þér, helvítið þitt! Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans, og nokkra næstu morgna á undan hafði Þórólfur þráspurt mig, þegar hann rakst á mig á göngum Odda eða á kaffistofunni, hvenær ég ætlaði að senda afsagnarbréfið, en ég aðeins brosað kurteislega við og engu svarað. Eftir þetta öskur á mig skálmaði Þórólfur út. Við Sigurður Júlíus og Vilhjálmur þögnuðum þrír og litum undrandi hver á annan. Hverju er við þetta að bæta? Síðan héldum við áfram skrafi okkar.
Hitt er rétt, að Þórólfur reyndi að hræða líftóruna úr íslensku þjóðinni í Icesave-deilunni. Þá hafði Svavar Gestsson gert samning við Breta og Hollendinga, sem hefði falið í sér líklegar greiðslur til þeirra að upphæð 2,9 milljarða punda, og af því voru 2,2 milljarðar vaxtagreiðslur. (Þetta voru líklegar greiðslur, en tekin var ábyrgð á miklu hærri upphæð.) EFTA-dómstóllinn komst sem kunnugt er að sömu niðurstöðu og rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu, að íslenska ríkið hefði ekki borið neina lagalega ábyrgð á viðskiptum einkaaðila, Landsbankans annars vegar og erlendra innstæðueigenda hins vegar. Þórólfur studdi hins vegar samninginn dyggilega og kom fram í sjónvarpi:
Ég hef sem fyrr engu við að bæta. Þórólfur talar fyrir sig sjálfur.
18.8.2014 | 01:07
Óhæft til birtingar
Árið 1982 kom út í íslenskri þýðingu Hersteins Pálssonar skáldsagan Óhæft til birtingar eftir blaðamennina Arnaud de Borchgrave og Robert Moss. Á ensku nefndist hún The Spike. Hún var um tök rússnesku leyniþjónustunnar KGB á ýmsum vestrænum blaðamönnum, sem birtu ekki fréttir óþægilegar Kremlverjum.
Leiðir það hugann að tvennum frægum ummælum, sem ég hef stundum vitnað í. Önnur eru eftir dr. Björn Sigfússon háskólabókavörð, sem sagði í formála Ljósvíkinga sögu: Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert einstakt atriði. Hin er eftir Arthur Conan Doyle, höfund leynilögreglusagnanna um Sherlock Holmes. Gregory lögreglufulltrúi segir eitt sinn í sakleysi sínu: Hundurinn gerði ekkert sérstakt þá nótt. Holmes svarar að bragði: Það er líka einmitt það skrýtna við þetta.Í svipuðum anda var mælt um æsifréttablað, sem Agnar Bogason gaf út áratugum saman í Reykjavík, Mánudagsblaðið, að það, sem birtist þar, væri venjulega miklu síður forvitnilegt en hitt, sem ekki birtist þar. Efnamenn, sem kærðu sig ekki um blaðaskrif, greiddu Agnari að sögn stórfé fyrir að þegja, jafnvel þótt eitthvað væri bitastætt að segja.
Því minnist ég á þetta, að á Amazon.com er til heimasíða um bók, sem koma átti út 4. febrúar 2008 hjá John Blake Publishing í Lundúnum. Hún var eftir bresku blaðamennina Jonathan Edwards og Ian Griffiths, hét The Ice Man Cometh (með augljósri tilvísun í leikrit O'Neills) og var um engan annan en Jón Ásgeir Jóhannesson. Löng lýsing er á síðunni á efni bókarinnar. Átti hún að vera um uppgang og umsvif Jóns Ásgeirs á Íslandi og í Bretlandi, ýmis hneyksli tengd honum og lögreglurannsóknina á fjármálum hans. Í mars 2007 hitti ég höfundana tvo stuttlega að þeirra ósk á Vínbarnum við Kirkjustræti, en þeir voru þá staddir hér á landi í efnisleit. Þeir voru skrafhreifnir, vingjarnlegir og vínhneigðir hrappar, eins og vefarar út úr ævintýri eftir H.C. Andersen. En hvað skyldi hafa orðið um bókina, sem þeir skrifuðu? Reyndist hún óhæf til birtingar? Og hver skyldi hafa ákveðið það?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu laugardaginn 10. maí 2014.)17.8.2014 | 04:41
Jón Óskar og sósíalisminn
Fjölmargir lesendur Fróðleiksmolanna hafa haft samband og bent á margt, sem ýmist mátti betur fara eða hafa mætti í huga, og kann ég þeim hinar bestu þakkir. Hér ætla ég að leggja út af einni athugasemdinni, eftir Unu Margréti Jónsdóttur. Hún er dóttir Jóns Óskars, sem fór í fræga boðsferð til Ráðstjórnarríkjanna 1956 ásamt þeim Steini Steinarr og Agnari Þórðarsyni. Benti Una Margrét á, að faðir sinn hefði gagnrýnt stjórnarfar þar eystra í bók sinni, Páfinn situr enn í Róm.
Jón Óskar gerði það svo sannarlega. Hann gaf bókina út hjá Almenna bókafélaginu vorið 1964. Svo vildi til, að hann fékk 18 þúsund króna listamannalaun, um svipað leyti og bókin kom út. Orti þá Þorsteinn frá Hamri háðkvæði í Þjóðviljan
Sem ég á blíðum beði
bílífis vaknaðe
úthlutun einnig léði
átján þúsund í té
Jóni þeim sama, sama,
er svalt um árabil.
Heita þeir honum frama ?
Hví er nú rokið til ?
Íslenskir sósíalistar sáu til þess, að það kostaði að ganga úr liði og neita að bera lof á ráðstjórnina rússnesku.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.8.2014 kl. 01:09 | Slóð | Facebook
17.8.2014 | 04:35
Athugasemd frá dóttur Jóns Óskars
Ég vék fyrir nokkru af sérstöku tilefni að frægri boðsferð sjö íslenskra menntamanna til Ráðstjórnarríkjanna 1956, þar á meðal Steins Steinarrs og Agnars Þórðarsonar. Nú hefur Una Margrét Jónsdóttir, dóttir Jóns Óskars skálds, sem einnig var í ferðinni, skrifað mér smápistil, sem ég fékk að birta úr. Hún rifjar upp, að hinir fimm boðsgestirnir voru auk föður hennar Leifur Þórarinsson tónskáld, Jón Bjarnason blaðamaður, Ísleifur Högnason framkvæmdastjóri og Hallgrímur Jónasson kennari. Síðan vitnar hún í ummæli mín: En einnig er það umhugsunarefni að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina.
Una Margrét segir síðan í bréfi sínu: Mér finnst undarlegt, að þú skulir ekki nefna það einu orði, að þriðji rithöfundurinn í nefndinni, Jón Óskar, faðir minn, gagnrýndi Sovétríkin einnig. Meðal annars kemur fram gagnrýni á sovéskt menningarlíf í greininni Í heimsókn hjá Ilja Erenbúrg í 3. hefti Birtings 1956. Hann fer þó sérstaklega hörðum orðum um Sovétríkin í 4. hefti Birtings sama ár, en þar skrifar hann ritstjórnargrein um uppreisnina í Ungverjalandi og segir meðal annars: Nú hefur komið í ljós, að í ríki því sem kallað hefur verið ríki sósíalismans, hefur þróast viðbjóðsleg spilling meðal ráðamanna, þeir hafa tekið að keppa við auðvaldssinna og fasista í réttarmorðum, hneppt list og menningu í fjötra, blekkt og logið, en einblínt á það að nota hagkerfi sósíalismans til að gera Sovétríkin að einu af mestu iðnveldum heims. Enginn heiðarlegur maður getur aðhyllst þess konar sósíalisma. Loks gagnrýndi hann Sovétríkin harðlega í bók sinni Páfinn situr enn í Róm, sem hann lauk við 1963, en kom út 1964. Þessi gagnrýni hans á Sovétríkin hafði mikil áhrif á líf hans og feril, og því þykir mér slæmt ef látið er að því liggja að hann hafi verið einn af þeim sem þögðu um ástandið í Sovétríkjunum. Sérstaklega þætti mér miður vegna yngri kynslóða, ef slíkur misskilningur kæmist á loft.
Una Margrét hefur rétt fyrir sér, en ástæðan var ekki sú, að ég hefði gleymt Jóni Óskari, heldur ætlað að geyma mér að ræða um viðskilnað skáldsins við sósíalismann, sem varð allsögulegur. Það skal ég gera í næsta pistli.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. apríl 2014.)
16.8.2014 | 01:34
Því voruð þið að kjafta frá?
Fyrir nokkrum vikum skiptumst við Guðmundur Andri Thorsson á skoðunum um þá Stein Steinarr og Tómas Guðmundsson á Snjáldru (Facebook). Af því tilefni er fróðlegt að rifja upp viðbrögð sósíalista, þegar Steinn sagði endanlega skilið við þá eftir að hafa setið í sjö manna sendinefnd íslenskra rithöfunda til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Þegar Steinn gagnrýndi ráðstjórnarskipulagið í viðtali við Alþýðublaðið 19. september, helgaði Magnús Kjartansson, ritstjóri málgagns sósíalista, honum leiðara í blaði sínu. Steinn Steinarr skáld er orðinn spámaður í föðurlandi sínu, skrifaði hann háðslega. Hann kvaðst hafa séð myrkur um miðjan dag. Með þessu vísaði Magnús til þess, að komið hafði út á íslensku fræg skáldsaga Arthurs Koestlers, Myrkur um miðjan dag, um sýndarréttarhöld, sem Stalín skipulagði í Moskvu 1938. Magnús rifjaði líka í leiðaranum upp gömul vísuorð Steins:
Er stríðinu lokið? Er loksins til þurrðar gengið
það litla af ærlegri hugsun, sem fannst hjá mér?
Ferðafélagi Steins, Agnar Þórðarson rithöfundur, leyfði sér líka að gagnrýna ráðstjórnarskipulagið opinberlega. Vöktu lýsingar þeirra Steins á lífinu þar eystra mikla athygli. Einn harðskeyttasti sósíalisti landsins, Jón Múli Árnason útvarpsþulur, gekk að þeim í Austurstræti og spurði: Því voruð þið að kjafta frá? Annar sanntrúaður sósíalisti, en einlægari, Jóhannes skáld úr Kötlum, settist hjá þeim Steini og Agnari í Hressingarskálanum og sagði í öngum sínum: Ég veit ekki, hverju ég á að trúa! Steinn svaraði rólega: Oo, þú skalt bara halda áfram að trúa. Sjálfur birti Steinn síðan tvö kvæði um ráðstjórnarskipulagið, Kreml og Don Quijote ávarpar vindmyllurnar. Niðurstaðan í síðara kvæðinu er, að hið frjálsa hagkerfi Vesturlanda sé ekki gallalaust, en hið miðstýrða austræna kerfi miklu verra: Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi. Hér hefur Steinn bersýnilega orðið fyrir áhrifum af Koestler, að vísu ekki skáldsögunni Myrkri um miðjan dag, heldur grein frá 1943, þar sem Koestler skrifaði um baráttuna gegn sósíalismanum: We are fighting against a total lie in the name of a half truth. Við berjumst gegn algerri lygi með hálfum sannleika. Íslenskir sósíalistar höfðu vitaskuld ekki næga þekkingu á verkum Koestlers til að benda á þessi rittengsl. En einnig er það umhugsunarefni, að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina. Þeir kjöftuðu ekki frá, eins og Jón Múli orðaði það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. apríl 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook
15.8.2014 | 08:00
Steinn og stjórnmálin
Ungur gekk Steinn Steinarr í kommúnistaflokk Íslands, sem stofnaður var haustið 1930. Einnig átti hann þátt í því að stofna Félag byltingarsinnaðra rithöfunda 1933 og er ein aðalsöguhetjan í skemmtilegri smásögu, sem Guðmundur Daníelsson skrifaði um fund í því félagi. En snemma bar á því, að Steinn væri sjálfstæður í hugsun, og var hann í maí 1934 rekinn úr kommúnistaflokknum í hreinsunum, sem þar fóru fram að kröfu Kremlverja.
Ári síðar skrifaði æðstiprestur kommúnista í menningarmálum, Kristinn E. Andrésson, í hótunartón: Að Steini Steinarr gæti verkalýðnum orðið mikill styrkur, ef hann beitir framvegis skáldgáfu sinni í þjónustu hans, og annars staðar en með verkalýðnum þarf Steinn ekki að hugsa til að geta notið skáldgáfu sinnar. Steinn var um skeið skráður í Alþýðuflokkinn, en studdi Sósíalistaflokkinn, eftir að hann var stofnaður 1938. Ekki gátu þó sósíalistar alltaf reitt sig á Stein. Hann kom Tómasi Guðmundssyni til varnar, þegar sósíalistar skrifuðu um hann skæting í málgagn sitt, Þjóðviljann. Hann studdi líka opinberlega Ásgeir Ásgeirsson í forsetakjöri 1952, en flokksbundnir sósíalistar, sem það gerðu, voru reknir úr flokknum.
Kristinn E. Andrésson hefur ef vil vill viljað endurheimta Stein í flokkinn, þegar hann bauð honum ásamt nokkrum öðrum rithöfundum í skemmtiferð til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Sú ferð varð hins vegar fræg, því að Steinn og einn ferðafélagi hans, Agnar Þórðarson rithöfundur, snerust þá opinberlega gegn sósíalismanum. Tímaritið Birtingur, sem átti að heita óháð sósíalistum, vildi að vísu ekki prenta grein Agnars um ferðina, en Alþýðublaðið tók viðtal við Stein 19. september, sem vakti mikla athygli. Þar sagði Steinn, að stjórnarfar undir ráðstjórn væri eins konar ofbeldi, ruddalegt, andlaust og ómannúðlegt. Eftir það lágu leiðir hans og sósíalista ekki saman.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. apríl 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook
15.8.2014 | 06:50
Tómas og Steinn
Nokkrar umræður urðu nýlega á Snjáldru (Facebook), eftir að Guðmundur Andri Thorsson hafði vitnað þar í vísu Steins Steinarrs um Tómas Guðmundsson:
Hér situr Tómas skáld með bros á brá,
bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.
Ó, hvað mig, vinur, tekur sárt að sjá,
að sál þín skyldi grána fyrr en hárið.
Ég fræddi Guðmund Andra og fleiri Snjáldrumenn á því, að vísunni var kastað fram í Hressingarskálanum um 1951, þar sem Tómas sat við eitt borð, en Steinn við annað ásamt kunnum Reykvíkingi, að vísu aðfluttum, Dósóþeusi Tímóteussyni. Hafði Dósóþeus sagt við Stein Hér situr Tómas skáld og Steinn botnað hið snarasta.
Steinn var Tómasi gramur um þær mundir, því að Tómas hafði undir dulnefni skopstælt órímuð ljóð eftir Stein í vinsælum hláturleikjum, revíum, sem færðar voru upp í Reykjavík undir nafninu Bláu stjörnunni frá 1948 til 1952. Rek ég þessa sögu í bókinni Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út 2010 og er til á öllum ofstækislausum íslenskum menningarheimilum.
En Tómas hafði ekki lifað sjálfan sig eins og Steinn gaf í skyn í vísunni, heldur var hinn sprækasti. Skar Tómas upp herör gegn kommúnistum í snjallri framsöguræðu á fjölsóttum fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 1950. Haustið 1951 gaf hann út ljóðabókina Fljótið helga með kvæðinu Að Áshildarmýri, sem var í senn ádeila á kommúnisma og nasisma. Kommúnistar tóku bókinni illa. Einn dimman desemberdag það ár kom einn helsti leiðtogi þeirra, Einar Olgeirsson, eins og vindsveipur að borði þeirra í kaffistofu Alþingis, veifaði bókinni framan í félaga sína og sagði: Ég skil ekkert í honum Tómasi! Bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans skrifaði síðan 1952, að Tómas væri sprellikarl. Þá var Steini nóg boðið þrátt fyrir fyrri væringar. Birti hann grein í Þjóðviljanum, þar sem hann kvað hann mörgum góðum sósíalista renna það til rifja að sjá málgagn sitt undirorpið svo marklausu bulli og mannskemmandi kjaftæði. Seinna átti Steinn eftir að snúast eftirminnilega frá sósíalisma og yrkja um það, en það er önnur saga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. apríl 2014.)
14.8.2014 | 05:15
Nýjar upplýsingar um gamalt trúnaðarbrot
Ég fagnaði því á dögunum, þegar Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands fékk Stefán Ólafsson prófessor til að hafa framsögu á opnum fundi um það, hvort háskólakennarar væru í pólitískri krossferð. Stefán talaði þar af eigin reynslu, enda hefði hann farið í slíkar krossferðir fyrir þingkosningar 2003 og 2007. Jafnframt rifjaði ég upp, að Stefán hefði einnig stundað hvíslingar. Á meðan hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði hann skýrt ritstjórum Morgunblaðsins, Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni, frá niðurstöðum könnunar, sem Hreinn Loftsson fékk Félagsvísindastofnun til að gera í fullum trúnaði vorið 1996 um sigurlíkur nafngreindra manna í forsetakjöri 1996. Matthías upplýsti um þetta í dagbókarfærslu frá 8. maí 1996, sem birtist löngu síðar á Netinu. Stefán hefur andmælt þessu á bloggi sínu og sagt, að þeir ritstjórarnir hefðu vitað af könnuninni. Það kann vel að vera, enda er eðli málsins samkvæmt erfitt að halda því leyndu, að slík könnun sé gerð. Þeir vissu hins vegar ekki af niðurstöðum könnunarinnar. Þær voru algert trúnaðarmál, og átti Hreinn einn að fá þær í hendur. Þegar Hreinn Loftsson las andmæli Stefáns á blogginu, skrifaði hann mér tölvubréf 16. apríl 2014, sem hljóðaði svo:
Sæll. Ég sé að þessi maður, Stefán Ólafsson, á í vandræðum með trúnaðarbrestinn gagnvart mér 1996. Hann virðist þó telja sig öruggan þar sem ég muni ekki tjá mig um málið vegna vinslita okkar Davíðs Oddssonar. Þetta hefur hann víst sagt. En rétt skal vera rétt. Slík var leyndin að ég kom heim til hans og ræddi þar um orðalag spurninga. Ekki upp á skrifstofu hans í Háskóla Íslands. Þetta var gert í fullkomnum trúnaði og ég greiddi fyrir könnunina úr eigin vasa. Var ég þó ekkert sérstaklega fjáður. Eg vildi aðeins tryggja að Davíð Oddsson færi ekki út í neina vitleysu enda fannst mér hann eiga ævistarfið eftir sem forsætisráðherra. Mér var því verulega brugðið þegar ég sá dagbókarfærslu Matthíasar Johannessens. Var þá nokkuð að marka niðurstöðu könnunarinnar? Í dagbókarfærslu Matthíasar kemur ekki neitt annað fram en að Stefán Ólafsson hafi trúað Matthíasi og Styrmi Gunnarssyni fyrir niðurstöðunni aðeins örfáum vikum eftir að könnunin var gerð. Hvílík skömm! Ég er að bræða það með mér hvernig best sé að jafna um við þennan svikahrapp og allar tillögur vel þegnar í því sambandi. Kveðja, Hreinn.
Ég kvað einfaldast að birta bréf hans, og veitti Hreinn mér leyfi til þess. Bréfið er hér birt í heild og óbreytt, nema hvað ég hef leyst upp úr skammstöfunum og leiðrétt eina ásláttarvillu. Bréfið skýrir sig sjálft. Ég hef engu við það að bæta.